Linsubauna „taco“

Þá líður að mánaðarmótum sem þýðar að Veganúar fer að klárast.  Ég sem ætlaði að setja inn svo margar vegan uppskriftir í mánuðinum.  Ef ég á að velja eina uppáhalds þá held ég að það sé þessi.  Ég var mjög yfirlýsingaglöð að ég myndi að þessu sinni verða 100 % vegan í 3 vikur en til að vera hreinskilin þá tókst það ekki alveg allann tímann.  Íslensk kjötsúpa, kjúklingasúpa og kjúklingasalat slæddust með.  En það að geta talið kjötréttina á annari hendi er nú bara afrek út af fyrir sig og ég er bara ótrúlega ánægð með mánuðinn.   Það er gott innlegg í umræðuna hversu mikill mengunarvaldur kjöt og mjólkurframleiðslan í heiminum fyrir utan auðvitað athyglina á meðferð dýra í verskmiðjubúskap sem er nauðsynleg umræða.

Hér kemur uppskrift af virkilega góðum grænmetisrétt.

Linsu taco

(Uppskrift handa 4-5)

Hráefni:

 • 1 laukur
 • 3 hvítlauksrif
 • 2-3 stórar gulrætur eða fleiri litlar
 • 1-2 sellerístönglar
 • 2 dl brúnar linsur (ósoðnar)
 • 1 dós maukaðir tómatar
 • 1-2 dl vatn
 • 2 msk tómatpuré
 • 1 msk mexíkó krydd
 • 1 msk paprikukrydd
 • 1 tsk cumin
 • 1 msk grænmetiskraftur
 • salt og pipar
 • væn lúka fersk steinselja

Gott er að bera réttinn fram með góðu salati og að mylja nokkrar lífrænar nachosflögur yfir réttinn setur aldeilis punktinn yfir i-ið.  Það er líka gott að hafa guacamole með eða kúreka ýdífu eins og hún er stundum kölluð hér.(sjá uppskrift hér að neðan)

Aðferð:

 1. Leggjið linsubaunirnar í bleyti í amk. 2 klst en má alveg vera yfir nótt líka.  Hellið vatninu af þeim, setjið í nýtt vatn og sjóðið í 20-30 mín. (Hér getið þið líka notað tilbúnar baunir í dós)
 2. Hitið pönnu og mýkjið lauk í smá olíu, bætið gulrótum og sellerí við og leyfið því að mýkjast vel.
 3. Bætið tómatmaukinu, kryddinu, vatninu og kraftinum á pönnuna og leyfið réttinum að malla við lágan hita í nokkrar mínútur.
 4. Bætið linsunum við í lokin, kryddið með salt og pipar og bætið steinseljunni við í lokin.

Það má alveg nota aðrar baunir í þennan rétt, ef þið eigið til í frysti eða eigið í dósum.  Ég hef til dæmis notað svartar baunir, pinto baunir og adukibaunir.  Þær passa allar mjög vel í allan mexíkanskan mat. 

 

Hér er einföld uppskrift af Kúreka ýdífu sem smell passar með réttinum:

Kúrekaídýfa

 • 1 þroskað avakadó
 • safi úr lime, uþb. 1 msk (má líka nota sítrónu)
 • 1 hvítlauksrif
 • 1/2 tsk cumin
 • salt og pipar

Maukið avakadó með töfrasprota eða stappið með gafli, kreystið lime safann yfir, bragðbætið með hvítlauk, salti og cumin.

Taco súpa með eða án kjöts

Fjölskyldan elskar allan mat með mexíkó bragði og er örugglega ekki ein um það.  Þessi einfalda taco súpa er í miklu uppáhaldi.  Hún er líka alveg sérlega einföld ef til er afgangur af nautahakki.  Þar sem ég er alltaf að reyna að minnka neyslu á kjöti og koma grænmeti inn í staðinn og þar af leiðandi er þessi súpa að mínu skapi. Smá kjöt en fullt fullt af grænmeti.  Fyrir þá sem vilja sleppa kjöti er lítið mál að setja baunir í staðinn fyrir nautahakk, til dæmis Aduki baunir eða litlar brúnar linsubaunir.

