Hamp chia grautur

Frábær morgunverður sem tekur enga stund að útbúa.  Þetta er uppáhaldið þessa dagana.  Það má líka setja meiri vökva, setja á flösku og taka með sér í nesti.  Ég gerði það í gær þegar ég hafi 0 mín fyrir hádegismat.   Ég fór á svakalega fræðandi og skemmtilega ráðstefnu um meltingarflóruna.  Algerir snillingar með fyrirlestra og hausin er enn að snúast í hringi og finna hugmyndir hvernig hægt er að bæta flóru fjölskyldunnar 😉

En aftur að grautnum,

Hamp chia grautur

Hráefni:

 • 2 msk chia fræ
 • 2 msk hampfræ
 • 2 dl vatn/möndlumjólk eða önnur mjólk/vökvi að eigin vali
 • 3 dropar stevía (eftir smekk)
 • kanill (líka eftir smekk)
 • Ávextir að eigin vali =  ég er á myndinni með mangó og perur
 • Gúmmilaði til að strá yfir að eigin vali =  ég er með mórber, goji ber og kakónibbur (blanda sem ég elska bæði út á grauta og í heimagert súkkulaði)

Aðferð:

 1. Setjið fræin í bleyti (nóg 10 mín en má vera yfir nótt)
 2. Bætið ávöxtum við og stráið gúmmilaði yfir

Verði ykkur að góðu 🙂

 

 

 

Súkkulaðisæla – ofurmorgunverður fyrir sælkera

Hérna kemur minn uppáhaldsmorgunverður þessa dagana.  Chia fræ, kínóa og hamfræ, toppað með ofurfæðu.  Það sem mér líður vel eftir þessa máltíð og verð ekki svöng fyrr en löööööngu seinna.  Þetta getur verið mjög fljótlegt, það er hægt að gera kalda grautinn kvöldið áður og jafnvel fyrir 3-4 daga í einu.  Um morguninn er svo bara að setja þetta í skál eða fallegt glas.  Oft hefur krukka verið notuð því það er svo þægilegt að geta hent ollu ofan í hrist og bætt svo bara ávöxtunum við daginn eftir.  Maðurinn minn fær oft svona krukku með sér í nesti í vinnuna til að hafa sem millimál og er mjög sáttur.

IMG_7328

Hráefni:  (2 skammtar)

 • 2 dl Soðið kínóa eða 3-4 msk tröllahafrar
 • 2 msk chia fræ
 • 2 dl möndlumjólk (eða önnur mjólk)
 • 1 msk kakó (má vera minna, mér finnst gott að hafa mikið kakóbragð)
 • 1-2 msk hampfræ
 • 1/2-1 pera
 • 1 msk kakónibbur
 • 1 msk mórber (mulberry)
 • nokkrar hnetur að eigin vali

  Aðferð:

Blandið saman soðnu kínóa, chia fræjum, hampfræjum og kakói.

IMG_7321

Hellið mjólkinni yfir og leyfið chia fræjunum að drekka í sig vökvann á meðan þið brytjið niður peruna ( eða annan ávöxt sem ykkur þykir góður.  Mér þykja perur bara passa svo svakalega vel með súkkulaði)

IMG_7323

Setjið peruna ofan á og setjið yfir hana kakónibbur og mórber.

IMG_7328

Þið getið svo bætt við meiri mjólk ef ykkur finnst þurfa.

IMG_7330

Það getur verið að einhverjum þyki grauturinn of rammur og þá má alveg bæta við nokkrum dropum af stevíu saman við.  Ég myndi ekki setja meira en 4-5 dropa í uppskriftina hér að ofan því perurnar gefa líka sætt bragð og mórberin.

Ég er nýbúin að eignast 2 svona dásamlega fallega latte bolla sem eru svo sætir (sýni ykkur hinn seinna) að ég nota hvert tækifæri til að nota þá.  Ég get ekki drukkið kaffi allan daginn svo ég nota þá undir morgungrautinn og fer bara töluvert glaðari inn í daginn að borða úr svona fallegu íláti 🙂

Ath. þessi uppskrift er á bls. 4 í nýjasta uppskriftarheftinu 🙂

Sykurlaust súkkulaðimúslí

Hér kemur uppskrift sem ég fékk fyrir þó nokkru síðan en steingleymdi að setja hér inn.  Uppskriftina fékk ég frá henni Bjarnýju Björgu Arnórsdóttur, sem er framkvæmdastjóri hjá Via health.  Í opnunarpartýinu þeirra var þrælgóður eftirréttur í boði, að sjálfsögðu sykurlaus en sættur með stevíu.  Í botninum var súkkulaðimúslí, þar ofan á grísk jógúrt og efst fersk jarðaber og örlítið súkkulaði.  Ég bað Bjarnýju um uppskriftina af múslíinu og fékk jafnframt leyfi til að birta hana hér svo fleiri geta notið.

