Linsubaunabolognese

Hérna kemur uppskrift sem er í mjög miklu uppáhaldi hjá mér.  Ég hef nokkrum sinnum undan farin ár prufað svona linsu bolognese sósu en hef ekki alveg náð að heillast, hef prufað að nota rauðar linsur, fannst það ekki alveg vera að gera sig, hef prufað að setja sæta kartöflu, fannst það of væmið og ýmsar tilraunir gerðar áður en ég hætti bara að fara eftir sér uppskriftum og hugsaði með mér, ég bý bara til venjulega sósu en hef linsur í stað hakks, já stundum þurfa hugmyndirnar ekkert að vera flóknar.

IMG_6584Þetta er ódýr réttur, sérstaklega þar sem spelt spaghettíið var keypt á 100 kr pokann í lager útsölu Yggdrasils fyrir jól, sem betur fer hafði ég vit á því að kaupa slatta því börnin á bænum elska spaghetti.  Ég hugsa að kvöldverðurinn í gærkvöldi hafa kostað um 500 kr fyrir okkur 5 og það eru til tveir skammtar til að taka með í nesjahá þetta kallar maður að lifa ódýrt.

En skellum okkur í uppskriftina:

Hráefni:

  • 1 laukur
  • 3 hvítlauksrif
  • 2-3 stórar gulrætur 
  • 1-2 sellerístönglar (má sleppa)
  • 1 1/2  dl brúnar linsur
  • 1-2 dl vatn (gæti þurft meira)
  • 1 tómatpassata úr Solluhillunni
  • 2 msk tómatpuré
  • 2 msk oregano eða timían (eða bara smá af hvoru um sig)
  • 2 msk paprika
  • salt og pipar
  • 1 msk grænmetiskraftur
  • Væn lúka fersk steinselja

 Aðferð:

  1. Hitið pönnu og mýkið lauk í smá olíu, bætið við gulrótum og sellerí.
  2. Bætið linsunum, vatninu, tómatmaukinu, kryddinu og kraftinum á pönnuna og leyfið réttinum að malla við lágan hita í ca. 20-30 mín.
  3. Sjóðið spelt pasta samkvæmt leiðbeingum og berið fram með góðu salati. Það er gott að setja eitthvað yfir réttinn í lokinn t.d. smátt saxaðann vorlauk, ferska basilíku eða annað ferskt krydd og  rifin parmesan ost.

Best er að láta linsurnar liggja í bleyti yfir daginn eða yfir nótt því þá verða þær mun auðmeltanlegri. Ef þíð eruð tímabundin eða gleymið því þá eru 15-20 mín samt betri en ekkert.

Ef þið eruð hrædd um að það verði of mikið baunabragð af réttinum er líka hægt að sjóða baunirnar í sér potti, skola þær svo og hella þeim tilbúnum út í réttinn.

En af hverju að vera flækja málin, af hverju ekki bara að hafa hakksósu með spaghettíinu ?  Það spurði eitt barnanna minna mig í gær!  Jú, fyrsta lagi eru linsurnar mjög ódýrar en í öðru lagi þá eru þær bara brjálæðislega hollar og gaman að gera eitthvað sem öllum finnst gott þar sem þær eru í aðalhlutverki.

Hér kemur smá upprifjun af hverju það er góð hugmynd að borða linsur reglulega:

  • Þær eru góðar fyrir hjarta heilsuna.
  • Þær innihalda mikið magn af trefjum og hafa því m.a. góð áhrif á blóðsykurinn.
  • Þær innihalda mikið magn af fólati, magnesíum og járni (og því frábær kostur fyrir þær ófrísku).
  • Þær innihalda fáar hitaeiningar en gefa mikla fyllingu og henta því vel þeim sem eru að reyna að grenna sig.
  • Þær innihalda góð flókin kolvetni og gefa því góða orku.
  • Þær eru góð uppspretta próteins.

Verði ykkur að góðu 🙂

Published by

One thought on “Linsubaunabolognese

Leave a Reply