Sagan af Sindra

Ég fékk leyfi hjá Álfhildi mömmu hans Sindra til að birta söguna hans hér:

Ljósmóðurin sagðist aldrei hafa heyrt jafn kröftugt öskur og þegar Sindri fæddist. Hann fékk 10 í lífsmörk. Hann lét bíða aðeins eftir sér, sennilega bara til að geta fengið flotta kennitölu – hann fæddist 070707. Fyrstu verkirnir byrjuðu klukkan 7 um morguninn, vatnið fór 7:17 seinnipartinn og hann var fæddur 7 mínútum seinna.

Fyrstu mánuðurnir gengu vel, hann var á brjósti en hann þurfti mikið og fékk graut með um 6 mánaða aldur. Þegar ég hugsa til baka þá var það tímapunkturinn sem breytingar byrjuðu. Hann fór að vakna illa á nóttunni, í rauninni alveg trylltur og lét eins og hann þekkti okkur ekki. Eina sem við gátum gert var að passa að hann meiddi sig ekki með að slá sér utan í rimlarúmið sitt. Hann varð líka mjög oft lasinn eftir sem hann varð eldri. Hann fékk t.d. 5 ælupestar á 7 vikum þegar hann var um 2ja ára aldur. Við byrjuðum að ganga með hann milli lækna, barnalæknir á Akureyri taldi hann vera með „night terror“ eftir að hafa farið með alls kyns sýni í alls kyns rannsóknir, en ekkert kom út úr sýnatökunum. Ofnæmislæknir í Reykjavík sagði hann vera með snertiofnæmi í húðinni en hann var með mjög viðkvæma og erfiða húð, sérstaklega í andliti. Önnur ofnæmi voru ekki til staðar sagði hann.

Sindri hafði gríðarlega mikið skap, sem ég skrifaði oft á sífelld veikindi. Hann var með asmapúst sem var mikið notað, endalaus hósti, hor og slím. Nefkirtlarnir voru teknir, hann fékk einhverja sprautu sem átti að styrka ofnæmiskerfið og ýmislegt var reynt.

Ég get alls ekki kvartað undan neinum þeirra lækna sem við fórum til, allir reyndu að gera sitt besta.

Sindri vaknaði allar nætur, oftast milli 1 og 2 á nóttunni og var þá hálf trylltur. Stundum þurftum við að bregða á það ráð að fara með hann út á tröppur til að hann kæmi til sjálfs sín. Að fara með hann í leikskóla og sækja hann þangað var mjög erfitt. Ég hélt dagbók um „köstin“ til að gera mér grein fyrir hversu oft þau ættu sér stað, hvernig ég brást við og hvaða árángri viðbrögð mín skiluðu. Ég fór með dagbókina til leikskólastjórns sem benti mér á að tala við geðlækni og komast sjálf í frí, þetta væri engum bjóðandi til lengdar. Ég fór til geðlæknis til að ræða málin en það kom lítið úr því, drengurinn sýndi allan annan þroska á eðlilegan hátt. Það var tekin upp samskiptabók milli heimilis og leikskóla í þeim tilgangi að halda betur um hegðunina, að eins væri brugðist við heima og í leikskóla og eins nýtti ég mér hana til að tala um jákvæða hluti sem áttu sér stað á leikskólanum í þeirri von að hann yrði sjálfur jákvæðari að fara þangað. Það var fyrirkvíðanlegt að vekja hann á morgnanna og fyrirkvíðanlegt að sækja hann á leikskólann.

Hér er brot úr dagbókinni:

Fimmtudagur 27.jan 2011

Sindri vaknaði en vildi ekki fara á leikskólann. Gat talað hann til.

Sótti Sindra á leikskóla. Hann hafði lent í ósætti við annan dreng á leikskólanum sem hann kvartar mikið yfir. Mér var sagt að Sindri hefði byrjað á að kasta bíl í áttina að umræddan dreng og drengurinn hafi kastað bíl til baka í höfuðið á Sindra.

