Mjólkuróþol eða ADHD ?

Ég hef nefnt það nokkrum sinnum á þessari síðu að dóttir mín sé með mjólkuróþol og þess vegna eru flestar uppskriftirnar mjólkurlausar.  En það er innan við ár síðan það komst á hreint og þá var hún alveg að verða 6 ára.  Mig grunar að það séu mörg börn í viðbót sem eru með mjólkuróþol án þess að það hafi verið greint eða sá möguleiki skoðaður.

Mér er minnstætt samtal sem ég átti við góða vinkonu fyrir nokkrum árum síðan.  Við sátum og drukkum kaffi og ræddum heima og geima.  Ég kvartaði og kveinaði yfir því hvernig dóttir mín hagaði sér, þá 3-4 ára, en hún var mjög erfið í skapinu, með mikinn mótþróa auk þess að vera með exem og alltaf lasin. Ég tengdi auðvitað pirringin við veikindin en hvoru tveggja voru endalaus.  Vinkona mín spurði hvort hún væri ekki bara með mjólkuróþol (eins og sonur hennar), en ég hélt nú ekki, mér fannst miklu líklegra að hún væri með ADHD en að hún væri með mjólkuróþol!

Á þeim tíma var ég reyndar búin að minnka mjólkurneyslu heilmikið, það gerði ég fyrst til að athuga hvort exemið myndi minnka og svo út af því hversu slímmyndandi mjólkin er og vonaði að horframleiðslan og króníska kinnholubólgan myndi eitthvað minnka.   Það bar árangur en að lokum voru nefkirtlarnir teknir líka og heilsan batnaði til muna.   Þegar þarna var komið við sögu  fékk hún enga mjólk í glas en þó einstaka ís, einstaka ost, einstaka rjóma, einstaka jógúrt en þegar þú ert með 10 vörutegundir sem þú færð þér einstaka sinnum safnast nú bara heilmikið magn sem líkaminn innbyrðir.

Þegar litla skvísan var ca 18 mánaða var mér fyrst sagt að hún þyldi ekki mjólk vel, það var Matthildur Þorláksdóttir, Heilpraktiker,eða náttúrulæknir sem sagði mér það.  Ég veit ekki alveg af hverju það tók mig svona langan tíma að prufa það að taka allar mjólkurvörur út 100 % í amk. 3 vikur til að virkilega sjá muninn.  Ég held að ég hafi ekki  trúað hversu mikil áhrif þetta hefði.  Annars hefði ég gert þetta strax, ég hugsa með söknuði um allar næturnar sem ég hefði getað sofið á þessum 4 árum hefði ég bara drifið í þessu strax en ekki hummað það fram af mér árum saman.

Mjólkurneyslan minnkaði þó alltaf aðeins þar sem mataræðið í heild fór alltaf batnandi.   Ég var búin að gera mér grein fyrir því að mataræðið skipti heilmiklu máli til að dömunni liði vel.  Húðin var orðin mjög góð, fyrir utan pínulitlar hvítar bólur á allri húðinni og hún var að mestu hætt að vera lasin.  En skapið var stórt og erfitt og hegðunarerfiðleikar gríðarlegir.  Þroskaþjálfinn í leikskólanum hafði áhyggjur af einhverfurófs-legri hegðun í leikskólanum í félagslegum tengslum en hún var hinsvegar alltaf stillt og góð, en svo sprakk allt þegar hún kom heim.

En hvað varð til þess að ég fór úr því að hafa hana á ca 80 % mjólkurlausu fæði í 100 %  ?  Ég las söguna af Sindra, sem gekk á netinu síðasta vor.  Ég er mjög þakklát að mágkona mín skyldi sjá söguna og senda mér hana.  Ég las gjörsamlega orðlaus því mér fannst að það væri verið að lýsa mínu barni þarna.  Það var ekki allt eins, en margt.  Þetta var nóg til þess að daginn eftir pantaði ég tíma hjá ofnæmislækni í þeirri von  að fá vottorð fyrir leikskólann.  Því það var jú ekki nóg að ég hefði mjólkurlaust hér heima.

