Bláberjadraumur

Ef þið elskið að fara í berjamó eins og ég eigið þið væntanlega nokkur box í frysti fyrir veturinn eins og ég.  Berjaspretta var töluvert betri en síðustu ár og ég naut þess í botn að tína ber.

Ég nota þau svo yfir veturinn í allskonar þeytinga og út á morgungrautinn.  En um síðustu helgi gerði ég köku sem okkur fjölskyldunni fannst mjög góð og mig langaði að deila með ykkur.

Þið getið að sjálfsögðu notað sólber, epli, rabbarbara eða eitthvað annað í staðinn fyrir bláber 🙂

 

 

Hráefni: 

 • 8 dl bláber
 • 1-2 msk kókospálmasykur
 • safi úr 1 sítrónu
 • 2,5 dl haframjöl
 • 1,5 dl möndlumjöl
 • 1,5 dl smátt saxaðar möndlur
 • 1,5 dl kókosflögur
 • 75 g smjör eða kókosolía (fyrir mjólkurlausa útgáfu)
 • 50 g kókospálmasykur
 • 1 tsk vanilludropar

 

Aðferð: 

 1. Hitið ofninn í 180°
 2. Takið bláber úr frysti og setjið í eldfast mót (þið þurfið ekki að þýða bláberinn).  Stráið 1-2 msk af kókospálmasykri yfir bláberinn og kreystið safa úr hálfri sítrónu.
 3. Setjið  smjör, kókospálmasykur og vanilludropa í pott og bræðið saman.  Það er ekki víst að sykurinn bráðni alveg en við viljum a.m.k. fá fína karamellulykt í loftið.
 4. Setjið haframjöl, möndlumjöl, smátt saxaðar möndlur og kókosflögur í skál og blandið saman.
 5. Blandið að lokum smjörblöndunni saman við þurra hráefnið og setjið yfir bláberin.
 6. Setjið mótið inn í ofn og bakið í  30 mín.
 7. Berið fram með þeyttum rjóma, kókosrjóma eða jafnvel vanilluís.

 

 • Ef þið notið glúteinlausa  hafra er þessi uppskrift glúteinlaus.
 • Ef þið notið kókosolíu í staðinn fyrir smjör er hún vegan.

Verði ykkur að góðu

Kveðja,

Epla- og hindberjakaka með marsípantopp

Sunnudagskakan um síðustu helgi var jafn góð og hún leit út fyrir að vera.  Ég sýndi frá henni á Instagram og viðbrögðin létu ekki á sér standa … svo hér kemur uppskriftin handa ykkur.   Ef þig langar að sjá hvað ég er að bardúsa í eldhúsinu máttu gjarnan fylgjast með, ég reyni að setja eitthvað í “story” á hverjum degi eða svona hér um bil.

En aftur að kökunni.  Ég veit ekki hvort megi kalla þessa köku “köku”, sennilega er þetta meira svona pæ … en samt er þetta ekki löglegt pæ því þá þyrfti skelin að vera hörð.  En nóg um tækimálin…  Ég elska eplakökur og bakaði eina slíka um þar síðustu helgi.  En í henni var vel af kanil og staðan er bara þannig að miðdóttirin hatar kanil.  Já, hún HATAR kanil, það er ekkert minna!   Svo ég lofaði að gera aftur eplaköku án kanils.  Það hljómaði eitthvað bragðlaust svo ég ákvað að poppa hana upp með hindberjum og smá heimatilbúnu marsípani.  Ég var með smá áhyggjur af því að hindberin myndu verða að safa en það gerðist ekki, ég setti þau á kökuna beint úr frysti og nánast beint inn í ofn og þau héldu sér svona fallega.

 

 

Hráefni: 

Botn: 

 • 100 g smjör (eða kókosolía fyrir mjólkurlausa útgáfu)
 • 2 dl möndlumjöl
 • 2 dl haframjöl
 • 1,5 dl kókospálmasykur

Fylling: 

 • 4-5 stór epli
 • 2 dl frosin hindber

marsípan : 

 • 2 dl möndlumjöl
 • 3-4 msk hlynsýróp
 • 1/2 tsk möndludropar

Aðferð: 

 1. Hitið ofninn í 180°(blástur)
 2. Hrærið saman hráefnið í botninn og setjið í mót, ég var með 28 cm hringmót og botninn er frekar þunnur.
 3. Brytjið niður eplin í litla bita og setjið í mótið.
 4. Takið hindberin úr frysti og setjið ofan á eplin.
 5. Búið til marsíðan með því að hnoða saman möndlumjöli, hlynsýrópi og möndludropum og dreyfið því ofan á kökuna.  Það á að vera það blautt að það sé auðvelt að móta það en það má ekki molna niður.
 6. Bakið kökuna í 15-20 mín – fyglist vel með að hún verði ekki of dökk.  Ofnar eru misjafnir og gott að stilla fyrst á 15 mín og svo lengja tímann ef það þarf.

