Jæja, er ekki komin tími á nýja uppskrift? Einu uppskriftirnar sem birtast núna eru bakstur og sætindi, ástæðan er jú auðvitað sú að ég er búin að vera að stússast í nammi námskeiði undanfarið ásamt því að útbúa hefti stútfullt af nammi og baksturshugmyndum í hollari kantinum.
Hér kemur ein uppskrift úr heftinu, þessi kaka er í miklu uppáhaldi hjá fjölskyldunni. Hún er svona frekar djúsí… einn sunnudaginn var alveg gersamlega brjálað veður, allir inni og öllum langaði í eitthvað hrikalega gott. Ég lét til leiðast og bakaði þessa djúsí köku. Fyrirmyndin er kaka sem ég bakaði stundum á árum áður, þá var hún alveg rosalega sæt, stútfull af sykri, en hér er svona heldur betri útgáfa.
Hráefni:
- 6 dl möndlumjöl
- 1 dl kakó
- 2 tsk vínsteinslyftiduft
- örlítið salt
- 0,75 dl kókosolía
- 3 egg
- 1 dl hrásykur
- 25 dropar stevía (var með Orginal frá Via Health)
- 1 -1,5 dl valhnetur
- 50 g 70 % súkkulaði
- Karamellusósan:
- 1/2 dl kókosolía/smjör
- 1/2 dl hlynsýróp/kókospálmasykur
- 1 dl kókosmjólk/rjómi
- 0,5 tsk vanilluduft
Aðferð: setjið allt í pott nema vanilluduftið og hrærið mjög vel í nokkrar mín þangað til karamellan lítur vel út, bætið vanilliuduftinu að lokum út í.
- Ofan á:
- 1 dl af smátt söxuðum pecan hnetum
- 50 gr 70 % súkkulaði
Aðferð:
- Blandið saman þurrefnunum.
- Bræðið kókosolíuna við lágan hita eða í vatnsbaði.
- Hrærið saman eggjum, sykri, stevíu og kókosolíu.
- Blandið þurru og blautu efnunum saman.
- Bætið hnetum og súkkulaði saman við.
- Bakið víð 200° í ca 20 mín. (ath. fer eftir ofninum, ekki baka hana of lengi svo hún verði þurr og hörð)
- Þegar nokkrar mínútur eru eftir af bökunartímanum hellið þið karamellunni yfir ásamt pecan hnetunum.
- Þegar kakan er tekin út er söxuðu súkkulaði hellt yfir og látið bráðna.
[…] mjólkurlaus Hér kemur ein af mínum uppáhalds uppskriftum. Þetta er svipuð þessari köku nema ég hef öðruvísi karamellu og uppskriftin er minni. Ég gaf Fréttablaðinu þessa […]