Heilsuátak anyone ??

Hvað ætli margir hafi slegið leitarorðið “detox”, “heilsuátak” eða önnur heilsutengd orð inn í leitarvafrann hjá sér fyrsta mánuð ársins.  Ég veit allavegna að inboxið mitt er að fyllast af allskonar gylliboðum um tilboð í hin og þessi heilsutengdu prógramm sem öll eiga að það sameiginlegt að gera líf mitt ennþá betra 2020!… og til þess að vera alveg hreinskilin þá viðurkenni að ég var búin að googla 2.janúar  hvernig ég kæmis í toppform á 12 vikum þegar fjölskyldan ætlar í smá frí til Spánar… en batnandi fólki er best að lifa, er það ekki ?

Það er ekkert skrítið að í byrjun árs líði okkur þannig að “nú þurfum við nú aldeilis að gera eitthvað í okkar málum”.  Flestir hafa lifað aðeins hærra en venjulega síðustu vikurnar á árinu með tilheyrandi mat og drykk.  Það er ekkert skrýtið að margir upplifa það að vera útþandir og bólgnir eftir frí.  En lífið snýst um jafnvægi, stundum leyfum við okkur meira en annars,  en aðalmálið er hvað við gerum dags daglega.  Þegar fríið er búið er tími til að taka upp betri siði.  Fylla ísskápinn af fersku grænmeti og hætta að hreinsa upp síðustu konfektmolana sem þér þykja ekki góðir undir venjulegum kringumstæðum !

En er heilsuátak endilega málið ?  Nýtt ár þýðir auðvitað ákveðin tímamót og þar af leiðandi góður tími til að tími til að taka upp betri venjur og setja sér ný markmið.  En hvað liggur að baki, ertu að refsa þér fyrir hegðunina síðustu vikurnar eða langar þig í átak af því að þú vilt virkilega það besta fyrir þig og þarft hvatningu til að koma þér af stað og ná markmiðunum.

Það að hugsa um heilsuna sína ætti ekki að vera áhugamál heldur einfaldlega hluti af lífinu sjálfu.  Það hvernig okkur líður dagsdaglega hefur í raun áhrif á hver við erum.  Hvaða orku við höfum til að takast á við lífið okkar og verkefnin okkar.  Næringin okkar hefur áhrif á hvort við nennum hinu og þessu.  Þannig að okkar dagsdaglega líðan fer mikið eftir því hvernig við hugsum um okkur sjálf.  Fáum við nægan svefn ?  Fáum við góðan svefn?  Nærum við okkur vel ? Erum við að borða nóg, erum við að borða of mikið eða er það sem við borðum næringarríkt og litríkt?   Hreyfum við okkur nóg ?  Hreyfing er lífsnauðsynleg og ætti ekki að vera einhverskonar möguleiki fyrir áhugasama!

Það að taka málin í sínar hendur í byrjun árs og ákveða að hugsa vel um sig á nýju ári þarf ekki endilega að vera það að kaupa nýtt kort í ræktinni, skrá sig í einhverskonar átak og setja markið á það að vera komin í toppform um páskana.

Það getur verið það að byrja strax í dag að taka góðar ákvarðanir til þess að þér líði betur á morgun.

  • Til dæmis það að fara í góða gönguferð (það er reyndar snjóstormur og appelsínugul viðvörun þegar þetta er skrifað og mögulega þegar þú lest þetta).  Ganga er frábær heyfing, þú þarft ekki sérstakan útbúnað, hún kostar ekkert,  það er lítil hætta á meyðslum og hún hefur góð andleg áhrif auk þess að bæta svefn (nema gönguferðin sé tekin seint á kvöldin gæti það haft öfug áhrif) og góð áhrif á meltingu.
  • Það gæti verið það að fara fyrr upp í rúm á kvöldin, ekki með símann heldur góða bók.
  • Það gæti verið það að drekka 2-3 auka glös af vatni yfir daginn.
  • Það gæti verið það að skipta 2 kaffibollum í vinnunni út fyrir te.
  • Það gæti verið það fara í gott bað í stað þess að vafra um í símanum á kvöldin.
  • Það gæti verið það að sleppa verkefnum öðru hverju til að fara á vinkonudeit.

Allt sem við gerum hefur áhrif.  Það ætti ekki að snúast um allt eða ekkert.  Stundum er gott að bara byrja í dag á einhverju einu eða tvennu frekar frekar en að setja háleit markmið sem er ekki víst að við náum.  Þegar þú hefur prófað það í nokkra daga að fá þér daglega gönguferð, fara fyrr upp í rúm eða slaka í baði í stað þess að vafra um í símanum finnur þú hvað það gerir þér gott að þá er auðveldara að setja markmið fyrir næstu daga.  Í upphafi er fínt að setja niður markmið fyrir eina viku í einu þannig verður verkefnið ekki óyfirstíganlegt, erfitt eða fráhrindandi.

Nú hef ég nefnt, hreyfingu, svefn og slökun… en ekki má gleyma mataræðinu.   Besta ráðið er auðvitað það að venja sig á hreinan og næringarríkan mat allt árið.  Þannig að þó svo að við nælum okkur einstöku sinnum í einn eða tvo konfektmola, tertusneið eða bara stingum okkur beina leið ofan í Ben and Jerry’s ísdolluna þá er grunnurinn alltaf góður.  Maturinn sem við borðum ætti að vera hreinn og næringarríkur en ekki verksmiðjuframleiddur pakkamatur.  Við þurfum alvöru mat, nægt prótein, góða fitu, flókin kolvetni og nægar trefjar. Vítamínin fáum við svo í litríku grænmeti.

Ef þig vantar hugmyndir með mataræði þá er nú aldeilis góð hugmynd að skella sér á eitt eða fleiri matreiðslunámskeið.  Allt um það hér:  Námskeið vor 2020 

Gangi ykkkur vel í að hugsa vel um ykkur á hverjum degi 🙂

 

 

 

Published by

Leave a Reply