Sindri sagðist þurfa að pissa áður en við fórum heim. Sú klósettferð var lík mörgum hér heima við. Þá getur hann deilt um það hvort okkar á að opna klósettsetuna, hvort okkar á að girða niður buxurnar, hvort okkar á að skeina, hvort okkar á að girða upp buxurnar, loka klósettsetunni og sturta niður. Hann skiptir títt um skoðanir á hverju atriði fyrir sig á meðan á hverri klósettferð stendur. Hann er upptekinn af því að nota aðeins þrjár arkir af klósettpappír til að skeina með, þær mega ekki vera rifnar í endann eða tættar og þarf að brjóta þær saman á ákveðinn hátt. Þar sem þessi klósettferð var ekki að hans fyrirmælum þá reiddist hann og var mjög reiður á meðan ég klæddi hann. Hann neitaði að klæða sig í  úlpu og stígvél. Grenjaði og öskraði í fatahenginu á leikskólanum. Eftir að hafa reynt talsvert að tala við hann og fá hann til að klæða sig endaði með því að ég labbaði með úlpuna og stígvélin út og yfir á Halldóru deild. Sindri elti öskrandi á sokkaleistunum. Þegar við komum inn á hina deildina vildi hann ekki klæða sig nema fara aftur á hans deild. Ég klæddi hann öskrandi, hann var trylltur á meðan ég sótti Halldóru og klæddi hana. Hann fór öskrandi og grenjandi út í bíl og var enn grenjandi þegar við komum heim.  Kastið tók ca 35 mín.

Miðvikudagur 2.feb 2011

Sindri vaknaði kátur og gekk þokkalega að fá hann til að fara út úr húsi – ef frá er talið að hann vildi skyndilega skipta um buxur þegar hann var kominn í stígvélin. Hann fékk það ekki og kostaði það grenjur.

Fundur með leikskólastjóra og deildarstjóra um Sindra, hvað sé hægt að gera til að bæta líðan hans. Leikskólastjóri lagði til að sálfræðiráðgjafi yrði fengin til að fylgjast með Sindra á deildinni og koma með hugmyndir af lausnum. Ég gaf leyfi fyrir að myndband yrði tekið af honum í sama tilgangi. Leikskólastjóri lagði einnig til að við myndum leita til sálfræðings/geðlæknis með Sindra. Deildarstjóri kom með uppástungu um að Sindri fengi límmiða á höndina ef það gengi vel hjá honum að klæða sig þegar hann er sóttur en það er yfirleitt mjög erfiður tími. Reyndum við þetta en það gekk ekki vel í þetta skiptið, Sindri tók kast sem stóð yfir í 70 mín, byrjaði á leikskólanum og endaði heima. Ég lét hann algjörlega afskiptalausan þangað til hann kom sjálfur til mín og jafnaði sig í framhaldi af því.

Sindri var mjög þreyttur eftir þetta og hafði margt á hornum sér, sérstaklega yfir kvöldmatnum. Honum var ekkert gefið eftir. Hann var fljótur að sofna eftir þennan dag….

Við fjölskyldan fórum í sumarfrí í byrjun júlí síðasta sumar. Það varð samt ekki mikið frí, það var eiginlega skelfilegur tími. Sindri var hrikalega erfiður í skapinu og það eina sem við töldum okkur geta gert var að passa að hann yrði ekki svangur svo að geðslagið væri þá skárra. Þannig að við áttum alltaf til skyrdrykki, jógúrt, samlokur með smjöri og osti og stoppuðum auðvitað oft til að fá okkur ís eins og venja er í sumarfríi. Drengurinn var úthverfur. Það leið varla klukkustund sem var ró í kringum okkur.

Sölvi átti að fara til Svíjóðar að kenna um miðjan júlí. Ég fékk þráhyggju fyrir því að komast með í þessa ferð. Ég hef aldrei áður farið með honum í kennsluferðir eða haft nokkurn áhuga fyrir því. Kannski var ég bara orðin svo þreytt að ég vildi frekar troða mér með heldur en að vera ein heima með krakkana á meðan. Til þess að ég gæti farið þurfti ég að redda pössun fyrir börnin á 4 stöðum yfir 4 daga. Og að auki að koma hundinum Perlu í pössun og gera viðbragðsáætlun ef hún skyldi strjúka, sem hún og gerði… Mér fannst hálft í hvoru fáránlegt að leggja þetta allt á sig til að komast að heiman, en út fórum við. Við vorum hjá yndislegu fólki, Lottu sem er sjúkraþjálfari og Peter sem er barnaofnæmislæknir. Síðasta kvöldið fórum við út að borða og spyr Peter þá hvort að ég hafi ekki notið mín þessa daga – ég hélt það nú, ég hefði sofið óslitið 3 nætur í röð í fyrsta sinn í 5 ár. Honum fannst þetta nú undarlegt í ljósi þess að börnin væru orðin 4 og 5 ára. Þá sagði ég honum hvernig Sindri vaknaði á nóttunni með svokallað night terror. Peter setti strax í brýrnar og spurði eftirfarandi spurninga:

Er hann heitfengur?

