Mexíkóskur pottréttur með svörtum baunum og sætum kartöflum

Þessi réttur er alveg hrikalega góður, svo ég segi sjálf frá.  Meðan ég eldaði matinn var ég búin að ákveða að það myndu allir kvarta og kveina, gormarnir myndu neita að borða og var farin að hugsa hvað ég ætti annað til, hvort ég ætti að bjóða upp á brauð með matnum o.s.frv.  En þær áhyggjur voru óþarfar, því allir sem einn borðuðu vel og það var mikil ánægja með réttinn.  Hann er auk þess mjög hollur og ódýr (sérstaklega ef maður eldar baunirnar sjálfur).

Innihaldslistinn er nokkuð langur en ekki láta það hræða ykkur, helmingurinn er krydd og flest eru til á hverju heimili.  Ef þið eigið ekki til reykta papriku í kryddskápnum mæli ég með því að þið kaupið hana sem fyrst, amk. ef ykkur finnst bbq sósa góð því það er sama bragðið af þessu tvennu.

IMG_3847

Hráefni:

  • 2 sætar kartöflur
  • 3 dl svartar baunir
  • 1 msk olía
  • 1 laukur
  • 4 hvítlauksgeirar
  • 1 rauð paprika
  • 1 dós niðursoðnir tómatar/ eða flaska úr Sollu-hillunni
  • 2-3 dl vatn
  • 1 msk cumin
  • 1 msk oregano
  • 1/2 msk paprika
  • 1/2 msk reykt paprika (mild)
  • 2 msk grænmetiskraftur
  • 1 tsk kókospálmasykur
  • 1 tsk hreint kakó

Val:  þetta er mjög gott að setja yfir réttinn, en þarf ekki.

  • Lime – safinn kreistur yfir í lokin
  • Kóríander – sett yfir í lokin

Aðferð:

  1. Skerið sætar kartöflur í litla bita og bakið í ofni við 200°c í ca 25 mín.
  2. Hitið pönnu, bætið á hana olíu og hitið laukinn.
  3. Bætið papriku og hvítlauk út í.
  4. Bætið út í vatni, tómötum og kryddi og leyfið því að malla saman við lágan hita þangað til mjúkt (10 mín ca)
  5. Setjið baunir og sætar kartöflur út í og kryddið meira ef ykkur finnst þurfa.
  6. Kreistið lime yfir og saxið kóríander yfir (ég átti ekki kóríander og notaði steinselju þegar myndin var tekin)
  7. Berið fram með soðnum hýðishrísgrjónum og salati

Það eru margir sem eru ekkert sérstaklega hrifnir af baunum.  Finnst það vesen og mikla fyrir sér hluti eins og að leggja í bleyti og sjóða.  Það er auðvitað hægt að kaupa tilbúnar baunir en ég mæli með því að kaupa baunir, leggja allan pokann í bleyti (eða kannski taka baunirnar úr pokanum fyrst og leggja innihaldið í bleyti 😉 )  Sjóða allt saman (það er ekki eins og maður þurfi að standa yfir pottinum allan tímann) og frysta svo í litlum skömmtum.  Þá er alltaf hægt að kippa út einum og einum poka. Þá kostar skammturinn ca. 50-100 kr af lífrænum baunum.

Annað með baunir er það að margir setja allar baunir í sama flokk.  Finnast kannski einhverjar ekki góðar og afskrifa þær allar.  En baunir eru misjafnar á bragðið og áferð, mér finnst t.d. kjúklingabaunir og nýrnabaunir ekkert sérstaklega góðar en  t.d. pinto baunir og svartar baunir mjög góðar.  Svo um að gera að smakka án fordóma 🙂

Svartar baunir eru líka  alveg hrikalega hollar.  Ég fletti því upp í tilefni þess að ég var að skrifa upp þessa uppskrift og ég held svei mér þá að ég skipuleggji það að hafa svartar baunir í matinn amk. 1x í hverri viku héðan í frá ef ekki oftar.  Þær eru mjög góðar fyrir meltinguna og þá sérstaklega fyrir ristilinn.  Þær innihalda auk þess mikið af fólati (mjög gott fyrir barnshafandi konur), mikið af trefjum, tryptófan (sem hjálpar líkamanum að mynda serotonin) og eru mjög próteinríkar.  Áfram svartar baunir 🙂

Verði ykkur að góðu og njótið dagsins 🙂

Published by

12 thoughts on “Mexíkóskur pottréttur með svörtum baunum og sætum kartöflum

    1. Sæl, hann fæst í heilsuhillunni í Bónus og öðrum verslunum. Hann er ódýrastur í Sollu/himneskt merkinu. Hann inniheldur meiri steinefni heldur en venjulegur sykur og hækkar ekki blóðsykurinn. Hann er góður kostur til að nota í staðinn fyrir hvítan sykur eða venjulegan hrásykur.
      Kær kveðja,
      Oddrún

  1. Sæl ætla að gera þessa í vikunni. En ég var að pæla með baunirnar, eru þetta 3 dl fyrir suðu eða eftir suðu?
    Kveðja, Ágústa.

  2. Já ég var að meina hvort þú mælir 3dl eftir að þú hefur soðið þær, því þær margfaldast í stærð þegar búið er að sjóða þær 🙂

    1. Sæl, 3 dl af soðnum baunum, ætli það sé ekki ca 1 dl af ósoðnum. Yfirleitt sýð ég allan pokann í einu og frysti í litlum skömmtum. Þetta þarf þó ekki að vera nákvæmt, hægt að setja eftir smekk 🙂

      Kær kveðja,
      Oddrún

  3. Ég fór að versla í réttinn og fann þær hvergi, en endaði með red kidney beans in water og pinto beans in water
    kv,
    Magnea

    1. Sæl,
      Ég hef keypt þær í Fjarðarkaup, bæði í pokum sem ég sýð sjálf, en þar fást þær líka í tilbúnar í dósum.
      Það passar örugglega bara mjög vel að vera með nýrnabaunir og pintóbaunir 🙂
      Gangi þér vel 🙂
      Kveðja,
      Oddrún

Leave a Reply