Hnetufingur með súkkulaði

Jæja, nú er aldeilis komin tími á að pósta hér nýrri uppskrift.  Ég hef ekki verið dugleg að setja inn nýjar uppskriftir undanfarið því ég hef verið upptekin í öðrum skemmtilegum verkefnum og því miður eru bara 24 tímar í sólarhringnum 😉    Ég er mjög spennt að segja ykkur frá einu af þessu verkefni en það er ný rafbók sem er aaaaaaaalveg að verða tilbúin.  Mun láta ykkur vita á næstu dögum þegar allt er klárt.   Þessi bók heitir „uppáhaldsréttir barnanna“ og er samansafn af uppáhaldsréttum barnanna minna. En meira um það síðar.

Þessa hnetufingur smakkaði ég fyrst hjá mömmu þegar við skruppum til Akureyrar í mars.  Ég segi nú ekki annað en ÞVÍLÍK SNILLD.  Það er bæði negull og kanill í uppskriftinni og því kalla börnin á heimilinu þetta piparkökustangir sem kannski lýsir þeim mun betur en hnetufingur.

Uppskriftina fékk ég hjá mömmu en það fylgir uppskriftinni að hún sé fengin úr annarri speltbók Guðrúnar Rögnu en ég er búin að breyta uppskriftinni örlítið.

Hnetufingur með súkkulaði
Hnetufingur með súkkulaði

Hráefni: 

 • 200 g malaðar heslihnetur og valhnetur (ég hef notað möndlumjöl)
 • 50 g strásæta með stevíu (Via Health)
 • 50 g kókospálmasykur
 • 1 1/2 tsk kanill
 • 1 tsk negull
 • 1 tsk egg
 • Dökkt súkkulaði

Aðferð: 

 1. Byrjið á því að mala hnetur eða setja möndlumjölið í skál.
 2. Kanil og negul blandað saman við, síðan sykrinum og að lokum egginu.
 3. Blandið vel saman og hnoðið.
 4. Setjið á bökunarpappír, u.þ.b. 1 cm þykkt.
 5. Skerið í fingurbreiðar lengjur og svo í litla fingur eða litlar stangir.
 6. Bakið 15-20 mín við 150°c.
 7. Stangirnar mega vera örlítið mjúkar því þær verða stökkar þegar þær kólna. Ef þær eru bakaðar of lengi verða þær svolítið harðar þegar þær kólna.
 8. Kælið stangirnar, bræðið súkkulaði og dýfið öðrum endanum ofan í og leggið aftur á bökunarpappírinn.
 9. Kælið og njótið 🙂

Það er óþarfi að setja súkkulaði í hvert skipti því þessar stangir eru mjög góðar bara eins og þær eru.  En það er skemmtilegt að setja súkkulaði spari. 

Geggjuð Tíramísú „ís“ kaka

Þetta er nú spennandi.   Ég held að ég hafi sjaldan verið jafn glöð með uppskrift eins og ég er núna og það sem mig hlakkar til að deila henni með ykkur 🙂   Ég hef alltaf haldið upp á tíramísú en það er langt síðan ég hef gert „alvöru“ en maður minn, þessi er sko ekki síðri.  Ef þið hafið ekki prufað að gera hrákökur með fyllingu úr kasjúhnetum hvet ég ykkur til þess að prófa sem fyrst.  Ég hef verið með þannig kökur á sætinda námskeiðunum mínum og þær slá alltaf í gegn.  Súkkulaði pekanbakan og Límónukökurnar eru í uppáhaldi hjá mér en þessi kaka er klárlega komin í fyrsta sæti núna.  Þegar ég sá þessa girnilegu uppskrift frá Helga-gabriela.com datt mér loksins í hug að setja kaffi í þessar kökur.

Tíramísú

Ég veit að þetta gæti litið út fyrir að vera flókið, en þetta er auðveldara en þú heldur 😉

Botninn:

 • 3 dl pekan hnetur
 • 1 dl heslihnetur (má líka nota valhnetur)
 • 1 dl kókosmjöl
 • 2,5 dl döðlur (má líka setja 50/50 döðlur og apríkósur)
 • 2 msk kókosolía (brædd)
 • örlítið salt
 1. Setjið hneturnar ásamt öðrum þurrefnum í matvinnsluvél og vinnið vel, bætið svo kókosolíunni og döðlunum smátt og smátt út í. (Kannski er óþarfi að nota allar döðlurnar, skoðið aðeins áferðina á deiginu, við viljum hafa hann svolítið stökkan og alls ekki of klístraðann.) Ég nota oftast fersku döðlurnar sem fást í grænmetiskælinum, en passið ykkur bara á því að taka steinana úr þeim 😉
 2. Setjið botninn í form og kælið meðan þið búið til fyllinguna.

Þið getið bæði notað stórt mót eða mörg lítil.

