Heimagerðar tortillur

Ég elska tortillur.  Fyrir utan þetta klassíska mexíkóska er hægt að setja afganga af allskonar mat inn í tortillu ásamt sallati og einhverri góðri sósu og það er komin þessi dýrindis máltíð.  Þær eru líka eitt af því vinsælasta í skólanestið.

Það er mjög einfalt að baka sjálfur tortillurnar og þegar maður byrjar þá er eiginlega ekki hægt að fara aftur tilbaka.  Ég hvet ykkur eindregið til að prufa.  Það er viðbúið að kannski taki það lengri tíma í fyrsta skiptið en svo verður þetta mjög fljótlegt.  Þetta er að taka hjá mér ca 15-20 mín en yfirleitt er ég að gera eitthvað annað á sama tíma (t.d. steikja kjúkling, hakk eða grænmeti) svo ég þarf hvort sem er að standa við eldavélina.

Hráefni: (6-7 tortillur)

  • 2 bollar Spelt, fínt og gróft til helminga
  • 2 tsk vínsteinslyftiduft
  • 2-3 msk olía
  • Kryddið eftir smekk (t.d. salt, pipar, oregano og paprika)
  • 1/2 bolli af vatni

Aðferð:

Setjið spelt, lyftiduft og krydd í skál.  Bætið í olíu og vatni (ekki of heitt og ekki ískalt, annað hvort volgt eða við stofuhita).  Hnoðið deigið í höndunum og skiptið niður í svipaðar kúlur (ca 6-7).  Fletjið út og steikið á pönnu.  Ég hef notað titanium pönnu sem festist ekki við svo eg þarf ekki að setja neitt á pönnuna.  Fylgist vel með svo hún brenni ekki og snúið henni við.

Tortillur

Þegar þið eruð búin að baka tortilluna setjið þið hana á disk og rakt viskastykki yfir (mjög mjög mjög mjög mikilvægt) því þannig haldast þær mjúkar á meðan klárað er að baka í rólegheitum.  Ef þetta gleymist þá verða þær fljótt harðar og passa eiginlega bara frekar sem pizzubotn 😉

Það er skemmtilegt að prufa að krydda með mismunandi kryddum og hafa þær mismunandi þykkar.   Stundum bæti ég við sesamfræjum og hef þær í þykkara lagi og nota sem pítubrauð.

tortilla

Skora á ykkur að prufa  🙂

Published by

7 thoughts on “Heimagerðar tortillur

  1. HæHæ takk fyrir frábæra síðu 🙂
    Ég var að velta því fyrir mér hvort það sé í lagi að frysta þessar tortillur ?

  2. Sæl og takk fyrir frábærar uppskriftir 🙂 lillan mín er með mjólkur- og sojaóþol og því var ég svo glöð að finna mjólkurlausu uppskriftirnir hjá þér 😀

    En varðandi þessar tortillur, ætli sé í lagi að nota glútenlaust mjöl í staðinn fyrir spelta ?

    kær kveðja

    1. En gaman að heyra frá þér og gangi ykkur vel í þessu verkefni.
      Ég er ekki viss um að það gangi. Speltið límir vel saman en glúteinlaust mjöl er yfirleitt allt mjög laust í sér. Ég er sjálf glúteinlaus núna svo ég fer í málið að finna góða glúteinlausa tortillu uppskrift 😉

      Kær kveðja,
      Oddrún

Leave a Reply