Ommeletturúlla – skyndibiti á 5 mín

Jæja, loksins kemur uppskrift, það er búið að vera mikið að gera undanfarið ásamt tölvuvandræðum á heimlinu.  En ég hef samt ekkert eldað neitt minna en venjulega og því búið að safnast upp myndir af allskonar hollu góðgæti. Ég ætla að byrja á kvöldmatnum síðastliðið föstudagskvöld.

Þetta er alger snilldarhugmynd og eina leiðin til að fá börnin mín til að borða eitthvað af káli.  Yfirleitt er það grænmetið sem þau eru minnst spennt fyrir en þegar ég býð upp á svona þá rennur það ofan í þau.

Þegar klukkan er korter í kvöldmat og allir eru orðnir svangir er ekki endilega fljótlegra að fara út í búð og kaupa eitthvað tilbúið.  Það er alveg hægt að fá sér bókstaflegan skyndibita heima 🙂

IMG_2947

Ég sá nýlega Romaine kál í Bónus, það er ílangt og dökkgrænt og það hentar alveg sérstaklega vel fyrir svona rúllur.

IMG_2943

Ommelettan:

 • 1 msk kókosolía
 • Egg – ég miða við ca 1,5 á mann
 • skvetta af mjólk (Hrísmjólk, möndlu, lífræn, kusu, bara það sem þið eruð vön að nota)
 • Krydd eftir smekk  (ég nota Salt, pipar, túrmerik, papriku, reykta papriku, cumin og jafnvel smá madras kryddblöndu)

Hræra eggjum, kryddi og mjólk vel saman, hita pönnuna, láta olíuna bráðna og setja svo blönduna á pönnuna, ég leyfi henni að “festast” aðeins saman áður en ég sný henni við og leyfi henni bara að detta svolítið í sundur svo hún sé í bitum.  Svo er bæði gott og hollt að setja smá steinselju yfir um það leyti sem hún er tilbúin.

IMG_2939

Salsa:

 • 4 Tómatar
 • 4 litlir vorlaukar
 • 1/2 lime (safinn)
 • Smá Herbamare

Blanda öllu vel saman

Svo er bara að taka kál, setja í það ommelettu og salsa og rúlla saman 🙂

IMG_2946

IMG_2945

Litli kallinn var alveg að missa sig yfir þessu síðasta föstudagsköld þegar ég tók þessar myndir og hrópaði af ákafa : lúlla lúlla lúlla og ég mátti hafa mig alla við að rúlla fyrir hann kálinu 🙂

Ég setti pestó á mínar rúllur til að byrja með en það var í raun alger óþarfi að hafa það með.  Það var líka gaman að oftast vilja stelpunar tómatsósu en í þetta skiptið fengu þær sé salsa án þess að minnast einu orði á tómatsósu og þeim fannst það ekkert smá gott.

Í ommelettuna nota ég reykta papriku.  Það er ekkert langt síðan ég fór að nota þetta krydd en þvílíkt nammi.  Það er svona bbq bragð af kryddinu og gefur þvílíka fyllingu.  Ef þið eruð ekki búin að kynnast því mæli ég með því að það fái að fljóta með heim í næstu verslunarferð 🙂

Verði ykkur að góðu 🙂

Túnfisksalat….kaupa eða gera sjálfur

Stelpurnar mínar elska túnfisksalat, sú eldri væri örugglega sátt við að fá það í nesti á hverjum einasta degi.  Maðurinn minn elskar líka túnfisksalat og öll fjölskyldan hans.  Áður en við kynntumst man ég ekki mikið eftir túnfissalati, það var frekar til rækjusalat eða hangikjötsalat heima.  En já, ég hef aldrei vitað til þess að okkur geti borðað jafn mikið túnfissalat og fjölskylda mannsins míns og þau eru búin að koma mér uppá bragðið 🙂   Ég ákvað að taka saman muninn á því að kaupa tilbúið eða að gera sjálfur.

salla

Fyrst kemur uppskriftin eins og hún er oftast á okkar heimili:

