Karrý kókos kjúklingasúpa

Í vor fékk ég þann heiður að vera matgæðingur Vikunnar.  Ég átti alltaf eftir að birta uppskriftinar hér inni en það var athugull lesandi blaðsins á tannlæknastofu, sem ætlaði sér að fara heim og finna uppskriftirnar á netinu sem benti mér á þetta.  Það er eins gott að það sé einhver að fylgjast með 😉

IMG_1837

Þessi uppskrift er einföld og barnvæn.  Góð hversdags og spari.  Börnin kalla hana “bestu súpu í heimi” sem eru ágætis meðmæli  🙂

Hráefni:

  • 1 msk kókosolía
  • 1 laukur
  • 3 gulrætur
  • 2-3 cm engifer
  • 1 rauð paprika
  • 1 dós eða flaska maukaðir tómatar
  • 1 msk madras karrý krydd frá Pottagöldrum eða önnur góð karrýblanda
  • 1 tsk túrmerik
  • 2 msk grænmetiskraftur (líka gott að nota kjúklingakraft)
  • 1 liter vatn
  • 2 dl kókosmjólk
  • salt og pipar
  • lúka af ferskri steinselju
  • safi úr 1/2 lime (má vera tæplega)
  • Grillaður kjúklingur eða 2-3 bringur, grillaðar eða steiktar á pönnu

Aðferð:

  1. Bræðið kókosolíuna í potti, setjið karrý, túrmerik og lauk út í og leyfið að malla í smá stund við mjög lágan hita.
  2. Britjið gulrætur og papriku niður og bætið út í.
  3. Bætið engifer út í. Best finnst mér að raspa hann út í  með fínu raspi.
  4. Bætið svo vatni, krafti og tómötum út í.
  5. Leyfið súpunni að malla við meðal hita í ca 10 mín eða þangað til grænmetið er orðið mjúkt. 
  6. Að lokum fer kókosmjólkin út í ásamt lime safanum og steinseljunni.
  7. Bætið kjúklingnum út í.
  8. Smakkið til og kryddið með salti og pipar.

IMG_0964

Það er góð hugmynd skipta kjúklingnum út fyrir fisk öðru hverju.

IMG_1837

Góða helgi 🙂

 

Sweet chili kjúklingasúpa úr íslensku grænmeti

Einföld og fljótleg súpa úr glænýju íslensku grænmeti, að sjálfsögðu er ekki verra að skera út í hana grillað lambakjöt.

Hér er á ferðinni dæmigerð núðlusúpa með tælensku yfirbragði nema ég nota íslenska grænmetið í staðinn fyrir núðlurnar.  Fyrir íhaldsama má auðvitað bara bæta núðlum út í áður en súpan er borin fram.  Hún er mjög fljótleg og getur verið komin á borðið 20 mín eftir að undirbúningur hefst ef kjuklingurinn er tilbúin en hún verður engu að síður enn betri ef hún fær að standa aðeins eftir að hún er tilbúin.

sweet chili kjúklingasúpa
Hráefni:
(Fyrir 4-5)
  • 1 tsk kókosolía
  • 3-4 gulrætur
  • 1/2 hvítkálshaus
  • 1/2 rauð paprika
  • Spergilkál 1/2 – 1 haus (eftir stærð og smekk)
  • 2 cm engifer eða ca 1 msk rifin engifer
  • 3 msk kjúklingakraftur
  • 1 msk fiskisósa
  • 1 msk sweet chili sósa
  • salt og pipar
  • Vatn, 1 liter
  • Kjúklingur, magn fer eftir smekk en ágætt að miða við ca. 2 bringur
Aðferð:
1. Ef þið eruð með bringur,  þá annaðhvort skerið í bita og steikið á pönnu og kryddið eftir smekk eða grillið þær heilar.  Þessi súpa er tilvalin fyrir afganga.
2. Hitið kókosolíu í potti og létt steikið gulrætur og papriku.
3. Rífið engiferið út í pottinn. (Ef þið rífið það með rifjárni losnið þið við “hárin”.
4. Bætið við vatni, kjúklingakrafti, fiskisósu og sweet chili sósu.  Reynið að velja sósu með litlu sykurmagni en hér má líka nota 1 msk af hlynsýrópi eða 1 msk af kókospálmasykri og krydda með smá chili kryddi.
5. Bætið hvítkálinu og spergilkálinu út í og leyfið súpunni að malla í 10 mín.
6. Bragðbætið með salti og pipar.
Það er gott að bera hana fram með smátt söxuðum vorlauk, fersku kóríander og jafnvel salthnetum eða kasjúhnetum.

