Linsubauna bolognese

Linsubaunir eru fáránlega hollar, stútfullar af næringu og svo eru þær mjög ódýrar.   Þær henta því frábærlega vel í upphafi árs þegar margir hafa kannski borðað aðeins of mikið síðustu vikurnar og buddan er létt.

Sjálfri finnst mér best að leggja allan pokann í bleyti í einu og sjóða.  Taka svo frá það sem ég er að fara nota en frysta hitt í mátulegum skömmtum.    Þannig er ég búin að flýta fyrir næst þegar eldað er úr linsubaunum.  Mörgum finnst vesen að þurfa að leggja baunirnar í bleyti en það er nú ekkert svo flókið 🙂   Sumir vilja meina að það þurfi ekki að leggja linsur í bleyti eins og aðrar baunir.  En við það að leggja baunir í bleyti verða þær auðmeltalengri… það þýðir á góðri íslensku að maginn blæs ekki upp af lofti eftir kvöldmat og síðan eruð þið fram eftir kvöldi að losa loft!   Ég legg alltaf linsur í bleyti líka af þessari enföldu ástæðu, þær verða auðmeltanlegri!

Uppskrift:  

(uppskrift handa 4-5)

  • 1 msk hitaþolin steikingarolía
  • 3-4 gulrætur
  • 1-2 sellerístönglar
  • 2-3 dl soðnar brúnar eða grænar linsur (1-1,5 dl ósoðnar)
  • 1 dós smátt maukaðir tómatar eða 400 ml passata
  • 2 msk tómatpuré
  • Kryddið vel með kryddum sem ykkur þykja góð, t.d. oregano, Villijurtir frá Pottagöldrum, paprikukrydd og cumin, samtals ca.  3-4 tsk
  • 1 stk  grænmetiskraftur, gerlaus
  • Væn lúka fersk steinselja og basilika ef þið eigið til.
  • smakkið til með salt og pipar

 

    Aðferð:   

  1. Leggjið linsubaunirnar í bleyti í uþb 2 klst en má alveg vera yfir nótt líka. Hellið vatninu af þeim, setjið í nýtt vatn og sjóðið í 15-20 mín.
  2. Hitið olíu á pönnu, bætið við gulrótum og sellerí og leyfið því að malla aðeins á pönnunni.
  3. Bætið tómatmaukinu, kryddinu og kraftinum á pönnuna og leyfið réttinum að malla við lágan hita í 15-20 mín.
  4. Bætið linsunum við í lokin, kryddið með salt og pipar og bætið kryddjurtunum saman við.
  5. Sjóðið spaghetti að eigin vali eða búið til “spaghetti” úr kúrbít með spíralskera.

 

Eins og ég nefndi hér að ofan þá verða baunirnar auðmeltanlegri við að liggja í bleyti.  Ef þið eruð tímabundin eða gleymið því þá eru  samt 15-20 mín betri en ekkert.

Besta meðlætið – klettasalat með bökuðum rauðrófum og ristuðum pekanhnetum

Það er eiginlega alger skandall að þessi uppskrift sé ekki á síðunni þar sem hún er ein af mínum uppáhalds.  Þessa uppskrift hef ég gert mjög oft og vekur yfirleitt mikla hrifiningu.   Það passar mjög vel með lambakjöti og nautasteik en einnig passar það líka dásamlega vel með grænmetisbuffum og hnetusteik.

Rauðrófusalat

Hráefni: miðað við eina skál sem passar fyrir 5 manns 

  • klettasalat – 1 poki
  • bakaðar rauðrófur  – 2-3 meðal stórar
  • ristaðar pekanhnetur 1-2 dl (eftir smekk)
  • fetaostur (val)

Lögur fyrir rauðrófurnar:

  • 1 msk hlynsýróp – kreista safa úr mandarínu fyrir alveg sykurlausa útgáfu
  • 1 msk edik
  •  örlítið salt og pipar

 

Aðferð: 

  1. Bakið rauðrófur með því að vefja þær inn í álpappír og baka í 180°heitum ofni í 60-80 mín (eftir stærð).  Prófið að taka þær út og stinga með prjón eða mjóum hníf til að ath. hvort þær eru mjúkar í gegn.  Þetta má gera 1-2 dögum áður en salatið er búið til.
  2. Ristið pekan hnetur með því að setja þær á ofnplötu og baka við 150°í 10 – 13 mín.  Þegar þær hafa kólnað er gott að grófsaxa þær.
  3. Þegar þið hafið bakað og kælt rauðrófuna skerið þið hana í bita og setjið í skál.
  4. Setjið sýrópið og edikið yfir rauðrófurnar ásamt salti og pipar og blandið vel.  Leyfið þeim að liggja í þessum legi í amk. 15 mín áður en þið blandið saman salatinu, má alveg vera lengri tími.
  5. Byrjið á því að setja klettasalatið í skál eða á fat. Rauðrófurnar fara næst á fatið/skálina og við endum á pekanhnetunum. Fetaosturinn fer síðast og oftast ber ég hann fram sér þar sem ekki allir þola mjólkurvörur.

