Súkkulaðikaka með karamellukremi (mjólkur- og glúteinlaus)

Hér kemur ein af mínum uppáhalds uppskriftum.  Þetta er svipuð þessari köku nema ég hef öðruvísi karamellu og uppskriftin er minni.
  photo 2(5)
Ég gaf Fréttablaðinu þessa uppskrift í desember í aukablað sem fjallaði um glúteinlaust mataræði.  Ég ætlaði auðvitað að deila þessu með ykkur daginn sem myndin og viðtalið birtist en það fór fyrir ofan garð og neðan.  Þið munið kannski einhver eftir þessum degi,  það var brjálað veður, sem kom samt bara eftir að öll börnin voru komin í skólann, svo kom tilkynning að allir ættu að drífa sig heim að sækja börnin, og þar sem allt “úthverfaliðið” sat sem fastast í bílaröð dauðans á meðan aðrir börðust um og reyndu að losa bílinn (eins og ég t.d.) kom svo tilkynning aftur að sennilega væri best að engin yrði á ferðinni í þessu skelfilega veðri og það þyrfti ekkert að sækja börnin enda fór bara mjög vel um þau.  Eftir margra tíma biðröð, snjómokstur og gönguferð að sækja börnin steingleymdi ég að deila uppskriftinni.  Áttaði mig svo bara í þessari viku að ég hafði steingleymt þessu.  En betra er jú seint en aldrei 🙂
 viðtal
Hráefni:
 • 3 dl möndlumjöl
 • 3/4 dl kókospálmasykur eða strásæta frá Via Health (eða blanda því 50/50)
 • 1 tsk vínsteinslyftiduft
 • 4-5 msk kakó
 • 1/4 tsk salt
 • 2 egg
 • 1/2 dl kókosolía (eða smjör)
 • 1 tsk vanilludropar
 • 1/2 dl valhnetur, smátt brytjaðar
Aðferð:
 1. Bræðið kókosolíuna.
 2. Blandið saman öllum þurrefnunum í skál.
 3. Hrærðið saman eggjunum, kókosolíunni og vanilludropunum.
 4. Blandið saman þurru og blautu efnunum og bætið valhnetunum saman við.
 5. Bakið í 20 mín við 200°c
Karamellukrem: 
 • 0,75 dl hlynsýróp
 • 3-4 msk möndlusmjör (dökkt)
 • 1/2-1 tsk hreint vanilluduft
 1. Blandið hlynsýrópi, möndlusmjöri og vanilludufti vel saman í skál (eða blandara) og hellið yfir kökuna þegar hún kemur út úr ofninum.
 2. Kökuna má skreyta að vild, á myndinni er stráð yfir karamellukremið dökku súkkulaði og ristuðum makademíuhnetum.  (ath. það borgar sig að kæla kökuna áður en þið stráið súkkulaðinu yfir, annars bráðnar það)

 

Verði ykkur að góðu og góða helgi 🙂

Sætkartöflusúpa

Mild og góð haustsúpa/ sumarsúpa/ vetrarsúpa eða vorsúpa,  mér finnst hún bara alltaf passa vel.  Hún er skyld Yngingarsúpunni þessi en örlítið breytt.   Hún er mildari og “hreinni” þar sem ég sleppi karrý maukinu (curry paste), tómatmaukinu og mangó maukinu (mango chutney).  En þrátt fyrir það er hún þræl góð og börnunum mínum finnst þessi útgáfa miklu betri, sennilega því hún er mildari.

Ég var beðin um að koma með uppskrift í sætindaáksorun Lifðu til fulls sem yfir 4000 manns eru að taka þátt í.  Þetta er spennandi og vonandi að öllum gangi sem allra best í sykurleysinu.  Uppskriftin sem ég gaf er af súpu sem er bæði einföld, fljótleg og ódýr.  Ástæðan fyrir því að þessi súpa er sniðug þegar við ætlum að sleppa sykrinum er sú að sætar kartöflur eru náttúrulega sætar og uppfylla því ákveðna sykurþörf.