Sefur hann ekki með neitt ofan á sér?

Er hann með vindgang þegar hann vaknar á nóttunni?

Er hann oft með niðurgang?

Er hann með asma?

Er hann með erfiða húð?

Er hann oft þreyttur um miðjan dag?

Er hann með þráhyggjur?

Er hann með gríðarmikið skap?

Sækir hann mikið í mjólkurvörur?

Mér fannst spurningarnar koma úr öllum áttum en öllum var svarað játandi.

Peter sagðist gruna að þetta væri mjólkuróþol eða ofnæmi og hvatti okkur til að taka út allar mjólkurvörur í 3 vikur og athuga hvort við finndum mun. Hann sagði að ef líkaminn væri stöðugt að berjast við að melta eitthvað sem er ofnæmisgjafi þá hækkaði líkamshitinn um hálfa til eina gráðu. Þess vegna væri þessi heitfengni. Hann sagði jafnframt að ofnæmið myndi valda truflunum á boðskiptum við heila, þess vegna hefði það svona áhrif á skapið og að ekki væri hægt að ræða með nokkru viti við viðkomandi. Mjólkurneysla hefði mikil slímaukandi áhrif, það gæti útskýrt asmann.

Við höfðum engu að tapa. Daginn sem við komum heim versluðum við rísmjólk og mjólkurlaust viðbit og hentum öllum mjólkurvörum úr ísskápnum. Eftir 2 daga svaf Sindri heila nótt í fyrsta sinn.

Eftir 5 daga vissum við að svarið var komið. Drengurinn var allur annar. Þetta var ekki auðvelt, hann vildi skyrið sitt og mjólkurglasið fyrir svefninn. Mjólkurglasið sem var valdurinn af því að hann vaknaði alltaf nokkrum tímum seinna í tryllingi. Það kom fyrir að hann borðaði bara popp því hann vildi ekkert annað mjólkurlaust. En hann var ótrúlega fljótur að aðlagast og sjálfsagt vegna þess að hann hefur sjálfur fundið muninn á sér. Sindri er ekki með lactosaóþol, hann er með ofnæmi fyrir mjólkurpróteinum.

Leikskólinn á hrós skilið fyrir samvinnuna, skilninginn, þolinmæðina og ekki síst er ég þakklát konunum í eldhúsinu sem sjá til þess að Sindri minn fær alltaf góðan mjólkurlausan mat, meira að segja sérbökuðu þær handa honum piparkökur fyrir jólin 🙂

Að færa sig yfir í mjólkurlausan mat og bakstur er talsvert maus en alls ekki neitt óyfirstíganlegt. Ég er búin að safna einhverjum upplýsingum í sarpinn og er meira en tilbúin að deila þeim ef áhugi er einhvers staðar fyrir hendi.

Í dag erum við búin að kynnast Sindra upp á nýtt. Við eigum dreng sem sefur allar nætur, vaknar hlægjandi og hefur einstaklega skemmtilegan húmor og góða nærveru. Hann er bjartur og fallegur og finnur sjálfur að það er honum fyrir bestu að sleppa mjólkinni. Samskiptabókinni við leikskólann var hent viku eftir að sumarfríinu lauk, þá hafði Sindri verið mjólkurlaus í 3 vikur. Þroskakannanir og annað voru gerðar aftur, enda var þetta ekki sama barnið. Húðin er öll önnur, asmapústið er varla hreyft og systir hann verður oftar lasinn en hann þessa dagana. Auðvitað rífst hann  við systur sína, hefur sínar skoðanir og getur orðið geðvondur þegar hann er svangur eða veikur. En það er hægt að tala við hann, hann getur útskýrt hvað er að hjá honum og það er hægt að komast að samkomulagi við hann. Áður var það ekki möguleiki.

Ég skrifa þetta hér því af því að sjálf hefði ég aldrei trúað hversu mikil áhrif á bæði andlega og líkamlega heilsu mjólkurvörur eða annar matur sem einstaklingur hefur ofnæmi fyrir, getur haft. Ég vil þess vegna segja sögu okkar í von um að hún vekji hugsanlega einhvern til umhugsunar og hafi góð áhrif á líf einhverra annarra.

Ekkert hefur breytt okkar lífi til jafn góðs og þetta.