Sætkartöflusúpa

Mild og góð haustsúpa/ sumarsúpa/ vetrarsúpa eða vorsúpa,  mér finnst hún bara alltaf passa vel.  Hún er skyld Yngingarsúpunni þessi en örlítið breytt.   Hún er mildari og “hreinni” þar sem ég sleppi karrý maukinu (curry paste), tómatmaukinu og mangó maukinu (mango chutney).  En þrátt fyrir það er hún þræl góð og börnunum mínum finnst þessi útgáfa miklu betri, sennilega því hún er mildari.

Ég var beðin um að koma með uppskrift í sætindaáksorun Lifðu til fulls sem yfir 4000 manns eru að taka þátt í.  Þetta er spennandi og vonandi að öllum gangi sem allra best í sykurleysinu.  Uppskriftin sem ég gaf er af súpu sem er bæði einföld, fljótleg og ódýr.  Ástæðan fyrir því að þessi súpa er sniðug þegar við ætlum að sleppa sykrinum er sú að sætar kartöflur eru náttúrulega sætar og uppfylla því ákveðna sykurþörf.

IMG_3445

 

Hráefni: (fyrir 4)

  • 1 msk kókosolía
  • 1 sæt kartafla
  • 4 gulrætur
  • 1 laukur
  • 4 hvítlauksrif
  • 3 þroskaðir tómatar ( má sleppa)
  • 2 msk kjúklingakraftur (eða grænmetiskraftur)
  • 1 tsk túrmerik
  • 1 tsk reykt paprika eða venjuleg paprika
  • 1 tsk cumin
  • 1 litri vatn
  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Hitið kókosolíu í potti, bætið lauknum við og leyfið honum að malla í rólegheitunum við lágan hita.
  2. Bætið kryddunum á pönnuna ásamt hvítlauknum.
  3. Bætið vatninu út á ásamt kraftinum.
  4. Bætið sætu kartöflunni og gulrótunum saman við.
  5. Leyfið súpunni að malla í ca. 20 mín þangað til grænmetið er orðið mjúkt.
  6. Maukið súpuna með töfrasprota.

Þessi uppskrift er í uppskriftaheftinu nýjasta 🙂

Verði ykkur að góðu 🙂

Stafasúpa

Hér kemur uppskrift af einfaldri og barnvænni súpu.  Stelpurnar mínar elska þessa súpu og því má ég til með að deila henni með ykkur 🙂  Það lítur kannski út fyrir að vera langur innihaldslisti en hún er í raun mjög einföld og fljótleg svo ekki láta það fæla ykkur frá.  Það hefur gengið eitthvað brösulega að ná almennilegri mynd en það getur vel verið að það takist á endanum, við bíðum allavegna ekki með uppskriftina 😉

Hráefni:

  • 1 tsk kókosolía
  • 1 laukur
  • 3 gulrætur
  • 1 stilkur af sellerí
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 1 rauð paprika
  • 1,5 litrar vatn
  • 2 msk tómatmauk
  • 1 msk kjúklingakraftur
  • 1 msk grænmetiskraftur
  • 1 msk paprikukrydd
  • 1 msk oregano krydd
  • salt og pipar eftir smekk
  • 1 dl spelt-stafir (má auðvitað nota bara brotið spaghetti eða eitthvað annað pasta)

 stafasúpa

Aðferð:

  1. Hitið olíuna í pottinum og steikið laukin við vægan hita, bætið sellerí, gulrótum og hvítlauk út í.
  2. Bætið við vatni,  grænmetiskrafti, kjúklingakrafti, kryddi og tómatmauki.
  3. Leyfið súpunni að malla í ca. 15 mín, þá bætið þið stöfunum út í og sjóðið í ca. 4 mín.