IMG_3445

 

Hráefni: (fyrir 4)

 • 1 msk kókosolía
 • 1 sæt kartafla
 • 4 gulrætur
 • 1 laukur
 • 4 hvítlauksrif
 • 3 þroskaðir tómatar ( má sleppa)
 • 2 msk kjúklingakraftur (eða grænmetiskraftur)
 • 1 tsk túrmerik
 • 1 tsk reykt paprika eða venjuleg paprika
 • 1 tsk cumin
 • 1 litri vatn
 • salt og pipar

Aðferð:

 1. Hitið kókosolíu í potti, bætið lauknum við og leyfið honum að malla í rólegheitunum við lágan hita.
 2. Bætið kryddunum á pönnuna ásamt hvítlauknum.
 3. Bætið vatninu út á ásamt kraftinum.
 4. Bætið sætu kartöflunni og gulrótunum saman við.
 5. Leyfið súpunni að malla í ca. 20 mín þangað til grænmetið er orðið mjúkt.
 6. Maukið súpuna með töfrasprota.

Þessi uppskrift er í uppskriftaheftinu nýjasta 🙂

Verði ykkur að góðu 🙂

Súkkulaðikaka með karamellusósu og pecan hnetum

Jæja, er ekki komin tími á nýja uppskrift?  Einu uppskriftirnar sem birtast núna eru bakstur og sætindi, ástæðan er jú auðvitað sú að ég er búin að vera að stússast í nammi námskeiði undanfarið ásamt því að útbúa hefti stútfullt af nammi og baksturshugmyndum í hollari kantinum.

Hér kemur ein uppskrift úr heftinu, þessi kaka er í miklu uppáhaldi hjá fjölskyldunni.  Hún er svona frekar djúsí… einn sunnudaginn var alveg gersamlega brjálað veður, allir inni og öllum langaði í eitthvað hrikalega gott.  Ég lét til leiðast og bakaði þessa djúsí köku. Fyrirmyndin er kaka sem ég bakaði stundum á árum áður, þá var hún alveg rosalega sæt, stútfull af sykri, en hér er svona heldur betri útgáfa.

sukkuladikakagluteinlausmedkaramellu

Hráefni:

 • 6 dl möndlumjöl
 • 1 dl kakó
 • 2 tsk vínsteinslyftiduft
 • örlítið salt
 • 0,75 dl kókosolía
 • 3 egg
 • 1 dl hrásykur
 • 25 dropar stevía (var með Orginal frá Via Health)
 • 1 -1,5 dl valhnetur
 • 50 g 70 % súkkulaði
 • Karamellusósan:
 • 1/2 dl kókosolía/smjör
 • 1/2 dl hlynsýróp/kókospálmasykur
 • 1 dl  kókosmjólk/rjómi
 • 0,5 tsk vanilluduft

Aðferð: setjið allt í pott nema vanilluduftið og hrærið mjög vel í nokkrar mín þangað til karamellan lítur vel út, bætið vanilliuduftinu að lokum út í.

 • Ofan á:
 • 1 dl af smátt söxuðum pecan hnetum
 • 50 gr 70 % súkkulaði

Aðferð:

 1. Blandið saman þurrefnunum.
 2. Bræðið kókosolíuna við lágan hita eða í vatnsbaði.
 3. Hrærið saman eggjum, sykri, stevíu og kókosolíu.
 4. Blandið þurru og blautu efnunum saman.
 5. Bætið hnetum og súkkulaði saman við.
 6. Bakið víð 200° í ca 20 mín. (ath. fer eftir ofninum, ekki baka hana of lengi svo hún verði þurr og hörð)
 7. Þegar nokkrar mínútur eru eftir af bökunartímanum hellið þið karamellunni yfir ásamt pecan hnetunum.
 8. Þegar kakan er tekin út er söxuðu súkkulaði hellt yfir og látið bráðna.