Copy of IMG_9738

 

Hráefni:

 • 1 tsk kókosolía
 • 1 laukur
 • 4 gulrætur
 • 1 sellerí stöngull
 • 1 rauð paprika
 • 2 hvítlauksgeirar
 • 3 msk tómatmauk
 • 400 ml maukaðir tómatar
 • 1 liter vatn
 • 1 msk grænmetiskraftur
 • 1 tsk paprika
 • 1 tsk cumin
 • 1 tsk laukduft
 • 1 tsk cajun bbq frá Pottagöldrum
 • 3 dl eldað nautahakk
 • 1 msk kókospálmasykur
 • fersk steinselja
 • salt og pipar
 • 1 litri vatn

Aðferð:

 1. Byrjið á því að elda hakkið ef þið búið ekki svo vel að eiga afgang inni í ísskáp. Kryddið kjötið eftir smekk. Ef þið notið baunir í stað kjöts, gerið þið baunirnar klárar, takið þær tilbúnar úr frysti eða opnið dósina og skolið þær.
 2. Brytjið niður allt grænmetið.
 3. Hitið olíu í potti, leyfið lauknum að malla í smástund við lágan hita.
 4. Bætið gulrótum saman við ásamt selleríinu og að lokum paprikunni (paprikan þarf minni tíma).
 5. Bætið tómötum, tómatmauki, kryddi saman við ásamt vatni og leyfið súpunni að malla í u.þ.b. 10 mín þangað til grænmetið er orðið mjúkt.
 6. Bætið kjötinu saman við (eða baununum), fersku steinseljunni og kryddið með salti og pipar.
 7. Það er mjög vinsælt að mylja nokkrar Lífrænar maísflögur yfir súpuna.

Hér er mynd af þessari dásemdar súpu með baunum…

Copy of IMG_9735

Prófið að setja avakadó yfir súpuna, það er mjög gott og bætir upp að það er engin ostur er yfir súpunni.

Þessir kraftar finnst mér æðislegir þar sem ég er ekki það dugleg að búa til mín eigin soð en þeir eru án gers og aukaefna.  Bæði til nautakraftur, kjúklinga, grænmetis og margt fleira.

Copy of IMG_9726

Uppáhalds kryddin mín:

Copy of IMG_9731

Og keramik potturinn rauði hækkar alltaf  hamingjustigið örlítið á hverjum degi þegar ég stend yfir pottunum 🙂

Copy of IMG_9728

Í flestum heilsubúðum og heilsuhillum stórmarkaða er hægt að fá þessar lífrænu nachosflögur sem þýðir að þær innihalda ekki erfðabreyttan maís.

IMG_1882

Það er nú alveg veðrið í dag fyrir svona kraftmikla haustsúpu, hver haustlægðin á fætur annarri.  En það þýðir víst ekkert að kvarta yfir því, bretta bara upp ermarnar, kveikja á kertum og búa til súpu 😉

Copy of IMG_9735

Verði ykkur að góðu 🙂

 

 

Fantagóðar fiskibollur

Mig langaði að deila með ykkur uppskrift af bestu fiskibollum sem ég hef smakkað.  Uppskriftina fékk ég hjá tengdamömmu sem klippti hana út úr Vikunni á síðasta eða þar síðasta ári.  Þegar ég hafði smakkað bollurnar hjá tengdó VARÐ ég að fá uppskriftina eins og skot.  Þessi uppskrift er ein af þeim fjölmörgu sem finna má í nýjustu uppskriftabókinni „Uppáhaldsmatur barnanna“ 

fiskibollur

Hráefni: 

