Poppaðar Amaranth nammi kúlur

Ama hvað ??? Hvað sagðirðu eiginlega ?  Amaranth….. það reka flestir upp stór augu og vita ekkert um hvað ég er að tala, enda hefur Amaranth selst afskaplega lítið síðustu ár hér á landi.  En í sumar kynnti hún Margrét Leifs vinkona mín mig fyrir poppuðu Amaranthi og við bjuggum til nammikúlur sem við vorum með á matreiðslunámskeiði í haust.  Á namminámskeiðunum núna í nóvember og desember hafa svo verið búnar til poppaðar amaranth nammi kúlur við mjög góðar undirtektir.

Poappaðar amaranth nammi kúlur

Það er talað um Amaranth sem korntegund en í raun er hún fræ eins og kínóa.  Amaranthið er mjög næringarríkt og inniheldur til dæmis mikið af próteinum, steinefnum og vítamínum.

En það er ekki bara næringarinnihaldið sem gerir þessar kúlur spennandi, heldur er það líka áferðin.  Þessar kúlur eru svo ólíkar öllum öðrum kúlum, þessum týpísku kókos/hnetukúlum sem flestir þekkja.  Þær standa auðvitað alltaf fyrir sínu en það er samt svo gaman að kynnast einhverju alveg nýju.

Hér kemur uppskrift af súkkulaði útgáfunni

Hráefni:

 • 2,5 dl poppað amaranth
 • 8 vænar msk kasjúsmjör (Ég var með H-Berg)
 • 1-2 vænar msk hunang
 • 1 dl kurlaðar döðlur og fíkjur. (hægt að kurla í blandara eða saxa mjög smátt með hníf)
 • 2 msk kakó
 • örlítið sjávarsalt
 • ½ tsk hreint vanilluduft

Aðferð:

 1. Blandið öllu í eina skál, hnoðið saman og búið til kúlur.
 2. Frystið í 10 mín. og þá er nammið tilbúið.
 3. Gott að eiga í frysti og fá sér eina kúlu þegar nammiþörfin gerir vart við sig.

 

Amaranth fæst bæði ópoppað og tilbúið poppað í Lifandi Markaði. 

 

 

Á síðasta námskeiði gerðum við tilraun og bættum við nokkrum dropum af karamelludropum út í deigið áður en vi mótuðum kúlurnar.  Það var hriiiiiikalega gott og ég hlakka svo til að endurtaka leikinn núna um helgina og búa til karamellukúlur handa ungunum mínum,  veit að það mun svo sannarlega slá í gegn.

Poppaðar amaranth nammikúlur

 

Og svo er hægt að færa þessar kúlur alveg upp á næsta stig með því að dýfa þeim í bráðið dökkt súkkulaði eftir að búið er að kæla þær.

IMG_0216

 

Ef þið viljið poppa Amaranthið sjálf, koma hér leiðbeiningar: 

Hitið pönnu (eða pott) þannig að hún sé vel heit. Setjið 1 msk af korni á pönnuna.

Kornið byrjar fljótlega að poppast en um leið og það hættir hellið þið af pönnunni yfir í skál. Þessi aðgerð tekur aðeins nokkrar sekúndur. Kornið má alls ekki vera of lengi á pönnunni því þá byrjar það að brenna og kemur rammt bragð af því. Þið gætuð þurft að minnka hitann ef kornið vill brenna.

Takið svo aftur 1 msk og setjið á pönnuna, svo koll af kolli….


