Fljótlegt morgunmúslí

Hér kemur mjög fljótleg og einföld uppskrift sem ég hvet ykkur til að prufa ef þið eruð ekki vön að búa til ykkar eigið múslí.  Oft leynist mikill sykur í keyptu múslíi þó það sé ekki algilt.  Það er mjög fljótlegt að búa til múslí og gaman að þróa sínar eigin uppáhaldsblöndur.  Oft blanda ég saman hráefnunum þegar ég er að elda kvöldmatinn eða eftir kvöldmat og sting inn í ofninn meðan hann er ennþá heitur.   Þetta er vinsælt á mínu heimili og því geri ég oft tvöfalda uppskrift.   Þegar ég vil svo dekra extra mikið við börnin bý ég til súkkulaðimúslí með ekta súkkulaði en uppskriftin af því er í sumar uppskriftabókinni.  Hver veit nema ég deili þeirri uppskrift fljótlega 😉

Ef ykkur langar í fleiri hugmyndir af morgunverði og millimáli eða vantar bara að drífa ykkur af stað verður matreiðslunámskeið í næstu viku (þar sem við nota bene búum til súkkulaðimúslí með ekta súkkulaði ;).  Allt um það hér: https://heilsumamman.com/2020/09/22/haust-namskeid-2020/

Okkur þykir gott að setja múslí út á þykkan smoothie en einnig er það notað út á Gríska jógúrt, hreina Örnu Ab mjólk eða jafnvel út á morgungrautinn.

Hráefni: 

  • 2 dl grófar hafraflögur
  • 1,5 dl saxaðar möndlur (hér má sleppa möndlum og setja meira af höfrum og fræjum í staðinn)
  • 1,5 dl sólblómafræ eða önnur fræ að eigin vali
  • 1,5 dl kókosflögur (fara síðar á plötuna)
  • 1/2-1 dl þurrkaðir ávextir að eigin vali t.d. rúsínur, fíkjur eða trönuber
  • 4 msk kókosolía eða önnur góð hitaþolin olía
  • 2-3 msk hunang eða kókospálmasykur (má sleppa og hafa alveg ósætt)
  • örlítið salt

Aðferð: 

  1. Setjið möndlur í matvinnsluvél og grófmalið eða saxið með hníf.
  2. Hitið olíuna ef hún er í föstu formi.  Ef þið ætlið að nota kókospálmasykurinn í stað þess að nota hunang er gott að bræða hann aðeins í olíunni.
  3. Blandið öllum þurrefnunum saman nema kókosflögum og þurrkuðu ávöxtunum í skál, hellið olíunni yfir ásamt hunanginu (eða kókospálmasykrinum) og blandið vel saman.
  4. Setjið í ofnskúffu og bakið í 20-25 mín við 150°c. Það er gott að velta múslíblöndunni fram og tilbaka 2x  á bökunartímanum með spaða svo hún brenni ekki.
  5. Þegar 5 mín eru eftir af tímanum bætið þið kókosflögunum og þurrkuðu ávöxtunum saman við.
  6. Takið ofnskúffuna út úr ofninum og leyfið blöndunni að kólna.
  7. Geymið í loftþéttu íláti.

Verði ykkur að góðu,

Sjúklega gott og einfalt súkkulaðimúslí

Hér er á ferðinni spari múslí sem börnin á bænum elska.  Það sem er sérstaklega skemmtilegt við þessa uppskrift er að hún er bæði einföld og fljótleg.  Það er mjög auðvelt að græja þetta múslí bara á meðan gengið er frá eftir kvöldmatinn.   Aðal ókosturinn er hversu stutt það staldrar við í krukkunni og klárast alltof fljótt.

 

Hráefni:

  • 4 dl grófar hafraflögur
  • 2 dl kókosflögur
  • 2 dl fræ (t.d. sólblómafræ, semsamfræ, hörfræ)
  • 2-4 msk kakó (hér er það spurning um smekk)
  • 3 msk kókosolía eða hitaþolin steikingarolía
  • 3 msk hlynsýróp eða hunang

Aðferð: 

  1. Hitið ofninn í 150°c
  2. Blandið öllu saman í skál og setjið í ofnskúffu.
  3. Bakið í 25 mín.
  4. Leyfið blöndunni að klólna og geymið svo í loftþéttum umbúðum.