 • 1 dós túnfiskur
 • 1/2 dós Sollu-majones (mjólkuróþolsskvísan fær bara majones en ég set oft Lífræna gríska jógúrt með handa okkur hinum)
 • 1 tsk gróft sinnep (er með Sollu-sinnep í ísskápnum núna)
 • 2 til 3 msk Extra virgin ólífuolía (græna)
 • skvetta af sítrónusafa
 • smá salt (himalayja, sjávarsalt eða Herbamare)
 • smá svartur pipar
 • 1 tsk turmerik (verður reyndar mjög gult en turmerik er svo geggjað hollt en samt svo lítið bragð af því svo það er alger snilld að leyfa því að vera með)
 • 1/2 púrra, rauðlaukur eða laukur
 • 2-3 harðsoðin egg

Ég gerði salat um daginn, reiknaði út kostnaðinn og hann var eftirfarandi:  salatið vóg 400 gr, þar af var 140 gr túnfiskur eða um 35 % og salatið kostaði 330 kr.

Ef ég hefði keypt ódýrasta salatið í Bónus hefði ég borgað fyrir dósina 225 kr, en hún er bara 200 gr svo ég hefði þurft að kaupa 2 til að fá sama magn, þær hefðu kostað 450 kr.  Þau box innihalda 30 % túnfisk, sem er heldur minna.

Þannig að það er töluvert ódýrara að gera sitt salat sjálfur jafnvel þó notaður sé lífrænn majones.  Fyrir utan að heimagerða salatið getur innihaldið miklu meira af eggjum og minna af sósu, meiri lauk, og góð innihaldsefni eins og túrmerik og græna ólífuolíu.

Ef gert er heimatilbúið salat er maður líka laus við öll rotvarnarefni.  Og það er athyglisvert að í sumum tegundum er notað rotvarnarefnið E211 sem margir eru viðkvæmir fyrir og það hafa t.d. verið gerðar rannsóknir á tengslum þess við ofvirkni og heðgunarvanda (þá var því blandað saman við litarefni sem líka hafa verið gangrýnd og bönnuð í nokkrum löndum).  Það hafa verið gerðar rannsóknir en þær rannsóknir hafa ekki sýnt á fullnægjandi hátt að þetta rotvarnarefni sé skaðlegt heilsunni og þar af leiðandi ekki bannað.  En einhver ástæða er fyrir því að þessar rannsóknir voru gerðar.  Persónulega finnst mér ekki spennandi að borða eitthvað sem hefur þetta vafasama orðspor eða gefa barninu mínu sem er mjög viðkvæmt fyrir aukaefnum.

Að búa til túnfisksallat er eitthvað sem flestum krökkum finnst skemmtilegt.  Það er gaman að tína skurnina utan af eggjunum, skera þau og blanda þessu öllu saman.

Ég hvet ykkur til þess að velja heimatilbúið næst 🙂

 

 

Kjúklinga- núðlusúpa

Þessi súpa er í uppáhaldi hjá börnunum á heimilinu.  Hún er mjög fljótleg þó hún virðist kannski vera smá maus við fyrstu sýn. Ég geri hana oft ef ég á smá afgang af kjúkling.  Það má nota hvaða grænmeti sem til er og hvaða núðlur sem er.  Ég nota hrísgrjóna núðlur því þær eru glúteinlausar.  Ég er hinsvegar alltaf að reyna að finna hrísgrjóna núðlur úr hýðishrísgrjónum en hef ekki fundið ennþá, ætli ég þurfi ekki að fara gera mér ferð í austurlensku búðirnar.  Þessi súpa minnir rosalega mikið á  “spotta-súpuna” frá Maggi sem ég borðaði oft sem krakki, svo ég fæ alltaf einhverja nostalgíu þegar ég borða þessa súpu  🙂  Hér áður fyrr keypti ég oft þessa súpu frá Maggi þangað til ég fór að lesa aftan á hana og komst að því að hún innihélt msg auk allskonar aukaefna.

Þessi uppskrift er miðuð við ca 5 manns en ég hef aldrei farið eftir uppskrift þegar ég geri þessa súpu heldur slumpa bara eftir tilfinningu og því sem er til en síðast þegar ég eldaði hana reyndi ég eftir fremsta megni að mæla hvað ætti að fara í hana 🙂

Kjúklinga-núðlusúpa

Hráefni:

