Þegar ég hef fisk í matinn á þessu heimili vilja börnin bara soðin fisk, kartöflur og tómatsósu. Það er hreinlega óumsemjanlegt (nema ég nenni að gera fiskibollur þá er það alltaf vinsælt). Lengi vel gerði ég öðru hverju eitthvað annað en það sem þau urðu fyrir vonbrigðum þegar þau sáu hvað var í matinn. Samt borða þau allskonar fisk í leikskólanum, fiskrétti, steiktan o.s.frv. En svona fisk vilja þau bara heima, punktur! Og elska hann! Ég er búin að gefast upp í bili og þau fá sinn soðna fisk en stundum geri ég eitthvað annað fyrir okkur fullorðnafólkið. Til dæmis í síðustu viku var soðin fiskur og kartöflur það síðasta sem mig langaði í og bjó ég til þessa ljúffengu fiskisúpu. Hún er mjög einföld, fljótleg og í raun bara grænmetissúpa sem breyttist í fiskisúpu þegar soðni fiskurinn var settur ofan í hana 🙂
Hráefni:
- 1 -2 tsk kókosolía
- 1 laukur
- 1 púrra
- 2 gulrætur
- 2-3 cm engifer
- 1 dós maukaðir tómatar
- 1 msk madras karrý krydd
- 1 tsk túrmerik
- 2 msk grænmetiskraftur
- 2 hvítlauksgeirar
- 2 dl kókosmjólk
- salt og pipar
- lúka af ferskri steinselju
- safi úr 1/2 lime
- 1 liter vatn
Aðferð:
- Bræðið kókosolíuna í potti, setjið karrý, túrmerik og lauk út í og leyfið að malla í smá stund.
- Bætið gulrótum, púrru og engifer út í pottinn.
- Bætið svo vatni, krafti, tómötum og hvítlauk út í.
- Leyfið súpunni að malla við meðal hita í ca 10 mín.
- Að lokum fer kókosmjólkin út í ásamt lime safanum og steinseljunni.
- Smakkið til og kryddið með salti og pipar og setjið fiskinn út í.
Verði ykkur að góðu 🙂
[…] Karrý-kókos grænmetissúpa/ kjúklingasúpa og fiskisúpa eru alltaf mjög vinsælar. Ætla að gera fiskisúpu í þetta skiptið því það er svo langt […]