Vikumatseðill – vika 4 í febrúar

Jæja, nú reynir á útsjónarsemi og skipulag í þessari viku.  Það hefur gengið erfiðlega að vera undir hámarkinu svo núna er síðasti séns að redda málunum 😉  Þetta virðist ætla að verða önnur veikindavika og svo er vetrarfrí í skólanum í lok vikunnar.  Mér sýnist á ástandinu á mannskapnum að það verði bara spilað, púslað, haft kósý og örugglega bakað eitthvað gott.  Hápunktur vikunnar er um helgina þar sem vinnustaðurinn minn heldur Árshátíð út á landi og verður það nú aldeilis stuð fyrir hjónakornin að komast aðeins frá börnum og búi og slaka á og njóta lífsins í sveitasælunni.

Mánudagur –   Ljúffeng linsubaunasúpa og spelt bollur.   Einn sá ódýrasti matur sem finnst í heiminum.  Nýbakaðar spelt bollur lyfta svo máltíðinni heilmikið upp.

Linsubaunasúpa

Þriðjudagur –  Spæld egg, ristað brauð og grænmeti.  Einfalt og fljótlegt á þriðjudegi.  Brauðið kaupi ég í Kökulist, Firðinum, svo ótrúlega gott súrdeigs spelt brauð sem er það besta sem ég hef fundið.

Miðvikudagur –  Taco súpa.   Þessi uppskrift er búin að vera lengi á leiðinni á vefinn.  Krakkarnir elska þessa súpu.  Hún er snilld ef það er til smá afgangur af hakki (uþb. 3 dl) Tek stundum hakk afgang og set í frysti til að eiga í þessa súpu.

IMG_1884

Með súpunni mæli ég með þessu lífræna nachosi (ekki búin til úr erfðabreyttu korni)  sem er alveg svakalega gott og fæst í heilsuhillum víðsvegar um bæinn, ég hef keypt það í Nettó.

IMG_1882

Fimmtudagur –  Grjónagrautur.  Hýðisgrjónagrauturinn með heimagerðu möndlumjólkinni.

IMG_3578

Föstudagur –  Kalkúnaborgarar í heimgerðu hamborgarabrauði.  Eftir tiltekt í frystinum fann ég pakka af kalkúnahakki sem ég keypti í Fjarðarkaup um daginn.  Mjög ódýr matur.  Ég rakst á svo girnilega uppskrift af borgurum og heimagerðu hamborgarabrauði í Heilsuréttum fjölskyldunnar.  Ég hlakka mikið til að prófa þessa uppskrift.  Sætar franskar kartöflur með og væntanlega sollu kokteilsósa fyrir yngri deildina líka 😉

Laugardagur –  Árshátíð  og því þarf ekkert að hugsa um mat þennan daginn.

Sunnudagur –  Lax með mangósósu og sætum kartöflum.  Á sunnudaginn er komin nýr mánuður og ég ætla að fagna því með því að hafa lax í matinn. Lúxus sem ég kom ekki inn í skipulagið í febrúar 😉

IMG_8154

Í frystinum eru til jarðaber og bláber fyrir drykki,  spurning hvort ég komist í fjarðarkaup til að kaupa frosin ananas eða mangó.  Annars verða bara epli í græna góða á morgnanna.

Þar sem ég kem til með að vera svolítið heima þessa vikuna ætla ég að nota tækifærið og nota það sem til er til að baka og búa til sjálf.  Í dag bjó ég til dæmis til kanil kex, bananabrauð og Nutella hvað? súkkulaðihnetusmjör, það er ekki hægt að kvarta yfir því 🙂   Oft leynist hitt og þetta í skúffunum og hægt að töfra fram dásamlegar veitingar 🙂

Vonandi verður vikan sem best hjá ykkur öllum <3

 

 

 

 

