Namminámskeið 2021

Jæja, tíminn flýgur og ég trúi því varla sjálf að það sé kominn nóvember strax. Það þýðir að namminámskeiðin taka völdin!

Ég hef verið með sama námskeiðið í gangi í nokkur ár, oft hugsað um að breyta en málið er bara að það námskeið finnst mér vera hið fullkomna nammi námskeið og það er ástæðan fyrir því að það er búið að ganga svona lengi. Þáttakendur læra að búa til æðislegar súkkulaði húðaðar konfektkúlur búnar til úr möndlumjöli og gráfíkjum eða trönuberjum, ilmandi karamellunammi þar sem við notum kókosmjólk, kókospálmasykur og hlynsýróp til að sæta og svo poppum við upp dökkt súkkulaði svo um munar. Hér má sjá afrakstur af einu slíku námskeiði í fyrra.

Aðeins eitt svona námskeið verður haldið í haust og það verður miðvikudaginn 24.nóvember kl. 18.00-20.00

En þar sem ég hef haldið þetta námskeið svo OFT langaði mig að búa til nýjar uppskriftir, einnig fyrir alla þá sem hafa þegar komið og langar að fá nýjar hugmyndir. Nýja námskeiðið verður haldið 16.nóvember (kl. 18.00-20.00) en hver veit nema ég bæti við annarri dagsetningu við í byrjun desember.

Á þessu námskeiði ætlum við að búa til nokkra geggjaða hluti sem sjást hér: Karamellurís, Dekur döðlur, Kókos kasjú trufflur og Snickers eða Lakkrís próteintrufflur. Ég held að það sé eitthvað fyrir alla til að njóta eftir þessa kvöldstund.

En þetta er ekki allt því síðasta vetur bjó ég til nýtt námskeið sem heitir “Næringarríkar tertur, eftirréttir og ís” og verður einnig bara eitt þannig námskeið 2.desember (sami tími 18.00-20.00)

Á þessu námskeiði ætlum við að búa til Tíramísú tertu (hægt að gera súkkulaði ef þú elskar ekki kaffi)
ÍS – val um að gera súkkulaði eða vanillu og Snickers bita.

En einnig fylgja með auka uppskriftir af fleiri tertum sem hægt er að gera síðar.

Hér er hægt að bóka pláss á námskeiðin en eins og sjá má er afsláttur ef bókuð eru fleiri en 1 námskeið 😉

https://heilsumamman.com/product-category/heilsumamman-is-namskeid/

Öll námskeiðin eru haldin í gegnum zoom. Nokkrum dögum fyrir námskeið færðu sendan innkaupalista, uppsrkriftir og undirbúningsplan þar sem kemur t.d. fram hvaða áhöld þú þarft að hafa tilbúin. Að morgni námskeiðisdags færðu sendan zoomlink til að smella á þegar komið er að námskeiðinu. Þetta hefur gengið alveg ótrúlega vel hingað til og þau sem hafa prófað að koma á námskeið og hinsvegar sækja rafrænt námskeið eru öll sammála því að þetta rafræna stendur upp úr. Það er bara svo þægilegt að geta verið heima í sínu eldhúsi á námskeiði. Þú þarft ekki að fara út í kuldann, redda barnapössun eða keyra langar vegalengdir. Á móti geturðu boðið fjölskyldunni að taka þátt með þér og átt svo allt gotteríið sjálf/ur þegar námskeiðinu lýkur.

Að lokum má nefna það að allt sem við búum til er glúteinlaust, mjólkurlaust og hentar þeim sem eru vegan. Alltaf er hægt að nota eitthvað annað en hnetur í uppskriftir ef þú vilt búa til hnetulaust nammi. Við notum mest döðlur til að sæta en í einstaka tilfellum hlynsýróp eða kókospálmasykur. Eini hvíti sykurinn gæti mögulega leynst í dökka súkkulaðinu.

Ég minni á að mörg stéttafélög greiða allt að 50 % tilbaka af námskeiðisgjaldinu.

Öll námskeiðin verða tekin upp og því hægt að horfa síðar á upptökuna ef tíminn hentar þér ekki. Til þess að fá afrit af upptöku þarf að senda beiðni um það á heilsumamman@gmail.com

Hlakka til að sjá þig 🙂

Epla- og hindberjakaka með marsípantopp

Sunnudagskakan um síðustu helgi var jafn góð og hún leit út fyrir að vera.  Ég sýndi frá henni á Instagram og viðbrögðin létu ekki á sér standa … svo hér kemur uppskriftin handa ykkur.   Ef þig langar að sjá hvað ég er að bardúsa í eldhúsinu máttu gjarnan fylgjast með, ég reyni að setja eitthvað í “story” á hverjum degi eða svona hér um bil.