Spelt stafina fékk ég í Fjarðarkaup

spelt stafir

Þessa súpu hefur skólastelpan stundum farið með í skólann í hádegisnesti og er alltaf jafn hamingjusöm þannig að það er góð hugmynd að elda mikið í einu og eiga í litlum skömmtum í frysti  🙂

Ljúffeng linsubaunasúpa

Þessi ljúffenga linsubaunasúpa fékk háa einkunn hjá öllum fjölskyldumeðlimum.  Hún er einföld, fljótleg, holl, ódýr og bragðgóð, er hægt að biðja um eitthvað meira 🙂

Linsubaunasúpa

Hráefni:

  • 2 dl rauðar linsubaunir (það er mælt með því að þær liggji í bleyti í nokkra klst)
  • 1 1/2 – 2 l vatn
  • 1-2 tsk kókosolía eða önnur góð olía
  • 1 laukur
  • 2 lárviðarlauf
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 3 gulrætur
  • 2 sellerý stilkar
  • 1 dós/flaska maukaðir tómatar
  • 1 msk grænmetiskraftur
  • 2 tsk ítalskt pastakrydd eða pizzakrydd (t.d. frá pottagöldrum)
  • 2 tsk oregano
  • 2 tsk paprika
  • salt og pipar
  • lúka af ferskri steinselju

Aðferð:

  1. Leggjið linsubaunir í bleyti um morgunin og skolið svo vel áður en þeim er blandað saman við súpuna.  Þær verða auðmeltari við þetta.
  2. Hitið pönnu, bræðið kókosolíuna og steikið laukinn við lágan hita.
  3. Bætið við smátt brytjuðum gulrótum, sellerý og hvítlauk.
  4. Bætið vatninu við ásamt linsunum, tómötum og öllu kryddi.
  5. Sjóðið í ca 25 mín og þegar þið takið pottinn af hellunni setjið þið steinseljuna út í og smakkið til hvort það þurfi meira krydd.

Linsubaunir eru alveg frábærlega hollar.  Ég spurði mig hversvegna ég elda ekki linsubaunir amk. einu sinni í viku þegar ég leit yfir næringarupplýsingarnar.

  • Þær hafa góð áhrif á kólesterólið.
  • Þær innihalda mikið magn af trefjum og hafa því góð áhrif á blóðsykurinn.
  • Þær innihalda mikið magn af fólati, magnesíum og járni (og því frábær kostur fyrir þær ófrísku).
  • Þær innihalda góð flókin kolvetni og gefa því góða orku ásamt því að auka járnbúskapinn.
  • Þær eru góð uppspretta próteins.

Og því spyr ég aftur sjálfa mig, “Af hverju hefurðu ekki oftar linsubaunir í matinn?”

Verði ykkur að góðu 🙂

Ljúffeng fiskisúpa

Þegar ég hef fisk í matinn á þessu heimili vilja börnin bara soðin fisk, kartöflur og tómatsósu.  Það er hreinlega óumsemjanlegt (nema ég nenni að gera fiskibollur þá er það alltaf vinsælt).  Lengi vel gerði ég öðru hverju eitthvað annað en það sem þau urðu fyrir vonbrigðum þegar þau sáu hvað var í matinn.  Samt borða þau allskonar fisk í leikskólanum, fiskrétti, steiktan o.s.frv. En svona fisk vilja þau bara heima,  punktur! Og elska hann!   Ég er búin að gefast upp í bili og þau fá sinn soðna fisk en stundum geri ég eitthvað annað fyrir okkur fullorðnafólkið.  Til dæmis í síðustu viku var soðin fiskur og kartöflur það síðasta sem mig langaði í og bjó ég til þessa ljúffengu fiskisúpu.  Hún er mjög einföld, fljótleg og í raun bara grænmetissúpa sem breyttist í fiskisúpu þegar soðni fiskurinn var settur ofan í hana 🙂

IMG_3862

Hráefni:

  • 1 -2 tsk kókosolía
  • 1 laukur
  • 1 púrra
  • 2 gulrætur
  • 2-3 cm engifer
  • 1 dós maukaðir tómatar
  • 1 msk madras karrý krydd
  • 1 tsk túrmerik
  • 2 msk grænmetiskraftur
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 2 dl kókosmjólk
  • salt og pipar
  • lúka af ferskri steinselju
  • safi úr 1/2 lime
  • 1 liter vatn

Aðferð:

  1. Bræðið kókosolíuna í potti, setjið karrý, túrmerik og lauk út í og leyfið að malla í smá stund.
  2. Bætið gulrótum, púrru og engifer út í pottinn.
  3. Bætið svo vatni, krafti, tómötum og hvítlauk út í.
  4. Leyfið súpunni að malla við meðal hita í ca 10 mín.
  5. Að lokum fer kókosmjólkin út í ásamt lime safanum og steinseljunni.
  6. Smakkið til og kryddið með salti og pipar og setjið fiskinn út í.

Verði ykkur að góðu 🙂