Febrúar vika 3

Þá hefst þriðja vikan í sparnaðarátakinu, nú þurftum við að fara að spýta í lófana,  bretta upp ermarnar og allt það til að ná takmarkinu en þessi vika verður sennilega smá áskorun því elsta skvísan er að fara í hálskirtlatöku á þriðjudaginn og verður vikan því heilmikið pússluspil varðandi vinnu og annað skipulag.   Litla krúttið er með lægsta sársaukastuðul sem ég hef séð og það er sko ekkert grín,  það fer sko allt á hvolf við það eitt að fá flís eða bara finna örlítið til í fætinum þannig að ég bý mig undir svakalega viku sem yfirhjúkrunarkona á heimilinu.  Við fórum í gær og keyptum nokkrar dollur af mjólkurlausum ís og svo þarf að kaupa slatta af kókosmjólk, Sollu-mangósafa og allskonar ísgerðarefni fyrir heimatilbúna framleiðslu.  Ég hugsa að ég sé strax komin í mínus á fyrsta degi.  Hún fékk að velja kvöldmatinn í gær án allra athugasemda þar sem hún fær eitthvað lítið að borða á næstunni og við vorkennum henni öll svo ótrúlega mikið en ég ætla sko ekki að segja ykkur hvað hún valdi, það er sko ekki birtingarhæft hér 😉

Mánudagur:  Lambagúllasið sem ég eldaði ekki á föstudaginn.  Grænmeti og hýðishrísgrjón með.  (Þarna kemst upp um mig, splæsti í Piccolo tómata, ég bara stóðst ekki freistinguna.   Miðstelpan mín sagði líka, mamma keyptirðu nammi í búðinni 😉

lambagúllas

 

Þriðjudagur: Ætli ommiletta verði ekki bara tilvalin á þessum þriðjudegi.  Svo einföld eldamennska og svo bara fullt af grænmeti með.

MIðvikudagur: Ég ætla að færa fimmtudagssúpuna yfir á miðvikudaginn og afgangurinn af lambagúllasinu frá mánudeginum mun breytast í kjötsúpu.  Svo einfalt og þægilegt að nota afganga.   Það má nota flesta afgangsrétti í súpur.  Bara bæta við smá vatni, krafti, kannski flösku af maukuðum tómötum og smá salti og pipar.

Fimmtudagur: Linsubauna curry gefur góða orku sem okkur á eflaust ekki eftir að veita af, alls ekki flókin matseld.

Föstudagur:  Mig grunar að við eigum eftir að verða þreytt þennan föstudaginn og stefnan því sett á kjúklingatortillur.

kjúklingavefja

Laugardagur:

Í frystinum leynist eitt lambalæri sem verður tilvalið að kippa út fyrir helgina.  Lambalæri í ofninn, kartöflur á grillið (ef það verður ekki stórhríð), gott salat og sósa.  Einfalt og gott.

Sunnudagur:

Spurning um að gera aðra tilraun til að elda girnilega hnetusmjörskjúklingaréttinn sem ég ætlaði að elda í síðustu viku en náði ekki.  Hann lítur svo hrikalega girnilega út 🙂  Það fer svona eftir stöðunni, kannski verður bara grjónagrautur 😉

 

Ég veit að sjúklingurinn má ekki borða neitt heitt og verður sennilega bara á einhverju algeru sérfæði alla vikuna.  Skilst að ís og hristingar séu svona það besta, en ef einhver er með góðar hugmyndir og reynslu af mat sem er kaldur og mjúkur (ekki mjólkurvörur samt) þá væri mjög gott að fá fleiri hugmyndir frá ykkur 🙂

Á innkaupalistanum fyrir þessa viku mun vera mikið af hlutum til að búa til ís og næringarríka hristinga (gott fyrir kroppinn en ekki gott fyrir budduna):

 • Hrein kókosmjólk
 • Kasjúhnetur
 • Bananar
 • Avakadó
 • kókosvatn
 • kókosolía

Auðvitað ávextir og grænmeti fyrir hina skólastelpuna og okkur hin:

 • Epli
 • Appelsínur
 • gulrætur
 • gúrkur

Sem betur fer er nóg til af chia fræjum, möndlum, möndlusmjöri, frosnum ávöxtum (síðan í síðustu viku) spínati og fleiru fyrir morgunverðinn.