En aftur að kökunni.  Ég veit ekki hvort megi kalla þessa köku “köku”, sennilega er þetta meira svona pæ … en samt er þetta ekki löglegt pæ því þá þyrfti skelin að vera hörð.  En nóg um tækimálin…  Ég elska eplakökur og bakaði eina slíka um þar síðustu helgi.  En í henni var vel af kanil og staðan er bara þannig að miðdóttirin hatar kanil.  Já, hún HATAR kanil, það er ekkert minna!   Svo ég lofaði að gera aftur eplaköku án kanils.  Það hljómaði eitthvað bragðlaust svo ég ákvað að poppa hana upp með hindberjum og smá heimatilbúnu marsípani.  Ég var með smá áhyggjur af því að hindberin myndu verða að safa en það gerðist ekki, ég setti þau á kökuna beint úr frysti og nánast beint inn í ofn og þau héldu sér svona fallega.

 

 

Hráefni: 

Botn: 

  • 100 g smjör (eða kókosolía fyrir mjólkurlausa útgáfu)
  • 2 dl möndlumjöl
  • 2 dl haframjöl
  • 1,5 dl kókospálmasykur

Fylling: 

  • 4-5 stór epli
  • 2 dl frosin hindber

marsípan : 

  • 2 dl möndlumjöl
  • 3-4 msk hlynsýróp
  • 1/2 tsk möndludropar

Aðferð: 

  1. Hitið ofninn í 180°(blástur)
  2. Hrærið saman hráefnið í botninn og setjið í mót, ég var með 28 cm hringmót og botninn er frekar þunnur.
  3. Brytjið niður eplin í litla bita og setjið í mótið.
  4. Takið hindberin úr frysti og setjið ofan á eplin.
  5. Búið til marsíðan með því að hnoða saman möndlumjöli, hlynsýrópi og möndludropum og dreyfið því ofan á kökuna.  Það á að vera það blautt að það sé auðvelt að móta það en það má ekki molna niður.
  6. Bakið kökuna í 15-20 mín – fyglist vel með að hún verði ekki of dökk.  Ofnar eru misjafnir og gott að stilla fyrst á 15 mín og svo lengja tímann ef það þarf.

Verði ykkur að góðu og njótið vel

 

 

 

 

 

Kryddaðir hafraklattar

Mjúkir og kryddaðir hafraklattar.  Tilvaldir með tebollanum eða kaffibollanum.   Hversdags eða um helgina !

Það tekur stuttan tíma að baka þessa klatta en því miður eru þeir fljótir að klárast.  Það hefur enn ekki reynt mikið á geymsluþolið á þessum kökum á þessu heimili 😉

 

Þessi uppskrift gerir um 20-25 klatta

Hráefni. 

  • 4 dl haframjöl
  • 1,5 dl kókosmjöl
  • 1,5 dl fræ (sólblóma/ sesam)
  • 100 g smjör/ 1 dl olía
  • 2 egg
  • 1 dl kókospálmasykur (má minnka fyrir sykurminni útgáfu)
  • 1 tsk vanilludropar
  • 2 tsk kanill
  • 1/2 tsk negull
  • smá salt
  • 60 gr smátt saxað dökkt súkkulaði ( notum líka stundum hvítt súkkulaði með til hátíðarbrigða) og það má líka skipta súkkulaðinu út fyrir 1 dl af smátt söxuðum döðlum

 

Aðferð: 

  1. Hitið ofninn í  180°C
  2. Bræðið smjörið eða olíuna (ef þið notið kókosolíu)
  3. Pískið eggin vel og blandið smjörinu/olíunni saman við þau ásamt sykrinum.
  4. Bætið þurrefnunum saman við blönduna.
  5. Setjið deigið á bökunarpappír  (1 msk hver kaka)
  6. Bakið í  12-15 mín.

Þær mega vera örlítið mjúkar þegar þær koma út úr ofninum því þær harðna þegar þær kólna.  

 

Uppáhalds smákökurnar

Ég hef ekki lengur tölu á því hversu oft ég hef bakað þessar kökur.   Það er í raun alveg óskyljanlegt af hverju uppskriftin er ekki þegar á blogginu.  Við erum að tala um að  þegar fjölskyldan fór til Svíþjóðar fyrir tveimur árum bakaði ég 10-falda uppskrift af þessum kökum.   Já ég er ekki að grínast… þið haldið væntanlega núna  að ég sé alveg gúgúgaga en fyrir vikið við áttum alltaf til fullkomið nesti, hvort sem það var á flugvellinum, í Gröna Lund eða bara með morgunkaffinu.  Síðan þá (og einnig fyrir þann tíma) hafa þessar kökur verið bakaðar fyrir hin ýmsu tilefni og mjög oft þegar þarf að redda nesti á núll -einni.  Því fyrir utan að vera þræl góðar þá eru þær alveg þrusu fljótlegar líka.  Þessar kökur eru því tilvaldar í nesti í sumar hvort sem það er í millilandaflug eða í lautarferð.

Hráefni:

1 dl kókosolía (brædd)

1 dl kókospálmasykur (má líka hafa 50/50 Kókospálmasykur og Stevíu strásætu)

1 egg

1 tsk vínsteinslyftiduft

2 dl möndlumjöl

1 dl kókosmjöl

1/2 tsk salt

50 g dökkt súkkulaði, saxað

1/2 dl sólblómafræ

Aðferð:

  1. Bræðið kókosolíuna t.d. með því að setja rétt magn í glas eða krukku og setja það ofan í annað ílat með heitu vatni.
  2. Saxið súkkulaðið.
  3. Setjið öll innihaldsefnin í skál og blandið vel saman.
  4. Setjið deigið á bökunarplötu með teskeið.
  5. Bakið í 10-12 mín við 180°c

 

Eins og sést á hráefnislistanum eru þessar ljúfu smákökur bæði mjólkur- og glúteinlausar.