Ég fór með kvíðahút í maganum til ofnæmislæknisins því ég var þess fullviss að ekkert kæmi út úr ofnæmisprófinu  því hún hafði farið í svoleiðis áður þegar exemið var sem verst en ekkert komið út úr því.  Læknirinn var hinsvegar hinn vingjarnlegasti  og þó ekkert kæmi út á húðprófi  tók hann vel í það að gera prufu í 2-3 vikur, það væri jú besti mælikvarðinn.

Ég skal gera langa sögu stutta.  Þvílíkur munur ! Þvílíkur munur!  Ég veit eiginlega ekki hver munirnn hefði verið hefði ég haft hana á miklu mjólkurfæði og dempt mér þannig í rannsóknina.  Hún var ekki einu sinni að fá neina mjólk, bara einstaka mjólkurvöru.  En við tókum öll mjólkurprótein út líka og þau geta verið í unnum kjötvörum, kryddum osv.fr. Eftir nokkra daga var mikill sjáanlegur munur.  Hún varð öll rólegri, yfirvegaðri og í miklu betra jafnvægi.   Allt í einu skipti ekki öllu máli í hvaða röð við löbbuðum út úr dyrunum, hver opnaði útihurðina, hver opnaði bílhurðina, heimferðin úr leikskólanum gekk miklu betur og hún varð öll hressari og hætti að taka öskurköst.  Já alveg rétt, ég gleymdi að segja ykkur frá öskurköstunum, en þau voru þegar verst var 3x á dag og tóku 15-45 mín.  Þau  hættu! !

Þegar ég las söguna hans Sindra sá ég ýmislegt sem ég hafði ekki tengt áður.  Til dæmis að henni var alltaf svo heitt, vildi helst ekki vera  í neinum fötum né sofa með sæng.  Og þegar hún var yngri  (og var að fá reglulega mjólk, skyr og jógúrt) vaknaði hún oft á nóttunni öskrandi og ekki hægt að ná sambandi við hana (night terror) en við héldum að það væri bara út af því að hún væri nýlega orðin stóra systir og þetta væri einhver afbrýðisemi í henni.  Þess má geta að hún fékk ekki ungbarnakveisu þegar hún var lítil, hún átti aldrei við nein hægðarvandamál að stríða og kvartaði aldrei um að henni væri illt í maganum, kannski er það hluti af því að ég „trúði“ því ekki að hún gæti verið með mjólkuróþol.

Núna er hún búin að vera mjólkurlaus í 9 mánuði, með einstaka undantekningu.  Þá erum við meðvituð um það og reynum að halda því í algeru lágmarki.  Fyrir nokkrum mánuðum síðan urðu mistök í skólanum að hún borðaði  venjulegan grjónagraut í hádeginu, hvorki meira né minna en 2 fulla diska.  Það var mjög áhugavert því á einu bretti komu gamlir taktar sem við höfðum ekki séð mánuðum saman.  Allt í einu lá hún á gólfinu grenjandi yfir því að þurfa að fara á klósettið en gat það ekki því eitthvað var ekki eins og það átti að vera.  Þetta kast tók hálftíma en minnti okkur á það sem hafði verið daglegur viðburður, jafnvel oft á dag.

Það er þvílíkur munur á henni og yndisleg tilfinning að geta gert eitthvað til að bæta líðan barnsins síns. Ég er svo þakklát fyrir að hefa lesið söguna hans Sindra á netinu á sínum tíma og vonandi að ég hafi líka vakið einhverja til umhugsunar, þá er tilgangnum náð.

Ekki hika við að hafa samband ef einhverjar spurningar vakna eftir lesturinn.

Kær kveðja,

Oddrún

Auglýsingar

23 athugasemdir við “Mjólkuróþol eða ADHD ?

 1. Ég á svona barn. Ég var jafn orðlaus og þú við lestur á sögunni af Sindra. Og ég sé son minn algjörlega í Sindra og lýsingunum á dóttur þinni. Og þvílík breyting á barninu við það að taka mataræðið í gegn. Lygilegt. Og það þarf ekki mikið til að missa tökin aftur. Ég fór að slugsa við að gera allt frá grunni sjálf og fór að kaupa unnið aftur og það var fljótt að koma fram í hegðun svo núna er ég búin að taka fast um taumana á ný og það verður ekki sleppt aftur því velferð barnanna minna er að veði.