Ég sé fyrir mér að búa til eitthvað gott kínóa salat í byrjun vikunnar sem dugar í hádegismat fyrir mig í nokkra daga.

 • Kínóa
 • pekan hnetur
 • perur
 • fetaostur
 • kál
 • rauð paprika

Til að standast áskorunina ætla ég að taka pening út úr hraðbanka en ekki nota debetkortið þannig að ég fari ekki yfir 25.000 kallinn (helst minna þar sem hinar tvær vikurnar voru yfir takmarkinu)

Gaman að heyra hvað margir hafa ákveðið að taka þetta í gegn hjá sér líka og skemmtilegt að heyra frá ykkur bæði í skilaboðum, á blogginu og facebook.

Gangi okkur öllum rosalega vel þessa þriðju viku 😉

Vikuplan fyrir aðra viku febrúar

Vika tvö… þessi vika verður fljót að líða, hér á bæ eru börnin alveg að missa sig úr spenningi yfir því að vera á leið í leikhúsið á laugardaginn að horfa á Línu Langsokk, við skulum vona að vikan verði fljót að líða 😉

Mánudagur:  Grænmetisrétturinn að þessu sinni verður grænmeti, núðlur og hnetusósa.  Ég er með algert æði fyrir kelp núðlum en það versta er að þær fást ekki allstaðar og í hverfisbúðinni minni hafa þær hreinlega ekki verið til í nokkrar vikur, svo ég gæti þurft að reyna í öðrum búðum.

Núðlur

Þriðjudagur:  Ætli það verði ekki bara eggjabrauð á þriðjudaginn til að hafa smá fjölbreytni í þessum þriðjudags eggja máltíðum.  Börnin elska eggjabrauð og ég sker niður grænmeti í lengjum til að borða með.  Ég fæ mér oftast bara egg, sleppi brauðinu og bæti það upp með fullt af grænmeti.  Á þriðjudögum er oftast lítill tími í eldamennsku og allir búnir að borða heitan hádegismat svo ég held að það skaði engan á borða stundum svona einfalt á kvöldin.

 

Miðvikudagur: Linsubaunabolognese með spelt spaghettí.  Við erum 4 sem finnst þessi réttur alveg svakalega góður en ein segir alltaf  “Ohhhhhhh, af hverju notaðirðu ekki KJÖÖÖÖÖT” (með áherslu)!  Þar sem linsubaunirnar eru svo margfalt ódýrari en kjöt leyfi ég mér stundum að kaupa með þessu ferska basilíku og Piccolo tómata (sem við ELSKUM, hvernig er hægt að rækta svona góða tómata, ég bara spyr ???  )!

IMG_6584

Fimmtudagur: Karrý-kókos grænmetissúpa/ kjúklingasúpa og fiskisúpa eru alltaf mjög vinsælar.  Ætla að gera fiskisúpu í þetta skiptið því það er svo langt síðan ég hef haft fisk.

IMG_3862

Föstudagur:  Ég sá að það er er grjónagrautur hjá stelpunum mínum í hádeginu á föstudaginn svo ég er því að spá í því að gefa pizzunni frí þennan föstudaginn og skella í smá gúllas.  Eitthvað sem má setja í pott með grænmeti og láta malla á meðan ég geri helgar tiltektina.  Ég er ekki með neina uppskrift á vefnum en það er ein góð í uppskriftaheftinu sem ég skal setja hérna inn fyrir lok vikunnar.