IMG_0209

IMG_0210

 

Ég skora á ykkur að prófa að búa til þessar skemmtilegu, bragðgóðu og næringarríku nammi kúlur til að eiga í bakhöndinni þegar sætuþörfin gerir vart við sig í annríkinu.   
Svo væri nú gaman að heyra hvernig smakkaðist 🙂

Þessi uppskrift ásamt fleirum er að finna í nýju nammi bókinni „Sætindi sem næra, hressa og bæta“  sem fæst á hópkaup þessa dagana: https://www.hopkaup.is/heilsamamman-saelgaeti

 

Nammi namm …

Poappaðar amaranth nammi kúlur

Næstu nammi námskeið

Þetta er búin að vera skemmtileg törn af namminámskeiðum  en nú er komið að síðstu tveim námskeiðunum:

 

Miðvikudagur, 9.des Kl. 18.00-21.00 – Selfoss

Hjarðarból, gistiheimili, miðja vegu á milli Selfoss og Hveragerðis

Verð 5900 kr,  börn 8-18 velkomin með og greiða 1000 kr.

Innifalið er nóg af smakki, uppskriftir og svo fara allir með smá gotterí með sér heim

 

Föstudagur, 11.des Kl. 18.00-21.00 – Selfoss

Lifandi Markaður, Borgartúni 24

Verð 5900 kr, börnin verða heima að þessu sinni

Innifalið er nóg af smakki, glas af lífrænu rauðvíni með smakkinu,  uppskriftir og svo fara allir með smá gotterí með sér heim.

 

Athugið að mörg stéttafélög styrkja félagsmenn um allt að helming námskeiðisgjaldsins.

Skráning fer fram á heilsumamman@gmail.com

 

Nammigerð

Það er aldeilis búið að vera heilmikið fjör á nammi námskeiðunum undanfarið.  Hér koma nokkrar myndir frá síðasta námskeiði 🙂

namminamskeidfim

Það er svo mikil snilld að búa til sitt eigið nammi.  Úr hráefnum sem byggja kroppinn upp.  Í hnetum og fræjum fáum við prótein, trefjar og góða fitu.  Svo ekki sé minnst á vítamín og steinefni sem eru góð fyrir bein, húð, hár og margt fleira.  Það er líka frábært að mörg þessara hráefna sem við notum bæta geð og almenna líðan.

 

Hér sjáið þið aðeins hvaða hráefni við höfum verið að nota:

Fínmalað möndlumjöl og hlynsýróp fyrir marsípan sem er 90 % möndlur og 10 % sykur en ekki 10 % möndlur og 90 % sykur eins og venjan er.

IMG_1667

Við notuðum Biona kókosolíu, hlynsýróp og kakósmjörið frá the raw chocolate co til að búa til súkkulaði.

IMG_1663

Hér er mynd af „ofurorkukúlu“ stöðinni.

IMG_1665

Brúnu bréfpokarnir sem þið sjáið á myndinni eru nýju vörurnar frá Kaja Organic.  Hágæða lífrænum vörum sem pakkað er á Akranesi og seldar í Lifandi Markaði.  Ég hef sjaldan orðið jafn skotin í nýju merki eins og þessu og það hjálpar líka til að verðið er hagstætt.  Umbúðirnar eru ódýrar og því þarf ekki að bæta þeim inn í vöruverðið.  Allt sem ég hef prófað hingað til er svo gott og t.d. hef ég aldrei smakkað jafn góðar kókosflögur eins og frá þeim.  Ég hreinlega vissi ekki að kókosflögur gætu verið svona bragðgóðar.

12309221_10205601075329343_645206261_n

IMG_1664

Og svo vinsælasti parturinn….smakki smakk 🙂

12309260_10205601076409370_64334736_n

Það eru örfá námskeið eftir,  á fimmtudaginn næsta verð ég á Akranesi,  þann 9.des verð ég Selfossi og síðast en ekki síst er búið að bæta við einu enn í lokin… ég set auglýsingu um það í kvöld.  En föstudaginn 11.des kl. 17.00 – 20.00 ætlum við að vera með eitt svona dekur námskeið.  Börnin verða skilin eftir heima þann daginn og það verður boðið upp á glas af lífrænu rauðvíni með súkkulaði smakkinu.  Sannkölluð saumaklúbbastemming og tilvalið fyrir vinkonurnar að skella sér saman.

