Í vor fékk ég þann heiður að vera matgæðingur Vikunnar. Ég átti alltaf eftir að birta uppskriftinar hér inni en það var athugull lesandi blaðsins á tannlæknastofu, sem ætlaði sér að fara heim og finna uppskriftirnar á netinu sem benti mér á þetta. Það er eins gott að það sé einhver að fylgjast með 😉
Þessi uppskrift er einföld og barnvæn. Góð hversdags og spari. Börnin kalla hana “bestu súpu í heimi” sem eru ágætis meðmæli 🙂
Hráefni:
- 1 msk kókosolía
- 1 laukur
- 3 gulrætur
- 2-3 cm engifer
- 1 rauð paprika
- 1 dós eða flaska maukaðir tómatar
- 1 msk madras karrý krydd frá Pottagöldrum eða önnur góð karrýblanda
- 1 tsk túrmerik
- 2 msk grænmetiskraftur (líka gott að nota kjúklingakraft)
- 1 liter vatn
- 2 dl kókosmjólk
- salt og pipar
- lúka af ferskri steinselju
- safi úr 1/2 lime (má vera tæplega)
- Grillaður kjúklingur eða 2-3 bringur, grillaðar eða steiktar á pönnu
Aðferð:
- Bræðið kókosolíuna í potti, setjið karrý, túrmerik og lauk út í og leyfið að malla í smá stund við mjög lágan hita.
- Britjið gulrætur og papriku niður og bætið út í.
- Bætið engifer út í. Best finnst mér að raspa hann út í með fínu raspi.
- Bætið svo vatni, krafti og tómötum út í.
- Leyfið súpunni að malla við meðal hita í ca 10 mín eða þangað til grænmetið er orðið mjúkt.
- Að lokum fer kókosmjólkin út í ásamt lime safanum og steinseljunni.
- Bætið kjúklingnum út í.
- Smakkið til og kryddið með salti og pipar.
Það er góð hugmynd skipta kjúklingnum út fyrir fisk öðru hverju.
Góða helgi 🙂