Klassíski morgunsjeikinn

Hér er uppskrift af hinum klassíska morgunsjeik á þessu heimili.  Þó að ég sé alltaf að prufa eitthvað nýtt og mismunandi hvað fer í blandarann eftir því hvað er til hverju sinni þá er þessi gamli góði mjög oft gerður.  Góður á morgnana þegar hlutirnir þurfa að ganga hratt og hægt að gera hann næstum blindandi.  Yfirleitt geri ég hann þykkan og  hann er borðaður með múslí. Ef hann er í seinnipartshressingu er hann þunnur  (bætt við smá vatni) og drukkin með röri, en það er einmitt mjög mikilvægt 😉

IMG_3921

(Handa 5 manna fjölskyldu)

Hráefni:

  • 3 bollar ber og ávextir (bláber/jarðaber/ananas eða mangó)
  • 2 bollar vatn
  • 2 lúkur möndlur (búnar að liggja í bleyti yfir nótt)
  • 1 lúka af grænkáli eða spínati
  • 3-6 msk af eftirtöldu(eftir því hvað hendi er næst): möluð hörfræ, möluð graskersfræ, hveitikím, hampfræ
  • 1 msk hunang (ef þarf – fer eftir því hversu mikið af fræjum fer út í)

IMG_3930

Aðferð:

Ég byrja á því að setja möndlurnar í blandarann ásamt smá vatni og blanda vel í smástund áður en ég set restina út í.  Þar sem ég á ekki svona súper dúper blandara þá set ég ekki allt í einu heldur set hráefnið í blandarann í nokkrum lotum.  Ég enda alltaf á græna kálinu og hörfræjunum/ graskersfræjunum.  Ef þið notið hveitikím á að setja það út í bara alveg í lokin og helst bara rétt að hræra því saman við.

Það er mjög sniðugt að setja smá drykk í lítið glas og bæta út í hinu og þessu súperfæði, t.d. bee pollen, hveitigras, spirulina, klórellu eða eitthvað annað og skella í sig.  Sannkallað orkuskot 🙂

IMG_3929

Verði ykkur að góðu 🙂

Fallegur og frískandi flensusjeik

Kallinn lá heima með einhverja flensupest í vikunni svo ég bjó til handa honum þennan fallega og frískandi flensusjeik.

Góður fyrir þá sem eru með flensu eða slappleika og líka fyrirbyggjandi fyrir alla hina.  Athugið bara að það borgar sig ekki að hafa sjeikinn ískaldann, sérstaklega ef hálsbólga eða hósti hrjáir mannskapinn.

IMG_3864

2 stór glös eða 4 lítil

Hráefni:

  • 2 gulrætur
  • 2,5 dl af frosnum jarðaberjum (takið mesta kuldann úr þeim áður, með heitu vatni)
  • 2-3 cm af engifer (fer eftir smekk)
  • 2 msk goji ber
  • 1 msk hunang
  • ca. 2,5 dl af vatni

Allt sett saman í blandara og blandað þangað til silkimjúkt.

Alveg ótrúlega frískandi og góður 🙂

Gleðilegan föstudag 🙂

Hressandi ananas og engifersjek

Þessi er klárlega einn af mínum uppáhalds drykkjum.  Finnst hann tilheyra vorinu og hækkandi sól.

IMG_3733

Þetta er uppskrift í 4 lítil glös eða 2 stór

Hráefni:

  • Ananas – ca 2,5 dl
  • Grænt epli 1 stk
  • Engifer ca 2 cm
  • Spínat, væn lúka
  • Lime, safi úr 1/2
  • Má setja 1-2 msk hveitikím með

Allt sett í blandarann og blandað þangað til silkimjúkt.

 

Hreinsandi og frískandi rauðrófu-krækiberjadrykkur

Þessi er  yndislegur svona á mánudegi, ótrúlega frískandi og hreinsandi.  Þar sem ég bý svo vel að eiga fullt af krækiberjum í frysti og vantaði hugmyndir hvernig ég ætti að nota þau prufaði ég þessa samsetningu og þetta hefur gjörsamlega slegið í gegn (hjá sjálfri mér) 😉

 

photo 2(2)

Hráefni:

  • 2-3 dl af frosnum krækiberjum
  • 1 rauðrófa (hnefastór)
  • 2-3 cm engifer
  • 1 grænt epli
  • safi úr 1/2 sítrónu
  • 2 dl Vatn eða kókosvatn

Aðferð:

  1. Skerið rauðrófuna, engiferið í lita bita og setjið ásamt krækiberjunum og vatni í blandara og blandið vel.
  2. Síjið í gegnum spírupoka (eða nælonsokk)
  3. Bætið eplinu út í og blandið vel
  4. Að lokum kreistið þið safann úr sítrónunni saman við
  5. Drekkið og njótið

Verði ykkur að góðu 🙂

photo 1(4)

Gosdrykkir

Í gærkvöldi var horft á Söngvakeppnina og heilmikil stemming, aðallega hjá yngri kynslóðinni.  Það verður taka 2 í kvöld og dömurnar mjög spenntar.  Það var bökuð pizza og poppað og það var sko heimtað gos í tilefni dagsins.  Ég ætla ekkert að fara út í hversu óholt það er fyrir litla kroppa (og stóra líka) að drekka gos.  Þetta er jú bara sykur, sýra og litarefni, ég meina hversu gott getur það verið ?  Annars held ég að flestir viti hversu óhollt gos er en eiga mjög erfitt með því að venja sig af því, því jú það er hrikalega ávanabindandi.

Við höfum ekki gefið stelpunum gos að drekka en spari höfum við búið til “gosdrykk” sem þær eru mjög hrifnar af og ég verð bara að segja að mér finnst þetta miklu betra en gos.

Safarnir frá Berry Company eru alveg ótrúlega bragðgóðir, þeir eru til nokkrar mismunandi bragðtegundir og mér finnst þeir hver öðrum betri.  Við höfum blandað þeim saman við epladjús og sódavatn.   Þetta er ýmist kallað prinsessugos, töfradrykkur eða hvað sem þeim finnst sniðugt þá stundina.

IMG_3365

Við höfum prufað að nota fjólubláan superberry safa, rauðan superberry safa, granatepla safa og nú síðast goji berja safa, appelsín hvað segi ég nú bara !

Prufið ykkur endilega áfram með hlutföllin, yfirleitt er ég nú ekki mikið að stressa mig á því að mæla en einhvern tímann hef ég skrifað hjá mér:

  • 4-5 dl eplasafi
  • 3-4 dl superberry safi
  • 2 dl sódavatn

IMG_3354

En svo er bara að fara í tilraunastarfsemi 🙂  Það er líka skemmtilegt verkefni fyrir litla vísindamenn að búa til besta gosdrykkinn, allavegna finnst mínum stelpum það mjög spennandi að blanda þessu öllu saman  🙂

Ég reiknaði það út að 1 liter af svona “gosi” kostar tæpar 200 kr sem er auðvitað aðeins dýrara en venjulegt gos en það er í fyrsta lagi miklu bragðbetra, engin hvítur sykur og meira að segja svolítið af andoxunarefnum úr berjasöfunum.  Og svo má ekki gleyma því að fyrst hvíti sykurinn er ekki til staðar til að “öskra” á meira þá drekka allir miklu minna af svona heldur en venjulegu gosi.

IMG_3639

Góða helgi 🙂