21 thoughts on “Sagan af Sindra

  1. er mikið að spá og spekúlera að skipta mjólkurvörum út. en mínar dætur hafa reyndar ekki öll þessi einkenni nema þurr húð, exem, heitfengar, slímmyndun (búið að taka hálskirtla úr annarri). þær sofa vel og eru yfirleitt þægar. En sú yngri á reyndar til að taka frekjuköst, en ekkert sem mér finnst óeðlilegt. þetta er kannski bara slatti :).

    kv. Lára

    1. Sæl Lára og takk fyrir að lesa 🙂
      Þú hefur engu að tapa 🙂 Ég er viss um að húðin myndi lagast, ég gleymdi nú að nefna það að þegar við fórum í mjólkurlaust var exemið nær horfið nema litlar hvítar bólur út um allan líkamann. Á ca 3-4 degi á mjólkurlausu fæði voru þessar litlu bólur horfnar og húðin var dásamlega slétt og mjúk. Á síðunni eru fullt af mjólkurlausum uppskriftum sem vonandi geta komið að gagni þeim sem vilja gera svona prufu.
      Gangi þér vel 🙂
      Kær kveðja,
      Oddrún

  2. Vá mögnuð saga. Ég hef verið að lesa bók sem heitir “Meltingarvegurinn og Geðheilsan” og hún er öll í sömu átt og sagan þín. Ég á strák sem greindur er með ADHD og mér hefur fundist allt of erfitt að taka matarræðið svo mikið í gegn sem þessi bók mælir með, en ég gæti byrjað á mjólkinni. Hann er með litlar, hvítleitar bólur í andlitinu og á upphandleggjunum, skapsveiflur, smá þráhyggju og athyglis erfiðleika. Takk fyrir hvatninguna, ég læt vita ef þetta breytir einhverju! kveðja Villa

    1. Sæl Vilhelmína,

      Ég hef lesið þá bók líka og mér finnst hún mjög góð, margar góðar upplýsingar og góðar útskýringar. En ég er alveg sammála þér, þær leiðbeiningar eru MJÖG strangar og ekki fyrir alla að fara út í þær, ég veit þó um nokkra hér á Íslandi sem hafa farið eftir þessu mataræði. Svona breytingar á mataræði geta tekið langan tíma og gott að byrja á einhverju einu, þegar maður sér að það virkar er hægt að prufa að taka eitthvað annað út.
      Gangi þér vel og það væri gaman að vita hvernig gengur 🙂
      Kær kveðja,
      Oddrún

      1. Sael
        Veistu hvort petta eigi líka vid glúten ópol? (pessi einkenni ) Ég fór med strákinn minn til hómòpata, Hún setti hann í skannar, sagdi mér ad hann vaeri med eithvad gluten ópol, og rádlagdi mér ad taka glúten út í 6 mánudi. Ég hef nú ekki lagt í petta en pá, par sem petta er ansi mikid mál, og pydir ad eg purfi ad taka skólamáltídina líka út. En hann er med mikid skap, kvída og hegdunarvandamál. Veistu hvort pessar skannarnir séu marktaekar?

      2. Sæl,
        Mín reynsla af mælingum hjá hómópötum er sú að þær hafa reynst réttar. En það er rétt að það að taka út glútein er heilmikið mál en þó alls ekki ógerlegt. Það eru til nokkrar góðar heimasíður með glúteinfríum uppskriftum, t.d. þessi hér finnst mér skemmtileg: http://www.thespunkycoconut.com/
        Ég hef ekki verið með mína stelpu í skólamatnum og það hefur gengið ágætlega, ég elda ríflega á kvöldin og hita mat á morgnanna og set í hitabox (fæst í Radísu). Þetta er aðallega skipulag, ég reyni að hafa svipað hjá henni og hinir fá svo ég nota matseðilinn til hliðsjónar.
        Það versta við glúteinóþolið er það að oft sést ekki munur strax, jafnvel ekki fyrr en eftir 2-3 mánuði og því getur það reynt á þolinmæðina að sjá ekki árangurinn strax.
        Gangi þér súper vel 🙂