 • 700 g ýsa eða þorskur
 • 1 laukur
 • 2 stórar gulrætur
 • 1/2 stór rófa eða 1 lítil
 • 2 hvítlauksrif
 • 2 egg
 • 1 dl kókosmjólk
 • 8 msk fínt spelt (eða möndlumjöl fyrir glúteinlausa útgáfu)
 • 1 msk grænmetiskraftur frá Himneskri hollustu
 • Kryddið með Ítölskusjávarréttakryddi og
 • Fiskiréttakryddi frá Pottagöldrum
 • salt og pipar
 • Kókosolía til steikingar

Aðferð:

 1. Saxið lauk, gulrætur og rófu með matvinnsluvélinni.
 2. Bætið fiskinum saman við.
 3. Að lokum fara eggin, mjólkin, kryddið og speltið saman við.
 4. Hitið pönnu, bræðið kókosolíu, mótið litlar bollur og steikið á pönnu,
  nokkrar mínútur á hvorri hlið. Takið þær af pönnunni, setjið í eldfast mót
  og inn í ofn í 10 mín v/ 170°c meðan allt annað er gert klárt.

Það er góð hugmynd að búa til eina litla bollu og steikja hana til að byrja með til að sjá hvort þurfi að krydda meira.

 

 

 

 

Lambagúllas

Þessi réttur passar svo sannarlega vel á þessum árstíma, kalt úti og allt á kafi i snjó.  Finnst svona kássur svo ótrúlega góðar á veturna, setja bara allt það grænmeti sem við eigum til og finnst gott.  Afanginn má svon nota sem súpu síðar.

lambagúllas

Hráefni:

 • 500 g lambagúllas – skorið í litla bita
 • 1 msk olía
 • 1-2 laukar
 • 1 – 2 paprikur
 • 4 gulrætur
 • 2 sellerístilkar
 • 3 hvítlauksgeirar
 • Meira grænmeti að eigin vali: kartöflur, sætar kartöflur, rófur, brokkolí
 • chilli pipar, lítill biti, ef þið eigið  hann ekki til þá bara krydda með örlitlu chilli kryddi
 • 2 msk lambakraftur (án aukaefna)
 • 2 msk tómatkraftur (má sleppa)
 • Maukaðir tómatar í dós –  þetta er val, ég set það stundum og stundum ekki
 • 0,5 liter vatn (bæta við ef þarf )
 • 2- 3 msk Lambakrydd úr 1001 nótt frá Pottagöldrum
 • fersk steinselja og / eða basilika í lokin

Aðferð:

 

 1. Hitið olíu í potti og mýkjið laukin.
 2. Bætið kjötinu út í og leyfið því að brúnast ásamt hvítlauk og chilí.
 3. Skerið sellerí í litla bita eða setjið í blandara með 1 dl af vatni og maukið.
 4. Skerið allt grænmeti í litla bita.
 5. Bætið grænmeti, vatni, krafti og kryddi út í og sjóðið LENGI LENGI við lágan hita.
 6. Þegar rétturinn er tilbúinn bætið þið kryddjurtunum út í.

Berið fram með salati og hýðishrísgrjónum, kínóa eða blómkálsgrjónum

Spari útgáfan af þessu gúllasi er að bæta við uþb. 1 dl af rjóma eða kókosmjólk út í við lok eldunartímans.

Karrý kókos kjúklingasúpa

Í vor fékk ég þann heiður að vera matgæðingur Vikunnar.  Ég átti alltaf eftir að birta uppskriftinar hér inni en það var athugull lesandi blaðsins á tannlæknastofu, sem ætlaði sér að fara heim og finna uppskriftirnar á netinu sem benti mér á þetta.  Það er eins gott að það sé einhver að fylgjast með 😉

IMG_1837

Þessi uppskrift er einföld og barnvæn.  Góð hversdags og spari.  Börnin kalla hana „bestu súpu í heimi“ sem eru ágætis meðmæli  🙂

Hráefni:

