Staðan eftir fyrstu vikuna – febrúar sparnaðaráskorun !

Jæja, þá er fyrsta vikan í „febrúar-700 kr á dag á mann-sparnaðarátakinu búin“.   Ég hélt mig við matarplanið að mestu leyti, skipti reyndar aðeins dögum, eggjakakan var á mánudeginum og hnetubuffin á miðvikudaginn og einhverjar svona smá breytingar.   En það var drukkinn heilsudrykkur á hverjum degi, grænir, bleikir og fjólubláir.  Fullt af grænmeti á hverjum degi og engin leið skort á nokkurn hátt.  Bakaði glúteinlausar og mjólkurlausar smákökur í miðri viku til að gleðja yngstu kynslóðina og pizzuveisla um  helgina.

Ég bjó líka til dásamlegt mexíkóskt baunasalat á mánudeginum sem ég borðaði 2x í kvöldmat (mán og þri) og 2x í hádegismat.  Hnetubuffin dugðu 2x í hádegismat líka og ég uppgvötaði frábæra útfærslu á þessum góðu buffum.   Vefja þau inn í tortillu ásamt spínati, rauðri papriku og gúrku relish (frá íslensku grænmeti- það er reyndar smá sykur en þetta var alveg geðveikt saman)  Auðvitað voru bæði síminn og myndavélin með stæla og því gat ég ekki tekið neina mynd en það kemur seinna því þetta verður borðað aftur 🙂

Það tókst ekki að fara bara í búð 2x í vikunni eins og markmiðið var heldur var farið í búð ALLA dagana….ég gerði aldrei stór innkaup heldur var alltaf í því að versla akkúrat það sem vantaði.  Þetta gengur vonandi betur næst, þá verð ég ennþá skipulagðari!

Það sem skekkti aðeins myndina núna voru 2 atriði, annars vegar það að Nettó skyldi vera með 25 % afslátt af allri heilsuvöru svo ég fór á sunnudaginn (síðasta daginn) og keypti uppáhalds kókosmjólkina fyrir næsta mánuðinn amk.  og sitthvað fleira fékk að fljóta með þar.  Og svo keypti ég  nautahakk fyrir 6000 kr af syni vinnufélaga míns sem var með fjáröflun. En það mun duga í nokkrar vikur.  En þetta tvennt varð til þess að ég fór yfir 25.000 kallinn eins og planið var Buuuuhuuuuuu…….

  • Sunnudagur,  Nettó:  7.361.-
  • Mánudagur,  Bónus: 1.390.-
  • Þriðjudagur, Hagkaup: 2.340.-
  • Miðvikudagur, Bónus: 3.537
  • Miðvikudagur, Kökulist, 2 brauð:  1240 (uppáhaldsbrauðin, spelt súrdeigsbrauð)
  • Fimmtudagur, Bónus: 650.-
  • Fjáröflun, nautahakk: 6000.-
  • Föstudagur: 7030.-
  • Laguardagur: 2011.-
  • Samtals: 31.559.- 

6559.- kr yfir áætlun sem þýðir að næsta vika verður að vera í kringum 20.000 kr ….

Fyrst 1.febrúar  var á sunnudegi verða vikurnar hjá mér sunnudagur – laugardags sem er öðruvísi en ég hef alltaf gert, en það verður bara að koma í ljós hvernig það gengur.

Nettó karfan, síðasti séns að versla á 25 % afslætti…

IMG_1880

 

Bónus í miðri viku…

IMG_1901

 

IMG_1891

Ég fer öðru hverju í Hagkaup til að kaupa Daiyja mjólkurlausa ostinn.   Kannski ekki alveg eins og venjulegur ostur en stelpan mín er í skýjunum með hann.  Stórhættulegt að fara í þá búð því það er alltaf eitthvað girnilegt sem maður sér.  Ofan í körfuna læddist Biscotti búið til á íslandi úr alvöru hráefnum, engin duft og neitt. Mátti til með að prufa, rosalega gott en kannski full sætt.  Færi nú á hausinn ef ég myndi kaupa marga svona poka á 500 kall pokann svo það er nú alveg spurningin að finna einhverja góða uppskrift og græja svona heima í vikunni.

Vikumatseðill 1.vikan í febrúar

Jæja, eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir er Sparnaðaráskorun febrúar komin í gang hjá frúnni og þess vegna er ég svona súper skipulögð og búin að gera vikumatseðil fyrir fyrstu vikuna.

