Kínóa pönnukökur

Eins og áður hefur komið fram elska ég Kínóa.  Finnst það bara eitthvað svo fullkomin fæða 🙂  Hér er enn ein hugmyndin hvernig hægt er að bæta Kínóa inn í mataræðið.  Það er að baka Amerískar pönnukökur og setja soðið Kínóa saman við.  Við það verða pönnukökurnar ennþá matarmeiri, næringarríkari og próteinríkari.  En það er algert frumskilyrði að grjónin hafi verið látin liggja í bleyti áður en þau voru soðin og skoluð vel svo grjónin séu ekki römm.  Það er góð hugmynd að baka stóran skammt og eiga inni í ísskáp eða frysti (og setja í brauðristina) handa litlum munnum.  Þessi hugmynd vaknaði þegar fjölskyldan borðaði kvöldmatinn mjög snemma og fór svo sund.  Þegar heim var komið voru allir svo svangir eftir sundið og eitthvað lítil til í kotinu.   Ég var fyrst pínu feimin við að setja mikið magn af grjónum út í en blandaði alltaf meira og meira þangað til öll grjónin voru komin út í deigið.  Kom skemmtilega á óvart hversu ljúffengt þetta var.  Eftir þetta hafa Kínóapönnukökur verið reglulega á borðum.

Hér kemur tvöföld uppskrift, enda dugir ekkert minna fyrir 5 manna fjölskyldu 🙂

Hráefni:

  • 5 dl spelt (fínt/ gróft)
  • 2 msk lyftiduft
  • 0,5 tsk salt
  • 2-3 msk hlynsýróp eða döðlumauk
  • 2 egg
  • 4 msk kókosolía/ smjör
  • 5-6 dl vökvi (vatn, mjólk, rísmjólk, möndlumjólk, kókosmjólk)
  • 2 tsk vanilludropar
  • 2-4 dl soðið kínóa

Aðferð:

  1. Blandið saman þurrefnum í skál.
  2. Í aðra fara egg, olían, sykurinn, vanilludroparnir og hluti af vökanum.
  3. Blandið vel saman með písk þangað til blandan er orðin slétt.
  4. Blandið svo rólega saman við þurru efnin og hrærið rólega.
  5. Bætið svo kínóa saman við og restinni af vökvanum.

Deigið á að vera frekar þykkt, ef ykkur finnst pönnukökurnar allt of þykkar og lengi að bakast þá bætið þið bara meira vökva saman við.

Hitið viðloðunarfría pönnu og hafið hana meðal heita.  Hellið deigi á pönnuna og bíðið þangað til „loftbólurnar“ hætta þá er komin tími til að snúa við.  Bakið í 20-40 sek á hinni hliðinni og þá ætti pönnukakan að vera klár.

amerískar pönnukökur

Það er mjög gaman að leika sér með amerískar pönnukökur, ég set oft einhverja hollustu út í þegar ég baka þær.  T.d. Chia fræ, Lucuma duft eða Hveitikím.  Það er hægt að setja hvað sem er ofan á, t.d. smjör, ost, sultu, hnétusmjör, möndlusmjör en á sunnudagsmorgnum þá er skylda að fá sér íslenskt smjör og ekta hlynsýróp 😉  Það er frábært að eiga þessar inni í skáp og grípa í eina og eina t.d. eftir skóla eða í kvöldkaffi 🙂

Published by

2 thoughts on “Kínóa pönnukökur

  1. Frábært, ég á einmitt kínóa í frysti og vantaði e-n góða uppskrift til að nota það, tímdi ekki að henda afgöngum..góð hugmynd að nota í pönnsur.

    1. Já alger snilld, þannig verða þær matarmeiri og próteinríkari, það er ágætt að smakka til því kannski vilja sumir setja aðeins meiri sætu á móti 🙂

Leave a Reply to Kristín ÁsgeirsdóttirCancel reply