Múslíið er hér á bæ er oftast notað í morgunverð og jafnvel sem seinnipartsmillimál hjá yngri kynslóðinni því það er svo hrikalega gott.   Ég á því miður enga mynd af múslíinu í eftirréttarbúningi en bæti úr því fljótlega.

Hráefni:

 • 
8 dl Tröllahafrar
 • 4 dl kokosflögur
 • 
3 dl möndlur (heilar með hýði, saxaðar)
 • 4 dl döðlur
 • 2 dl vatn (döðlur og vatn sett saman í pott með loki og suðunni hleypt upp. Slökkt undir og leyft að standa i smá stund)
 • 
1 dl kakóduft
 • 15 dropar af  Via Health vanillu stevia
 • 5 msk kókosolia
 • 1 tsk vanilluduft
 • 
1 tsk kanill
 • smá cayennepipar
 og nokkur saltkorn (ekta salt… ekki eitthvað drasl borðsalt. Helst himalayasaltið)

Aðferð:

 1. Öllum þurrefnunum blandað saman og sett til hliðar.
 2. 
Öll blautu efnin sett í matvinnsluvél og maukuð saman.
 3. Hellið soffunni yfir þurrefnin og blandið vel saman.  Ágætt að fara í hanska og nota hendurnar til að hnoða saman.
 4. Skipt í tvennt og dreift í tvær ofnskúffur.
 5. Bakið við 150° -180° í ca 10-15 min.  Það er mikilvægt að hræra reglulega.
 6. Slökkva svo á ofninum og gera smá rifu… leyfa muslíninu að standa inn þangað til ofninn er orðinn kaldur. Þá verður það stökkt og fínt.  (Athugasemd frá mér: Ég hef reyndar tekið skúffurnar bara út því ég hef svo oft þurft að nota ofninn aftur og það hefur bara komið mjög vel út líka).

Hér er súkkulaði múslíið í morgunverð ásamt mangó-avakadó “jógúrti”

súkkulaðimúslí

Verði ykkur að góðu 🙂

Morgungrautur í krukku

Hefurðu ekki tíma á morgnana til að gera næringarríkan og staðgóðan morgunverð ?  Þú hefur örugglega heyrt það að morgunverðurinn er mikilvægasta máltíð dagsins.  Veistu hvað ?  Það er alveg hárrétt 🙂

En ekki örvænta, hér kemur alveg snilldar uppskrift, þú getur gert hana í kvöld og morgunverðurinn er tilbúin þegar þú vaknar.  Undanfarna viku hef ég verið að grafa upp, rifja upp og finna sniðugar uppskriftir fyrir námskeið sem ég og Steinunn Aðalsteins verðum með í Grindavík í byrjun febrúar.  Við ætlum að leggja áherslu á góðan morgunverð og í þessu samhengi hef ég prufað nýjan morgunverð á hverjum degi og ég ætla að deila með ykkur sigurvegaranum….að mínu mati 🙂

Ekki örvænta þó að það séu 9 hráefni í þessari uppskrift – þið eruð enga stund að þessu 🙂

krukkugrautur

Þetta er ekki fallegasti matur í heimi þegar búið er að hræra öllu vel saman í krukkunni en ef þið eruð heima er nú skemmtilegra að hafa þetta svolítið huggulegt 😉

IMG_7338

Hráefni:

 • 2 dl soðið kínóa
 • 2 msk chia fræ
 • 2 dl möndlumjólk
 • 2 msk hnetusmjör
 • 2 msk hampfræ
 • 1/2 epli brytjað
 • 4-5 dropar stevía
 • Lúka af mórberjum
 • Lúka af pekanhnetum

Aðferð:

 1. Allt sett í krukku.
 2. Hrærið vel saman.
 3. Setjið krukkuna inn í ísskáp.
 4. Morgunverðurinn er tilbúin 🙂

Athugið:

 • Þið getið notað kókosmjólk í staðinn fyrir möndlumjólkina
 • Þið getið sett 3-4 msk grófar hafraflögur í staðinn fyrir kínóa
 • þið getið sett annan ávöxt í staðinn fyrir eplið (ekki þó banana nema bæta honum við daginn eftir)
 • Þið getið sett aðrar hnetur í staðinn fyrir pekanhnetur
 • Þið getið sleppt mórberjunum
 • Þið getið sleppt hnetusmjörinu
 • Þið getið sett möndlusmjör í staðinn fyrir hnetusmjör

Möguleikarnir eru endalausir, grauturinn verður auðvitað allt allt öðruvísi en samt sem  áður örugglega góður 🙂

