Risarækjur með kryddmauki og mangósalat

Jæja, hér kemur uppskriftin af risarækjuréttinum sem vakti ekkert smá mikla athygli um daginn. Ég held að ég hafi aldrei fengið jafn mikil viðbrögð við neinni uppskrift fyrr né síðar. Þetta er ein af uppskriftunum á 3ja vikna Gott start námskeiðinu sem er í gangi akkúrat núna. Við bjuggum einmitt til þennan rétt í vikunni og féll hann í mjög góðan jarðveg. Kryddmaukið má að sjálfsögðu nota líka á fisk, kjúkling eða lambakjöt. Frystið afganginn af kryddmaukinu og notið síðar.

Grænt kryddmauk

3 cm (um það bil) engifer

  • 3 stk grænt chili
  • 3 cm (u.þ.b.) engifer
  • 3 þurrkaðar döðlur
  • 3 hvítlauksrif
  • 1 sítróna (safinn)
  • væn lúka steinselja
  • 2 msk góð karrý kryddblanda (Hægt að nota indverska eða tælenska karrý blöndu og eins má líka nota mexíkó kryddblöndu)
  1. Setjið allt í litla matvinnsluvél og vinnið þangað til vel maukað.
  2. Setjið bökunarpappír í box og setjið maukið á pappírinn með matskeið. Passið að hafa gott pláss á milli þannig að þegar maukið frosnar þá er auðvelt að taka 1 msk í einu til að nota. Setjið bökunarpappír á milli laga.

Það má gjarnan margfalda þessa uppskrift og gera tvöfalda eða þrefalda þar sem maukið er geymt í frysti. Úr þessu mauki er gott að búa til milda karrýsósu með kókosmjólk sem hægt er að nota sér eða sem grunn fyrir til dæmis kjúklingarétt eða linsubaunarétt.

Risarækjur með kryddmauki og mangó salat

  • 1 msk avókadó ólía
  • 500 gr risarækjur
  • 2 msk kryddmaukið (hér á undan)
  • 1-2 hvítlauksrif (pressuð)
  1. Setjið rækjurnar ásamt 2 msk af kryddmauki í lokað ílát og leyfið því að marinerast í a.m.k. 1 klst.
  2. Hitið olíu á pönnu og byrjið á því að setja hvítlaukin á pönnuna. Steikið svo rækjurnar í hvítlauksolíunni þangað til þær eru eldaðar í gegn, það tekur um það bil 4-6 mín.

Ef rækjurnar eru frosnar, látið þá buna á þær með köldu vatni, þær afþýðast fljótt þannig.

Mangósalat

(magn af hverju hráefni fer eftir smekk og fjölda)

  • klettasalat
  • mangó í litlum bitum
  • rauð paprika í litlum bitum
  • vorlaukur smátt saxaður
  • kóríander (þeir sem hata kóríander sleppa honum) 

Ég hvet ykkur til að prófa þennan rétt næst þegar sólin skín.

Verði ykkur að góðu.

Linsubauna bolognese

Linsubaunir eru fáránlega hollar, stútfullar af næringu og svo eru þær mjög ódýrar.   Þær henta því frábærlega vel í upphafi árs þegar margir hafa kannski borðað aðeins of mikið síðustu vikurnar og buddan er létt.

Sjálfri finnst mér best að leggja allan pokann í bleyti í einu og sjóða.  Taka svo frá það sem ég er að fara nota en frysta hitt í mátulegum skömmtum.    Þannig er ég búin að flýta fyrir næst þegar eldað er úr linsubaunum.  Mörgum finnst vesen að þurfa að leggja baunirnar í bleyti en það er nú ekkert svo flókið 🙂   Sumir vilja meina að það þurfi ekki að leggja linsur í bleyti eins og aðrar baunir.  En við það að leggja baunir í bleyti verða þær auðmeltalengri… það þýðir á góðri íslensku að maginn blæs ekki upp af lofti eftir kvöldmat og síðan eruð þið fram eftir kvöldi að losa loft!   Ég legg alltaf linsur í bleyti líka af þessari enföldu ástæðu, þær verða auðmeltanlegri!