IMG_1308

Fyllingin:

 • 300 g kasjúhnetur  (lagðar í bleyti í amk. 4 klst og vatninu svo hellt af þeim)
 • 1 dl hlynsýróp
 • 1,5 dl kókosolía (brædd)
 • 1 tsk vanilluduft (hreint)
 • 2 – 3 dl sterkt kaffi
 • 4-5 msk kakó (ath. þetta fer ekki í strax)
 1. Allt sett í blandara og blandað þangað til silkimjúkt.
 2. Hellið helmingnum af fyllingunni í formið og frystið.
 3. Búið til karamellusósu (uppskrift hér fyrir neðan) og hellið yfir kökuna og stingið svo aftur í frost.
 4. Bætið kakóinu við fyllinguna sem eftir er í blandaranum, blandið vel saman og hellið yfir karamellusósuna.
 5. Þegar súkkulaðifyllingin hefur náð að stífna má setja súkkulaðilag yfir kökuna en hinsvegar má líka alveg bara brytja niður dökkt súkkulaði og setja yfir kökuna þegar hún er borin fram.

Karamellusósan:

 • 2/3 dl hlynsýróp
 • 3 msk möndlusmjör
 • 1 tsk vanilluduft
 1. Allt sett í blandara og blandað vel þangað til áferðin er eins og karamella
 2. Hellið yfir kaffifyllinguna sem ætti að vera búin að harðna aðeins.

IMG_1309

 

Súkkulaði yfir:

 • 1/2 dl kakó
 • 1/4 dl hlynsýróp
 • 1/2 dl kókosolía
 • 1/2 dl kakósmjör
 • örlítið vanilluduft
 • örlítið himalayjasalt

Bræðið kakósmjörið yfir vatnsbaði, bætið öllu saman við og hrærið vel.  Smyrjið ofan á kökuna og kælið.

Það má líka bara búa til plötu úr þessu súkkulaði og saxa yfir kökurnar, þetta lítur nefnilega ótrúlega vel út en súkkulaðið var með pínu vesen þegar við vorum að gæða okkur á þessari dásemd.  Það var það hart að það var eiginlega eina í stöðunni að borða það bara sér (sem var auðvitað bara gott mál) en ég sé fyrir mér að ef það er gerð stór kaka (eins og ég ætla að gera um helgina)  þá á súkkulaðið örugglega eftir að brotna í allar áttir þegar kakan er skorin…svo næst þegar ég geri þessa köku mun ég setja súkkulaðið saxað yfir hana.

photo 3(6)

Hér sést kakan á „hlið“ og þá sjást lögin: botninn – kaffi fylling – karamellusósa – súkkulaðifylling – súkkulaði ásamt hnetum og mórberjum!

Þið getið leikið ykkur með uppskriftina, til dæmis búið til 2 lög af fyllingu en borið svo karamellusósuna fram með, eða haft karamellusósuna efst… um að gera að leika sér svolítið 😉

Gangi ykkur vel og mikið væri nú gaman að heyra hvernig þessi dásemd smakkaðist!

Ofurhollar smákökur fyrir þá sem nenna ekki að baka

Snilldar smákökur frá vinkonu minni henni Steinunni Aðalsteinsdóttur, oftast kennd við Heilsuhótelið í Reykjanesbæ.  Í síðustu viku var þar haldin mjög fróðlegur fyrirlestur um meltinguna.  Fyrirlesarinn var Chad Keilen sem vinnur á Heilsuhótelinu.  Hann er með BSc í Heilsuvísindum og alger sérfræðingur sem gaman er að hlusta á.  Hann útskýrði hlutina á mannamáli og var t.d. með kaðal til að sýna okkur hversu langur ristillinn er, mjög sjónrænt og fræðandi.  Hann gaf okkur mörg góð ráð hvernig hægt er að styðja við betri meltingu með einföldum ráðum.

Í hléinu bauð hún Steinunn upp á þessar sérlega hollu smákökur sem þarf ekki að baka og tekur mjög stuttan tíma til að búa til og bragðlaukarnir verða ekki fyrir vonbrigðum.

photo (3)

Hráefni:

 • Perur (mjög sniðugar þessar litlu lífrænu sem fást á mörgum stöðum núna)
 • Hnetusmjör (eða möndlusmjör)
 • Hampfræ
 • Dökkt súkkulaði

Aðferð:

 1. Skerið peruna í sneiðar (Hér má að sjálfsögðu skipta út perunum fyrir epli)
 2. Setjið ca hálf teskeið af hnetusmjöri
 3. Stráið hampfræjunum yfir (ef ykkur þykir þau spes á bragðið ein og sér, passa þau dásamlega í þessari samsetningu)
 4. Skerið súkkulaði í litla bita og setjið einn bita ofan á hverja „köku“
 5. Borðið strax 🙂

Ofangreindur fyrirlestur var liður í fjáröflun fyrir Helenu og Emelíu en þær eru dætur Chad og Rutar, eiginkonu hans.  Þær eru mjög mikið veikar, þurfa aðstoð allan sólarhringin og nú er það orðið svo að Emelía fær allt að 100 flog á dag.  Ástæða söfnunarinnar er Ameríkuför fjölskyldunnar til að leita frekari lækninga úti þar sem ekki er hægt að gera meira fyrir þær systur hér á Íslandi.  Þau þurfa sjálf að leggja út fyrir þessari kostnaðarsömu ferð.  Ég hvet ykkur til að kíkja á síðu söfnunarinnar!