  3. Takk fyrir að deila þessari sögu með okkur. Ég er búin að reyna mikið að fynna hvað er að trufla 2 1/2 árs gamla dóttir mína. Hún er hefur mörg af þessum einkennum, sefur ílla á nóttinni, borðar lítið en alltaf til í skyr og mjólk, mjög og þá meina ég mjög skapstór, heitfeng, vil aldrei sofa með neitt ofan á sér, eitthað vesen með mallann og er með smá barnaasma. En er ekki oft veik, hún er mjög heilsuhraust fyrir utan smá magakveisur… Ég er búin að reyna allt, fara til ýmsa lækna og ég veit ekki hvað..
    Ég hef verið að pæla að taka út mjólkurmatinn, bara til að prófa en núna mun ég gera það 100%
    Takk enn og aftur fyrir
    Kv
    Svava

    1. Sæl Svava,
      Já þetta hljómar kunnulega 🙂 Ég var einmitt oft með mína hjá læknum en það talaði aldrei neinn um að prufa að taka út mjólkina og sjá hvað gerðist. Oft vantar mann bara smá hvatningu eins og málið var með mig 🙂 Gangi þér rosalega vel og það væri gaman að heyra hvort þú finnur mun 🙂

      Kær kveðja,
      Oddrún

  4. Vá þessi saga er æði. Eftir að ég las þessa grein þá ákvað ég að taka út mjólkina hjá eldri stráknum mínum það var summt í þessari grein sem passaði við hann (hefur aldrei komið neitt úr ofnæmisprófum). Ég las þetta á þriðjudag 15 jan og erum búin að taka mjólkina,skyr og jógúrt út hjá honum og hann er allt annar. Við foreldrarnir vorum að vera gráhærð yfir honum en hann er sko allt annar í dag. TAKK

    1. Vááá en geggjað að heyra 🙂 Mikið er gaman að heyra um fleiri sem hafa prufað og fundið mun 🙂 Takk fyrir að segja frá og gangi ykkur rosalega vel áfram 🙂
      Kær kveðja,
      Oddrún

  5. úfff þetta er of kunnuglegt að lesa :/ getur það verið að þetta sé mjólkurvörunum að kenna……..
    ég er komin á það stig að prufa hvað sem er, en hvar á ég að byrja ?? Held ég þurfi leiðbeiningar skref fyrir skref

    1. Sæl Kristín, Það er allavegna ljóst að margir hafa fundið mun á því að taka út mjólkina. Stundum þarf að taka út fleira t.d. sykur, hvítt hveiti og jafnvel glútein. En það er allvegna ljóst að maturinn sem við borðum hefur áhrif 🙂 Ég myndi byrja á mjólkinni, þú hefur engu að tapa 😉 Það er best að ég setji niður á blað hvernig við höfum gert þetta og pósti því í kvöld eða morgun 🙂 Ég mæli líka með spjallhóp á Facebook sem heitir Mjólkurofnæmi og óþol, þar eru mikið af upplýsingum og margar mömmur með reynslu 🙂

      Kær kveðja,
      Oddrún

  6. Sæl og ég tek undir með hinum: Takk fyrir að deila þessu með okkur. Og frábært að heyra hvað stráknum þínum líður miklu betur.

    Sonur minn er 2 ára síðan í Október og hann hefur öll einkennin nema astma og það að sækja í mjólkurvörur… Eða þegar ég skrifa þetta fer ég að hugsa um að hann elskar alveg að háma í sig ostsneiðar og að drekka jógúrt og fleira í þeim dúr, hef greinilega ekki hugsað þetta nógu djúpt. En málið er bara að eftir að hann hætti á brjósti eins árs hefur hann aldrei viljað drekka mjólk, fæst auðveldlega til að smakka en hryllir svo við henni að við köllum hann Hrolllaug þegar hann tekur sopa 🙂 Það hefur alltaf verið HRYLLINGUR að skipta á honum og klæða hann í og úr fötum (ekki í 100% tilfellum en svo nálægt 80-90%) Hann hefur fengið Vallergan (ofnæmislyf, sljóvgandi) til að hjálpa honum að vakna ekki svona oft á nóttinni einmitt því við héldum að hann væri með night terrorinn. Vallerganið virkar alveg að vissu leyti en kemur ekki í veg fyrir að hann vakni 10-30 sinnum á einni nóttu bara til að fá snuddu eða smá grátur eða eitthvað í þá áttina.
    En ok mín spurning er: fyrir utan að sjálfsögðu að prófa þig áfram í að taka út mjólkurvörur hjá honum, hvernig fékkstu staðfestingu á ofnæminu fyrir mjólkurpróteinunum? er ss til próf sem hægt er að fara með barn í ? Og smá auka spurning: tileinkuðuð þið öll ykkur þennan lífsstíl eða sérðu bara til þess að hann fái rétta fæðu? 🙂

    B.kv. Fröken forvitin í assgoti líkum aðstæðum en hafði aldrei dottið í hug að neitt væri AÐ.

