Hér er einföld uppskrift af sykurlitlu bananabrauði, en mjög oft er alveg ótrúlega mikill sykur í þeim. Mér finnst best að baka brauðið í muffins – bökunarplötu því það er góð stærð fyrir litlar hendur, það tekur styttri tíma og maður lendir aldrei í því að það bakist ekki í miðjunni. Það er líka þægilegt að skella litlu brauðunum í frysti og taka út eitt og eitt í einu.
- 4 stappaðir bananar (stórir)
- 2,5 bollar spelt (fínt og gróft til helminga eða eftir smekk)
- 1 tsk vínsteinslyftiduft
- 1/2 tsk himalayjasalt eða sjávarsalt
- 1/2 bolli sykur / hunang
- 2 egg
Aðferð:
- Þeyta saman egg, sykur og stappaða banana.
- Bæta þurrefnunum saman við og blanda vel.
- Setja í muffins-bökunarplötu og baka í 20 mín við 200° c
Það er hægt að leika sér endalaust með þetta bananabrauð, bæta saman við kókosmjöli og minnka speltið á móti. Eða setja gojiber eða þurrkuð trönuber út í. Það má líka setja matskeið af Lucuma dufti til að fá smá ofurkraft.
Ég verð alveg snar galin þegar ég sé gamla banana á útsölu og fylli körfuna, bruna heim og skelli í bananabrauð. Eitt sinn var ég í Bónus og raðaði 4 pokum í körfuna úr 50 kr hillunni. Lítill strákur við hliðina á mér benti á hilluna og spurði mömmu sína hvort hann mætti líka fá banana, mamman leit á bananana, svo á mig, loks á strákinn og sagði “nei, þessir bananar eru ónýtir” og horfði á körfuna mína með hvössu augnaráði, benti skær grænu banana og sagði honum að taka nýja banana. Mér leið hálf kjánalega með alla bananana mína en málið er að það er ekki hægt að baka gott bananabrauð nema með þroskuðum bönunum 🙂
[…] í viku og útbúa hitt og þetta til að eiga, t.d. möndlumjólk, muffins, pestó, múslí, bananabrauð […]