 

Hvíti chia grauturinn

Hæ aftur 🙂

Búin að vera í dásamlegu sumarfríi og bara búin að vera í fríi frá blogginu líka.   Við fjölskyldan nutum þess að vera í tæpar 3 vikur í Stokkhólmi og nágrenni.  Yndisleg borg sem ég mæli með að þið heimsækið.  Prófuðum í fyrsta skipti íbúðarskipti og ég á pottþétt eftir að segja ykkur meira frá því síðar.

photo 1 (1) photo 2 (1)

Í svona fríi er nú ýmislegt sem fer úr skorðum í mataræðinu en að mínu mati er tvennt sem skiptir máli.   Í fyrsta lagi er það að NJÓTA!   Njóta þess að borða góðan mat og njóta þess að vera til og ALLS EKKI vera með eitthvert samviskubit.  Í öðru lagi að horfa á heildarmyndina, ef við höldum nokkrum hlutum í góðu lagi, erum til dæmis með mikið af grænmeti með matnum, borðum mikið af ávöxtum og berjum, pössum að drekka mikið vatn, hreyfum okkur mikið og fáum meirii svefn en vananlega vinnur það á móti öllu hinu.

Það er tvennt sem ég gerði alla ferðina og fannst muna miklu og það er annars vegar sítrónuvatnið á morgnanna og hitt var chia grauturinn.  Chia fræin eru svo svakalega trefjarík og halda meltingunni í toppformi.  Mörgum finnst chia grauturinn svo ógirnilegur svona grár og ljótur og slepjulegur en þá er um að gera að prófa hvíta chia grautinn.  Topp útgáfan er að sjálfsögðu heimagerða möndlumjólkin en þar sem ég var ekki með aðgengi að blandara úti notaði ég keypta kókosmjólk en aðal dekrið var að setja þau út í jógúrt.  Þar sem 2 af börnunum eru nánast mjólkurlaus voru þau alveg vitlaus í mjólkurlausa jógúrtið frá Planti, fékkst í mörgum bragðtegundum og þeim fannst erfitt að velja hvað væri best, sennilega creamy vanilla.  Þessi jógúrt eru unnin úr óerfðabreyttu soja en þau eru að sjálfsögðu langt frá því að vera sykurlaus.  En þetta var skemmtileg tilbreyting.

En í dag ætla ég að gefa ykkur uppskriftina af hvíta chia grautnum með heimagerðu möndlumjólkinni.

Hvítur chiagrautur

Hráefni:

(handa einum)

  • 2 msk chia fræ
  • 200 ml vatn /möndlumjólk / jógúrt

Aðferð:

  1. Hrærið saman chia fræjum og vatni eða möndlumjólk.
  2. Látið liggja í ca. 10 mín.
  3. Bætið við ávöxtum t.d. epli, mangó eða berjum
  4. Ofaná er gott að setja mórber, kókosflögur, hnetur eða kanil

 

Heimagerða möndlumjólkin

Gerir uþb. 2 lítra

  • Möndlur 250gr
  • Vatn 1,5-2 litrar
  • 2 döðlur
  • 1/2 tsk hreint vanilluduft
  1. Leggjið möndlurnar í bleyti yfir nótt.
  2. Hellið vatninu af og skolið möndlurnar vel.
  3. Setjið nú í blandara, möndlurnar ásamt hreinu vatni. Það er gott að byrja á því að setja lítið meðan þær eru að maukast en bæta svo við meira vatni.
  4. Ég sigtaði mjólkina hér áður fyrr en er hætt því og hef hana bara nokkuð “grófa” til að hún sé næringarríkari. Hér getið þið líka hellt henni í gegnum sigti ef þið viljið hafa hana “fínni”.

Mjólkin geymist í um það bil 4 daga í ísskáp.

hvíti chia grauturinn

En svo er það líka þannig að allur matur bragðast betur utandyra í góðu veðri 🙂

Verði ykkur að góðu 🙂

10 Mismunandi morgungrautar

Ég er löngu kolfallinn fyrir chia-kínóa-hamp-ávaxta-hnetu morgungrautnum og útfæri hann yfirleitt á hverjum morgni í einhverri mynd, allt eftir því hvað er til hverju sinni.  Ég myndi deyja úr leiðindum ef ég myndi borða sama morgunmatinn dag eftir dag, ár eftir ár alla daga…. ÚFF !  Um að gera að hafa svolitla fjölbreytni í þessu…. samt eru þetta bara köldu grautarnir.  Það er margt annað hægt að borða í morgunmat, hristinga, egg og múslí og margt fleira.

Þetta gefur ykkur vonandi einhverjar hugmyndir hvað er hægt að gera 🙂

1.  Súkkulaðisæla,  Kínóa – hamp – chia í möndlumjólk, kakó og örlítil stevía, skreytt með mórberjum, brasilíuhnetum og kakónibbum.

IMG_7326

2. Súkkulaði chia grautur með jarðaberjum og mórberjum.

IMG_8356 Sami grautur með bönunum og kakónibbum:

IMG_8096

3. Chia fræ, vatn, bláber, skreytt með valhnetum og kókosflögum.

IMG_8087

4. Chia fræ og hampfræ ásamt vatni, kakói og örlítilli stevíu.  Perur, valhnetur og mórber út á.

IMG_7933

5. Berja Chia grautur: jarðaber, bláber, vatn og nokkrir dropar af stevíu er grunnurinn.  Chia fræ og hampfræ sett út í og látið þykkna.  Ofan á: Nektarínur, peckan hnetur og mórber.

