Dásamleg hnetusteik (eða hnetubuff)

Fyrir um það bil ári síðan birtist uppskrift í dagblaði af hnetusteik.  Mér leist afskaplega vel á þessa uppskrift, hún var einföld, innihélt fá hráefni og ekki rándýr.  Ég hef afskaplega gaman af því að finna vel heppnaða grænmetisrétti sem allri fjölskyldunni finnst góðir, ég prufa margfalt meira en ég set hingað á síðuna, af þeirri ástæðu að það fellur ekki allt í kramið.  Ég gerði þessa uppskrift nokkrum sinnum og hef gert hana á nokkra mismunandi vegu, semsagt geri hana ekki alltaf nákvæmlega eins.  Ég gerði hana síðast í vikunni og það sem heimilisfólkinu fannst maturinn góður 🙂   Það má bæði móta buff og baka í ofni (geri það oft) en einnig má líka setja hana í mót og baka eins og steik.

Meðlætið getur verið mjög mismunandi eftir tilefninu eða hvort það sé helgi eða virkur dagur, það má búa til sveppasósu, sætkartöflumús, eplasalat og apríkósu chutney.  Eða bara gott salat og mangósósu eins og ég gerði í vikunni þegar ég tók þessa mynd.

hnetubuff

Hráefni:

  • 5 dl soðin hýðishrísgrjón eða soðið kínóa
  • 1 laukur (rauðlaukur eða gulur), smátt saxaður
  • 1 sellerírót
  • 2-3 gulrætur (ekki í upphaflegu uppskriftinni en mjög gott)
  • 1,5 dl apríkósur (má líka setja döðlur), soðnar og maukaðar
  • 200 g heslihnetur, ristaðar og saxaðar
  • 1 tsk salt (himalayja, sjávarsalt eða maldon salt)
  • 1 msk paprika
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 2 msk grænmetiskraftur (notaði frá Himneskri hollustu, hann inniheldur t.d. steinseljurót og fleiri jurtir sem mér finnst passa sérstaklega vel)

Í upphaflegu uppskriftinni notar höfundurinn 1 chilli og 3-4 msk kreólakrydd frá Pottagöldrum.  Ég bara gleymi alltaf að kaupa þess kryddblöndu en í staðinn hef ég notað paprikuna og grænmetiskraftinn.

Aðferð:

  1. Sjóðið hýðishrísgrjón eða kínóa (best væri auðvitað að eiga þau tilbúin).
  2. Setjið sellerírótina og gulræturnar í matvinnsluvél og rífið niður.
  3. Hitið pönnu, setjið 1 msk af kókosolíu og hitið laukinn í rólegheitum, bætið svo sellerírótinni og gulrótunum út á og leyfið því að malla.
  4. Bætið apríkósunum/döðlunum út á ásamt kryddinu.
  5. Bætið hnetunum að lokum út í.
  6. Bætið hýðishrísgrjónunum saman við deigið.
  7. Mótið buff eða setjið í mót.
  8. Stráið sesamfræjum yfir.
  9. Bakið við 200°c buff í ca. 20 mín en steikina í ca. 40 mín

Buffin á leið í ofninn:

IMG_6664

Þessi uppskrift dugar í ca. 20 buff og eitt svona mót, semsagt 2x í matinn fyrir 5 manna fjölskyldu 🙂 IMG_6666

Buffin komin út úr ofninum: IMG_6667

Þetta er alls ekki nein flókin matseld en eini ókosturinn er töluvert uppvask en það jafnast út þar sem þetta dugar 2x í matinn 😉

Þar sem úrklippan úr blaðinu er glötuð get ég því miður ekki sagt ykkur hvaða snillingur gaf þessa uppskrift en kannski er einhver sem veit eða þekkir þessa uppskrift 🙂 )

Verði ykkur að góðu 🙂

Published by

One thought on “Dásamleg hnetusteik (eða hnetubuff)

Leave a Reply