Í tilefni af bleika deginum og bleikum október ætla ég að kynna ykkur fyrir uppáhalds drykknum mínum. Hann er virkilega bragðgóður, brjálæðislega hollur og svo er hann líka svona líka flottur á litinn.
Bleikur október er til vitundavakningar um krabbamein og það er því vel við hæfi að drykkurinn sem kenndur er við mánuðinn innihaldi matvæli sem tengd hafa verið við krabbameinsvarnir. Í drykknum er t.d. rauðrófa, bláber og engifer.
Rauðrófan er eitt af mínu uppáhaldsgrænmeti því fyrir utan að vera bólgueyðandi og rík af andoxunarefnum þá finnst mér bragðið bara eitthvað svo gott. Sérstaklega bakaðar rauðrófur. En ég veit að það eru ekki allir sammála mér og mörgum finnst vera hálfgert moldarbragð af rauðrófum og þess vegna er það mér mikið gleðiefni að fæstir finna nokkurt rauðrófu-moldarbragð af þessum drykk. Hljómar það ekki vel ? Það er ekki moldarbragð af drykknum ? Jæja, en ég vona að þið vitið hvað ég á við 🙂
Hráefni:
- 1 meðalstór rauðrófa
- 5-6 dl vatn (hér má líka nota kókosvatn fyrir enn meiri hamingju og gleði)
- 1-2 cm rifin engifer
- 2-3 dl frosin bláber
- 1-2 dl frosin ananas
Aðferð:
1. Afhýðið rauðrófuna og skerið í litla bita.
2. Setjið allt í blandarann og blandið vel saman.
Setjið í fallegt glas og helst fallegt rör með og njótið dagsins 🙂