Súkkulaði hnullungar

Var ég búin að segja ykkur að ég elska súkkulaði?  Það gerir einfaldlega lífið skemmtilegra. Það er bara svo ótrúlega dásamlegt og svo er ennþá dásamlegra að það skuli vera svona ægilega hollt 🙂

Um síðustu helgi bjó ég til súkkulaði, setti saman við það mórber og pecan hnetur og setti svo í sílíkon muffinsmót.  Úr urðu þessir dásamlegu súkkulaði-hnullungar.  Nafnið kemur til út af stærðinni, en auðvitað getið þið sett í hvaða mót sem er, það bara vildi svo til að ég átti bara stór mót.  Ó nei, en sú óheppni 😉  En svo er það auðvitað bara smekksmál hvort maður brytji niður í litla bita eða gæði sér á einum stórum.

IMG_4324

Ég hef áður gefið upp uppskrift af heimagerðu súkkulaði, hún er hér: ofursúkkulaði

Svo er um að gera að prufa sig áfram hversu mikið kakó þið viljið hafa, hvaða sæta ykkur finnst best og með hverju þið viljið bragðbæta: salti, vanillu, chilli, acai dufti o.s.frv.

Það er líka smekksatriði hvað er sett í súkkulaðið, það geta verið hvaða hnetur sem ykkur þykja góðar.  Rúsínur, kókos, möndlur, goji ber, trönuber, mórber osv.fr.

IMG_4313

IMG_4315

IMG_4316

IMG_4320

Þegar maður er komin upp á lagið er mjög erfitt að fara tilbaka í venjulegt keypt súkkulaði !

Mér þykja mórber alveg hrikalega góð, ef þú hefur ekki smakkað mæli ég með því að þú prufir.  Þau eru mjög sæt frá náttúrunnar hendi, með nokkurskonar karmellubragði.  Þau eru svo bragðgóð að það má borða þau í staðinn fyrir  nammi og ekki er það verra að þau skuli flokkast undir ofurfæðu.

IMG_3037

Önnur hugmynd er að blanda gúmmilaði saman við súkkulaðið, dreifa úr því á bökunarpappír, strá svo meira af gúmmilaðinu yfir og kæla og skera í bita.

IMG_3596

Athugið að súkkulaðið verður harðara eftir því sem meira af kakósmjöri er notað!  Ég hef hinsvegar notað kókosolíuna á móti því bæði er hún ódýrari en kakósmjörið og mér finnst það koma vel út, en súkkulaðið veður aðeins “linara” fyrir vikið.  Það borgar sig því að geyma það inn í frysti og taka svo út eftir þörfum, súkkulaðiþörfum 😉

Góða helgi  🙂

Sesam-kornflex karmellustykki

Mmmmmm helgarnammið um síðustu helgi.  Það féll í mjög góðan jarðveg, gott yfir júróvisíon, gott með sunnudagsmorgunskaffibollanum, krakkarnir voru mjög sáttir, semsagt bara mjög gott í alla staði 🙂  Það er heldur ekki vera að sesamfræ eru stútfull af kalki.

Þetta er afbrigði af Karmellurísinu  sem ég gerði um daginn.

IMG_3655

Hráefni:

  • 170 gr döðlur
  • 50 gr kókosolía
  • 50 gr kakósmjör
  • 1 tsk vanilluduft eða vanilludropar
  • 3,5 dl kornflex (notaði Sollu kornflex)
  • 1,5 dl sesamfræ
  • 100 gr 70 % súkkulaði

Aðferð:

  1. Leggið döðlurnar í bleyti í 10-15 mín og maukið svo með töfrasprota
  2. Bræðið kakósmjörið og kókosolíuna við lágan hita og bætið svo döðlumaukinu og vanillu út í og hrærið rólega saman þangað til það er búið að samlagst, ef það gengur illa getur verið að potturinn sé of heitur
  3. Myljið kornflexið smátt og blandið því saman við sesamfræin
  4. Blandið kornflex blöndunni saman við “karmelluna” og setjið í mót, klætt bökunarpappír
  5. Bræðið súkkulaðið og hellið yfir
  6. Kælið og skerið í litla bit
  7. Njótið

IMG_3641

IMG_3645

IMG_3655

Verði ykkur að góðu og góða helgi 🙂

Ódýr og einföld súkkulaðikaka

Þemað núna í janúar er ódýrt þar sem flestir hafa sennilega eytt vel í mat í síðasta mánuði.  Þessi kaka er ótrúlega einföld, góð og ódýr.  Ég fékk uppskriftina hjá vinkonu minni en er búin að minnka aðeins sykurinn og nota spelt í stað þess að nota hvítt hveiti.  Virkilega góð sunnudagskaka.