Verði ykkur að góðu 🙂

Svo má minna á að ennþá eru örfá sæti laus á síðasta námskeiðið fyrir sumarfrí: Sumarleg sætindi, sem verður næsta mánudag í Spírunni.   Allar nánari upplýsingar eru að finna  hér  

Eggjahræra með kínóa og kóríanderpestói

Má ég kynna fyrir ykkur hinn fullkomna hádegismat.  Kannastu við það að vera heima og vanta eitthvað að borða NÚNA.  Þú áttir að vera löngu búin að fá þér eitthvað en nenntir því ekki og nú er þolinmæðin búin!   Ég er að minnsta kosti alltof dugleg að lenda í þessum aðstæðum ef ég er heima en þegar ég er í vinnunni fæ ég mér að borða á mínútunni 12 – að sjálfsögðu.

hádegismatur

Hér kemur hugmynd sem tekur ekki langan tíma að útbúa (sérstaklega ef þú átt til soðið kínóa inn í ísskáp).

Hráefni:

  • soðið kínóa
  • egg
  • kókosolía
  • góð ólífuolía
  • salt og pipar
  • steinselja
  • grænmeti af eigin vali

(magn fer eftir fjölda einstaklinga og magamáli)

Aðferð:

  1. Sjóðið kínóa samkvæmt leiðbeiningum eða takið það út úr ísskáp eða frysti.
  2. Hitið pönnu og bræðið kókosolíu.
  3. Steikið eggið á pönnunni, kryddið með salti, pipar og ferskri steinselju. Ég geri oftast hrærð egg eða “scramble egg” þannig að ég pjakka það svona aðeins í sundur.
  4. Bætið kínóa á pönnuna, ég blanda  því ekki alveg saman  heldur hef það á sitthvorum helmingnum á pönnunni á meðan ég er að elda en svo blandast það saman þegar það er sett á diskinn.
  5. Stráið fersku steinseljunni yfir.
  6. Setjið á disk og berið fram með fersku grænmeti.
  7. Gott pestó setur alveg punktinn yfir i-ið í þessum rétti sem og öðrum.  Í þetta skiptið var ég með dásamlega gott kóríander pestó.

Þetta er uppáhaldspestóið mitt þessa dagna.

Dásamlega gott kóríander pestó

  • 1 dl kóríander (ferskt)
  • 1/2 dl pekanhnetur
  • 1/2 tsk salt
  • 1/2 lime (safinn) – má vera minna
  • 1 dl kaldpressuð ólífuolía
  1. Allt sett í litla matvinnsluvél og blandað saman.
  2. Geymt í glerkrukku inni í ísskáp.

 

Verði ykkur að góðu 🙂

Karrý kókos grænmetissúpa

Bragðgóð, einföld og fljótleg súpa í miðri vikunni.  Það er virkilega gott að nota bakað grænmeti svo endilega næst þegar þið bakið grænmeti, takið smá til hliðar og búið til súpu næsta dag.  Þessi súpa er líka tilvalin mánudagssúpa, ef þið eigið bakað grænmeti í ísskápnum frá helginni.  Það er líka tilvalið að bæta kjúkling eða fisk saman við súpuna, allt eftir smekk hvers og eins.

karrý kókos grænmetissúpa

Hráefni:

  • 1 msk kókosolía
  • 1 tsk tandoori krydd eða önnur góð kryddblanda
  • 4 dl bakað grænmeti (sellerírót, sætar kartöflur og gulrætur í aðalhlutverki)
  • 6-7 dl vatn
  • 1/2 rauð paprika í litlum bitum
  • 1 dl kókosmjólk
  • 1 grænmetiskraftur
  • væn lúka steinselja
  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Hitið kókosolíu í potti.
  2. Setjið kryddið í pottinn og leyfið því að malla aðeins í olíunni.
  3. Setjið bakaða grænmetið saman við og veltið upp úr kryddblöndunni.
  4. Bætið við vatni, kókosmjólk og grænmetiskrafti.
  5. Bætið paprikunni  og steinseljunni saman við.
  6. Leyfið súpunni að malla í nokkrar mínútur en svo er gott að leyfi henni að standa aðeins, hún verður enn betri þannig.

Það er langbest að eiga til afgang af bökuðu grænmeti því þá tekur matseldin mjög stuttan tíma. Það má líka brytja grænmeti niður og sjóða með súpunni en það kemur bara sérstaklega gott bragð ef notað er bakað grænmeti. Ef þið eigið ekki til afgang af bökuðu grænmeti, skerið þá niður 1/2 sellerírót, 1/2 sæta kartöflu og 2 gulrætur og bakið í ofni í 25 mín v/ 200°c.

fullsizerender6

Verði ykkur að góðu 🙂