Þessi kaka/nammi sló algerlega í gegn á mínu heimili um síðustu helgi. Ég bjó hana til áður en við fórum í veislu til þess að óþols-pían mín gæti fengið sér eitthvað mjög gott. Hún smakkaðist líka einstaklega vel með kaffibollanum síðastliðin sunnudagsmorgun, vínarbrauð hvað ? Þetta minnir heilmikið á Bounty nema bara aðeins pínu smá hollara 🙂
Botninn:
- 1 bolli döðlur (látið liggja í bleyti í ca 20 mín svo verði mjúkar)
- Vatn, eins lítið og þarf til að mauka döðlurnar
- 3 bollar kókosmjöl
- 1/4 bolli kókosolía (við stofuhita)
- 1/2 bolli malaðar kasjúhnétur
- 1 tsk vanilla
- smá salt
- 3-4 msk kókospálmasykur
Aðferð:
- Byrjið á því að búa til döðlumauk, blandið saman vatninu og döðlunum í matvinnsluvél, í mini-matvinnsluvél, með töfrasprota eða blandara, bara það sem ykkur finnst þægilegast. Reynið að nota eins lítið vatn og þið komist af með svo kakan verði ekki of blaut.
- Maukið Kasjúhneturnar (ég nota mjög mikið mini-matvinnsluvél í svona verk).
- Blandið öllu saman við döðlumaukið og vinnið vel saman. Setjið deigið á bökunarpappír og kælið.
- Bræðið ca 150 gr af 70 % súkkulaði eða búið til ykkar eigið súkkulaði og setjið yfir kökuna. Ef þið bræðið súkkulaði borgar sig að setja 1-2 msk af kókosolíu út í svo það verði ekki of hart og verði erfitt að skera í litla bita.
Döðlumaukið búið til – mjög fljótlegt með töfrasprotanum
Það er hægt að gera eina stóra köku eða lengur (þá þarf meira súkkulaði til að hjúpa), í upphaflegu uppskriftinni býr hún til kúlur og dýfir þeim í súkkulaði, ég gaf mér ekki tíma í það í þetta skiptið og ekki viss um að ég hafi þolinmæði í það hvort sem er 🙂
Hér fann ég þessa uppskrift, það eina sem ég breytti var að setja meira af kasjúhnetum og bætti við 3-4 msk af kókospálmasykri.
Bætt við síðar:
Ég hef gert þetta nammi nokkrum sinnum undanfarið og fyrstu skiptin gerði ég það samkvæmt uppskrift, samviskusamlega. En undanfarið hef ég gert það öðruvísi þ.e.a.s. sett kókosmjöl, malaðar hnetur, kókossykurinn, vanillu og salt í matvinnsluvél og blandað saman, sett svo eina og eina döðlu út í (búnar að liggja í bleyti áður) og unnið vel ásamt kókosolíunni. (Sleppi því að búa til döðlumauk).
Með því að gera þetta svona verður kakan/nammið miklu stökkara þar sem ekkert vatn er lengur í uppskriftinni.
Verði ykkur að góðu 🙂
nammm!
Hvar kaupiru kókospálmasykur?
Sæl,
Ég hef keypt hann í Bónus, í Sollu-hillunni.
Kær kveðja,
Oddrún
hvað er kaloríufjöldi í þessu?
Sæl, ég hef ekki reiknað það út. Það er örugglega slatti því kókosmjöl er frekar hitaeiningaríkt. Hinsvegar borðar maður mjög lítið af þessu þar sem þetta er mjög saðsamt.
Kær kvðeja,
Oddrún
[…] Bountybarinn (fjórða vinsælasta uppskriftin á blogginu á árinu) […]
Sleppti kókospálmasykrinum og saltinu, notaði 1 lítinn banana í staðinn. Geymi síðan í frystir og þetta lukkaðist mjög vel.
En frábær hugmynd að nota banana, prófa það við fyrsta tækifæri 🙂