IMG_7825

6. Bleikur chia grautur:  Jarðaber, möndlumjólk (eða kókosmjólk, útþynnt), nokkrir dropar af stevíu.  Chia fræ og hampfræ sett út í og látið þykkna.  Ofan á:  mangó, epli, pekan hnetur og brasilíuhnetur.

IMG_7821

7.  Hamp chia grautur, ofan á: mórber, kakónibbur og goji ber.

IMG_7647

8.  Morgungrautur með kanil og eplum, skreytt með móberjum.

IMG_7337

9. Súkkulaði chia búðingur skreyttur  með perum og kakónibbum.

Súkkulaði chia búðingur

10. Chia fræ sett út í möndlumjólk og látið þykkna, bragðbætt með hindberjum, bláberjum og eplum.  Set stundum örfáa dropa áf stevíu fyrir smá tilbreytingu. Toppað með pekan hnetum.

IMG_0655

 

Nú væri gaman að vita hver er ykkar uppáhalds útgáfa ?

Súkkulaði chia grautur

Ef þú ert ekki farin að nota chia fræin, ekki fresta því þau eru alveg frábær viðbót við daglegt fæði.  Stútfull af trefjum, kalki, góðri fitu, vítamínum og andoxunarefnum.

Um daginn setti ég inn uppskrift af chia súkkulaði búðingi, það þýddi að það þurfti að nota blandarann og bæta við avakadó (sem er auðvitað alveg brilliant) en hér kemur uppskrift sem er töluvert fljótlegri og tilvalin í hversagslegum morgun “hasar”.

IMG_8356

Uppskriftin er fyrir 1 og svo er bara að margfalda með fjölda fjölskyldumeðlima eða gera stóran skammt því grauturinn endist í nokkra daga í lokuðu íláti t.d. glerkrukku með loki.

Hráefni:

  • 2 msk chia fræ
  • 1 msk hamp fræ
  • 1 tsk kakó
  • 2 dl vatn eða mjólk að eigin vali.
  • 1-2 dropar stevía að eigin vali (fara MJÖG varlega og alls ekki setja of mikið)

Aðferð:

Setjið allt í skál, hrærið vel og bíðið í ca. 10 mín eða búið til að kvöldi og grauturinn bíður tilbúin að morgni.

Bragðbætið með ávöxtum að eigin vali, sem er næstum því ALLTAF pera hjá mér, mér finnst bara súkkulaði og perur eiga svo dásamlega saman.  Það er líka gott að setja banana en börnin mín fá svo oft illt í magann eftir að þau borða banana að ég nota þá ekki mikið.

Skreytið grautinn með ofur hollustu t.d. hnetum af öllum stærðum og gerðum og/eða þurrkuðum ávöxtum, goji berjum, mórberjum eða kókosflögum.  Valhnetur eru til dæmis dásamlegt morgunfæði nú þegar skólarnir eru að byrja, stútfullar af Omega-3 fyrir heilann og minnið.

IMG_7929

Hjá mér virkar vel að setja allt á borðið og hver blandar fyrir sig, því sumir eru með sterkar skoðanir á því hvað á að fara í skálina og hvað EKKI 😉

IMG_7851

Borðið grautinn eins og hann kemur fyrir eða hellið út á hann mjólk af eigin vali.

IMG_8096Góðar morgunstundir 🙂

Súkkulaði chia búðingur

Sparilegur chia grautur tilvalin fyrir helgarnar og sumarfríið.  Stútfullur af næringu og vítamínum.   Litli minn 3ja ára ELSKAR þennan morgunverð 🙂

Súkkulaði chia búðingur

Fyrir 1

Hráefni:

  • 2 dl vatn og/eða möndlumjókl (eða önnur mjólk að eigin vali)
  • 1/4 avakadó eða 1/2 ef það er mjög lítið
  • 2 msk chia fræ
  • 1 tsk kakó
  • örlítil hrein vanilla (þarf ekki en er mjög gott)
  • 1 mjúk stór daðla (eða 2-3 dropar stevía)

Aðferð:

  1. Setjið allt nema chia fræin í blandara og blandið vel saman.
  2. Hellið blöndunni í skál og blandið chia fræjunum vel saman við.
  3. Bíðið í uþb 10 mín og njótið.
  4. Berið fram með peru eða banana og einhverju góðgæti t.d. mórberjum, kókosflögum, valhnetum, kakónibbum eða öðru súperfæði.

Súkkulaði chia búðingur

 

Góða helgi 🙂