En til að gleðja ykkur sem komist ekki á námskeið hef ég tekið saman uppskrifirnar, ásamt nokkrum í viðbót og útbúið rafbók.  Hún er aaaaalveg að verða tilbúin og verður komin í sölu núna í lok vikunnar.

 

nammibok

Til að skrá ykkur á námskeið eða panta bók sendið þið mér línu á heilsumamman@gmail.com

Hlakka til að  heyra í ykkur og hitta 🙂

 

 

Leitin að besta heilsunamminu

Lifandi Markaður og Kaja Organic leita nú að besta heilsunamminu.   Þetta er spennandi keppni því verðlaunin eru virkilega eftirsóknarverð.  Vinningshafinn fær hvorki meira né minna en gjafakörfu að verðmæti 15.000 kr frá Kaja Organic ásamt matarkorti að verðmæti 40.000 í Lifandi Markaði.  Ekki nóg með það heldur mun uppskriftin sem vinnur verða framleidd á Lifandi Markaði og seld þar í desember.

Ég er auðvitað voðalega spennt yfir þessu öllu saman því heppna ég fæ að smakka á öllu saman.  Ég verð dómari ásamt Kareni framkvæmdastjóra Kaja Organic og Guðmundi matreiðslumeistara á Lifandi Markaði.

Nú er bara að bretta upp ermarnar og útbúa ykkur uppáhalds gúmmilaði.  Það þarf að senda uppskrift og mynd á lifandimarkadur@lifandimarkadur.is og koma með sýnishorn (nokkur stykki)  í Lifandi Markað fyrir 25.nóvember.

Vinningshafinn verður tilkynntur á Konukvöldi Lifandi Markaðar sem verður haldið 26.nóvember kl. 17.00-20.00 og munu gestir og gangandi geta bragðað á vinningsnamminu þá um kvöldið.

 

Fyrir þá sem ekki vita þá eru vörurnar frá Kaja Organic hágæða lífrænar vörur á hagstæðu verði.  Vörunum er pakkað á Akranesi og þær eru dásamlega góðar á bragðið.  Mikið úrval er í verslun Lifandi Markaðar.

Ef þið hafið smakkað súpergott heilsunammi hjá vinum og kunningjum hvetjið þau þá líka til að taka þátt 🙂

Gangi ykkur vel <3

Næringarrík sætindi – 20. nóvember – Lifandi markaður

Langar þig að læra að búa til næringarríkara sælgæti ?  Fá fullt af hugmyndum af gotteríi sem nærir, hressir og bætir í stað þess að gera þig þreytta/an og slappan/n.  Framundan er sá árstími þar sem sælgæti og súkkulaði flæðir út um allt og frábært að snúa vörn í sókn með næringarríkum sætindum.

fyrirtaekinammi

Við gerum súkkulaði og útfærum það á ýmsa vegu, gerum ofur orkukúlur sem eru frábærar í hversdagsleikanum þegar okkur vantar smá orkubita og einnig fínasta konfekt og hráköku sem sómir sér á hvaða veisluborði sem er.

Við ætlum að ræða um það hvernig við getum gert baksturinn heilsusamlegri og skoða hvaða mismunandi sætu er hægt að nota í staðinn fyrir hvíta sykurinn.  Einnig skoða hvernig hægt er halda blóðsykrinum í góðu lagi 🙂

Fimmtudagur 20. nóvember kl. 18.00-20.30 – Lifandi Markaði, Borgartúni 24 (salur á neðri hæð)

Verð: 6500 kr

Innifalið er:  Uppskriftarhefti með rúmlega 40 mismunandi uppskriftum og fullt af gómsætu smakki.

Skráning á: heilsumamman@gmail.com  eða í gegnum facebook síðu heilsumömmunar

Ath. Munið að stéttafélög greiða allt að helming af námskeiðisgjöldum !