Geggjað banana pekanhnetu múslí

Hér er uppskrift sem ég var að dunda mér við í gær og ég er svo spennt að deila með ykkur.  Þetta er svo gott múslí að það mætti nánast flokka það undir nammi og það besta við það er að það er sykurlaust sem vonandi gleður marga sykurpúka svona í upphafi árs þegar margir eru farnir í detox-hreinsunar-safa-diet-gírinn eftir allt sukkið síðustu vikurnar 😉

Það er eitt vandamál við þessa uppskrift að það er sú að það er eiginlega bara of gott, ég bjó til hálfa uppskrift seinnpartinn í gær og hún var búin klukkan ellefu og þá bjó ég til meira svo það væri til í morgunmat í morgun.  Svo það þarf að finna einhver ráð til að fela krukkuna ef ég held áfram þessari framleiðslu.

bananamúslí

Fyrirmyndin kemur af einu af mínu uppáhaldsbloggi, Naturallyella, þangað leita ég oft að skemmtilegum hugmyndum.  Ég breytti uppskriftinni þó talsvert og hér kemur mín útgáfa:

Hráefni:

 • 2 þroskaðir bananar
 • 0,75 dl Kókosolía brædd
 • 20 dropar kókos stevía frá Via Healt (eða Original)
 • 1 tsk kanill
 • örlítið salt
 • 12 dl grófir hafrar
 • 1,5 dl pekanhnetur

Aðferð:

 1. Hitið ofninn í 200°c
 2. Bræðið kókosolíuna í vatnsbaði.
 3. Maukið banana með töfrasprota.
 4. Blandið saman bananamaukinu, kókosolíunni, kanil, salti og stevíu.
 5. Saxið hneturnar og blandið ásamt höfrunum saman við bananablönduna.
 6. Dreifið blöndunni ofan á bökunarpappí í ofnskúffu og bakið í ca. 20 mín en hrærið reglulega í blöndunni.
 7. Takið út og leyfið blöndunni að kólna.  Múslíið verður stökkt þegar það kólnar.

Athugð að ofnar eru mismunandi, kannski þarftu að baka blönduna í styttri tíma svo það borgar sig að fylgjast vel með.

bananamúslí

Það voru allir mjög sáttir með morgunmatinn í morgun og það var vel borðað.  Með múslíinu bjó ég til Jarðaberja-möndlu “jógúrt”  hér kemur uppskrift af því:

 • 7-8 dl af frosnum jarðaberjum og ananas
 • 4-5 dl af heimatilbúnni möndlumjólk
 • 1/2 avacado
 • 2 msk möluð hörfræ (eða hveitikím)

Allt sett í blandara og blandað vel saman,  bætið hörfræjunum/hveitikíminu saman við alveg í lokin, jafnvel bara hræra með skeið því það á það til að verða rammt.

Verði ykkur að góðu 🙂

Einfalt glúteinlaust haframúslí

Að búa til haframúslí er mjög einfalt, sniðugt að útbúa meðan gengið er frá kvöldmatnum og ofninn ennþá heitur.  Tekur ekki nema 5 mín að blanda saman, fer auðvitað eftir því hvað þið brytjið mikið niður, ef þið eruð með fullt af hnetum gæti það tekið lengri tíma.

Hráefni:

 • 6-7 dl Haframjöl (ég notaði glúteinlausa og þar með er þetta glúteinlaust múslí)
 • 3-4 dl af hverju því sem ykkur finnst gott að hafa í haframúslíi eða það sem er til hverju sinni, t.d möndlur, sesamfræ, sólblómafræ, kókosflögur, pecan hnetur eða cashew hnetur.
 • 5 msk hunang
 • 5 msk olía (kókosolía eða einhver önnur góð olía)
 • Þurrkaðir ávextir eftir smekk (settir saman við þegar búið er að baka múslíið)

Aðferð:

 1. Blandið saman hafrablöndunni.
 2. Hrærið saman hunang og olíu og blandið saman við hafrablönduna.
 3. Setjið á bökunarplötu, með bökunarpappír á og bakið í 10-15 mín við 170°C
 4. Fylgist vel með meðan þið eruð að finna hver tíminn er í ykkar ofni, og hrærið í blöndunni 2-3 sinnum.

Þetta var frekar sætt og mætti alveg setja minni sætu en þetta var útbúið á laugardagsmorgni og mátti því alveg vera sætt og gott í það skiptið 🙂  En það sem er svo gott við að útbúa sitt eigið morgunkorn er að hægt er að ráða hversu sætt það er, keypt morgunkorn inniheldur oft gríðarlega mikinn sykur.

Fylgist vel með, ef þið setjið kókosflögur í blönduna þarf að fylgjast vel með að þær brenni ekki, og jafnvel bæta þeim bara við þegar nokkrar mínútur eru eftir af tímanum.

múslí