Laugardagur:  Það verður stuð á laugardaginn,  Lína í leikhúsinu og svo má ekki gleyma úrslitunum í Söngvakeppni sjónvarpsins.  Maturinn á laugardaginn er ekki komin á hreint ennþá en það verður alveg örugglega eitthvað voða gott.

Spurning að skella í tíramísú eftirrétt

Tíramísú

Sunnudagur:  Mig langar að prófa nýjan rétt í þessari viku, hér er einn sem ég er búin að hafa augastað á lengi en aldrei eldað.  Það eru mörg matarblogg sem ég fylgist með og hef gaman af að prófa hitt og þetta, eitt af þeim er gulur rauður grænn og salt.  Miðað við lýsingarnar fæ ég bara strax vatn í munninn og hlakka til á sunnudaginn 🙂

 

Það er ekki víst að þetta gangi upp til að standast áskorunina og gæti þurft að endurskoða helgina eitthvað.

En við sjáum til, nú er bara að bretta upp ermarnar og búa til eitthvað úr því sem er til í skápunum heima.  Eiga ekki allir svona skápa og skúffur sem innihalda eitthvað sem fer að nálgast endalaokadagsetningu og bíður bara eftir því að vera notað?

Eftir vinnu í dag ætla ég að bretta upp ermarnar og baka hrökkbrauð og búa til Snickersköku svona til að eiga eitthvað gott í frystinum, þannig get ég sussað á allar langanir þegar ég fer í búð og hugsað bara “þú átt snicerksköku í frystinum” og þá kem ég í veg fyrir að það detti ótrúlega girnilegt lífrænt súkkulaðistykki eða eitthvað svona biscotti úr Hagkaup ofan í körfuna 😉

 

 

 

Vikumatseðill 1.vikan í febrúar

Jæja, eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir er Sparnaðaráskorun febrúar komin í gang hjá frúnni og þess vegna er ég svona súper skipulögð og búin að gera vikumatseðil fyrir fyrstu vikuna.

Mánudagur:  Ég reyni yfirleitt að hafa grænmetisrétt á mánudögum (undir áhrifum meatless monday í Ameríkunni).  Hnetubuff ásamt soðnu kínóa og apríkósuchutney (af því að ég á það síðan í síðustu viku)  …veit ekki alveg hvort allir í fjölskyldunni verði hamingjusamir en það kemur í ljós.  Spurning að bjóða upp á að setja buffin í brauð og búa til Sollu-kokteilsósu (Sollu-mæjónes og Sollu-tómatsósa ásamt smá paprikukryddi) með fyrir yngri kynslóðina svo kvartkórinn verði ekki of hár 😉

hnetubuff

Þriðjudagur: þriðjudagar eru orðnir hálfgerðir eggjadagar… það hefur bara þróast þannig,  ýmist ommiletta eða spæld egg.  Það er mjög vinsælt að skera niður langsum gúrku, papriku og gulrætur og borða með eða jafnvel nota kálblöð og rúlla utan um eggin.

IMG_2947

Miðvikudagur: þar sem það þarf að skutla einni dömu í dans og annarri í fimleika á miðvikudögum er ekki í boði að vera með flókna eldamennsku.  Grjónagrautur og lifrapylsa er á planinu.  Lifrapylsan telst nú sennilega seint vera mikil hollusta en börnin elska hana og grjónagrauturinn er búin til úr hýðishrísgrjónum og heimatilbúnni möndlumjólk.  Ég ætla að njóta þess að fá mér afgang frá mánudeginum og svo kannski smá grjónagraut í eftirmat 😉

IMG_3578

Fimmtudagur: fimmtudagar eru súpudagar, oft naglasúpa þar sem hreinsað er úr grænmetisskúffunni fyrir helgina.  Stundum á ég í frysti fisk, lambakjöt eða kjúkling til að gera hana aðeins matarmeiri.  Stefnan er sett á stafasúpu í þessari viku og planið að baka brauðbollur með henni og svo er voða vinsælt að sjóða egg og setja út í.