Heimatilbúið Corny

Heimatilbúið Corny er helgarnammið að þessu sinni. Ég held að stelpurnar mínar biðji um Corny í hvert skipti sem þær fara með mér í búðina. Þeim finnst það nefnilega ekki vera nammi! Mamma, þetta er eitthvað svona heilsu! Í Alvörunni !!!! Einmitt já já, það versta er að ég held að margir hugsa það sama og þær. Jæja, en það þýðir ekki að vera alltaf leiðinlega mamman heldur bara bretta upp ermarnar og búa til skynsamlega útgáfu. Allir fjölskyldumeðlimir búnir að gefa topp einkunn  🙂 

Grunnurinin að þessari uppskrift kemur frá henni Sólveigu sem er með Lífstíl Sólveigar, frábær síða og stútfull af skemmtilegum hollustu hugmyndum.  Í síðustu viku birti hún uppskrift af Granóla sem mér leist svo ljómandi vel á og prufaði.  Það fyrsta sem stelpurnar mínar sögðu þegar ég var búin var:  Mamma, bjóstu til Corny ?

Ég hef prufað mjög marga svona granóla bari en ég hef aldrei verið 100 % ánægð. Þeir hafa annaðhvort innihaldið alltof mikla sætu eða hreinilega molnað í sundur.  En núna datt ég í lukkupottinn og þessi uppskrift er komin til að vera.  Takk Sólveig fyrir þessa frábæru uppskrift 🙂

Í upprunalegu uppskriftinni voru kasjúhentur og möndlur en þar sem ég átti ekki nóg af þeim þegar ég bjó þetta til fyrst notaði ég pekanhnetur á móti og það kom svo svakalega vel út að ég ætla að halda því inni framvegis.  Það er annað sem ég breytti og það er að bæta kókosflögunum og trönuberjunum saman við undir lokin svo það verði ekki ofeldað.

Heimatilbúið Corny

Hráefni:

Ath. ef þið eigið ekki amerískt bollamál er fínt að nota svona kakóbólla, uþb. 2,3- 2,5 dl 

 • 1 Bolli Pekanhnetur
 • 1/2 bolli möndlur
 • 1/2 Bolli Kasjúhnetur
 • ¼ Bolli Graskersfræ
 • ¼ Bolli Sólblómafræ
 • ¼ Bolli Hörfræ
 • ¼ Bolli Trönuber
 • ½ Bolli Kokosflögur
 • ¼ Bolli Kokosolia
 • ½ Bolli Hunang (ég notaði tæplega)
 • 1/2 tsk hreint vanilluduft
 • 1 tsk. Gott salt

Aðferð: 

 1. Setjið hneturnar og fræin í matvinnsluvél eða saxið gróft . (Ef þið notið matvinnsluvél ekki mala alveg í spað, bara flott að hafa gróft).
 2. Bræðið kókosolíu og hunang og blandið vanilluduftinu og saltinu samanvið. (Ath. ekki setja kókosflögurnar og trönuberin saman við).
 3. Blandið öllu saman og setjið í mót.  Ég notaði kringlótt sílíkonmót ca. 25 cm.
 4. Bakið í 15 mín við 180 ° C  hrærið nokkrum sinnum í blöndunni.
 5. Eftir 15 mín takið út mótið, blandið kókosflögunum og trönuberjunum saman við (saxið það smátt) þjappið blöndunni vel saman og bakið í 5-7 mín.
 6. Takið út og ath. stykkin eru mjúk en þau harðna þegar þau kólna.  Stingið inn í ísskáp eða frysti  í ca. 30 mín, allt eftir því hversu mikið ykkur liggur á að smakka 😉
 7. Skerið í bita eftir eigin smekk, geta verið litlir kassar eða svona langir barir eins og Corny stykkin.
 8. Spari er mjög skemmtilegt að bræða ca. 30-40 g af dökku súkkulaði og skreyta barina örlítið.

Verði ykkur að góðu og njótið helgarinnar 🙂