Heimatilbúið Corny

Heimatilbúið Corny er helgarnammið að þessu sinni. Ég held að stelpurnar mínar biðji um Corny í hvert skipti sem þær fara með mér í búðina. Þeim finnst það nefnilega ekki vera nammi! Mamma, þetta er eitthvað svona heilsu! Í Alvörunni !!!! Einmitt já já, það versta er að ég held að margir hugsa það sama og þær. Jæja, en það þýðir ekki að vera alltaf leiðinlega mamman heldur bara bretta upp ermarnar og búa til skynsamlega útgáfu. Allir fjölskyldumeðlimir búnir að gefa topp einkunn  🙂 

Grunnurinin að þessari uppskrift kemur frá henni Sólveigu sem er með Lífstíl Sólveigar, frábær síða og stútfull af skemmtilegum hollustu hugmyndum.  Í síðustu viku birti hún uppskrift af Granóla sem mér leist svo ljómandi vel á og prufaði.  Það fyrsta sem stelpurnar mínar sögðu þegar ég var búin var:  Mamma, bjóstu til Corny ?

Ég hef prufað mjög marga svona granóla bari en ég hef aldrei verið 100 % ánægð. Þeir hafa annaðhvort innihaldið alltof mikla sætu eða hreinilega molnað í sundur.  En núna datt ég í lukkupottinn og þessi uppskrift er komin til að vera.  Takk Sólveig fyrir þessa frábæru uppskrift 🙂

Í upprunalegu uppskriftinni voru kasjúhentur og möndlur en þar sem ég átti ekki nóg af þeim þegar ég bjó þetta til fyrst notaði ég pekanhnetur á móti og það kom svo svakalega vel út að ég ætla að halda því inni framvegis.  Það er annað sem ég breytti og það er að bæta kókosflögunum og trönuberjunum saman við undir lokin svo það verði ekki ofeldað.

Heimatilbúið Corny

Hráefni:

Ath. ef þið eigið ekki amerískt bollamál er fínt að nota svona kakóbólla, uþb. 2,3- 2,5 dl 

 • 1 Bolli Pekanhnetur
 • 1/2 bolli möndlur
 • 1/2 Bolli Kasjúhnetur
 • ¼ Bolli Graskersfræ
 • ¼ Bolli Sólblómafræ
 • ¼ Bolli Hörfræ
 • ¼ Bolli Trönuber
 • ½ Bolli Kokosflögur
 • ¼ Bolli Kokosolia
 • ½ Bolli Hunang (ég notaði tæplega)
 • 1/2 tsk hreint vanilluduft
 • 1 tsk. Gott salt

Aðferð: 

 1. Setjið hneturnar og fræin í matvinnsluvél eða saxið gróft . (Ef þið notið matvinnsluvél ekki mala alveg í spað, bara flott að hafa gróft).
 2. Bræðið kókosolíu og hunang og blandið vanilluduftinu og saltinu samanvið. (Ath. ekki setja kókosflögurnar og trönuberin saman við).
 3. Blandið öllu saman og setjið í mót.  Ég notaði kringlótt sílíkonmót ca. 25 cm.
 4. Bakið í 15 mín við 180 ° C  hrærið nokkrum sinnum í blöndunni.
 5. Eftir 15 mín takið út mótið, blandið kókosflögunum og trönuberjunum saman við (saxið það smátt) þjappið blöndunni vel saman og bakið í 5-7 mín.
 6. Takið út og ath. stykkin eru mjúk en þau harðna þegar þau kólna.  Stingið inn í ísskáp eða frysti  í ca. 30 mín, allt eftir því hversu mikið ykkur liggur á að smakka 😉
 7. Skerið í bita eftir eigin smekk, geta verið litlir kassar eða svona langir barir eins og Corny stykkin.
 8. Spari er mjög skemmtilegt að bræða ca. 30-40 g af dökku súkkulaði og skreyta barina örlítið.

Verði ykkur að góðu og njótið helgarinnar 🙂

 

Published by

5 thoughts on “Heimatilbúið Corny

 1. á að hræra nokkrum sinnum í blöndunni á meðan hún er í ofninum ??
  ss ekki þjappa í formið strax áður en þa fer í ofnin !!
  verð að prófa þetta mín eru nefnilega corny sjúk líka 😀

  1. Sæl Ásta,
   Já það er rétt skilið, hræra nokkrum sinnum (eða kannski 2x alveg nóg) og svo þjappa vel þegar búið er að bæta kokosnum og rúsínunum saman við.
   Takk fyrir að fylgjast með síðunni 🙂
   Kv,
   Oddrún

  1. Sæl,

   Það fæst í öllum helstu heilsubúðum og eins í heilsuhillunum í Nettó og Fjarðarkaup. Það er bæði til frá Rapunzel og einnig Naturata. Þetta er hreint vanilluduft svo það þarf mjög lítið af því. Það kostar nokkur hundruð krónur en endist í marga mánuði.

   Kv,
   Oddrún

Leave a Reply to heilsumammanCancel reply