stafasúpa

Föstudagur: föstudagar eru fjölskyldukvöld, undantekningarlaust eitthvað gott í matinn og bíókvöld með gríslingunum.  Þar sem vikan er frekar létt er yfirleitt komin tími á kjötmeti að mati fjölskyldunnar.  Mexíkómatur er alltaf vinsæll, hakk, tortillur eða skeljar eða jafnvel bara nota sallatblað til að vefja, fullt fullt af grænmeti, guatamole, heimatilbúið salsa ofl.   Ég geri það stundum að sleppa hakkinu en krydda svartar baunir eða aduki baunir eins og hakkið og að mínu mati kemur það algerlega í staðinn fyrir kjötið (ef þið viljið draga úr því) eða blanda því saman 😉   Ég hvet ykkur til að skoða innihaldslýsingar á tilbúnum tacokryddum því þau innihalda oft bæði mikinn sykur og msg.  Það er miklu auðveldara að krydda sjálfur hakkið með góðum og hreinum kryddum, t.d. papriku, cumin og cajun bbq kryddið frá Pottagöldrum er rosalega gott.

IMG_2953

Laugardagur: PIzza,  okkur finnst ágætt að gera stundum pizzu á laugardögum því það er meiri tími í dúllerí en á föstudeginum.  Ég er oftast á fullu seinnipartinn að gera fínt fyrir helgina og því ágætt að elda eitthvað fljótlegra en pizzu.   Þar sem ég er allt í einu farin að blása út af heimagerða speltbotninum er ég farin að búa til dásamlega glúteinlausa útgáfu af pizzu sem ég alveg elska og maginn minn líka 😉

Sunnudagur:  Kornflexkjúllinn er fínasti sunnudagsmatur og allir virkilega sáttir.  Sætar kartöflur með og niðurskorið ferskt grænmeti.

IMG_4312

 

Ég ætla ekki að skrifa niður allar máltíðir vikunnar en fyrir morgunverð áætla ég að þurfa að versla:

 • 1 Cheerios pakki ( því miður eru ekki allir að elska Chia grautinn jafn mikið og ég)
 • Haframjólk og kókosmjólk
 • Egg (1x í viku geri ég eggjabrauð eða ommilettu í morgunverð, yfirleitt á fimmtudögum eða föstudögum)
 • chia fræ
 • Möndlur (heimagerða möndlumjólkin er nauðsynleg fyrir chia grautinn)
 • Frosin hindber
 • epli
 • A.m.k. 1 poka af grænkáli, engifer, epli og frosin ananas eða mangó fyrir græna morgunsjeikinn

Stelpurnar taka með sér nesti fyrir ávaxta/grænmetis hressingu í skólanum

 • gulrætur
 • epli
 • gul melóna
 • perur
 • rauð paprika

Seinniparts hressingin samanstendur yfirleitt af hristing og kannski 1 brauðsneið, eða eplum og hnetusmjöri, eða einhverju öðru tilfallandi.  Stundum hef ég bakað bananabrauð eða amerískar pönnukökur ef gestir eru í heimsókn eða eitthvað sérstakt stendur til.

 • Kókosmjólk (1-2 fernur)
 • Frosið mangó
 • Avakadó
 • Epli
 • möndlusmjör
 • hnetusmjör
 • Bananar
 • gróft spelt (ef ég skyldi baka eitthvað)

Hádegismaturinn minn:

Samanstendur yfirleitt af afgöngum, ef ég á enga afganga er það yfirleitt salat með hinu og þessu.

Það sem ég kaupi fyrir þessa viku er:

 • kál
 • spírur frá Eco spíra
 • vorlaukur
 • pekan hnetur
 • egg

Jæja, nú er planið komið á hreint en nú er spurning hvernig gengur að halda upphæðinni innan marka 🙂