Verði ykkur að góðu og njótið vel

 

 

 

 

 

Kryddaðir hafraklattar

Mjúkir og kryddaðir hafraklattar.  Tilvaldir með tebollanum eða kaffibollanum.   Hversdags eða um helgina !

Það tekur stuttan tíma að baka þessa klatta en því miður eru þeir fljótir að klárast.  Það hefur enn ekki reynt mikið á geymsluþolið á þessum kökum á þessu heimili 😉

 

Þessi uppskrift gerir um 20-25 klatta

Hráefni. 

 • 4 dl haframjöl
 • 1,5 dl kókosmjöl
 • 1,5 dl fræ (sólblóma/ sesam)
 • 100 g smjör/ 1 dl olía
 • 2 egg
 • 1 dl kókospálmasykur (má minnka fyrir sykurminni útgáfu)
 • 1 tsk vanilludropar
 • 2 tsk kanill
 • 1/2 tsk negull
 • smá salt
 • 60 gr smátt saxað dökkt súkkulaði ( notum líka stundum hvítt súkkulaði með til hátíðarbrigða) og það má líka skipta súkkulaðinu út fyrir 1 dl af smátt söxuðum döðlum

 

Aðferð: 

 1. Hitið ofninn í  180°C
 2. Bræðið smjörið eða olíuna (ef þið notið kókosolíu)
 3. Pískið eggin vel og blandið smjörinu/olíunni saman við þau ásamt sykrinum.
 4. Bætið þurrefnunum saman við blönduna.
 5. Setjið deigið á bökunarpappír  (1 msk hver kaka)
 6. Bakið í  12-15 mín.

Þær mega vera örlítið mjúkar þegar þær koma út úr ofninum því þær harðna þegar þær kólna.  

 

Uppáhalds smákökurnar

Ég hef ekki lengur tölu á því hversu oft ég hef bakað þessar kökur.   Það er í raun alveg óskyljanlegt af hverju uppskriftin er ekki þegar á blogginu.  Við erum að tala um að  þegar fjölskyldan fór til Svíþjóðar fyrir tveimur árum bakaði ég 10-falda uppskrift af þessum kökum.   Já ég er ekki að grínast… þið haldið væntanlega núna  að ég sé alveg gúgúgaga en fyrir vikið við áttum alltaf til fullkomið nesti, hvort sem það var á flugvellinum, í Gröna Lund eða bara með morgunkaffinu.  Síðan þá (og einnig fyrir þann tíma) hafa þessar kökur verið bakaðar fyrir hin ýmsu tilefni og mjög oft þegar þarf að redda nesti á núll -einni.  Því fyrir utan að vera þræl góðar þá eru þær alveg þrusu fljótlegar líka.  Þessar kökur eru því tilvaldar í nesti í sumar hvort sem það er í millilandaflug eða í lautarferð.

Hráefni:

1 dl kókosolía (brædd)

1 dl kókospálmasykur (má líka hafa 50/50 Kókospálmasykur og Stevíu strásætu)

1 egg

1 tsk vínsteinslyftiduft

2 dl möndlumjöl

1 dl kókosmjöl

1/2 tsk salt

50 g dökkt súkkulaði, saxað

1/2 dl sólblómafræ

Aðferð:

 1. Bræðið kókosolíuna t.d. með því að setja rétt magn í glas eða krukku og setja það ofan í annað ílat með heitu vatni.
 2. Saxið súkkulaðið.
 3. Setjið öll innihaldsefnin í skál og blandið vel saman.
 4. Setjið deigið á bökunarplötu með teskeið.
 5. Bakið í 10-12 mín við 180°c

 

Eins og sést á hráefnislistanum eru þessar ljúfu smákökur bæði mjólkur- og glúteinlausar.

Verði ykkur að góðu 🙂

Svo má minna á að ennþá eru örfá sæti laus á síðasta námskeiðið fyrir sumarfrí: Sumarleg sætindi, sem verður næsta mánudag í Spírunni.   Allar nánari upplýsingar eru að finna  hér  

Döðluterta með bananarjóma og saltkaramellukremi

Þessi kaka er dásamlega einföld. Hún er fljótleg og brjálæðislega góð.  Ekki skemmir fyrir að hún skuli vera glúteinlaus og einnig má alveg sleppa karamellubráðinni og þá er mjög lítill sykur í kökunni og trúiði mér hún er mjög góð þannig líka.  Saltkaramellan var sett á í páskafríinu til að búa til “bombu” og það tókst heldur betur.