 IMG_3563

Hráefni:

  • 2 egg
  • 1,5 dl hrásykur
  • 0,75 dl olía (ég nota oftast kókosolíu, vínberjakjarnaolíu í dökkri flösku eða lífræna sólblómaolíu)
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1 dl kakó
  • 2 dl sterkt kaffi (líka gott að setja heitt vatn eða mjólk)
  • 3,5 dl spelt (fínt og gróft til helminga)
  • 3/4 tsk salt
  • 2 tsk vínsteinslyftiduft

Aðferð:

  1. Þeytið saman egg, sykur og vanillu og bætið svo olíunni saman við.
  2. Blandið saman kakói og vökva.
  3. Hellið kakóblöndunni út í eggjablönduna.
  4. Blandið saman spelt, salti og lyftidufti og hrærið samann við kakóblönduna.
  5. Setjið í lausbotna form 26 cm (best að fóðra með bökunarpappír) og baka í 20-25 mín við 200°C

Ofan á finnst mér best að leggja plötu af 70 % súkkulaði og leyfa henni að bráðna á heitri kökunni og slétta svo úr.  Set yfirleitt smá af kókosolíu  (1 tsk – 1 msk) svo kremið verði ekki grjóthart og brotni í allar áttir þegar kakan er skorin.

IMG_3570

Það er sérstaklega gott að gera þessa köku með sterku expresso kaffi en kannski betra að nota vatn eða mjólk (möndlu, rís, hafra, eða venjulega) ef kakan er bökuð fyrir lítil börn. 

Verði ykkur að góðu 🙂

Laaaang besta döðlukakan

Það er vel við hæfi að skella inn góðri kökuuppskrift í dag í þessum kulda og roki.  Ekkert meira kósý en að finna ljúfan kökuilm og kúra sig inni í hlýjunni.  Þessi uppskrift sem ég ætla  að smella inn er af minni uppáhaldsköku síðasta árið.  Ég sá þessa uppskrift fyrir ca ári síðan og hef bakað hana svo oft að ég er löngu búin að missa töluna.  Mjög margir sem hafa fengið sneið hafa beðið um uppskriftina því hún er einfaldlega alveg yndisleg.  Þessi uppskrift kemur af síðunni hennar Ebbu Guðnýjar en þar heitir hún Döðluterta Írisar.

döðlukaka

Hráefni:

1 bolli döðlur (læt þar liggja í bleyti í smástund svo það sé auðveldara að brytja þær niður)
1 bolli möndlur
1 plata 70 % súkkulaði (oft nota ég bara 60-70 gr og nota restina til að skreyta kökuna að ofan)
1/4 bolli pálmasykur eða hrásykur
3 msk spelt (stundum set ég kókosmjöl, hún verður aðeins lausari í sér en MJÖG góð)
1 tsk vanilludropar
3 msk vatn (ég nota yfirleitt vatnið af döðlunum til að fá smá meiri sætu)
2 egg
1 tsk vínsteinslyftiduft

Aðferð:

Öllu hrært saman og látið standa í skálinni í 15 mínútur.  Sett í mót (frekar lítið) og bökuð í 35-45 mín (eftir ofninum) v/ 150 °C

Ég hef bæði sett möndlurnar í matvinnsluvél og unnið þær smátt en í önnur skipti gróf-saxað þær og hvoru tveggja er gott.  Ég hef jafnvel notað möndluhratið af möndlumjólkinni og það kemur bara vel út.

Stundum hef ég bakað kökuna og skorið hana niður í litla bita í staðinn fyrir kex.  Einnig skreytt hana með þeyttum rjóma, jarðaberjum og söxuðu súkkulaði og  farið með í veislur. Ég hef líka brætt súkkulaði yfir hana.  Möguleikarnir eru margir 🙂

Börnin mín og allir vinir þeirra sem hafa fengið sér sneið elska þessa köku.

Ávaxtanammi

Það er engin sem segir að nammi þurfi að vera búið til úr sykri, litarefnum og aukaefnum.  Ávaxtanammi er hið fínasta nammi yfir bíómynd, spili eða á kósýkvöldi.  Það er okkar hlutverk að segja börnunum að þetta sé nammi, en ef okkur finnst það ekki þá er ekki líklegt að þeim finnist það heldur.

