Dásamlegur kaldur kaffidrykkur

Á ferðalögum erlendis verð ég alltaf að koma við og fá mér að minnsta kosti einn frappuccino á Starbucks.  Ég er alveg laus við löngunina hér heima en sennilega eru það allar utanlandspælingarnar þessa dagana sem komu þessari löngun af stað.  Þar fyrir utan skein sólin hátt á lofti og hitastigið var alveg komið upp í 5 gráður og hægt að fara út á peysunni vhúúúhúúú 🙂   Ég skellti í hollari útgáfu af köldum kaffidrykk og útkomin var dásamleg.  Þetta á eftir að vera gert oft í sumar skal ég segja ykkur.

 

 

frappó

 

Hráefni:

 • 2 dl kalt sterkt kaffi
 • 2 dl vatn
 • 1/2 dl möndlur
 • 4-6 litlar döðlur (magn eftir smekk)
 • nokkrir karamelludropar frá Natali (ca svona 1/2 tsk)
 • 2 dl klaki
 • Rifið súkkulaði ofan á til skrauts (Þarf ekki)

 

Aðferð:

 1. Setjið allt í blandarann og blandið vel.
 2. Það er nauðsynlegt að láta blandarann ganga það lengi að möndlurnar blandist alveg og séu ekki í flygsum í drykknum.
 3. Hellið í stórt glas og drekkið… helst úti í sólinni 🙂

frappó

OK, ég veit það að venjulegur Frappoccino er með þeyttum rjóma, yfirleitt karamellu eða súkkulaðisósu en þessi dugar fínt fyrir mig enda var tilgangurinn að búa til hollan kaffidrykk.   Ég raspaði 85 % súkkulaði yfir til að gera drykkinn aðeins meira “djúsí” og það kom vel út.

Hérna eru karamelludroparnir sem ég notaði, þeir eru lífrænir og án allra aukaefna og alveg einstaklega bragðgóðir:

Poppaðar amaranth nammikúlur

 

frappó

Verði ykkur að góðu 🙂

Bleikur október

Í tilefni af bleika deginum og bleikum október ætla ég að kynna ykkur fyrir uppáhalds drykknum mínum.  Hann er virkilega bragðgóður, brjálæðislega hollur og svo er hann líka svona líka flottur á litinn.

Bleikur október er til vitundavakningar um krabbamein og það er því vel við hæfi að drykkurinn sem kenndur er við mánuðinn innihaldi matvæli sem tengd hafa verið við krabbameinsvarnir.  Í drykknum er t.d. rauðrófa, bláber og engifer.

Rauðrófan er eitt af mínu uppáhaldsgrænmeti því fyrir utan að vera bólgueyðandi og rík af andoxunarefnum þá finnst mér bragðið bara eitthvað svo gott.  Sérstaklega bakaðar rauðrófur.   En ég veit að það eru ekki allir sammála mér og mörgum finnst vera hálfgert moldarbragð af rauðrófum og þess vegna er það mér mikið gleðiefni að fæstir finna nokkurt rauðrófu-moldarbragð af þessum drykk.  Hljómar það ekki vel ? Það er ekki moldarbragð af drykknum ?  Jæja, en ég vona að þið vitið hvað ég á við 🙂

 

bleikurdrykkur

Hráefni:

 • 1 meðalstór rauðrófa
 • 5-6 dl vatn (hér má líka nota kókosvatn fyrir enn meiri hamingju og gleði)
 • 1-2 cm rifin engifer
 • 2-3 dl frosin bláber
 • 1-2 dl frosin ananas

Aðferð:
1. Afhýðið rauðrófuna og skerið í litla bita.
2. Setjið allt í blandarann og blandið vel saman.

