REKO – ný leið til að versla beint af bændum

Ef þið hafið ekki enn heyrt um REKO þá mæli ég með því að bæta úr því hið snarasta.  REKO  er glænýtt fyrirkomulag hér á landi.  Þetta snýst um að stytta bilið á milli bænda og neytenda og einfalda verslun beint frá býli.   Hér er grein sem útskýrir þetta betur en í stuttu máli virkar þetta svona:

Þú skráir þig í REKO hóp á facebook, Það eru komnir 3 hópar á Facebook núna:  REKO Vesturland, REKO Reykjavík og REKO Austurland.  Einu sinni í mánuði (eða það er planið skilst mér) er búinn til viðburður um afhendingu.   Þar inni skrá seljendur hvað er í boði, hvað það kostar og hvenær þarf að vera búin að panta.  Þar geturðu pantað eða sent tölvupóst á netfang seljanda.  Þú gengur svo frá greiðslu áður en kemur að afhendingu.  Þegar kemur að afhendingu mætir þú á svæðið og sækir þínar vörur.

Ég sá þetta auglýst í síðustu viku og fannst þetta svo sniðugt að ég varð að vera með í fyrstu afhendingu og sjá hvernig þetta færi fram og en sérstaklega var ég auðvitað spennt fyrir þeim vörum sem voru í boði.

Það sem ég keypti í þessari fyrstu tilraun voru 2 heilir kjúklingar frá Litlu gulu hænunni og 2 kg af kjúklingabringum.   En fyrir þá sem ekki vita eru kjúklingarnir frá Litlu gulu hænunni aldir á óerfðabreyttu fóðri ásamt heilu byggi og grænmeti fyrir utan það að hafa gott pláss og spóka sig úti þegar veðrið er gott.  En einnig nældi ég mér í 3 kg af nautahakki frá Hálsi í Kjós.  Kjötið er af Galloway/Angus nautgripum sem eru 100 % grasfóðraðir.   Það var ótrúlega margt spennandi í boði en ég ákvað að byrja á þessu.  Mér fannst verðið gott og bara örlítið dýrara heldur en venjulegur kjúklingur (alin á erfðabreyttu soja og maís eins og flestir kjúklingar) og venjulegt nautahakk.

Afhendingin í Reykjavík fór fram á bílaplaninu hjá Krónunni, Lindum.

Nú hlakka ég bara til að elda eitthvað gott úr þessu úrvals hráefni 🙂

Reko

 

Sjáumst vonandi á næstu REKÓ afhendingu 🙂

 

 

 

Published by

Leave a Reply