Uppáhalds smákökurnar

Ég hef ekki lengur tölu á því hversu oft ég hef bakað þessar kökur.   Það er í raun alveg óskyljanlegt af hverju uppskriftin er ekki þegar á blogginu.  Við erum að tala um að  þegar fjölskyldan fór til Svíþjóðar fyrir tveimur árum bakaði ég 10-falda uppskrift af þessum kökum.   Já ég er ekki að grínast… þið haldið væntanlega núna  að ég sé alveg gúgúgaga en fyrir vikið við áttum alltaf til fullkomið nesti, hvort sem það var á flugvellinum, í Gröna Lund eða bara með morgunkaffinu.  Síðan þá (og einnig fyrir þann tíma) hafa þessar kökur verið bakaðar fyrir hin ýmsu tilefni og mjög oft þegar þarf að redda nesti á núll -einni.  Því fyrir utan að vera þræl góðar þá eru þær alveg þrusu fljótlegar líka.  Þessar kökur eru því tilvaldar í nesti í sumar hvort sem það er í millilandaflug eða í lautarferð.

Hráefni:

1 dl kókosolía (brædd)

1 dl kókospálmasykur (má líka hafa 50/50 Kókospálmasykur og Stevíu strásætu)

1 egg

1 tsk vínsteinslyftiduft

2 dl möndlumjöl

1 dl kókosmjöl

1/2 tsk salt

50 g dökkt súkkulaði, saxað

1/2 dl sólblómafræ

Aðferð:

  1. Bræðið kókosolíuna t.d. með því að setja rétt magn í glas eða krukku og setja það ofan í annað ílat með heitu vatni.
  2. Saxið súkkulaðið.
  3. Setjið öll innihaldsefnin í skál og blandið vel saman.
  4. Setjið deigið á bökunarplötu með teskeið.
  5. Bakið í 10-12 mín við 180°c

 

Eins og sést á hráefnislistanum eru þessar ljúfu smákökur bæði mjólkur- og glúteinlausar.

Verði ykkur að góðu 🙂

Svo má minna á að ennþá eru örfá sæti laus á síðasta námskeiðið fyrir sumarfrí: Sumarleg sætindi, sem verður næsta mánudag í Spírunni.   Allar nánari upplýsingar eru að finna  hér  

Nesti

Mikið er langt síðan ég hef sett inn einhverja uppskrift.  Aukatími virðist vera af mjög skornum skammti yfir sumarið,   því þegar veðrið er gott (sem hefur reyndar ekki verið of oft í sumar hér fyrir sunnan) reynum við að nota tækifærið og gera eitthvað skemmtilegt og vera úti.  Svo er það vinnan og allt púsluspilið sem fylgir þegar skólinn hættir á vorin og eins þegar leikskólinn fer í frí.

Við erum búin að eiga yndislegt sumar hingað til þrátt fyrir að sólin sé af skornum skammti,  áttum góða daga á Akureyri í lok júní, nokkrar helgar í Borgarfirðinum og svo vorum við í yndislegu fríi í síðstu viku á Flúðum.  Þetta sumar hefur liðið alltof hratt finnst mér en sem betur fer er það ekki búið ennþá og um að gera að njóta til hins ítrasta það sem eftir er.

Fyrir alla sem eru í ferðalögum þessa dagna eru hérna nokkrar myndir sem ég tók í sumar við hin og þessi tækifæri, kannski fær einhver góða hugmynd 😉

 

Það er frábær hugmynd að taka með sér ávexti, jafnvel þó það náist ekki að skera þá niður er hægt að taka þá með og skera svo niður á staðnum, í þessu tilfelli í Nauthólsvík.

IMG_7868

Eða búa til smoothie og setja í góða flösku sem heldur drykknum köldum.

IMG_7906

Samloka með grófu brauði, eggjum, grænmeti og fleiru gefur miklu betri orku en að grilla sér pyslu 😉

IMG_7874

Gott salat er alltaf gott að taka með sér og mér líður miklu betur af því en að borða samlokur en ég er alveg ein um þá skoðun í fjölskyldunni 😉

Leyfið hugmyndafluginu að ráða, hér er ég með: kál, papriku, vorlauk, pekan hnetur, valhnetur, þurrkaðar gráfíkjur

IMG_7853

Laumið frá einni kjúklingabringunni og nýtið í nesti daginn eftir.  Þetta þarf ekki að vera flókið, kál, grúrka, paprika, rauðlaukur, sýnist glitta í mangó þarna líka og svo allt toppað með heimagerðri sinnepsósu ef maður er  í einhverju “djúsí” stuði 🙂

IMG_7831

Og fyrir bílferðirnar, þetta kláraðist á augabragði, glænýjar íslenskar gulrætur, það verður ekki betra.

IMG_8180

Harðfiskur með smjöri…. þarf engin fleiri orð nema bara næring og prótein 😉

IMG_8265

Gamlar kókflöskur eru tilvaldar undir vatnið.  Kallinn minn bara “verður” að fá sér kók stundum og ég “reyni” að sleppa sykurfyrirlestrinum en fylli svo bara flöskuna af vatni fyrir hann þegar hann er búin að klára 😉

IMG_8267

Þetta er sniðugt nesti, áttu smá afgang af sjeik, settu hann í krukku og 2-3 msk af chia fræjum út í og blandaðu vel saman,  eftir smástund ertu komin með þetta fína “jógúrt”.  En ekki gleyma skeiðinni….

IMG_7512

Kókoskúlur af öllum gerðum eru tilvaldar í nesti.  Til dæmis þessar valhnetukúlur, gojiberjakúlur, hnetutrufflur eða hampnammið

IMG_7641

Box eða krukka fullt af : hnetum, rúsínum, kókos, mórberjum, goji berjum, sólblómafræjum, sólblómafræjum og fleira.

IMG_5195 IMG_5196

Það er ekki þannig að ég “svindli” aldrei í ferðalögum, ó jú, það gerist sko…en líkurnar minnka eftir því sem nestið er betra 😉

Góða ferð 🙂