  • Sæl Svandís,
   Gaman að heyra hvað gengur vel 🙂 Þetta er heilmikil vinna en það er líka vinna að díla við erfiða hegðun og eins og þú segir þá er þetta velferð barnanna okkar sem er í húfi.

   Gaman að heyra sögur frá fleiri heilsumömmum 🙂
   Takk fyrir að lesa,
   Kær kveðja,
   Oddrún

 2. Sæl heilsumamma og takk fyrir að deila þessari reynlsu þinni. Eg var samt að velta einu fyrir mer, veistu hvort sömu einkenni geta komið fram hjå fullorðnum vegna mjolkuroþols? Þ.e. miklir skapgerðarbrestir, ojanvægi, þurfa mjog mikla reglu og rutinu a hlutunum þannig að dagurinn verdi ekki onytur osfrv.
  kv.Helga

  • Sæl Helga og takk fyrir að lesa 🙂
   Ég er engin sérfræðingur en það er alveg greinilegt að það sem við borðum hefur bein áhrif á okkur. Einnig getur það sem við borðum haft áhrif á líkamsstarfsemina t.d. ef við borðum of mikið unna fæðu eða of mikinn sykur getur það t.d. valdið ofvexti candida sem getur síðan valdið mjög mörgum óþægindum eins og t.d. þeim sem þú nefnir. En ég er ekki sérfræðingur, bara með eigin reynslu og mér hefur fundist það ómetanlegt að geta farið til hennar Matthildar (sem ég minnist á greininni) reglulega bæði með mig sjálfa og börnin mín og hún mælir hvað er að. (Siminn hjá henni er 587 1003 og hún er staðsett í Stórhöfða 17)

   Það er líka hægt að taka sjálfur burt hveiti, mjólkurvörur, soja og sykur og bæta svo einu og einu inn í aftur rólega og þá er maður komin með það sem veldur manni erfiðleikum. (Kallast Elimination diet).
   Kær kveðja,
   Oddrún

 3. Sæl, mjög áhugaverð lesning, er á fullu að kynna mér breytt mataræði fyrir dætur mínar en hvað meinarðu að matthildur geti mælt hvað er ? Ég held að það sé aðvelt að taka út mjólk, en smjör og ost, sé það ekki ganga, hvað gerðuð þið í þeim málum ? Alltaf gott að lesa svona flottar sögur, það hvetur marga áfram !
  Kveðja Halla

  • Sæl,
   Það sem hún Matthildur mælir er t.d. hvort það sé ofvöxtur á candida og þurfi að taka út sykur, hvort það séu sýkingar, bólgur, hvort það séu mikið af þungmálmum eða sníkjudýr í meltingunni. Hvort það vanti járn eða eitthvað af vítamínum. Getur svo ráðlagt hvaða vítamín eða mataræði eigi við. Hún hefur hjálpað okkur alveg óendanlega mikið og ég virkilega mæli með henni.

   Í sambandi við smjör og ost þá hef ég notað kókosolíu nær allastaðar þar sem ég myndi nota smjör. Osturinn finnst mér mesta áskorunin, ég viðurkenni það. Reyndar vorum við með ost með öllum mat, það er svo mikill vani og nú höfum við vanið okkur á að fá okkur hamborgara, taco, mexíkósúpur ofl. án þess að hafa ost og ég sakna þess ekkert. Þegar við gerum t.d. lasagna þá fær hún í sér móti með engum osti og er bara sátt. það er ýmislegt hægt að setja ofan á brauð annað en smjör og ost (við vorum rosalega föst í því). Núna er á borðum: hnetusmjör og eplasneiðar, berjasulta, egg og sinnepsósa og margt fleira.