Verði ykkur að góðu 🙂

 

 

 

Eggjahræra með kínóa og kóríanderpestói

Má ég kynna fyrir ykkur hinn fullkomna hádegismat.  Kannastu við það að vera heima og vanta eitthvað að borða NÚNA.  Þú áttir að vera löngu búin að fá þér eitthvað en nenntir því ekki og nú er þolinmæðin búin!   Ég er að minnsta kosti alltof dugleg að lenda í þessum aðstæðum ef ég er heima en þegar ég er í vinnunni fæ ég mér að borða á mínútunni 12 – að sjálfsögðu.

hádegismatur

Hér kemur hugmynd sem tekur ekki langan tíma að útbúa (sérstaklega ef þú átt til soðið kínóa inn í ísskáp).

Hráefni:

  • soðið kínóa
  • egg
  • kókosolía
  • góð ólífuolía
  • salt og pipar
  • steinselja
  • grænmeti af eigin vali

(magn fer eftir fjölda einstaklinga og magamáli)

Aðferð:

  1. Sjóðið kínóa samkvæmt leiðbeiningum eða takið það út úr ísskáp eða frysti.
  2. Hitið pönnu og bræðið kókosolíu.
  3. Steikið eggið á pönnunni, kryddið með salti, pipar og ferskri steinselju. Ég geri oftast hrærð egg eða “scramble egg” þannig að ég pjakka það svona aðeins í sundur.
  4. Bætið kínóa á pönnuna, ég blanda  því ekki alveg saman  heldur hef það á sitthvorum helmingnum á pönnunni á meðan ég er að elda en svo blandast það saman þegar það er sett á diskinn.
  5. Stráið fersku steinseljunni yfir.
  6. Setjið á disk og berið fram með fersku grænmeti.
  7. Gott pestó setur alveg punktinn yfir i-ið í þessum rétti sem og öðrum.  Í þetta skiptið var ég með dásamlega gott kóríander pestó.

Þetta er uppáhaldspestóið mitt þessa dagna.

Dásamlega gott kóríander pestó

  • 1 dl kóríander (ferskt)
  • 1/2 dl pekanhnetur
  • 1/2 tsk salt
  • 1/2 lime (safinn) – má vera minna
  • 1 dl kaldpressuð ólífuolía
  1. Allt sett í litla matvinnsluvél og blandað saman.
  2. Geymt í glerkrukku inni í ísskáp.

 

Verði ykkur að góðu 🙂

Karrý kókos grænmetissúpa

Bragðgóð, einföld og fljótleg súpa í miðri vikunni.  Það er virkilega gott að nota bakað grænmeti svo endilega næst þegar þið bakið grænmeti, takið smá til hliðar og búið til súpu næsta dag.  Þessi súpa er líka tilvalin mánudagssúpa, ef þið eigið bakað grænmeti í ísskápnum frá helginni.  Það er líka tilvalið að bæta kjúkling eða fisk saman við súpuna, allt eftir smekk hvers og eins.

karrý kókos grænmetissúpa

Hráefni:

  • 1 msk kókosolía
  • 1 tsk tandoori krydd eða önnur góð kryddblanda
  • 4 dl bakað grænmeti (sellerírót, sætar kartöflur og gulrætur í aðalhlutverki)
  • 6-7 dl vatn
  • 1/2 rauð paprika í litlum bitum
  • 1 dl kókosmjólk
  • 1 grænmetiskraftur
  • væn lúka steinselja
  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Hitið kókosolíu í potti.
  2. Setjið kryddið í pottinn og leyfið því að malla aðeins í olíunni.
  3. Setjið bakaða grænmetið saman við og veltið upp úr kryddblöndunni.
  4. Bætið við vatni, kókosmjólk og grænmetiskrafti.
  5. Bætið paprikunni  og steinseljunni saman við.
  6. Leyfið súpunni að malla í nokkrar mínútur en svo er gott að leyfi henni að standa aðeins, hún verður enn betri þannig.

Það er langbest að eiga til afgang af bökuðu grænmeti því þá tekur matseldin mjög stuttan tíma. Það má líka brytja grænmeti niður og sjóða með súpunni en það kemur bara sérstaklega gott bragð ef notað er bakað grænmeti. Ef þið eigið ekki til afgang af bökuðu grænmeti, skerið þá niður 1/2 sellerírót, 1/2 sæta kartöflu og 2 gulrætur og bakið í ofni í 25 mín v/ 200°c.

fullsizerender6

Verði ykkur að góðu 🙂

Blómkáls- og brokkolísúpa

Uppskerusúpa sumarsins.  Þessa gerði ég nokkrum sinnum í sumar og heppnaðist alltaf jafnvel.  Hún verður auðvitað lang best ef notað er glænýtt íslenskt blómkál og brokkolí.  Með því að sjóða hluta af grænmetinu fyrst og mauka svo verður súpan þykk og matarmikil.