Mánudagur:  Ég reyni yfirleitt að hafa grænmetisrétt á mánudögum (undir áhrifum meatless monday í Ameríkunni).  Hnetubuff ásamt soðnu kínóa og apríkósuchutney (af því að ég á það síðan í síðustu viku)  …veit ekki alveg hvort allir í fjölskyldunni verði hamingjusamir en það kemur í ljós.  Spurning að bjóða upp á að setja buffin í brauð og búa til Sollu-kokteilsósu (Sollu-mæjónes og Sollu-tómatsósa ásamt smá paprikukryddi) með fyrir yngri kynslóðina svo kvartkórinn verði ekki of hár 😉

hnetubuff

Þriðjudagur: þriðjudagar eru orðnir hálfgerðir eggjadagar… það hefur bara þróast þannig,  ýmist ommiletta eða spæld egg.  Það er mjög vinsælt að skera niður langsum gúrku, papriku og gulrætur og borða með eða jafnvel nota kálblöð og rúlla utan um eggin.

IMG_2947

Miðvikudagur: þar sem það þarf að skutla einni dömu í dans og annarri í fimleika á miðvikudögum er ekki í boði að vera með flókna eldamennsku.  Grjónagrautur og lifrapylsa er á planinu.  Lifrapylsan telst nú sennilega seint vera mikil hollusta en börnin elska hana og grjónagrauturinn er búin til úr hýðishrísgrjónum og heimatilbúnni möndlumjólk.  Ég ætla að njóta þess að fá mér afgang frá mánudeginum og svo kannski smá grjónagraut í eftirmat 😉

IMG_3578

Fimmtudagur: fimmtudagar eru súpudagar, oft naglasúpa þar sem hreinsað er úr grænmetisskúffunni fyrir helgina.  Stundum á ég í frysti fisk, lambakjöt eða kjúkling til að gera hana aðeins matarmeiri.  Stefnan er sett á stafasúpu í þessari viku og planið að baka brauðbollur með henni og svo er voða vinsælt að sjóða egg og setja út í.

stafasúpa

Föstudagur: föstudagar eru fjölskyldukvöld, undantekningarlaust eitthvað gott í matinn og bíókvöld með gríslingunum.  Þar sem vikan er frekar létt er yfirleitt komin tími á kjötmeti að mati fjölskyldunnar.  Mexíkómatur er alltaf vinsæll, hakk, tortillur eða skeljar eða jafnvel bara nota sallatblað til að vefja, fullt fullt af grænmeti, guatamole, heimatilbúið salsa ofl.   Ég geri það stundum að sleppa hakkinu en krydda svartar baunir eða aduki baunir eins og hakkið og að mínu mati kemur það algerlega í staðinn fyrir kjötið (ef þið viljið draga úr því) eða blanda því saman 😉   Ég hvet ykkur til að skoða innihaldslýsingar á tilbúnum tacokryddum því þau innihalda oft bæði mikinn sykur og msg.  Það er miklu auðveldara að krydda sjálfur hakkið með góðum og hreinum kryddum, t.d. papriku, cumin og cajun bbq kryddið frá Pottagöldrum er rosalega gott.

IMG_2953

Laugardagur: PIzza,  okkur finnst ágætt að gera stundum pizzu á laugardögum því það er meiri tími í dúllerí en á föstudeginum.  Ég er oftast á fullu seinnipartinn að gera fínt fyrir helgina og því ágætt að elda eitthvað fljótlegra en pizzu.   Þar sem ég er allt í einu farin að blása út af heimagerða speltbotninum er ég farin að búa til dásamlega glúteinlausa útgáfu af pizzu sem ég alveg elska og maginn minn líka 😉

Sunnudagur:  Kornflexkjúllinn er fínasti sunnudagsmatur og allir virkilega sáttir.  Sætar kartöflur með og niðurskorið ferskt grænmeti.

IMG_4312

 

Ég ætla ekki að skrifa niður allar máltíðir vikunnar en fyrir morgunverð áætla ég að þurfa að versla:

  • 1 Cheerios pakki ( því miður eru ekki allir að elska Chia grautinn jafn mikið og ég)
  • Haframjólk og kókosmjólk
  • Egg (1x í viku geri ég eggjabrauð eða ommilettu í morgunverð, yfirleitt á fimmtudögum eða föstudögum)
  • chia fræ
  • Möndlur (heimagerða möndlumjólkin er nauðsynleg fyrir chia grautinn)
  • Frosin hindber
  • epli
  • A.m.k. 1 poka af grænkáli, engifer, epli og frosin ananas eða mangó fyrir græna morgunsjeikinn

Stelpurnar taka með sér nesti fyrir ávaxta/grænmetis hressingu í skólanum

  • gulrætur
  • epli
  • gul melóna
  • perur
  • rauð paprika

Seinniparts hressingin samanstendur yfirleitt af hristing og kannski 1 brauðsneið, eða eplum og hnetusmjöri, eða einhverju öðru tilfallandi.  Stundum hef ég bakað bananabrauð eða amerískar pönnukökur ef gestir eru í heimsókn eða eitthvað sérstakt stendur til.