Uppskrift:  

(uppskrift handa 4-5)

  • 1 msk hitaþolin steikingarolía
  • 3-4 gulrætur
  • 1-2 sellerístönglar
  • 2-3 dl soðnar brúnar eða grænar linsur (1-1,5 dl ósoðnar)
  • 1 dós smátt maukaðir tómatar eða 400 ml passata
  • 2 msk tómatpuré
  • Kryddið vel með kryddum sem ykkur þykja góð, t.d. oregano, Villijurtir frá Pottagöldrum, paprikukrydd og cumin, samtals ca.  3-4 tsk
  • 1 stk  grænmetiskraftur, gerlaus
  • Væn lúka fersk steinselja og basilika ef þið eigið til.
  • smakkið til með salt og pipar

 

    Aðferð:   

  1. Leggjið linsubaunirnar í bleyti í uþb 2 klst en má alveg vera yfir nótt líka. Hellið vatninu af þeim, setjið í nýtt vatn og sjóðið í 15-20 mín.
  2. Hitið olíu á pönnu, bætið við gulrótum og sellerí og leyfið því að malla aðeins á pönnunni.
  3. Bætið tómatmaukinu, kryddinu og kraftinum á pönnuna og leyfið réttinum að malla við lágan hita í 15-20 mín.
  4. Bætið linsunum við í lokin, kryddið með salt og pipar og bætið kryddjurtunum saman við.
  5. Sjóðið spaghetti að eigin vali eða búið til “spaghetti” úr kúrbít með spíralskera.

 

Eins og ég nefndi hér að ofan þá verða baunirnar auðmeltanlegri við að liggja í bleyti.  Ef þið eruð tímabundin eða gleymið því þá eru  samt 15-20 mín betri en ekkert.

Besti glúteinlausi pizzabotninn

Síðan ég var greind með glúteinóþol fyrir 2,5 ári er ég örugglega búin að prófa 50 mismunandi uppskriftir af pizzubotnum.  Allskonar mismunandi mjöl og samsetningar.  Sumt hefur mistekist alveg hrapalega og á tímabili var ég farin að raða álegginu bara á bökunarpappír 😉 Sumt hefur þó komið ágætlega út, ég var á tímabili komin upp á lagið að baka vefjur á pönnu úr Cassava mjöli sem ég notaði sem pizzubotn en vandinn við það er að Cassava mjöl fæst ekki hér á Íslandi (eða ég hef ekki séð það) og yfirleitt alltaf uppselt á Iherb þegar ég reyndi að panta það.

Það er jú alveg eitthvað úrval af keyptum pizzubotnum en þeir eru yfirleitt mjög dýrir og oft of þykkir fyrir minn smekk.   Ef ég er í algerri tímaþröng og kaupi botn kaupi ég vefjurnar frá Schär og nota þær sem pizzabotn.   En þar sem ég er alltaf að leita að lausn sem er bæði heilsusamlegri og hagkvæmari hef ég alltaf verið að prófa eitthvað nýtt.  Sumir hafa fengið háa einkunn og góða umsögn en hafa verið mjög tímafrekir sem hentar mér alls ekki klukkan 18.00 á föstudögum og ég vil bara græja pizzu NÚNA!

Hér á heimilinu er föstudagspizzan alltaf á sínum stað á hverjum einasta föstudegi svo það er til mikils að vinna að finna hinn fullkomna botn.  OK, sko höfum reyndar á eitt á hreinu þegar ég segi fullkomin botn.  Glúteinlaus pizzubotn verður aldrei neitt í líkingu við venjulegan djúsí hveiti pizzubotn, ég tala nú ekki um gúrmei súrdeigsbotn.  En þegar það er ekki í boði gerir maður aðeins minni væntingar.  Fullkomin botn þýðir því í mínum huga að hann sé einfaldur, fljótlegur, ódýr og bara þið vitið, nokkuð góður 😉  Mér finnst best að hafa botninn bara vel þunnan og hlaða bara frekar meira áleggi á.   Á þessum myndum er hráefnið reyndar kannski frekar fátæklegt, ólífur og tómatar.  Á góðum degi myndi ég bæta við sveppum og jafnvel serrano.

Um daginn póstaði Ebba Guðný uppskrift á Instagram sem ég sá og hugsaði “þessa samsetningu hef ég ekki gert”.  Tók mynd af skjánum og prófaði nokkrum dögum seinna.  Þvílíkur hittari.  Er búin að gera hann nokkrum sinnum og prófa að prófa að breyta smá í hina og þessa átt.