Bleiki sjeikinn

Síðasti dagur október mánaðar og síðasti séns að smella inn einum bleikum drykk áður en mánuðurinn er úti.

Þessi er svo einfaldur og góður, næstum eins og ís sögðu tvær vinkonur í gær 🙂

bleikur sjeik

Hráefni:

 • 3-4 dl frosin ananas (mæli með Crops hann er svo góður, í rauðu pokunum)
 • 3-4 dl frosin jarðaber
 • 2 dl kókosmjólk (þykk)
 • 1/2 avakadó
 • 2 msk möndlusmjör
 • 3-4 dl vatn

 

Aðferð:

Allt sett í blandara og blandað vel saman

 

Góða helgi 🙂

 

 

Mjúki mjólkurlausi súkkulaðiísinn

Ég trúi því varla að þessi uppskrift sé ekki inni á vefnum mínum, nú þarf ég sko að fara að skoða hvaða uppskriftir eru komnar og hverjar ekki.  Þetta er nú ein af mínum uppáhalds ís uppskriftum.  Þessa uppskrift gaf ég upp sem matgæðingur Vikunnar í vor.  Það sem er svo dásamlegt við þennan ís er að döðlurnar gera hann svo mjúkann og gefa honum svona ekta ís áferð. Ég lofa því að þið verðið ekki svikinn af þessum 😉

IMG_0967

Hráefni: 

 • 1 dl döðlur
 • 5 dl kókosmjólk (ekki lite)
 • 4 msk kakó
 • 5 dropar stevía

(Að sjálfsögðu má bæta fleiru við ísinn, td. vanillukornum frá Rapunzel, piparmyntudropum eða súkkulaðibitum)

Aðferð: 

Sjóðið döðlurnar í nokkrar mínútur í 1 dl af kókosmjólk. Maukið í blandara þangað til blandan er orðin silkimjúk (mjög mikilvægt nema þið viljið hafa döðlubita í ísnum).  Bætið 4 dl af kókosmjólk, stevíu og kakói út í. Hellið í mót og setjið inn í frysti. Gott er að hræra öðru hverju meðan hann er að frjósa.  Takið hann út um það bil 15 mínútum áður en þið ætlið að borða hann.

Hér er uppskriftin af íssósunni góðu 🙂

Góða helgi 🙂

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Karrý kókos kjúklingasúpa

Í vor fékk ég þann heiður að vera matgæðingur Vikunnar.  Ég átti alltaf eftir að birta uppskriftinar hér inni en það var athugull lesandi blaðsins á tannlæknastofu, sem ætlaði sér að fara heim og finna uppskriftirnar á netinu sem benti mér á þetta.  Það er eins gott að það sé einhver að fylgjast með 😉

IMG_1837

Þessi uppskrift er einföld og barnvæn.  Góð hversdags og spari.  Börnin kalla hana „bestu súpu í heimi“ sem eru ágætis meðmæli  🙂

Hráefni:

 • 1 msk kókosolía
 • 1 laukur
 • 3 gulrætur
 • 2-3 cm engifer
 • 1 rauð paprika
 • 1 dós eða flaska maukaðir tómatar
 • 1 msk madras karrý krydd frá Pottagöldrum eða önnur góð karrýblanda
 • 1 tsk túrmerik
 • 2 msk grænmetiskraftur (líka gott að nota kjúklingakraft)
 • 1 liter vatn
 • 2 dl kókosmjólk
 • salt og pipar
 • lúka af ferskri steinselju
 • safi úr 1/2 lime (má vera tæplega)
 • Grillaður kjúklingur eða 2-3 bringur, grillaðar eða steiktar á pönnu

Aðferð:

 1. Bræðið kókosolíuna í potti, setjið karrý, túrmerik og lauk út í og leyfið að malla í smá stund við mjög lágan hita.
 2. Britjið gulrætur og papriku niður og bætið út í.
 3. Bætið engifer út í. Best finnst mér að raspa hann út í  með fínu raspi.
 4. Bætið svo vatni, krafti og tómötum út í.
 5. Leyfið súpunni að malla við meðal hita í ca 10 mín eða þangað til grænmetið er orðið mjúkt. 
 6. Að lokum fer kókosmjólkin út í ásamt lime safanum og steinseljunni.
 7. Bætið kjúklingnum út í.
 8. Smakkið til og kryddið með salti og pipar.

IMG_0964

Það er góð hugmynd skipta kjúklingnum út fyrir fisk öðru hverju.

IMG_1837

Góða helgi 🙂