Þetta er frábær hugmynd. Bæði fyrir þá sem eru með mjólkuróþol og líka alla hina. Reyndar er það þannig að margir sem eru með mjólkuróþol þola samt rjóma og smjör í litlum skömmtum. Það er vegna þess að þessar afurðir innihalda minna af mjólkurpróteinum og eru líka minna unnar.
Ég verð nú samt að koma því að hér að ég elska rjóma og finnst það eitt það besta í veröldinni 🙂 En það er alltaf gaman að prufa eitthvað nýtt 🙂
En aftur að kókosrjómanum.
Setjið kókosmjólk inn í ísskáp í ca 1 klst eða í frysti í styttri tíma. Ekki nota Light útgáfu það er bara meira vatn í henni og því ekki alveg að virka þegar við ætlum að nota “rjómann”
Opnið dósina og takið það sem er búið að harðna. Setjið í skál og þeytið í smástund, það er nóg að nota pískara.
Það er gott að bragðbæta með smá vanilludufti og/eða smá hlynsýrópi.
Vökvann sem verður afgangs má geyma í ísskápnum og frábært að nota t.d. í smoothie.
Það er hægt að leika sér með þetta og bæta við t.d. jarðaberjum eða hráu kakói og aðeins meiri sætu og búa þannig til kökukrem eða bara jarðaberjarjóma/ súkkulaðirjóma.
Hér gerði ég t.d. döðlukökuna hennar Ebbu Guðnýjar og setti á hana jarðaberjakrem úr kókosrjóma.
Byrjaði á því að þeyta rjómann, setti frosin jarðaber í litlu matvinnsluvélina, bætti við hlynsýrópi og hrærði svo allt saman.
Ég gef ekki upp nein hlutföll því það er eiginlega bara smekksatriði, um að gera að prufa sig áfram 🙂
Ég fæ ekki leið á því að hvetja ykkur til að lesa aftan á dósirnar/fernurnar þegar þið kaupið kókosmjólk. Kókosmjólk og kókosmjólk er nefnilega alls ekki það sama. Það er líka hægt að kaupa lífræna í heilsubúðum 🙂
Verði ykkur að góðu 🙂