 

Hér kemur uppskriftin eins og ég hef gert hana eftir nokkrar tilraunir:

Hráefni:

  • 2 tsk fiber husk
  • 1 dl soðið vatn  (fiber husk + vatn blandað saman í bolla)
  • 2 dl glúteinlaust mjöl (möndlumjöl, rísmjöl eða tilbúin glúteinlaus mjölblanda – verður aðeins mismunandi eftir hvaða mjöl er notað, finnst best að blanda saman 2-3 tegundum frekar en að nota eingöngu eina tegund ) Í upphaflegu uppskriftinni er miðað við 100 g en ég er svo löt að teygja mig í viktina að mér hefur fundist mátulegt að nota 2 dl)
  • 2 msk ólífuolía (í upphaflegu uppskriftinni er 1 msk en mér finnst botninn mýkri að hafa þær 2)
  • Vel af kryddi t.d. pizzakrydd, oregano eða villijurtir frá Pottagöldrum

Aðferð: 

  1. Blandið saman hráefnunum og hnoið þannig að deigið verður fín kúla.
  2. Fletjið út á bökunarpappír.
  3. Bakið botninn í  ca. 10 mín við 200°(blástur).   Ég hef bakað hann í 6-7 mín og snúið honum svo við, annars varð hann of mjúkur í miðjunni).
  4. Raðið áleggi að eigin vali á pizzuna.
  5. Bakið í 10 mín og pizzan er klár.

 

Blandið saman þannig að deigið verður fín kúla.

Fletjið út á bökunarpappír:


Bakið botninn í  ca. 10 mín við 200°(blástur).   Ég hef bakað hann í 6-7 mín og snúið honum svo við, annars varð hann of mjúkur í miðjunni).

Raðið áleggi að eigin vali á pizzuna.

Bakið í 10 mín og pizzan er klár.

 

Vonandi finnst ykkur þessi botn jafn góður og mér 🙂

Verði ykkur að góðu…

Ljúffengt lambagúllas

Nú hefur heldur betur kólnað og veturinn mættur á svæðið.  Það kallar klárlega á heitan “mömmumat” eða “ömmumat”.   Eitthvað heitt og kryddað sem hlýjar okkur að innan.

Hér er einföld uppskrift af lambagúllasi.  Þó að það taki réttinn 1,5 klst að eldast þarf ekki að standa yfir pottunum og fínt að nota tímann á meðan maturinn eldast til að sinna börnum og búi ….tja eða bara leggja sig, lesa blaðið eða taka stutta hiit æfingu á eldhúsgólfinu…. hvað sem ykkur langar til að gera 🙂

 

 

 

(Uppskrift fyrir 5)

Hráefni: 

  • 1 msk hitaþolin steikingarolía
  • 500 g lambagúllas
  • 1 msk cumin
  • 1 msk paprikukrydd
  • 1 msk Villijurtir frá Pottagöldrum
  • 1 msk Karrý Madras eða Arabískar nætur (frá Pottagöldrum) eða önnur góð karrý kryddblanda
  • 3-4 gulrætur í sneiðum
  • 4-5 kartöflur í bitum
  •  Bætið við meira af grænmeti eftir smekk, t.d. kúrbít, sæta kartöflu eða brokkolí.
  • 5-6 dl vatn eða soð
  • 2 matskeiðar tómatmauk (paste)
  • 1 msk kókospálmasykur
  • 1-2 grænmetisteningar
  • 1/2  dl kókosmjólk eða rjómi
  • Smakkið til með salti og pipar

Aðferð: 

  1. Hitið olíu í potti.
  2. Setjið kjötið í pottinn ásamt kryddunum og steikið í smástund.
  3. Bætið við vatni/soði og grænmetisteningi ásamt tómatmauki og látið  malla við lágan hita í 1 klst.
  4.  Bætið grænmetinu saman við
  5.  Leyfið réttinum að malla rólega í 20 mín.
  6. Bætið kókosmjólk eða rjóma saman við og bragðbætið með salti og pipar.
  7.  Berið fram með soðnum hýðishrísgrjónum eða kínóa og fersku salati.

Tómat – basilíku súpa

Það er aðeins farið að kólna og verða heldur hráslagalegt úti svo við höldum okkur í súpu uppskriftunum í bili.  Þessa súpu hef ég gert mjög oft í gegnum tíðina og brá heldur betur í brún þegar ég áttaði mig á því að hún væri ekki hér á síðunni.  Hún er mjög einföld og fljótleg.  Það er sniðugt að bera fram gróft brauð eða hrökkbrauð með pestó með henni en einnig er gott að bera fram harðsoðin egg með henni til að gera máltíðina próteinríkari.

