Hér kemur mjög fljótleg og einföld uppskrift sem ég hvet ykkur til að prufa ef þið eruð ekki vön að búa til ykkar eigið múslí. Oft leynist mikill sykur í keyptu múslíi þó það sé ekki algilt. Það er mjög fljótlegt að búa til múslí og gaman að þróa sínar eigin uppáhaldsblöndur. Oft blanda ég saman hráefnunum þegar ég er að elda kvöldmatinn eða eftir kvöldmat og sting inn í ofninn meðan hann er ennþá heitur. Þetta er vinsælt á mínu heimili og því geri ég oft tvöfalda uppskrift. Þegar ég vil svo dekra extra mikið við börnin bý ég til súkkulaðimúslí með ekta súkkulaði en uppskriftin af því er í sumar uppskriftabókinni. Hver veit nema ég deili þeirri uppskrift fljótlega 😉
Ef ykkur langar í fleiri hugmyndir af morgunverði og millimáli eða vantar bara að drífa ykkur af stað verður matreiðslunámskeið í næstu viku (þar sem við nota bene búum til súkkulaðimúslí með ekta súkkulaði ;). Allt um það hér: https://heilsumamman.com/2020/09/22/haust-namskeid-2020/
Okkur þykir gott að setja múslí út á þykkan smoothie en einnig er það notað út á Gríska jógúrt, hreina Örnu Ab mjólk eða jafnvel út á morgungrautinn.
Hráefni:
- 2 dl grófar hafraflögur
- 1,5 dl saxaðar möndlur (hér má sleppa möndlum og setja meira af höfrum og fræjum í staðinn)
- 1,5 dl sólblómafræ eða önnur fræ að eigin vali
- 1,5 dl kókosflögur (fara síðar á plötuna)
- 1/2-1 dl þurrkaðir ávextir að eigin vali t.d. rúsínur, fíkjur eða trönuber
- 4 msk kókosolía eða önnur góð hitaþolin olía
- 2-3 msk hunang eða kókospálmasykur (má sleppa og hafa alveg ósætt)
- örlítið salt
Aðferð:
- Setjið möndlur í matvinnsluvél og grófmalið eða saxið með hníf.
- Hitið olíuna ef hún er í föstu formi. Ef þið ætlið að nota kókospálmasykurinn í stað þess að nota hunang er gott að bræða hann aðeins í olíunni.
- Blandið öllum þurrefnunum saman nema kókosflögum og þurrkuðu ávöxtunum í skál, hellið olíunni yfir ásamt hunanginu (eða kókospálmasykrinum) og blandið vel saman.
- Setjið í ofnskúffu og bakið í 20-25 mín við 150°c. Það er gott að velta múslíblöndunni fram og tilbaka 2x á bökunartímanum með spaða svo hún brenni ekki.
- Þegar 5 mín eru eftir af tímanum bætið þið kókosflögunum og þurrkuðu ávöxtunum saman við.
- Takið ofnskúffuna út úr ofninum og leyfið blöndunni að kólna.
- Geymið í loftþéttu íláti.
Verði ykkur að góðu,