 • 2 l vatn
 • 1 msk grænmetiskraftur (nota frá Sollu)
 • 1 msk kjúklingakraftur (nota Tasty)
 • ca hálfur brokkolíhaus, frekar lítill
 • ca 10 cm biti af Púrru
 • 3 -4 litlar gulrætur
 • tæpl. hálf gul paprika
 • tæpl. hálf rauð paprika
 • 3 hvítlauksrif
 • ca 2 cm ferskt engifer
 • Kjúklingakjöt (ca 200 gr)
 • Núðlur ca 1 skammtur
 • Dash af öllu: cumin, timían, kóríander, turmerik, salt og pipar

Aðferð:

 1. Vatn sett í pott ásamt kraftinum og hitað að suðu.
 2. Grænmetið sett út í: fyrst gulrætur, svo stöngullinn af brokkólínu (smátt saxaður), því næst paprikurnar og púrran.
 3. Mér finnst koma mjög vel út að setja engiferið og hvítlaukinn í mini-matvinnsluvélina ásamt smá vatni og þá samlagast það alveg vatninu og verða engir sterkir engifer bitar fyrir litla fólkið.  En annars bara smásaxa og setja útí.
 4. Kryddað.
 5. Núðlurnar soðnar skv. leiðbeiningum, þeim er bætt út í alveg í lokin.
 6. Kjúklingurinn settur út í.
 7. Smakkið svo til, kannski þarf meira krydd, meira vatn, smá meira salt eða jafnvel pínu hrásykur til að fá meiri “dýpt” í bragðið.

engifer og hvítlaukurhvítlaukur og engifer

 

 

 

 

Verði ykkur að góðu 🙂

 

Kjúklinga-núðlusúpa

Með því að nota ferskt engifer, ferskan hvítlauk og túrmerik er þessi súpa algert ofur og tilvalin haustsúpa þegar kvefpestirnar eru komnar á kreik.  Túrmerik  hefur verið notuð til lækninga í margar aldir í bæði Kínveskri og Indveskri læknisfræði.  Það hefur áhrif á ótrúlega margt, m.a.  bólgueyðandi áhrif, krabbameinsvarnandi áhrif, talið lækka kólesterólið, hjálpa til við liðagigt og vefjagigt og draga úr hættu á barna-hvítblæði auk þess að vera Alzheimer-varnandi!  Engifer býr líka yfir bólguhamlandi áhrifum, er krabbameinsvarnandi og gríðarlega gott fyrir ónæmiskerfið. Hvítlaukurinn er náttúrulegt sýklalyf og því frábært að nota eins mikið af honum og við getum 🙂  Þessar jurtir hafa marga fleiri lækninga-eiginlega en ég tók bara nokkur dæmi.

Indverska sósan

Þessi sósa er í algeru uppáhaldi hjá mér.  Ég bý hana oft til þegar ég elda fisk.  Málið er að á heimilinu er vinsælast að borða fisk með smjöri og tómatsósu eða fiskibollur, annað veldur bara vonbrigðum.  Þannig að ég hef þetta bara einfalt, sýð fiskinn og svo fá krakkarnir (og jafnvel eiginmaðurinn líka) sér sína tómatsósu en ég bý mér til mismunadi sósur og pestó og set yfir minn fisk.  Afganginn geymi ég svo inni í ísskáp og nota næstu daga á eftir á kjúkling, hrísgrjón, kínóa, gufusoðið grænmeti ofl.  Innihaldslistinn er nokkuð langur en látið hann ekki fæla ykkur frá því þetta tekur aðeins nokkrar mínútur.

1 laukur

3-4 hvítlauksgeirar

2-4 cm engifer (eftir smekk)

Kókosolía (til að steikja upp úr, ca 2 msk)

1 kúfuð msk garam masala

1 tsk curry paste (frá Patkas)

1-2 msk Turmerik

2 msk tómatpuré

2-3 tsk mango chutney (eftir smekk)

Kókosmjólk (ég nota bleika fernu frá Santa Maria og fæst í Bónus, hún er þykk en bara 200 ml, þá set ég eina fernu, en ef þið eruð með dós myndi ég setja út helminginn af dósinni og sjá svo til.)

salt og pipar

1/2 lime

Steikjið laukinn í kókosolíunni við lágan hita, bætið svo við hvítlauk, engifer og öllum kryddunum.  Látið malla, bætið við tómatpúrrunni ásamt kókosmjólkinni, kreistið lime og kryddið með salt og pipar.  Ég set töfrasprotann í gegnum sósuna eða set hana í blandarann svo laukurinn verði alveg maukaður.

Indverska sósanindverska sósan