Jæja, loksins kemur uppskrift, það er búið að vera mikið að gera undanfarið ásamt tölvuvandræðum á heimlinu. En ég hef samt ekkert eldað neitt minna en venjulega og því búið að safnast upp myndir af allskonar hollu góðgæti. Ég ætla að byrja á kvöldmatnum síðastliðið föstudagskvöld.
Þetta er alger snilldarhugmynd og eina leiðin til að fá börnin mín til að borða eitthvað af káli. Yfirleitt er það grænmetið sem þau eru minnst spennt fyrir en þegar ég býð upp á svona þá rennur það ofan í þau.
Þegar klukkan er korter í kvöldmat og allir eru orðnir svangir er ekki endilega fljótlegra að fara út í búð og kaupa eitthvað tilbúið. Það er alveg hægt að fá sér bókstaflegan skyndibita heima 🙂
Ég sá nýlega Romaine kál í Bónus, það er ílangt og dökkgrænt og það hentar alveg sérstaklega vel fyrir svona rúllur.
Ommelettan:
- 1 msk kókosolía
- Egg – ég miða við ca 1,5 á mann
- skvetta af mjólk (Hrísmjólk, möndlu, lífræn, kusu, bara það sem þið eruð vön að nota)
- Krydd eftir smekk (ég nota Salt, pipar, túrmerik, papriku, reykta papriku, cumin og jafnvel smá madras kryddblöndu)
Hræra eggjum, kryddi og mjólk vel saman, hita pönnuna, láta olíuna bráðna og setja svo blönduna á pönnuna, ég leyfi henni að “festast” aðeins saman áður en ég sný henni við og leyfi henni bara að detta svolítið í sundur svo hún sé í bitum. Svo er bæði gott og hollt að setja smá steinselju yfir um það leyti sem hún er tilbúin.
Salsa:
- 4 Tómatar
- 4 litlir vorlaukar
- 1/2 lime (safinn)
- Smá Herbamare
Blanda öllu vel saman
Svo er bara að taka kál, setja í það ommelettu og salsa og rúlla saman 🙂
Litli kallinn var alveg að missa sig yfir þessu síðasta föstudagsköld þegar ég tók þessar myndir og hrópaði af ákafa : lúlla lúlla lúlla og ég mátti hafa mig alla við að rúlla fyrir hann kálinu 🙂
Ég setti pestó á mínar rúllur til að byrja með en það var í raun alger óþarfi að hafa það með. Það var líka gaman að oftast vilja stelpunar tómatsósu en í þetta skiptið fengu þær sé salsa án þess að minnast einu orði á tómatsósu og þeim fannst það ekkert smá gott.
Í ommelettuna nota ég reykta papriku. Það er ekkert langt síðan ég fór að nota þetta krydd en þvílíkt nammi. Það er svona bbq bragð af kryddinu og gefur þvílíka fyllingu. Ef þið eruð ekki búin að kynnast því mæli ég með því að það fái að fljóta með heim í næstu verslunarferð 🙂
Verði ykkur að góðu 🙂
[…] greinilega að bera mig aðeins öðruvísi að þegar ég krydda meðal annars túnfisksalatið, ommelettuna góðu, indversku sósuna og […]
Þetta er alveg ein sú besta staðgengilshugmynd að svona ‘mexikóskum’ sem ég hef séð. Er við það rjúka út í búð og bara gera þetta sjálf á stundinni!
Gaman að heyra 🙂
Mér finnst þetta alger snilld 🙂
[…] þriðjudagar eru orðnir hálfgerðir eggjadagar… það hefur bara þróast þannig, ýmist ommiletta eða spæld egg. Það er mjög vinsælt að skera niður langsum gúrku, papriku og gulrætur og […]