    1. Sæl og takk fyrir að lesa 🙂 Ég fékk bara að birta söguna hans Sindra með leyfi mömmu hans, saga stelpunnar minnar er undir fyrirsögninni “Mjólkuróþol eða ADHD” hér á síðunni. En það var þessi saga sem vakti mig til umhugsunar á sínum tíma. Ég hefði aldrei getað trúað hvað fæða getur haft mikil áhrif ef viðkomandi er með óþol fyrir henni.

      Þú ættir að sjá mun eftir nokkra daga. Mjög spennandi að vita hvort svefninn lagist.

      Varðandi það að fá staðfestingu á ofnæminu skilst mér að það sé hægt að fara í svoleiðis próf, en það er langt og fólk þarf að vera í marga tíma í þessu prófi og það er ekki gert nema í einstaka tilfellum. Í mínu tilfelli fékk ég bara vottorð þar sem á stendur “óþol fyrir mjólkurpróteinum” og það er byggt á viðbrögðunum við því að taka mjólkina út. Ég spurði mömmu hans Sindra á sínum tíma hvort þau hefðu farið í próf en þeirra greining byggist líka á þessum mikla sjáanlega mun sem varð á honum.

      Við höfum breytt miklu í okkar mataræði og við kaupum mjög lítið af mjólkurvörum, ég nota einstaka sinnum ost í matargerð (pizza og lasagna) og þá fær óþolspían sér mat (sjá undir “hugmyndir” á síðunni) og er bara mjög sátt. Það eina sem ég kaupi fyrir utan það er fetaostur og smjör/smjörvi og rjómi stundum. Hér áður fyrr var öll matargerð löðrandi í osti, smurosti, rjómaosti, rjóma osv.fr. og ég þurfti að tileinka mér nýjar aðferðir í eldhúsinu. Það er lítið mál að skipta út mjólk í bakstri með því að nota rísmjólk, haframjólk, möndlumjólk, kókosmjólk eða bara vatn.

      Gangi þér vel og hlakka til heyra hvort svefninn lagist,
      Kær kveðja,
      Oddrún

      1. Afsakaðu mig ég veit ekki afhverju ég hélt að það væri mamma Sindra sem væri að svara kommentum hér. En ég las þína sögu með stelpuna þína og samsvaraði mér bara enn betur við það. Svo nú þarf ég að fara að leggjast í rannsóknarvinnu með hvernig ég veit hvað inniheldur mjólk eða mjólkurprótein og byrja sem fyrst að reyna að klippa það alveg út til að sjá hvort ég sjái mun. Ég er týpan sem hef aldrei kunnað (né haft áhuga, því miður) á að lesa hvað hlutirnir sem ég kaupi innihalda – en ef hann breytist við þetta þarf ég sko að breytast líka og læra á þetta. Ekki er að skemma fyrir þessi frábæra síða sem þú heldur hér uppi með frábærar hugmyndir að mjólkurlausum uppskriftum.
        Takk enn og aftur og ég læt sko vita með breytingu eða ekki breytingu 🙂

      2. Ekkert mál 🙂 Sennilega hef ég ekki gert það nógu skiljanlegt þegar ég svaraði hinum, ég var ekki alltaf að gera greinamun á hvorri síðunni fólk var að commenta 🙂
        Þú verður sennilega aðeins lengur að versla þegar þú ferð að lesa allar innihaldslýsingarnar 🙂 Svona breyting getur tekið tíma og gott að taka sér þann tíma sem maður þarf og undirbúa sig. Það er mjög margt sem er hægt að borða, t.d. er góð hugmynd að gera smoothie í staðinn fyrir jógúrt og skyr. Ofan á brauð er t.d. hægt að borða: túnfisksalat, lifrarkæfu (bara lesa innihaldslista), sultu, kjúklingaskinku, hummus eða pestó. Í flestan mat er hægt að nota kókosolíu í staðinn fyrir smjör og kókosmjólk í staðinn fyrir rjóma eða rjómaost. Ég held að flestir fari að borða fjölbreyttari fæðu sem hætta í mjólkurmatnum, hann er bara nebblega svo ferlega þægilegur 🙂

        Gangi þér vel og hlakka til að vita hvort svefninn breytist,
        Kær kveðja,
        Oddrún

Leave a Reply to Nína Midjord ErlendsdóttirCancel reply