Hráefni:

  • 1 msk hitaþolin steikingarolía
  • 5-6 gulrætur
  • 2 stönglar sellerí
  • 1 lítri vatn
  • 2 grænmetistengingar eða notið soð í staðinn fyrir vatnið (eða hluta af vatninu)
  • 1-2 msk pizzakrydd
  • 2 msk grænt pestó
  • 1 msk kókospálmasykur (má sleppa en gott að setja smá sætu á móti tómötunum)
  • 1 flaska (400 ml) tómat passata
  • væn lúka af basiliku
  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Hitið olíu í potti.
  2. Setjið gulrætur og sellerí út í pottinn ásamt pizzakryddinu og leyfið þessu að malla rólega í kryddinu í smástund.
  3. Bætið öllu saman við pottinn og sjóðið í uþb. 10 mín eða þangað til gulræturnar eru orðnar mjúkar.
  4. Þið ráðið hvort þið maukið súpuna eða hafið hana tæra með grænmetisbitunum.  Það er bara smekksatriði.

 

Ef þið þolið mjólkurvörur er hrikalega gott að setja nokkrar matskeiðar af rifnum parmesan út í pottinn.

Verði ykkur að góðu 🙂

 

Einföld og fljótleg mexíkósk kjúklingasúpa

Börnin á bænum elska kjúklingasúpu og þar af leiðandi verður hún oft fyrir valinu hér á bæ.  Það er frekar langt síðan ég hef sett súpu uppskrift inn á vefinn og því alveg komin tími til.  Flestum súpu uppskriftum hef ég þurft að breyta örlítið síðusta árið eftir að ég komst að því að ákveðnir hlutir fara mjög illa í meltinguna mína.  Já maður er alltaf að læra á sjálfan sig og uppgvöta eitthvað nýtt.  Ég vona þó að það komi að því fyrr en seinna að ég geti bætt þessum hlutum inn í fæðið aftur.   Við erum til dæmis að tala um lauk og  hvítlauk, já þannig að það útskýrir hversvegna ég hef þurft að breyta flestum uppskriftum því ég var með lauk í ÖLLU!   Ég sakna lauksins mjög mikið en það hefur þó eitthvað jákvætt komið út úr þessu þar sem börnunum finnst maturinn betri ef eitthvað er og ég er fljótari að elda 🙂

Fyrirmyndin af þessari súpu er súpan hennar Ebbu Guðnýjar, sjá r !  Ég smakkaði hana fyrst hjá mömmu og hún sló í gegn.  Hún hefur breyst hjá mér heilmikið í tímanna rás.  Hér að neðan er útgáfan eins og ég hef eldað hana með engum lauk.

 

 

Hráefni:

  • 600-800 ml vatn
  • 400 ml maukaðir tómatar eða passata
  • 2 gerlausir grænmetisteningar
  • 1/2 sæt kartafla (eða 2 litlar)
  • 3 gulrætur
  • 2 litlar nípur (eða eitthvað annað grænmeti sem ykkur þykir gott)
  • 1 rauð paprika
  • væn lúka steinselja
  • 1 msk kókospálmasykur (má sleppa en gott að fá örlitla sætu á móti tómötunum)
  • 2 kjúklingabringur kryddaðar vel með cumin, papriku, svörtum pipar og oregno.
  • salt og pipar eftir smekk

 

Aðferð:

  1. Hitið vatnið í potti.
  2. Skerið sætu kartöfluna í litla bita og setjið út í vatnið. Sjóðið í ca. 10-12 mín.
  3. Skerið kjúklingabringunar í bita og steikið á pönnu og kryddið vel.  (hér er líka frábært að eiga til afgang af kjúkling, en bætið þá smá kryddi við súpuna.)
  4. Skerið niður gulrætur og nípu í litla bita en ekki setja út í strax.
  5. Þegar sæta kartaflan er orðin nokkuð mjúk undir tönn farið þá með töfrasprota og maukið hana saman við vatnið.
  6. Bætið út í pottinn grænmetisteningum, maukuðum tómötum, kókospálmasykrinum og grænmetinu.  Leyfið súpunni að malla í um það bil 10 mín.
  7. Bætið kjúklingnum saman við ásamt papriku og steinselju.
  8. Kryddið með salt og pipar og berið fram með lífrænum nachosflögum.

 

Verði ykkur að góðu 🙂