ávaxtanammi

Um síðustu helgi tók ég þessa mynd en þá fengu litlu gormarnir á heimilinu svona skál yfir föstudags-bíómyndinni og það voru allir svo ánægðir og allir vildu meira.  Mér finnst geggjað að fá mér svona skál yfir bíómynd og svo líður manni svo vel á eftir.  Pabbinn á heimilinu er reyndar ekki alveg að kaupa hugmyndina og heldur sér við bjór/kók og snakk.  🙂

Það má nota hvaða ávexti sem er en gaman að nota ávexti sem maður er ekki alltaf að kaupa eða leyfir sér frekar að kaupa um helgar og með því að setja pínu lítið súkkulaði og kókosflögur verður þetta meira spari og öðruvísi en morgun ávaxtahressingin.

Þessi samsetning er í uppáhaldi á þessum bæ.

mango (verður að vera þroskað)
rauð vínber
epli eða  pera
70 % súkkulaði (eða 56 %) smátt brytjað
kókosflögur
gott að setja mulberry ber, kasjuhnetur eða valhnetur

Ég steingleymdi að taka mynd af mínu gúmmílaði en þess má geta að það bragðast ennþá betur ef það er borðað úr fallegri skál/glasi 🙂

Læt svo fylgja með mynd af ávaxtahressingunni síðasta sunnudagsmorgun.  Þá voru veikindi á bænum og nauðsynlegt að hressa liðið við.  Gerðum þennan sæta broddgölt sem vakti mikla lukku.

ávaxtanammi

Góða ávaxta-helgi 🙂

 

 

 

 

Súkkulaði-hnetukaka með súkkulaði-bananakremi

Það sem er svo yndislegt við hrákökur er það er hægt að útbúa þær á örskotstundu þar sem það þarf ekki að baka þær.  Í síðustu viku fengum við mæðgunar góða gesti eftir leikskóla og ég átti bókstaflega EKKERT til að bjóða upp á og ætlaði að fara að bretta upp ermarnar og fara að baka en þar sem ég var eiginlega orðin alltof sein skellti ég í eina hráköku.  Eftir 15 mínútur var kakan tilbúin.  Mér finnst það svo dásamlegt að getað fengið mér svona köku og veit að um leið er ég að næra líkamann með hrikalega góðri næringu. Semsagt bara tóm hamingja og skemmtilegt að lífga upp á hversdagsleikann með þessum hætti 🙂

Hrákaka

Þetta er sami botninn og ég gerði þegar ég gerði Súkkulaðisælu með mangó-og hindberjum en í þetta sinn átti ég ekki mangó en viti menn ég átti einmitt fallegt og þroskað avacado sem breytti sér í dýrindis súkkulaðikrem 🙂

Botninn:

  • 1 bolli valhnetur
  • 1 bolli cashewhnetur/ pecanhnetur
  • 1/4 – 1/2  bolli hreint kakó (eftir því hversu dökkan þið viljið hafa botninn)
  • 1 bolli döðlur (látið liggja í bleyti í smástund svo verði mjúkar)
  • Smá salt (himalayja eða sjávarsalt)
  • Smá vanilla

Hneturnar settar í matvinnsluvél  og malaðar, kakóinu bætt við og svo einni og einni döðlu í einu.  Að lokum  vanillu og salti.  Sett á disk, mótaður hringur og sett inn í frysti meðan kremið er gert.

Ef þið eigið ekki matvinnsluvél má mala hneturnar í lítilli matvinnsluvél (svona chopper sem fylgir oft með töfrasprotum) og mauka döðlurnar með töfrasprotanum og blanda að lokum öllu saman.

Hrákaka

Kremið:

  • 1 þroskað avacado
  • 1 þroskaður banani
  • 2-3 msk hreint kakó
  • 1-2 msk kókosolía
  • 2 msk einhver góð sæta (hunang, agave, hlynsýróp)
  • smá vanilla

Allt sett í skál og unnið með töfrasprota þangað til slétt og fallegt.  Smakkið til og breytið eftir smekk, meira kakó eða meiri sæta, smá salt, bara finna það sem ykkur finnst gott 🙂

Hrákaka

Setjið kremið á kökuna og inn í frysti/ísskáp í smá stund.

Hrákaka

Svo er bara að finna eitthvað til að skreyta með, ég fann nokkur frosin hindber og kókosflögur.

hrákaka

Þetta er fínasta seinnipartskaka, fínasti desert og góð ef sykurþörfin er að fara með fólkið yfir sjónvarpinu, bara við öll tækifæri 🙂

Verði ykkur að góðu 🙂