Geggjað banana pekanhnetu múslí

Hér er uppskrift sem ég var að dunda mér við í gær og ég er svo spennt að deila með ykkur.  Þetta er svo gott múslí að það mætti nánast flokka það undir nammi og það besta við það er að það er sykurlaust sem vonandi gleður marga sykurpúka svona í upphafi árs þegar margir eru farnir í detox-hreinsunar-safa-diet-gírinn eftir allt sukkið síðustu vikurnar 😉

Það er eitt vandamál við þessa uppskrift að það er sú að það er eiginlega bara of gott, ég bjó til hálfa uppskrift seinnpartinn í gær og hún var búin klukkan ellefu og þá bjó ég til meira svo það væri til í morgunmat í morgun.  Svo það þarf að finna einhver ráð til að fela krukkuna ef ég held áfram þessari framleiðslu.

bananamúslí

Fyrirmyndin kemur af einu af mínu uppáhaldsbloggi, Naturallyella, þangað leita ég oft að skemmtilegum hugmyndum.  Ég breytti uppskriftinni þó talsvert og hér kemur mín útgáfa:

Hráefni:

 • 2 þroskaðir bananar
 • 0,75 dl Kókosolía brædd
 • 20 dropar kókos stevía frá Via Healt (eða Original)
 • 1 tsk kanill
 • örlítið salt
 • 12 dl grófir hafrar
 • 1,5 dl pekanhnetur

Aðferð:

 1. Hitið ofninn í 200°c
 2. Bræðið kókosolíuna í vatnsbaði.
 3. Maukið banana með töfrasprota.
 4. Blandið saman bananamaukinu, kókosolíunni, kanil, salti og stevíu.
 5. Saxið hneturnar og blandið ásamt höfrunum saman við bananablönduna.
 6. Dreifið blöndunni ofan á bökunarpappí í ofnskúffu og bakið í ca. 20 mín en hrærið reglulega í blöndunni.
 7. Takið út og leyfið blöndunni að kólna.  Múslíið verður stökkt þegar það kólnar.

Athugð að ofnar eru mismunandi, kannski þarftu að baka blönduna í styttri tíma svo það borgar sig að fylgjast vel með.

bananamúslí

Það voru allir mjög sáttir með morgunmatinn í morgun og það var vel borðað.  Með múslíinu bjó ég til Jarðaberja-möndlu “jógúrt”  hér kemur uppskrift af því:

 • 7-8 dl af frosnum jarðaberjum og ananas
 • 4-5 dl af heimatilbúnni möndlumjólk
 • 1/2 avacado
 • 2 msk möluð hörfræ (eða hveitikím)

Allt sett í blandara og blandað vel saman,  bætið hörfræjunum/hveitikíminu saman við alveg í lokin, jafnvel bara hræra með skeið því það á það til að verða rammt.

Verði ykkur að góðu 🙂

Published by

7 thoughts on “Geggjað banana pekanhnetu múslí

 1. Þetta lítur spennandi út en er ekki varhugavert að blanda hveitikímið lengi, verður það ekki ramt?

  1. Vel athugað, er búin að breyta í textanum 😉
   Gott að hafa mömmu vakandi yfir sér þegar stelpan er að flýta sér aðeins of mikið 🙂

 2. Grófir hafrar, eru það tröllhafrar eða má nota venjulegt haframjöl með, svona þar sem ég á ekki 12dl af tröllhöfrum?

  1. Sæl,
   Það eru tröllahafrar eða t.d. Grófar Hafraflögur frá Himneskri hollustu en ekkert mál að nota haframjöl líka, ég var einmitt að gera einn og hálfan skammt áðan og notaði nokkra desilitra af fínna haframjöli, bara nota það sem að er til 🙂
   Gangi þér vel, það væri gaman að vita hvernig það kemur út 🙂
   Kær kveðja,
   Oddrún

 3. Sæl aftur. Ég átti sem betur fer meira af tröllahöfrum en ég hélt, en setti smá venjulegt haframjöl með. Þetta kom mjög vel út. En af því að ég átti ekki möndlumjólk bjó ég í staðinn til “jógúrt” úr hreinu skyri, léttmjólk og frosnum jarðarberjum í morgun, setti örfáa stevíudropa útí til að sæta og borðaði svo með múslíinu. Eða réttara sagt, ég og börnin borðuðum þetta öll, og 6 ára dóttir mín fékk sér tvisvar sem telst til tíðinda þar sem hún er yfirleitt mjög róleg í morgunmatnum (hefur ekki mikla lyst). Algjört success!

Leave a Reply to heilsumammanCancel reply