Mangó-karrý fiskur

Hér kemur ótrúlega einfaldur, fljótlegur og góður fiskréttur.  Ég hef í mörg ár eldað kjúkling í þessari sósu en einhverra hluta vegna hefur mér aldrei dottið í hug að nota fisk.  Þessi hefur slegið þvílíkt í gegn hjá fjölskyldunni.  Ég elda hann bara á pönnunni og þar með er þetta orðið skyndiréttur sem kemur sér oft vel.

IMG_4956

Hráefni:

  • 800 gr Fiskur (ég nota oftast þorsk)
  • 2 dl þykk Kókosmjólk (þessi litla bleika í fernunum)  og 2 dl vatn eða 4 dl kókosmjólk úr dós
  • 4 msk mangó chutney
  • 1 tsk kókosolía
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 1 tsk túrmerik
  • 1 tsk karrý
  • 1 msk grænmetiskraftur
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Fersk steinselja, ef þið eigið hana til (strá yfir í lokin)

Aðferð:

  1. Hitið pönnu og bræðið olíu, setjið hvítlaukin á, ásamt kryddunum í örstutta stund (hvítlaukurinn má alls ekki brenna)
  2. Bætið kókosmjólkinni út í ásamt mangómaukinu og grænmetiskraftinum.
  3. Setjið fiskinn í sósuna, setjið lokið á og eldið hann í ca 4 – 5 mín.

Svo fljótlegt og þægilegt og alltaf gott mál að elda eitthvað sem börnin elska.  Mangó Chutney telst nú samt varla vera heilsuvara enda inniheldur það ca. 40 % sykur, en það er bara svo ægilega gott…málið er nefnilega það, ég þori varla að viðurkenna það en mér finnst fiskur ekkert ægilega góður, eða sko, hann er alveg góður en ég er aldrei sérstaklega spennt fyrir að elda fisk.  Mér finnst eins og mér eigi að þykja hann alveg rosalega góður af því að hann er svo hollur.   En af því að börnin elska öll fisk þá elda ég hann alltaf allavegna 1x í viku.  Og svo við komum aftur að mangó chutney-inu þá get ég bara vel hugsað mér að elda þennan fisk því mangómaukið gerir þennan rétt svo góðan. Þannig að ég tek bara Mary Poppins á þetta… „bara matskeið af sykri gerir meðalið svo gott“ 😉

Njótið dagsins og takk fyrir að fylgjast með

Published by

5 thoughts on “Mangó-karrý fiskur

  1. Ég eldaði .þennan í gær og meira að segja gikkurinn minn borðaði vel af því 🙂 Geggjaður réttur og fljótlegur. En ef ég ætla að nota kjúkling, sem mig langar líka að prófa, hvað þarf kjúklingurinn þá að malla lengi í sósuni?

    1. En gaman að heyra 🙂
      Þegar ég hef eldað kjúkling hef ég bara byrjað á því að steikja kjúklinginn og þegar hann er búin að brúnast aðeins helli ég sósunni út á og leyfi því að malla í ca 5 mín. Ótrúlega auðveldur réttur sem passar meira að segja í fínasta matarboð 😉
      Kær kveðja,
      Oddrún

Leave a Reply to heilsumammanCancel reply