Kínóaréttur frá Mexíkó

Tvö af uppáhaldshráefnunum mínum koma hér saman í ótrúlega bragðgóðum rétt.  Þessi réttur sem er svo einfaldur og góður getur bæði verið sem aðalréttur, meðlæti með t.d. kjúkling eða öðrum mexíkómat, það mætti nota hann sem fyllingu í tortillur, borða kalt daginn eftir og svo lengi mætti telja.

Ég sýð oft slatta af kínóa í byrjun vikunnar og reyni alltaf að eiga svartar baunir inni í frysti.  Svo í síðustu viku þegar ég tók þessa mynd tók aðeins um 10 mínútur að búa réttinn til.  Já það þarf ekki að vera tímafrekt að búa til hollan mat 🙂

IMG_3938

Hráefni:

 • 1 tsk olía
 • 1 laukur
 • 3 hvítlauksgeirar
 • 2 dl af maísbaunum (má líka nota 1 gula papriku)
 • 2 dl svartar baunir
 • 1 (rúmlega) tsk cumin (ekki kúmen)
 • 1 tsk paprika
 • 1 msk grænmetiskraftur
 • 6 dl soðið kínóa
 • salt og pipar
 • 1 lúka af ferskum kóríander

Aðferð:

 1. Hitið olíu á pönnu og látið laukinn malla við lágan hita þangað til hann er orðin mjúkur. Bætið við hvítlauk og papriku (ef þið notið hana).
 2. Bætið við öllum kryddum, baunum og kínóa.
 3. Kryddið eftir smekk og skreytið með fersku kóríander.
 4. Tilbúið 🙂

Þessa uppskrift fann ég hér og ákvað að prufa þegar ég sá að 2487 manns höfðu skrifað ummæli og gefið 41/2 stjörnu 🙂

Verði ykkur að góðu 🙂

Mexíkóskur pottréttur með svörtum baunum og sætum kartöflum

Þessi réttur er alveg hrikalega góður, svo ég segi sjálf frá.  Meðan ég eldaði matinn var ég búin að ákveða að það myndu allir kvarta og kveina, gormarnir myndu neita að borða og var farin að hugsa hvað ég ætti annað til, hvort ég ætti að bjóða upp á brauð með matnum o.s.frv.  En þær áhyggjur voru óþarfar, því allir sem einn borðuðu vel og það var mikil ánægja með réttinn.  Hann er auk þess mjög hollur og ódýr (sérstaklega ef maður eldar baunirnar sjálfur).

Innihaldslistinn er nokkuð langur en ekki láta það hræða ykkur, helmingurinn er krydd og flest eru til á hverju heimili.  Ef þið eigið ekki til reykta papriku í kryddskápnum mæli ég með því að þið kaupið hana sem fyrst, amk. ef ykkur finnst bbq sósa góð því það er sama bragðið af þessu tvennu.

IMG_3847

Hráefni:

 • 2 sætar kartöflur
 • 3 dl svartar baunir
 • 1 msk olía
 • 1 laukur
 • 4 hvítlauksgeirar
 • 1 rauð paprika
 • 1 dós niðursoðnir tómatar/ eða flaska úr Sollu-hillunni
 • 2-3 dl vatn
 • 1 msk cumin
 • 1 msk oregano
 • 1/2 msk paprika
 • 1/2 msk reykt paprika (mild)
 • 2 msk grænmetiskraftur
 • 1 tsk kókospálmasykur
 • 1 tsk hreint kakó

Val:  þetta er mjög gott að setja yfir réttinn, en þarf ekki.

