Það er ekki þverfótað á netinu eða dagblöðum þessa dagana fyrir umræðum um allskonar detox og hreinsanir af ýmsu tagi. Safakúrar eru vinsælir og flest allt sem getur komið fólki í rétta formið á sem stystum tíma. Ég er hrifnari af því að fá sér hollt allt árið um kring heldur en einblína á nokkra daga. Auðvitað getur það komið fólki í rétta gírinn og hver þarf að finna hvað hentar sér.
Hinsvegar elska það að fá mér grænan djús á morgnana. Og ekki bara fyrstu 3 daga ársins í formi safakúrs heldur reglulega allt árið. Það eru mismunandi skoðanir á því hvort sé betra að fá sér djús eða smoothie (sigta ekki frá hratið) og hver með sína skoðun á því, og það er bara allt í lagi, það geta ekki allir verið sammála.
Þar sem ég á ekki almennilega safapressu nota ég bara blandarann og spírupoka sem ég sía í gegnum. Þetta lærði ég á námskeiði hjá Sollu fyrir nokkrum árum síðan. Fyrir mína parta finnst mér gott að sía sumt en bæta svo öðru út í eftir á til að fá eitthvað af trefjunum líka.
Svona er minn uppáhalds græni drykkur:
- 2-3 stór blöð af grænkáli eða 2-3 lúkur af spínati
- 2-3 cm ferskt engifer
- 2 stilkar sellerí
- 1 grænt epli
- Safi úr 1/4 sítrónu eða lime
Stundum set ég líka steinselju eða annað ferskt krydd sem er til hverju sinni.
Aðferð:
Afhýði epli, engifer, þvæ allt grænmeti og sker í burtu allt sem mér líst illa á. Sker allt í litla bita og set í blandarann: grænkál, sellerí og engifer. Blanda vel saman. Sía svo í gegnum spírupoka. Að lokum bæti ég eplinu út í og blanda vel.
Þegar þessar myndir voru teknar bætti ég líka við smá spínati í djúsinn í lokin.
Það er alger snilld að gera tvöfaldan skammt og eiga annan drykk til að fá sér sennipartinn eða jafnvel daginn eftir (geymist samt max 24 tíma). Í seinnipartsdrykkinn er líka hægt að bæta við mangó eða berjum og hveitikími svo hann sé matarmeiri.
Þar sem ég átti Mangó-epla safa frá Sollu (reglulega keyptur í íspinnagerð) ákvað ég að gera smá tilraun og gaf krökkunum grænan drykk/ mangósafi í hlutföllunum 50/50 og allir drukku það með bestu lyst 🙂
En af hverju að standa í þessari fyrirhöfn, hvað er á þessum græna drykk að græða ?
- Góð leið til að innihalda mikið af grænu laufgrænmeti á stuttum tíma.
- Fínt að byrja daginn á A, C og K vítamíni.
- Fullt glas af blaðgrænu gerir kraftaverk fyrir kroppinn.
- Það hjálpar líkamanum að hreinsa sig og losa við eiturefni.
- Að drekka grænan drykk hjálpar líkamanum að verða basískari.
- Hefur góð áhrif á húðina, meltinguna og eykur orkuna.
- Sumir hafa jafnvel sagt að gráu hárunum hafi fækkað eftir að þeir fóru að drekka grænan drykk reglulega en ég sel það ekki dýrara en ég keypti það.
Þar sem þetta er alger næringarbomba en inniheldur hvorki fitu eða prótein fæ ég mér alltaf eitthvað meira í morgunmat á eftir drykknum, annað er ávísun á orkuleysi og einbeitingarskort (mínu tilfelli amk.)
Að lokum má minnast á það að sérfræðingarnir mæla með því að “tyggja” djúsinn til að koma meltingarensímunum í gang.
Gangi ykkur vel og verði ykkur að góðu 🙂
Hvað gerir þú svo við hratið?
kv.Eydís.
Úfff ég skammast mín eiginlega við að viðurkenna að ég hendi því. Ég er reyndar með spírupoka sem er með nokkuð stórum götum svo það er mjög lítið sem síast ekki. Sumir nota hratið í brauð eða hrökkbrauð, ég þarf að setja það á dagskrána að prufa mig áfram með það 🙂
Takk fyrir að lesa,
Kær kveðja,
Hæhæ,
Hvar kaupir þú svona poka til að sía djúsinn?
takk
Sæl, ég fékk hann í Ljósinu, Langholtsvegi, gott að styrkja gott málefni í leiðinni 😉