  • Kókosmjólk (1-2 fernur)
  • Frosið mangó
  • Avakadó
  • Epli
  • möndlusmjör
  • hnetusmjör
  • Bananar
  • gróft spelt (ef ég skyldi baka eitthvað)

Hádegismaturinn minn:

Samanstendur yfirleitt af afgöngum, ef ég á enga afganga er það yfirleitt salat með hinu og þessu.

Það sem ég kaupi fyrir þessa viku er:

  • kál
  • spírur frá Eco spíra
  • vorlaukur
  • pekan hnetur
  • egg

Jæja, nú er planið komið á hreint en nú er spurning hvernig gengur að halda upphæðinni innan marka 🙂

 

 

 

Er hægt að borða hollt en ÓDÝRT ! Sparnaðaráskorun í Febrúar !

Nú er fjölskyldan að safna fyrir sinni fyrstu utanlandsferð saman og við erum að deyja úr spenningi 🙂  Já síðast þegar þessi fjölskylda fór til útlanda sem fjölskylda fórum við með eins árs gamalt barnið til Flórída og síðan er liðin 8 ár!!!! Þið getið rétt ýmindað ykkur að tilhlökkunin er gríðarleg.  En þetta þýðir líka að nú þarf að eyða minna í mat og aðrar nauðsynjar.  Undanfarna mánuði hef ég reyndað talið mig frekar sparsama en ég þarf að verða enn hagkvæmari í eldamennskunni.  Takmarkið er að eyða ekki meira en 25.000 kr á viku eða 100.000 kr á mánuði í mat (ath. inni í þessu er ekki matur eiginmannsins í vinnunni og ekki skólamaturinn sem stelpurnar fá í hádeginu í skólanum).  En allt annað, morgunverður fyrir alla, nesti fyrir stelpurnar, hádegismatur fyrir mig (tek með mér nesti), hressing seinnipartinn (oftast hristingur) og svo kvöldmatur.  Um helgar er að sjálfsögðu allir í mat allan daginn.

Þegar ég fór af stað með hversu mikið ég gæti lækkað matarinnkaupinn kíkti ég að gamni inn á síðu umboðsmans skuldara þar sem fram kemur að viðmið fyrir 5 manna fjölskyldu er 142.000 kr á mánuði.  Þegar það er búið að draga frá mat eiginmannsins í vinnunni og skólamatinn fyrir stelpurnar eru eftir 110.000.-  Það þýðir rúmlega 700 kr á mann á dag!  Í janúar eyddum við t.d. 130.000 kr í mat  svo þetta þýðir að það þurfi að eyða 7500 kr minna á viku til að fara niður í 100.000.

Kannski gæti þessi upphæð gæti verið mun lægri ef matseðillinn samanstæði af kjötfarsi og instant núðlum en inni í þessari upphæð er mikið af grænmeti, ávöxtum ofl.   Ég vona að það þurfi ekki að færa miklar fórnir (þær verða pottþétt einhverjar).  Ég vil geta gert amk. 1 ferskan drykk á dag og hafa alltaf ferskt grænmeti með kvöldmatnum og ýmislegt fleira hollt.

Takmarkið er að versla 2x í viku, á mánudögum fyrir max: 12.000 kr og á föstudögum fyrir max: 15.000 kr og hætta öllu búðarrápi í miðri viku eftir einum og einum hlut.  Það er nefnilega svo furðulegt að þó maður ætli að kaupa 2 hluti þá eru  þeir oftast 10 þegar maður labbar út úr búðinni.

Til þess að mér takist þetta takmark ætla ég að hafa þetta markmið opinbert og leyfa ykkur að fylgjast með.  Það væri svo auðvitað ótrúlega gaman ef fleiri taka þátt í þessu með mér.

Ég tók saman matseðilinn fyrir fyrstu vikuna og birti hann í framhaldi af þessum pósti.   Ég mun svo halda yfirlit yfir hvernig þetta gengur allt saman og deila með ykkur.

Gangi okkur öllum súper vel,

Sparnaðarkveðja,

Oddrún