   Takk kærlega fyrir að lesa og gangi þér vel áfram,
   Kær kveðja,
   Oddrún

 4. Sæl Oddrún. Ég hef sterkan grun um að þetta sama sé að syni minum sem er átta ára.. Má ég forvitnast hjá þér hvaða ofnæmislæknir tók prófin á dóttur þinni, eða geturðu mælt með einhverjum sérstökum?
  Kveðja Kristín

  • Sæl, ég fór til Michael Clausens og var mjög ánægð með hann. Það er hópur hér á facebook sem heitir Mjólkurofnæmi og óþol, hvet þig til að kíkja þangað og þar eru fleiri sem geta mælt með góðum læknum.
   Takk fyrir að lesa 🙂
   Kær kveðja,
   Oddrún

 5. Góð umræða. Ég á einmitt barn með ADHD og hef prófað að taka út sykur og hvítt hveiti, ég fann strax breytingu á barninu. En í kringum hátíðarnar fór þetta e-n á hliðina svo nú er að bretta upp ermar aftur..:) ég hef hins vegar ekki spáð í mjólkinni hélt að mjólkuróþol kæmi mest út i mikilli slímmyndun og húðútbrotum, svo þetta sem ég hef verið að lesa hér vekur mig til umhugsunar um hvort ég ætti að prófa að taka það út líka. Það léttir allavega að geta fundið „save“ uppskriftir á íslensku!
  Bestu þakkir.

  • Það er alltaf jafn gaman að heyra af því þegar mataræðið er tekið í gegn og það skilar sér í betri líðan 🙂 Hvet þig til að prufa en svo getur vel verið að þitt barn sé alls ekki með óþol fyrir mjólkinni. Gangi þér vel áfram 🙂 Ég kannast alveg við þetta þegar við vorum að breyta, stundum voru þetta tvö skref áfram og eitt afturábak. Þetta getur verið mikil vinna og oft þarf lítið til að fara af sporinu.

   Kær kveðja,
   Oddrún

 6. Takk fyrir að deila, elska að skoða þessa síðu 🙂
  Ég borða sjálf lítið af mjólkurvörum en finnst erfiðara að átta mig á hvaða aðrar vörur ég þarf að forðast til að taka út mjókurprótein. Geturðu gefið mér dæmi um eitthvað sem kom þér á óvart að þurfti að taka úr fæðunni? Hvað þarf ég að varast á innihaldslýsingum?

  kveðja
  Snjólaug

  • Sæl Snjólaug og takk fyrir fallleg orð 🙂
   Það sem kom mér kannski mest á óvart þegar ég fór að lesa utan á vörur hvað mjólkurprótein og mjólkurduft er víða. T.d í hamborgarahrygg, sumum lifrarkæfum, lifrarpylsu, í skinku, í flest öllu nammi nema dökku súkkulaði, jafnvel í Töfrakryddinu frá Pottagöldrum sem ég notaði mjög mikið.

   Það sem ætti að líta eftir fyrir utan hið augljósa (milk, butter osv.fr.)

   carmel flavor, casein, caseinate, high protein flavor, lactose, natural flavoring, rennet casein, Shortening, solids, whey og í einstaka tilfellum er mjólk notuð til að mýkja mat go er þá e.t.v. merkt sem emulsifier eða protein.

   animalsk fedtstof, animalsk protein, margarine, bagermargarine, inddampet mælk, kalcium kaseinat, kalium kaseinat, natrium kaseinat, lactalbumin, mælkebestanddele, skummetmælkspulver, södmælkspulver, törmælk, valle, vallepulver/valleprotein

   Vona að þetta hjálpi 🙂
   og gangi þér vel 🙂
   Kær kveðja,
   Oddrún

 7. Takk fyrir! 😀
  Þetta er ekkert smá magn af samheitum, alltaf er verið að plata eitthvað ofaní mann 😉 Undarlegt með töfrakryddið, ég hélt að það væri alltaf óhætt að nota pottagaldra.

  kveðja
  Snjólaug

   • Sæl Berglind, loksins kemur svar 🙂
    Ég hef reynt að venja mín börn á það að drekka vatn og það hefur skilað sér, þau drekka mikið vatn og velja oft vatn fram yfir djús og aðra mjólk.

    Þannig að sú sem er með mjólkuróþol hefur ekki verið að drekka neina aðra mjólk en vill Rísmjólk út á hafragraut/grjónagraut osv.fr. Ég nota hinsvegar mikið möndlumjólk í matargerð og sem grunn í smoothie.

    Litli kúturinn sem er tveggja ára er alveg brjálaður í Rísmjólk en ég er að reyna að blanda saman rísmjólk/möndlumjólk því undanfarið hefur mikið verið talað um að Rísmjólk sé ekki góður kostur fyrir börn undir 3ja ára því það hefur fundist arsen í jarðveginum þar sem hrísgrjón eru ræktuð og finnast í hrísgrjónum og hrísgrjónaafurðum.

