Mér finnst alltaf jafn fyndið skilin sem verða í matarmenningu landans milli fyrsta og annars janúar. Í margar vikur hefur ekkert verið í dagblöðunum, facebook og fleiri miðlum nema djúsí uppskriftir af allskonar kökum og tertum, steikum, sósum og sælgæti. Ég sat í makindum mínum og kíkti í tölvuna að morgni annars janúar, það var myrkur úti ennþá, öll börnin heima í fríi ennþá og ég naut í rólegheitum kaffibolla dagsins og maulaði með ljúffenga Lindorkúlu en það eina sem tók á móti mér var bara detox, safakúr, heilsuátak ásamt ótal mörgum facebook statusum vina minna sem höfðu vaknað um miðjan nótt og drifið sig í ræktina. Úff og ég sem sat þarna bara með kaffið mitt og lindorkúluna…. fannst ég ekki alveg vera að standa mig 🙂
Ég styð það frekar að lifa hollu líferni allt árið um kring, ekki bara fyrstu 3 vikurnar í janúar en óneytanlega verða freistingarnar fleiri þegar það koma svona frí, það er eiginlega sama sagan með jólafrí, páskafrí og sumarfrí. Við leyfum okkur meira af hinu og þessu og margt smátt gerir jú eitt stórt. Aðeins fleiri kaffibollar, aðeins fleiri súkkulaðimolar, konfektmolar hér og þar osv.fr. ég held að ég þurfi ekkert að telja þetta allt saman upp, ég held að þið vitið alveg hvað ég er að meina 😉 Hér áður fyrr “datt” ég algerlega í það, leyfði mér allt og stóð uppi eftir fríin 3-4 kg þyngri og það var svo erfitt að snúa við blaðinu, lystin var orðin svo góð og sykurpúkinn var alveg brjálaður innan í mér. Núna er jafnvægið sem betur fer meira þó maður sé nú vissulega búin að leyfa sér ýmislegt undanfarnar vikur 🙂
Ég tók saman 10 hluti sem mér finnst vera hjálplegastir þegar kemur að því að skipta yfir úr sukkgírnum yfir í vellíðunargírinn. Það að skipta um gír ætti vissulega að vera til að líða betur en ekki bara til að refsa sér með svelti.
Volgt sítrónuvatn, netlute, soðið engifervatn eða annað gott te í morgunsárið – ég veit þið hafið heyrt þetta áður en þetta er virkilega góð leið til að hreinsa pípulagnirnar og koma kerfinu í gang 😉
Hörfræolía – á eftir sítrónuvatninu er allra meina bót, frábær smurning fyrir meltinguna fyrir daginn og góð næring fyrir húðina í kuldanum þessa dagana.
Grænn sjeik – ekki endilega bara á morgnanna heldur bara hvenær sem ykkur hentar yfir daginn. Græna kálið er hreinsandi, næringarríkt, hjálpar okkur að verða basískari og minnkar sætuþörfina.
Góðir gerlar – finnast undir heitinu: Ashidophilus, Multidophilus, Probiotics ofl ég er bæði hrifin af frá Solary, Optibach, Progastro og líka frá Bio-cult. Spurðu bara í næstu heilsubúð, það er til mikið úrval. Þegar við höfum innbyrgt mikinn sykur eða verið á lélegu fæði eru miklar líkur á því að þarmaflóran sé komin úr jafnvægi, það getur síðan gert okkur þreytt, valdið mikilli sætuþörf osv.fr. (Ef flóran er komin úr jafnvægi skapar það góð skilyrði fyrir candida sveppinn til að vaxa, en mikil sætuþörf, þreyta, pirringur, kláði í leggöngum og slæmar sprungur á hælum eru t.d. einkenni ásamt ca. 50 öðrum atriðum).
Hreyfing – um leið og við byrjum að hreyfa okkur er eins og allt kerfið fari í gang. Okkur langar frekar í eitthvað hollt og sætuþörfin minnkar. Þú þarft ekki endilega að kaupa þér kort heldur byrjaðu bara á því að fara út að labba – bara strax í dag 🙂
Vatn – same old, same old, passaðu þig á því að drekka nóg, ódýrt og áhrifaríkt heilsuráð sem er ekki hægt að minnast of oft á. Ef þú heldur þér vel “vökvuðum” eru minni líkur á því að þú látir freistast af einhverju sætmeti.
Meira grænmeti – Gefðu grænmetinu meira vægi á disknum, fáðu þér salat í hádegismat, epli eða gulrætur í millimál og mandarínu ef þig langar í eitthvað voða gott. Maður verður svo ægilega ferskur af því. Fullt af trefjum, ensímum og góðum plöntunæringarefnum.
Sofðu nóg – það er svo mikið myrkur þessa dagana og passaðu þig á því að fá næga hvíld. Um leið og við erum svefnlaus er hætta á því að allar áætlanir um heilsuátak út í veður og vind. Helsta ástæðan fyrir því að leita í sætindi, kaffi og aðra skjótfengna orku er þreyta. Ef það gengur illa að snúa sólarhringnum við og þú liggur andvaka fram á nætur mæli ég með Magnesium slökun, það getur hjálpað okkur að slaka á og ná betri svefn. Þú getur líka farið í gott bað fyrir svefninn og sett í það nokkra dropa af Lavender ilmkjarnaolíu en fyrst og fremst minnkaðu kaffið ef þetta er að hrjá þig.
D- vítamín – Það er engin sól þessa dagana svo númer 1,2 og 3 ekki gleyma D-vítamíninu. Ef þig vatnar D-vítamín getur það útskýrt þreytu og slen sem verður svo til þess að þú freistast í allskonar óhollustu í leit að “orku”.
Matseðill – Ef þú ætlar að þér að kveðja súkkulaðiskrímslið er besta leiðin að borða nógu mikið af hollum og góðum mat. Hann þarf þá að vera til í kotinu. Gerðu vikumatseðil, ákveddu hvað þú ætlar að bjóða upp á í morgunmat, kvöldmat og allt þar á milli, gerðu innkaupalista og haltu þig við hann í búðinni.
Þetta er það sem hjálpar mér og vonandi getur þetta nýst fleirum.
Gangi ykkur vel að skipta um gír 🙂
Published by