Möndlumjólk

Í tilefni af mjólkuróþolspóstinum mínum sem ég skrifaði á laugardaginn fannst mér vel við hæfi í dag að gefa ykkur leiðbeiningar hvernig á að gera möndlumjólk.

Möndlumjólk er sérlega næringarrík og virkilega góð fyrir lítla kroppa jafnvel þó viðkomandi sé ekki með mjólkuróþol.  Í möndlum er mikið magn næringarefna og má þar nefna: E vítamín, mangan, kalk, magnesíum, kopar, B2 vítamín og fosfór. Þær innihalda líka góða fitu og eru próteinríkar.

Hráefni:

 • Möndlur 250 g
 • Vatn 1,5-2 litrar
 • Sæta eftir smekk

Leggjið möndlurnar í bleyti, þið ráðið svo hvort þið takið utan af þeim hýðið eða ekki.  Mín reynsla er sú að séu þær lífrænar rennur hýðið svo til af en annars getur það verið nokkuð fast á.  Stundum nota ég tímann meðan ég horfi á sjónvarpið meðan ég dunda mér við að taka hýðið utan af.

IMG_3039

Hellið vatninu af og skolið möndlurnar vel.

Setjið nú í blandara, möndlurnar ásamt hreinu vatni.  Mér finnst gott að byrja á því að setja lítið meðan þær eru að maukast en bæta svo við meira vatni.

Þegar þið eruð búin að mauka möndlurnar vel þá helllið þið í gegnum spírupoka en það er líka hægt að nota nýja nælonsokka.  Mér finnst gott að setja ekki allt vatnið strax, heldur sigta einu sinni, bæta svo við meira vatni og blanda aftur og setja aftur í gegnum spírupokann.

IMG_3040

Svo er að bragðbæta eftir smekk, eða ekki, möndlurnar eru mjög sætar og dóttir mín kallar möndlumjólk t.d. alltaf marsipanmjólk.  Það má setja smá vanillu, 1-3 döðlur, smá hlynsýróp eða agave sýróp (ekki samt allt í einu 😉 )

IMG_3044

Það sem gengur af (möndluhratið) má t.d. nota í amerískar pönnukökur, bollur eða döðlukökuna góðu.

IMG_3042

Svo er bara að smakka og setja vatn eftir smekk.  Mér finnst mega þynna mjólkina heilmikið en stundum geri ég það ekki strax, einfaldlega svo hún taki ekki of mikið pláss í ísskápnum.  Þá hef ég hana frekar þykka og blanda svo meira vatni við síðar.

IMG_3047

Hún endist í nokkra daga í ísskáp í lokuðu íláti.  Ég hef notað flöskurnar undan mangósafnum góða sem er svo góður í frostpinnagerð.

Það er mjög sniðugt að setja í ísmolabox og fyrsta í litlum teningum og nota í drykki eftir þörfum.

Heimatilbúna möndlumjólkin er mun hollari en sú keypta og ég hvet ykkur til að lesa utan á fernurnar ef þið eruð að kaupa möndlumjólk.  Ein ónefnd tegund inniheldur t.d. 2,5 % möndlur og það er meiri sykur í henni en möndlur.  Þó að það sé búið að bæta við D-vítamíni í mjólkina er það D2 en ekki D3 og sú tegund nýtist okkur illa. 

Vatnið sem þið hellið af er hægt að nota til að vökva blómin á heimilinu.

Skora á ykkur að prufa og gangi ykkur vel 🙂

Published by

12 thoughts on “Möndlumjólk

 1. Sæl
  Mikið ofsalega er gaman að skoða þessa flottu síðu þína 🙂
  Eitt sem að mig langar að forvitnast um er hvar færðu svona spírupoka?

  Kv. gamall nágranni úr Kringlumýrinni :o)

  1. Sæl og blessuð 🙂 Gaman að heyra frá þér og takk fyrir 🙂
   Þessir spírupokar fást í Ljósinu, Langholtsvegi. Ég man ekki hvort ég borgaði 500 eða 1000 kr fyrir, það er nokkuð langt síðan ég keypti minn.
   Fínt að styrkja gott málefni í leiðinni því Ljósið er vinnustofa fyrir þá sem eru að ná sér eftir krabbameinsmeðferð.

   Kær kveðja,
   Oddrún

  1. Mæli með því 🙂 Ég nota minn mjög mikið, nota hann líka til að gera græna djúsinn, og aðra djúsa, miklu fljótlegra heldur en að setja í safapressu 🙂

 2. Sæl frábært hjá þér ,en get ég gefið 9 mánaða syni mínum svona mjólk;)?

  1. Sæl og takk 🙂 Það ætti að vera í lagi fyrir 9 mánaða að fá möndlumjólk, amk. samkvæmt listanum hennar Ebbu Guðnýjar, sem er nú helsti sérfræðingur landsins í hvað og hvenær fyrir litla kroppa 🙂
   Kær kveðja,
   Oddrún

 3. Geggjuð síða! Er búin að baka fullt frá þér og litli mjólkurofnæmispeyjinn minn nýtur góðs af. Það er tvennt sem mig langar til að spyrja varðandi þessa uppskrift, hversu lengi hefur þú möndlurnar í bleyti? Ef þú tekur ekki hýðið af eftir að þær hafa legið í bleyti, setur þú þær þannig í matvinsluvélina?? Með hýðinu?
  Kv. Íris

  1. Takk Íris 🙂
   Varðandi möndlurnar þá læt ég þær yfirleitt liggja yfir nótt. Ef ég tek hýðið ekki af þá skola ég þær bara alveg rosalega vel áður en ég set þær í blandarann og þá verður hratið bara ennþá meira og grófara. Hef sett það í bollur til dæmis.
   Kær kveðja,
   Oddrún

Leave a Reply