Geggjaðar hnetusmjörsnúðlur

Mmmmmmm þetta er svo gott. Algert æði og einfalt, frábært í miðri viku þegar maður er alltaf að leita að einhverju einföldu og þægilegu og fljótlegu… og einhverju sem öllum finnst gott.

Hnetusmjörssósan gerir núðlurnar kremaðar og matarmeiri.  Það má bæði borða þennan mat sem grænmetisrétt en líka rosa gott að setja kjúkling með og gera máltíðina matarmeiri.

Rétturinn samanstendur af núðlum, hnetusmjörssósu, fullt fullt af grænmeti og hugsanlega kjúkling.

Núðlur

Það er ágætt að miða við ca 2-2,5 dl af grænmeti á mann, ég hef sett ca 10 dl fyrir okkur 5.  Það má nota hvað sem er, bara það sem er til í skápnunum.

Þegar þessi mynd var tekin var eftirfarandi grænmeti notað:

2-3 gulrætur
1/2 púrra
1/2 blómkálshaus
1/2 brokkolíhaus
1/2 rauð paprika

Sósan:

4 msk hnetusmjör (best að nota hreint, án sykurs)
2/3 bolli grænmetissoð (eða vatn og kraftur)
2 msk hunang
4 msk tamari sósa
2 tsk smátt rifið engifer
2 hvítlauksgeirar
(1-2 tsk Chili flögur fyrir þá sem vilja hafa réttinn sterkan, en ég hef sleppt því út af krökkunum og kryddað bara yfir með Chili Explosion kryddinu)

100- 150 gr hrísgrjónanúðlur
Safi úr hálfu lime

Aðferð:

  1. Byrjið á því að blanda öllu því sem á að fara í sósuna í skál og geymið.  Smakkið til og bætið við kryddum ef ykkur finnst þurfa.
  2. Skerið grænmetið í litla bita, hitið pönnu, setjið smá olíu á pönnuna og steikjið grænmetið við meðalhita í nokkrar mínútur,  hellið sósunni út á og látið malla í nokkrar mín þangað til grænmetið er orðið mjúkt.
  3. Eldið núðlur samkvæmt leiðbeiningum og setjið út í rétttinn.
  4. Að lokum er mjög gott að kreista lime yfir.  Ef þið eigið ferskan kóríander er það alveg geggjað að saxa hann yfir fyrir utan að það er alveg meiriháttar hollt. Það er líka mjög gott að strá Kasjúhnetum yfir réttinn.

Það eru ýmsar núðlur í boði, venjulegar hveitinúðlur, heilhveitinúðlur, hrísgrjónanúðlur,  brown rice hrísgrjónanúðlur, ,kelp núðlur (unnar úr þara og lang næringarríkasti kosturinn)  o.s.frv. Skoðið vel innihaldslýsingu hvort það séu mörg aukaefni.  Sumar skyndinúðlur eru húðaðar vaxi og það tekur líkamann 2 sólahringa að melta. Ekki mjög spennandi 🙁

Uppskriftin er upprunalega frá Naturally Ella, þið getið fundið uppskriftina hér.

Verði ykkur að góðu 🙂

Published by

2 thoughts on “Geggjaðar hnetusmjörsnúðlur

Leave a Reply