 • Lime – safinn kreistur yfir í lokin
 • Kóríander – sett yfir í lokin

Aðferð:

 1. Skerið sætar kartöflur í litla bita og bakið í ofni við 200°c í ca 25 mín.
 2. Hitið pönnu, bætið á hana olíu og hitið laukinn.
 3. Bætið papriku og hvítlauk út í.
 4. Bætið út í vatni, tómötum og kryddi og leyfið því að malla saman við lágan hita þangað til mjúkt (10 mín ca)
 5. Setjið baunir og sætar kartöflur út í og kryddið meira ef ykkur finnst þurfa.
 6. Kreistið lime yfir og saxið kóríander yfir (ég átti ekki kóríander og notaði steinselju þegar myndin var tekin)
 7. Berið fram með soðnum hýðishrísgrjónum og salati

Það eru margir sem eru ekkert sérstaklega hrifnir af baunum.  Finnst það vesen og mikla fyrir sér hluti eins og að leggja í bleyti og sjóða.  Það er auðvitað hægt að kaupa tilbúnar baunir en ég mæli með því að kaupa baunir, leggja allan pokann í bleyti (eða kannski taka baunirnar úr pokanum fyrst og leggja innihaldið í bleyti 😉 )  Sjóða allt saman (það er ekki eins og maður þurfi að standa yfir pottinum allan tímann) og frysta svo í litlum skömmtum.  Þá er alltaf hægt að kippa út einum og einum poka. Þá kostar skammturinn ca. 50-100 kr af lífrænum baunum.

Annað með baunir er það að margir setja allar baunir í sama flokk.  Finnast kannski einhverjar ekki góðar og afskrifa þær allar.  En baunir eru misjafnar á bragðið og áferð, mér finnst t.d. kjúklingabaunir og nýrnabaunir ekkert sérstaklega góðar en  t.d. pinto baunir og svartar baunir mjög góðar.  Svo um að gera að smakka án fordóma 🙂

Svartar baunir eru líka  alveg hrikalega hollar.  Ég fletti því upp í tilefni þess að ég var að skrifa upp þessa uppskrift og ég held svei mér þá að ég skipuleggji það að hafa svartar baunir í matinn amk. 1x í hverri viku héðan í frá ef ekki oftar.  Þær eru mjög góðar fyrir meltinguna og þá sérstaklega fyrir ristilinn.  Þær innihalda auk þess mikið af fólati (mjög gott fyrir barnshafandi konur), mikið af trefjum, tryptófan (sem hjálpar líkamanum að mynda serotonin) og eru mjög próteinríkar.  Áfram svartar baunir 🙂

Verði ykkur að góðu og njótið dagsins 🙂

Mexíkó kjúllasalat

Þetta er einn af mínum uppáhalds réttum og oft eldaður um helgar.  Létt, gott, einfalt og umfram allt frá mexíkó svo það getur ekki klikkað.

IMG_3072

Þetta  er nú frekar einfalt, kjúklingur, salat, hugsanlega baunir og nokkrar nachosflögur.  Galdurinn liggur hinsvegar í salatsósunni.

Hér kemur uppskriftin:

 • 0,5 dl ólífuolía
 • safi úr 1/2 sítrónu
 • 2 msk akasíuhunang
 • 1 hvítlauksrif
 • 0,5 tsk kóríander
 • 0,5 tsk paprika
 • 0,5 tsk cumin
 • 0,5 tsk salt
 • 1 msk oregano

Blandið öllu saman, mér finnst best að setja allt í krukku með loki og hrista vel saman.

IMG_3061

IMG_3062

Salat: Hér fer hráefnið eftir smekk, en svona er mín útgáfa:

 • kál (helst svolítið grænt, t.d. eikarlauf, amk. ekki alveg það ljósasta)
 • vorlaukur
 • rauð paprika
 • gul eða appelsínugul paprika
 • avacado
 • kirsuberjatómatar
 • gúrka
 • ferskur kóríander (átti hann ekki til þegar myndirnar voru teknar)
 • fetaostur eða venjulegur gouda í teningum

IMG_3063

 1. Blandið öllu grænmetinu saman og hellið sósunni yfir.  Það er best ef það fær að standa í smá stund.
 2. Kjúklingur – annaðhvort steiktar/grillaðar bringur eða heill grillaður kjúklingur rifin niður – magn fer eftir fjölda þeirra sem borða 🙂
 3. Pinto baunir finnst mér passa mjög vel í þessu salati en þar sem það eru ekki allir á eitt sáttir með það, þá blanda ég þeim ekki saman við heldur ber þær sér á borð. Pinto baunirnar verða betri og girnilegri ef þær eru kryddaðar og sett smá olía yfir.
 4. Það er auðvitað algerlega nauðsynlegt að mylja þó að það sé ekki nema aðeins Nachos yfir.