IMG_1903

Hráefni:

 • 3 egg
 • 1 dl kókospálmasykur
 • 2 dl möndlumjöl
 • 2 tsk lyftiduft
 • 50 g 70 % súkkulaði
 • 1,5 dl döðlur, smátt brytjaðar
 • örlítið salt

 

Aðferð:

 1. Þeytið egg og sykur þangað til það verður létt og ljóst
 2. Bætið möndlumjöli, lyftidufti og salti varlega saman við.
 3. Bætið súkkulaðinu og döðlunum saman við.
 4. Bakið í 24 cm lausbotna móti í 15 mín við 180°C

 

döðluterta

Ofan á kökuna:  

Þeytið 2 dl rjóma og blandið saman við stöppuðum banana, þeir sem fíla ekki bananarjóma sleppa auðvitað bara banananum og hafa hreinan rjóma.

Karamellusósan ofan á er sú sama og við höfum gert á námskeiðunum (en hér þarf hún ekki að malla eins lengi og við höfum látið hana gera til að búa til stökkt karamellunammi, hér er í lagi að hafa  hana mjúka.)

Karamellan:

 • 1 dl kókosolía eða smjör
 • 1 dl kókosmjólk eða rjómi
 • 0,5 dl hlynsýróp
 • 0,5 dl kókospálmasykur
 • örlítið vanilluduft
 • Saltið frjálslega til að fá saltkaramellubragðið en einnig er geggjað að nota lakkríssalt ef þið eigið það til. 

Setjið allt karamellu hráefnið í pott og komið upp suðu.  Leyfið karamellunni að malla hressilega en passið að hún brenni ekki við.  Bragðbætið með salti og vanilludufti.

 

IMG_1906

Að lokum: 

Þegar botninn hefur kólnað er rjóminn settur yfir, karamellunni hellt yfir rjómann og hér má skreyta með smá niðurskornu súkkulaði ef þið viljið.

Verði ykkur að góðu 🙂

Sætir banana-döðlu klattar

Þessar smákökur höfum við oft fengið hjá mömmu.  Hún fann uppskrift hjá Cafesigrun.com fyrir löngu síðan en breytti henni töluvert og ég held að það eina sem stendur eftir af upprunalegu uppskriftinni séu 3 bananar og 1/2 tsk salt.  Þessar kökur eru alveg svakalega vinsælar hjá krökkunum og fyrir þá sem fylgjast með á snappinu þá eru þetta kökurnar sem ég var að baka um miðnætti kvöld eitt í síðustu viku til að eiga í nesti þegar danssýningin í Borgarleikhúsinu var. (Fyrir þá sem vilja fylgjast með á Snapchat = heilsumamman)

En að uppskriftinni,  hún er einstaklega fljótleg og einföld.  Hún er mjólkurlaus, glúteinlaus (ef notaðar eru glúteinlausar hafraflögur) og nánast alveg sykurlaus.  Ég prófaði að gera hana bæði með kókospálmasykrinum og eins án.  Og eins og við er að búast þá voru þær heldur betri með kókospálmasykrinum (það var svo sem auðvitað), ekki það að þær séu neitt mikið sætari en það kom svona öðruvísi áferð á þær, þær urðu stökkari og tja, bara örlítið betri.

bananaklattar

Hráefni:

 • 3 Þroskaðir meðalstórir bananar
 • 3 msk kókosolía
 • 2 dl smátt saxaðar döðlur (ég nota Kaju Organics sem fást smátt saxaðar, þá þarf ekkert að gera)
 • 2 dl grófar hafraflögur
 • 2 dl kókosmjöl
 • 1 dl möndlumjöl
 • 1/2 tsk salt
 • 1/2 tsk vanilla
 • 3 msk kókospálmasykur ( má sleppa )

Aðferð:

 1. Maukið bananana (t.d. með töfrasprota).
 2. Bræðið kókosolíu og bætið saman við.
 3. Blandið öllu hráefninu saman við og hrærið vel.
 4. Setjið með teskeið litlar kökur á bökunarpappír, þjappið aðeins með gaffli svo þær séu þunnar og bakið í 25 mín við 180°c

Kökurnar eru langbestar nýbakaðar en þær má líka frysta.

IMG_1934

Mig grunar að þessar eigi eftir að fara víða í sumar… ferðast um í nestisboxum um landið þvert og endilangt 🙂

Verði ykkur að góðu 🙂