blómkálssúpaHráefni:

  • 1 blómkálshaus (stór)
  • 1 brokkolíhaus (stór)
  • 1 laukur
  • 2-3 kartöflur
  • 1 sellerístöngull
  • 2 grænmetisteningar (ég nota gerlausa frá Rapunzel)
  • 8 dl vatn
  • 2 dl þykk kókosmjólk
  • salt og pipar eftir smekk

 

Aðferð:

  1. Brytjið niður 1/2 haus af blómkáli (gróflega)
  2. Skerið niður laukinn (þarf ekki að vera smátt)
  3. Skerið kartöflurnar í nokkra bita
  4. Skerið sellerístöngulinn niður í nokkra bita
  5. Setjið allt í pott ásamt 3-4 dl af vatni (nóg þannig fljóti yfir)
  6. Sjóðið í u.þ.b. 10 mín eða þangað til kartöflurnar eru orðnar mjúkar.
  7. Hellið súpunni í blandarann (ef hann þolir sjóðandi vökva) og maukið súpuna.  Þið getið líka notað töfrasprota.
  8. Bætið nú  restinni af blómkálinu, brokkolíinu og grænmetiskraftinum út í pottinn ásamt 4-5 dl af vatni.
  9. Sjóðið í 5-6 mín eða þangað til blómkálið og brokkolíð er orðið mjúkt.
  10. Bætið kókosmjólkinni saman við og kryddið með salt og pipar.

 

 

 

Linsubauna “taco”

Þá líður að mánaðarmótum sem þýðar að Veganúar fer að klárast.  Ég sem ætlaði að setja inn svo margar vegan uppskriftir í mánuðinum.  Ef ég á að velja eina uppáhalds þá held ég að það sé þessi.  Ég var mjög yfirlýsingaglöð að ég myndi að þessu sinni verða 100 % vegan í 3 vikur en til að vera hreinskilin þá tókst það ekki alveg allann tímann.  Íslensk kjötsúpa, kjúklingasúpa og kjúklingasalat slæddust með.  En það að geta talið kjötréttina á annari hendi er nú bara afrek út af fyrir sig og ég er bara ótrúlega ánægð með mánuðinn.   Það er gott innlegg í umræðuna hversu mikill mengunarvaldur kjöt og mjólkurframleiðslan í heiminum fyrir utan auðvitað athyglina á meðferð dýra í verskmiðjubúskap sem er nauðsynleg umræða.

Hér kemur uppskrift af virkilega góðum grænmetisrétt.

Linsu taco

(Uppskrift handa 4-5)

Hráefni:

  • 1 laukur
  • 3 hvítlauksrif
  • 2-3 stórar gulrætur eða fleiri litlar
  • 1-2 sellerístönglar
  • 2 dl brúnar linsur (ósoðnar)
  • 1 dós maukaðir tómatar
  • 1-2 dl vatn
  • 2 msk tómatpuré
  • 1 msk mexíkó krydd
  • 1 msk paprikukrydd
  • 1 tsk cumin
  • 1 msk grænmetiskraftur
  • salt og pipar
  • væn lúka fersk steinselja

Gott er að bera réttinn fram með góðu salati og að mylja nokkrar lífrænar nachosflögur yfir réttinn setur aldeilis punktinn yfir i-ið.  Það er líka gott að hafa guacamole með eða kúreka ýdífu eins og hún er stundum kölluð hér.(sjá uppskrift hér að neðan)

Aðferð:

  1. Leggjið linsubaunirnar í bleyti í amk. 2 klst en má alveg vera yfir nótt líka.  Hellið vatninu af þeim, setjið í nýtt vatn og sjóðið í 20-30 mín. (Hér getið þið líka notað tilbúnar baunir í dós)
  2. Hitið pönnu og mýkjið lauk í smá olíu, bætið gulrótum og sellerí við og leyfið því að mýkjast vel.
  3. Bætið tómatmaukinu, kryddinu, vatninu og kraftinum á pönnuna og leyfið réttinum að malla við lágan hita í nokkrar mínútur.
  4. Bætið linsunum við í lokin, kryddið með salt og pipar og bætið steinseljunni við í lokin.

Það má alveg nota aðrar baunir í þennan rétt, ef þið eigið til í frysti eða eigið í dósum.  Ég hef til dæmis notað svartar baunir, pinto baunir og adukibaunir.  Þær passa allar mjög vel í allan mexíkanskan mat. 

 

Hér er einföld uppskrift af Kúreka ýdífu sem smell passar með réttinum:

Kúrekaídýfa

  • 1 þroskað avakadó
  • safi úr lime, uþb. 1 msk (má líka nota sítrónu)
  • 1 hvítlauksrif
  • 1/2 tsk cumin
  • salt og pipar

Maukið avakadó með töfrasprota eða stappið með gafli, kreystið lime safann yfir, bragðbætið með hvítlauk, salti og cumin.