    Við keyptum alltaf haframjólk á tímabili en krökkunum fannst rísmjólkin betri svo það hefur orðið ofan á en eftir þessa arsen umræðu hugsa ég að við byrjum aftur að bjóða upp á haframjólk með morgun grautnum 🙂

    Vona að þetta svari einhverju 🙂
    Kær kveðja,
    Oddrún

 8. Sæl, og takk fyrir svarið.
  Mér finnst svo margar tegundir af öllum þessum mjólkum. Hef verið að kaupa hinar og þessar til að finna hvað mínum finnst best. Hvernig Rísmjólk ert þú að nota?
  Er að prófa að taka út mjólkurvörur (eða amk. halda þeim í algjöru lágmarki) hjá syninum sem er brjálaður í skapinu.

  Kv. Berglind

  • Já það eru margar tegundir og um að gera að prufa sig áfram. En það borgar sig líka að lesa aftan á. Í sumum er viðbættur sykur. Í sumum tegundum er löng innihaldslýsing og búið að bæta allskonar við. Ég hef farið meira út í það að gera t.d. smoothie í morgunmat og hafa múslí út á. Þannig hef ég getað bætt inn kalkríkri fæðu t.d. tahini, möndlur eða kasjúhnetur.
   Gangi þér vel og það væri gaman að vita hvort þú finnur mun. Ég fann mestan mun þegar ég tók þær út 100 % en það getur líka verið góð hugmynd að trappa sig rólega niður og finna út hvað er hægt að borða í staðinn og taka svo nokkra daga á 100 % mjólkurlausu til að sjá hvort það sé munur.

   Kær kveðja,
   Oddrún

 9. Sæl Oddrún

  vil bara benda á að það er ekki laktósi í hörðum ostum eins og t.d. skólaosti (brotnar niður í vinnslunni minnir mig) því er óhætt fyrir fólk með mjólkuróþol að borða hann, en hins vegar ekki fyrir þá sem eru með mjólkurofnæmi, þar sem það er mjólkurprótín í ostinum. svo eru líka hægt að fá ensímtöflur í apóteki, sem hjálpa fólki sem skortir þetta ensím eða hefur ekki nóg af því, að brjóta niður laktósann, fínt að nota það í afmælum t.d. þar sem eru yfirleitt mjólkurvörur í kræsingunum.

  • Sæl Kristín, takk fyrir ábendinguna 🙂 Mín stelpa er með óþol fyrir mjólkurpróteinunum samkvæmt ofnæmislækni. Það væri mun auðveldara að vera með óþol fyrir laktósa þar sem mikið úrval er að koma á markaðinn af þeim vörum 🙂

   Takk fyrir að fylgjast með síðunni 🙂

 10. Eigum strák sem var í sama pakka. Hann var 4 ára þegar við rákumst á söguna af Sindra og fengum uppljómun. Fannst við vera að lesa um hann en höfðum aldrei heyrt um að ofnæmi gæti lýst sér í hegðun. Lásum okkur meira til og komumst að því að þetta væri nokkuð algengt. Prófuðum að taka út mjólkurvörur og vá, allt annað barn. Fengum svo staðfest síðar að hann er með mjólkurofnæmi. Hann er að verða 8 ára í dag og þvílíkur munur á barni síðan við föttuðum þetta. Tökum strax eftir því ef hann fær óvart mat með mjólkurvörum. Þá koma þessir taktar sem voru svo lýsandi áður og það getur tekið nokkra daga að losna alveg við einkennin þ.a. við þurfum að passa mjög vel uppá þetta.

  • Magnað að heyra Ólafur, þetta hefur svo sannarlega áhrif og svo gott að þetta sé að verða almenn vitneskja, sem það var alls ekki fyrir nokkrum árum. Ég verð varanlega þakklát fyrir Söguna hans Sindra sem vakti okkur alvarlega til umhugsunar. Gangi ykkur vel áfram 🙂

 11. Bakvísun: Mjólkuróþol eða ADHD ? - Albert eldar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s