IMG_3070

Ég hef tekið eftir því að krökkunum finnst miklu meira spennandi að raða sjálf á diskinn og gera sitt salat sjálf heldur en ef ég er búin að blanda öllu saman í eina stóra skál.  Það reynir aðeins meira á sköpunargleðina.  Svo oftast set ég salat í eina skál, kjúkling í aðra, sama með baunir, fetaost og nachos.

IMG_3067

Verði ykkur að góðu 🙂

Heimagerðar tortillur

Ég elska tortillur.  Fyrir utan þetta klassíska mexíkóska er hægt að setja afganga af allskonar mat inn í tortillu ásamt sallati og einhverri góðri sósu og það er komin þessi dýrindis máltíð.  Þær eru líka eitt af því vinsælasta í skólanestið.

Það er mjög einfalt að baka sjálfur tortillurnar og þegar maður byrjar þá er eiginlega ekki hægt að fara aftur tilbaka.  Ég hvet ykkur eindregið til að prufa.  Það er viðbúið að kannski taki það lengri tíma í fyrsta skiptið en svo verður þetta mjög fljótlegt.  Þetta er að taka hjá mér ca 15-20 mín en yfirleitt er ég að gera eitthvað annað á sama tíma (t.d. steikja kjúkling, hakk eða grænmeti) svo ég þarf hvort sem er að standa við eldavélina.

Hráefni: (6-7 tortillur)

 • 2 bollar Spelt, fínt og gróft til helminga
 • 2 tsk vínsteinslyftiduft
 • 2-3 msk olía
 • Kryddið eftir smekk (t.d. salt, pipar, oregano og paprika)
 • 1/2 bolli af vatni

Aðferð:

Setjið spelt, lyftiduft og krydd í skál.  Bætið í olíu og vatni (ekki of heitt og ekki ískalt, annað hvort volgt eða við stofuhita).  Hnoðið deigið í höndunum og skiptið niður í svipaðar kúlur (ca 6-7).  Fletjið út og steikið á pönnu.  Ég hef notað titanium pönnu sem festist ekki við svo eg þarf ekki að setja neitt á pönnuna.  Fylgist vel með svo hún brenni ekki og snúið henni við.

Tortillur

Þegar þið eruð búin að baka tortilluna setjið þið hana á disk og rakt viskastykki yfir (mjög mjög mjög mjög mikilvægt) því þannig haldast þær mjúkar á meðan klárað er að baka í rólegheitum.  Ef þetta gleymist þá verða þær fljótt harðar og passa eiginlega bara frekar sem pizzubotn 😉

Það er skemmtilegt að prufa að krydda með mismunandi kryddum og hafa þær mismunandi þykkar.   Stundum bæti ég við sesamfræjum og hef þær í þykkara lagi og nota sem pítubrauð.

tortilla

Skora á ykkur að prufa  🙂

Hvernig á að halda Guacamole fersku og grænu !

Kannist þið við það að búa til ótrúlega gott og ferskt Guacamole en síðan daginn eftir þegar maður ætlar að gæða sér á afgangnum er það orðið brúnt ?  (Allavegna á yfirborðinu)

Steinninn úr Avacadóinu virkar sem náttúruleg rotvörn og því er besta ráðið að henda honum ekki þegar maukið er búið til, heldur geyma og stinga honum svo í skálina og geyma með í ísskápnum.

Þrælvirkar alveg 🙂

Guacamole