Setjið í fallegt glas og helst fallegt rör með og njótið dagsins 🙂

 

Gojiberjasjeik

Hér kemur uppskrift af yndælis sjeik,  yngri stelpan mín og vinkona hennar drukku heil ósköp af drykknum og sögðu að þetta væri besti og fallegasti sjeik í heiminum enda auðvitað bleikur 🙂

gojiberjasjeik

Hráefni:

 • 3 dl frosin jarðaber
 • 3 dl frosið mangó
 • 2 msk gojiber
 • 1/2 avacado
 • 1 dl kókosmjólk
 • ca 6 dl vatn
 • 7-10 dropar Stevía frá Via Health með hindberjabragði

Aðferð:

Öllu blandað vel saman í blandaranum og drukkið svo með bestu lyst  🙂

Mér finnst ótrúlega gott að setja nokkra dropa af Stevíu út í drykkina, það þarf þó að passa að setja ekki of mikið og frekar að byrja smátt og smakka sig áfram.  Stevían hækkar ekki blóðsykurinn en gefur sætt og gott bragð.  Það er líka töluvert ódýrara að nota hana heldur en td. hunang eða hlynsýróp þar sem þarf bara örfáa dropa í hvert sinn.

Frískandi piparmyntu hristingur

Ef þú átt piparmyntu úti í garði er um að gera að nota hana í hristinga, það er kannski algengast að nota hana í mojito en hún er upplögð í morgunhristinginn.  Það má skella henni í box og setja í frysti og eiga í vetur til að fríska sig við á dimmum vetrarmorgnum 🙂

piparmyntuhristingur

Handa 2

 • 2-3 dl frosin ananas
 • 1 epli
 • 1 -2 blöð af grænkáli
 • nokkur blöð af piparmyntu
 • Vatn 3-4 dl (eða eftir smekk)

Allt sett í blandarann og blandað vel.

Það má auðvitað bæta við ofurfæði eftir smekk hvers og eins t.d. hveitigrasi, hamp-próteini, möluðum graskersfræjum eða möluðum hörfræjum.

Njótið 🙂

Sumarlegur og sætur hristingur

Þennan drykk er ég búin að gera nokkrum sinnum og hann passar alveg einstaklega vel ef sólin skín.  Börnin kalla hann nammi drykk og ég get tekið undir það.

sumarlegur hristingur

Hráefni:

 • 3-4 dl frosin eða ferskur ananas
 • 1 epli eða 1 banani
 • 1 msk kókosolía
 • 4-6 dropar stevía eða 1 msk hunang
 • 3 -4 msk hampfræ
 • 1/2 tsk vanilluduft
 • Vatn eða möndlumjólk (magn eftir smekk, hvort þið viljið hafa hann þykkan eða þunnan)

Aðferð:

Allt sett í blandarann og blandað vel. Drukkið svo með bestu lyst 🙂

Ef þið notið banana verður drykkurinn sætari og mætti þá nota ennþá minni stevíu eða sleppa.  Ég hef aðallega sett smá stevíu svo börnin kvarti ekki undan bragðinu af hampfræjunum.

Hampfræ eru stútfull af góðri næringu.  Þau eru mjög próteinrík, innihalda góðar fitusýrur( omega 3 og 6 í réttum hlutföttlum), E-vítamín og allskonar góð plöntuefni. 

Grænn og sætur sumardrykkur

Jæja, nú er langt síðan ég hef sett nokkuð hérna inn því það er búið að vera brjálað að gera síðustu vikurnar.  Það er búið að mála mála og breyta hér innanhúss, litla tveggja ára krúttið fótbrotnaði, það hafa verið gestir bæði að norðan og utan og bara allskonar margt skemmtilegt fyrir utan daglegt líf.  En þegar mikið álag er og mikið að gera hættir manni stundum við að freistast í allskonar óhollustu en málið er að þá einmitt vantar líkamanum sem mesta og besta orku.

Hér kemur einn grænn og vænn.  Þessi er mjög sætur og börnunum mínum finnst hann mjög góður.  Mér finnst hann mjög góður en næstum því of sætur, en selleríið kemur samt með skemmtilegt mótvægi á móti perunum.  Ég hef gert þennan nokkrum sinnum og um daginn voru 3 vinkonur í heimsókn sem allar fengu að smakka.  Ég endaði á því að gera aðra könnu því öllum fannst þessi græni drykkur svo rosalega góður 🙂

grænn hristingur

Hráefni:

 • 2 perur
 • 2-3 dl ananas
 • 1 sellerý stöngull
 • 2 lúkur spínat eða grænkál
 • 2-3 msk möluð graskersfræ, (má vera möluð hörfræ eða hveitikím)
 • Vatn

Aðferð:

Öllu blandað saman í blandara, sett í glös og auðvitað flott rör með 🙂