Skúffukaka – tilvalin fyrir krakka að baka

Það var einn laugardaginn sem krökkunum vantaði eitthvað að gera, stelpurnar voru farnar í eldhúsið að sulla eitthvað og farnar að ná sér í hitt og þetta í bökunarskúffuna til að fara að „baka“.  Í stað þess að eyða þessum hráefnum í eitthvað sull sem myndi sennilega enda á mér að þrífa upp bauð ég þeim að baka handa okkur skúffuköku.  Þetta fannst  þeim spennandi og fór svo að það var bökuð skúffukaka 2 daga í röð og þær sáu um þetta alveg sjálfar.  Stórsniðug hugmynd ef krakkarnir eru búnir að læra að lesa og auðvitað þurfa þau að lofa því að ganga frá eftir sig 😉

Þessi kaka er mjög góð, hef boðið upp á hana í mörgum veislum fyrir krakka og þau eru mjög hrifin.  En þó er miklu minni sykur en jafnan er í svona kökum auk þess sem hún er mjólkurlaus og hentar því vel fyrir mjólkurofnæmis og óþolspésa.

IMG_8128

Fyrsta verk er að finna svuntur og koma sér í gírinn, finna til öll hráefni og vera viss um að þau skilji allar tölur svo þau setji t.d. ekki 7 msk af matarsóta í staðinn fyrir 1 bara af því að mamman skrifar 1 eins og 7  ….. en jú mistökin eru jú til að læra af þeim 😉

IMG_8129

Á mínu heimili er nauðsynlegt að deila niður verkefnunum svo systurnar baki ekki bara vandræði.  Önnur sá um blautu hlutina en hin þá þurru.

IMG_8130

Hráefni í skál 1:

  • 7 dl spelt (gróft og fínt til helminga)
  • 2,5 dl kókospálmasykur (eða hrásykur)
  • 8 msk kakó
  • 3 tsk vínsteinslyftiduft
  • 1 tsk matarsóti
  • 1 tsk salt

Hráefni í skál 2:

  • 4 egg
  • 4 dl kókosmjólk (1 dós)
  • 25 dropar stevía (mjög auðvelt að mæla dropa á Via Health stevíunni)
  • 1 1/4 dl kókosolía, lífræn sólblómaolía eða önnur góð hitaþolin olía
  • 1 tsk vanilludropar

IMG_8137

Aðferð:

  1. Blandið hráefnunum vel saman í hvorri skál fyrir sig.
  2. Hellið blautu efnunum saman við þurru efnin og blandið mjög vel saman.
  3. Penslið ofnskúffu (ath. þessi uppskrift er í stóra ofnskúffu) og hellið deginu í ofnskúffuna.
  4. Bakið við 180°c í 20 mín.

 

IMG_8139

IMG_8142

IMG_8144

Kremið ofan á kökuna:

  • 100 g appelsínusúkkulaði
  • 100 g 70 % súkkulaði
  • 3 msk kókosolía
  • 2 msk hlynsýróp
  • 1 egg

Aðferð:

  1. Bræðið súkkulaðið við mjög vægan hita.
  2. Blandið saman við kókosolíu og hlynsýrópi.
  3. Þegar það hefur blandast vel saman, takið þá pottinn af hellunni og kælið í smástund.
  4. Setjið 1 egg út í og hrærið vel með handþeytara þangað til kremið er orðið þykkt og fínt.
  5. smyrjið kreminu á kökuna þegar kakan hefur kólnað.

 

IMG_8147

IMG_8148

Gjörðu svo vel mamma 🙂

Skúffukaka

Mmmmmmm ég get sko alveg vanist þessu að láta baka ofan í mig um helgar 🙂

 

 

Published by

4 thoughts on “Skúffukaka – tilvalin fyrir krakka að baka

Leave a Reply to heilsumammanCancel reply