 • 1 msk kókosolía
 • 1 laukur
 • 3 gulrætur
 • 2-3 cm engifer
 • 1 rauð paprika
 • 1 dós eða flaska maukaðir tómatar
 • 1 msk madras karrý krydd frá Pottagöldrum eða önnur góð karrýblanda
 • 1 tsk túrmerik
 • 2 msk grænmetiskraftur (líka gott að nota kjúklingakraft)
 • 1 liter vatn
 • 2 dl kókosmjólk
 • salt og pipar
 • lúka af ferskri steinselju
 • safi úr 1/2 lime (má vera tæplega)
 • Grillaður kjúklingur eða 2-3 bringur, grillaðar eða steiktar á pönnu

Aðferð:

 1. Bræðið kókosolíuna í potti, setjið karrý, túrmerik og lauk út í og leyfið að malla í smá stund við mjög lágan hita.
 2. Britjið gulrætur og papriku niður og bætið út í.
 3. Bætið engifer út í. Best finnst mér að raspa hann út í  með fínu raspi.
 4. Bætið svo vatni, krafti og tómötum út í.
 5. Leyfið súpunni að malla við meðal hita í ca 10 mín eða þangað til grænmetið er orðið mjúkt. 
 6. Að lokum fer kókosmjólkin út í ásamt lime safanum og steinseljunni.
 7. Bætið kjúklingnum út í.
 8. Smakkið til og kryddið með salti og pipar.

IMG_0964

Það er góð hugmynd skipta kjúklingnum út fyrir fisk öðru hverju.

IMG_1837

Góða helgi 🙂

 

Mexíkóskar kjötbollur

Frábær og fljótlegur réttur, fullkomin svona í miðri viku.  Afangurinn er svo tilvalin ofan í nestisboxið.   Mér finnst svo mikil snilld að geta bakað kjötbollurnar í ofninum frekar en að steikja á pönnu, það verður eitthvað svo mikil bræla og tekur svo langan tíma.  Það má alveg blanda öllu saman og eiga „deigið“ tilbúið inni í ísskáp til að flýta fyrir.

mexíkó kjötbollur

Hráefni:

 • 500 gr hakk
 • 1- 1,5 dl möndlumjöl
 • 1 egg
 • 1/2 laukur
 • 1 sellerístöngull
 • 2 hvítlauksgeirar
 • 2 tsk grænmetiskraftur
 • 1 msk oregano
 • 1/2 msk paprika
 • 1 tsk cumin
 • 1 tsk cajun barbeque krydd frá Pottagöldrum

Það má alveg krydda bollurnar ennþá meira því möndlumjölið er svolítið sætt og því gott að krydda vel á móti. 

Aðferð:

 1. Blandið hakki, kryddum, eggjum saman í skál
 2. Maukið sellerí, lauk og hvítlauk í matvinnsluvél (þessar litlu sem fylgja töfrasprotanum eru alger snilld í þetta) og bætið út í.  Getið líka bara saxað smátt eða jafnvel sleppt ef þið nennið engu veseni.
 3. Þykkjið „deigið“ með möndlumjöli þangað til hægt er að móta bollur.  Gæti þurft minna eða meira en uppskriftin segir til um.  Ef þið sleppið því að mauka selleríið og laukinn þurfið þið minna af möndlumjöli.
 4. Mótið bollur, raðið í eldfast mót og bakið í 20 mín við 200°c

Guatamole:

 • 1 avakadó
 • Safi úr lime, 1 msk (uþb.)
 • 1 hvítlauksrif
 • 1/2 tsk cumin
 • salt og pipar

Maukið avakadó með töfrasporta eða stappið með gafli, kreystið lime safann yfir, bragðbætið með hvítlauk, salti og cumin.

Ferskt salsa:

 • nokkrir vel þroskaðir tómatar
 • vorlaukur
 • smá salt
 • Safi úr lime, 1-2 msk

Brytjið tómatana og vorlaukinn smátt,  setjið salt og lime yfir.

Á myndinni var ég reyndar ekki með salsa heldur bara salat en salsað er alveg afskaplega gott með og hér er komið tilefni til að búa þessar bollur til mjög fljótlega aftur  og þá með salsanu 🙂