Fitubrennsluátakið

Í byrjun desember var ég með stórar yfirlýsingar um að ég ætlaði að taka þátt í fitubrennsluátaki í desember á vegum fitubrennsla.is.  Svona ef einhver hefði tekið eftir þessu ákvað ég nú segja ykkur frá því hvernig það gekk, svona svo þið færuð ekki að álykta að ég hefði gefist upp eins og 40 % þeirra sem tóku þátt.  Já það getur verið pressa að fara í átak í desember.

Ég er reyndar ekki sérstaklega hrifin af átökum yfirleitt, og ég held að ég hafi fengið leið á því hér á árum áður að vera endalaust “í átaki”.  Ég er eiginlega meira fyrir það að vera bara í hollustu og almennu jafnvægi allt árið um kring.  En ég ákvað að taka þátt að þessu sinni þar sem ég vissi að ég þyrfi að fara út úr þægindahringnum, sennilega er hvað erfiðast að standast freistingar í desember því þær eru bókstaflega allstaðar.  Ég fann að ég var farin að detta í smákökubakstur og farin að hreyfa mig minna svo ég skellti mér.

Fyrst var keppnisskapið alveg að fara með mig og ég ætlaði auðvitað að vinna og farin að hugsa í hvað ég ætlaði að nota 100.000 kallinn sem ég myndi vinna en sá draumur rann fljótt út í sandinn.  Eftir að hafa misst 1,5 kg fyrstu vikuna og verið fáránlega dugleg varð sonurinn veikur.  Eftir 3 svefnlausar nætur varð ég líka hálf lasin og komst ekkert að æfa í marga dag.

Þarna var nokkuð ljóst að ég var ekki að fara að vinna og ég róaði keppnisskapið aðeins og setti mér ný markmið.  Ég ætlaði bara að fara í keppni við sjálfa mig borða minna og hreyfa mig meira en ég hefði annars gert. Því undir venjulegum kringumstæðum hefði ég þyngst um 3-4 kg.  Það tókst.

Ég var ekki tilbúin til þess að sleppa öllu því ég vissi að það myndi aðeins þýða það að ég myndi missa mig þegar átakinu væri lokið. Og þetta var jú gert fyrir mína heilsu og engan annan.

Í lokin var ég alveg að verða vitlaus því vigtin hreyfðist ekki.  Þegar 2 dagar voru eftir langaði mig bara til þess að hætta út af þessum tveimur digital stöfum sem stóðu á vigtinni.  Ég trúði ekki að ég væri farin að láta vigtina hafa þessi áhrif.  Ég á nefnilega ekki vigt og vigta mig svo til aldrei en þarna var ég farin að vigta mig á hverjum einasta degi.  En vigtin segir ekki allt.  Langt því frá.

Eftir 4 vikur, hafði ég aðeins misst 1,3 kg, fituprósentan minnkað um 1,3 % en jú 11 cm farnir 🙂

Ég var mjög ánægð að hafa tekið þátt og ég er ekki viss um að innkaupakarfan hefði litið svona út 2.janúar hefði ég ekki verið á leið í mælingu 5.janúar

IMG_3447

Það sem ég lærði á þessum mánuði og langaði að deila með ykkur:

1. Svefninn skiptir öllu.  Þá daga sem ég svaf lítið, gerðist ekkert alveg sama hvað ég borðaði hollt eða hreyfði mig.

2. Vigtin skiptir ekki öllu.  Mælum með málbandi eða bara horfum í spegil.

3. Það þarf að passa sig á því að borða ekki of lítið.  Það eina sem ég græddi á þvi var það að vera svöng og hrikalega pirruð (fjölskyldan getur staðfest þetta).

Það getur vel verið að ég hefði séð meiri árangur hefði ég ekki fengið mér “trít” á hverjum degi.  Ég fékk mér alltaf eftirmat ef hann var í boði, borðaði fullt af heilsunammi og kasjúhnetuís.  En passaði skammtastærðirnar.  Ég einbeitti mér að því að borða ekki eftir klukkan átta en frekar leyfa mér frekar eitthvað gott fyrri part dags.  Ég t.d. leyfði mér yfirleitt eitthvað eftir hádegismatinn með kaffibolla dagsins. Og naut þess í botn.  Maður á aldrei að borða eitthvað með samviskubiti, bara njóta , alltaf 🙂

Þann 30.des áttum við hjónin brúðkaupsafmæli og fórum út að borða á Vox og þar hefði t.d. verið fáránlegt að borða dýrindis máltíð með samviskubiti.  Ég fékk þann geggjaðasta eftirrétt sem ég hef smakkað og það sem ég naut þess í botn.  Það er nefnilega staður og stund fyrir allt.

IMG_3325

Það var gott að byrja janúar í betra formi en í byrjun desember en ég var fegin þegar átakinu var lokið og ég gat bara borðað minn mat í ró og næði og hætt að stíga á vigtina á hverjum degi. Þvílíkur innri friður.

Ég ætla hinsvegar að halda áfram og borða hollt og hreyfa mig það sem eftir er ársins og vonandi þið líka 🙂

 

Published by

Leave a Reply