Bleikur október

Í tilefni af bleika deginum og bleikum október ætla ég að kynna ykkur fyrir uppáhalds drykknum mínum.  Hann er virkilega bragðgóður, brjálæðislega hollur og svo er hann líka svona líka flottur á litinn.

Bleikur október er til vitundavakningar um krabbamein og það er því vel við hæfi að drykkurinn sem kenndur er við mánuðinn innihaldi matvæli sem tengd hafa verið við krabbameinsvarnir.  Í drykknum er t.d. rauðrófa, bláber og engifer.

Rauðrófan er eitt af mínu uppáhaldsgrænmeti því fyrir utan að vera bólgueyðandi og rík af andoxunarefnum þá finnst mér bragðið bara eitthvað svo gott.  Sérstaklega bakaðar rauðrófur.   En ég veit að það eru ekki allir sammála mér og mörgum finnst vera hálfgert moldarbragð af rauðrófum og þess vegna er það mér mikið gleðiefni að fæstir finna nokkurt rauðrófu-moldarbragð af þessum drykk.  Hljómar það ekki vel ? Það er ekki moldarbragð af drykknum ?  Jæja, en ég vona að þið vitið hvað ég á við 🙂

 

bleikurdrykkur

Hráefni:

  • 1 meðalstór rauðrófa
  • 5-6 dl vatn (hér má líka nota kókosvatn fyrir enn meiri hamingju og gleði)
  • 1-2 cm rifin engifer
  • 2-3 dl frosin bláber
  • 1-2 dl frosin ananas

Aðferð:
1. Afhýðið rauðrófuna og skerið í litla bita.
2. Setjið allt í blandarann og blandið vel saman.

Setjið í fallegt glas og helst fallegt rör með og njótið dagsins 🙂

 

Fallegur og frískandi flensusjeik

Kallinn lá heima með einhverja flensupest í vikunni svo ég bjó til handa honum þennan fallega og frískandi flensusjeik.

Góður fyrir þá sem eru með flensu eða slappleika og líka fyrirbyggjandi fyrir alla hina.  Athugið bara að það borgar sig ekki að hafa sjeikinn ískaldann, sérstaklega ef hálsbólga eða hósti hrjáir mannskapinn.

IMG_3864

2 stór glös eða 4 lítil

Hráefni:

  • 2 gulrætur
  • 2,5 dl af frosnum jarðaberjum (takið mesta kuldann úr þeim áður, með heitu vatni)
  • 2-3 cm af engifer (fer eftir smekk)
  • 2 msk goji ber
  • 1 msk hunang
  • ca. 2,5 dl af vatni

Allt sett saman í blandara og blandað þangað til silkimjúkt.

Alveg ótrúlega frískandi og góður 🙂

Gleðilegan föstudag 🙂

Hunangsristaðar möndlur með engifer

Jæja loksins kemur ný uppskrift inn.  Það er búið að vera brjálað að gera síðustu daga. Eiginmaðurinn búin að vera í útlöndum, amma og afi að norðan búin að vera í heimsókn, búið að eyða einum degi á slysó og ýmislegt fleira svo það hefur verið lítill tími til að setja inn einhverjar uppskriftir.  En bæti úr því hér með.

Þessar ristuðu möndlur hafa heldur betur slegið í gegn á heimilinu hjá öllum aldurshópum.  Þær eru liður í því að finna hollara snakk heldur en kartöflu-transfitu-msg snakkið sem eiginmaðurinn kaupir gjarnan.  Og áætlunarverkið tókst því honum fannst þetta ekkert smá gott 🙂 Þær eru bæði saltar og sætar og verða því skemmtileg blanda mitt á milli þess að vera snakk og nammi.

IMG_2796

Hráefni:

  • 2,5 bollar möndlur
  • 2 msk vatn
  • 2 tsk olía (ég hef bæði prufað að nota kókosolíu og vínberjakjarnaolíu = bæði gott )
  • 1/4 bolli hrásykur
  • 1 tsk salt
  • 1 tsk malað engifer
  • 2 msk hunang

Aðferð:

  1. Setjið möndlur á bökunarplötu og bakið í ofni í 10-15 mín við 160°C  Hrærið í þeim nokkrum sinnum á meðan.
  2. Á meðan hitið þið í litlum potti hunang, vatn og olíu.  Látið suðuna koma upp en lækkið svo hitann.
  3. Í annari skál blandið þið saman sykri, salti og engiferi.
  4. Þegar möndlurnar eru komnar út úr ofninum setjið þær þá út í pottinn og hrærið þangað til þær eru vel hjúpaðar (getur tekið nokkrar mín).
  5. Stráið nú sykurblöndinni yfir og hrærið vel, setjið á bökunarpappír og látið kólna.

Verði ykkur að góðu 🙂

Þær endast í viku í loftþéttu íláti.

Það má skipta engifer út fyrir kanil.

Ég prufaði að nota kókospálmasykur og þannig er þær talsvert hollari en í sannleika sagt þá verða þær töluvert betri á bragðið með venjulegum hrásykri.  Ástæðan var sú að kókospálmasykurinn bráðnaði mikið meira heldur en hrásykurinn gerði.

Kjúklinga- núðlusúpa

Þessi súpa er í uppáhaldi hjá börnunum á heimilinu.  Hún er mjög fljótleg þó hún virðist kannski vera smá maus við fyrstu sýn. Ég geri hana oft ef ég á smá afgang af kjúkling.  Það má nota hvaða grænmeti sem til er og hvaða núðlur sem er.  Ég nota hrísgrjóna núðlur því þær eru glúteinlausar.  Ég er hinsvegar alltaf að reyna að finna hrísgrjóna núðlur úr hýðishrísgrjónum en hef ekki fundið ennþá, ætli ég þurfi ekki að fara gera mér ferð í austurlensku búðirnar.  Þessi súpa minnir rosalega mikið á  “spotta-súpuna” frá Maggi sem ég borðaði oft sem krakki, svo ég fæ alltaf einhverja nostalgíu þegar ég borða þessa súpu  🙂  Hér áður fyrr keypti ég oft þessa súpu frá Maggi þangað til ég fór að lesa aftan á hana og komst að því að hún innihélt msg auk allskonar aukaefna.

Þessi uppskrift er miðuð við ca 5 manns en ég hef aldrei farið eftir uppskrift þegar ég geri þessa súpu heldur slumpa bara eftir tilfinningu og því sem er til en síðast þegar ég eldaði hana reyndi ég eftir fremsta megni að mæla hvað ætti að fara í hana 🙂

Kjúklinga-núðlusúpa

Hráefni:

  • 2 l vatn
  • 1 msk grænmetiskraftur (nota frá Sollu)
  • 1 msk kjúklingakraftur (nota Tasty)
  • ca hálfur brokkolíhaus, frekar lítill
  • ca 10 cm biti af Púrru
  • 3 -4 litlar gulrætur
  • tæpl. hálf gul paprika
  • tæpl. hálf rauð paprika
  • 3 hvítlauksrif
  • ca 2 cm ferskt engifer
  • Kjúklingakjöt (ca 200 gr)
  • Núðlur ca 1 skammtur
  • Dash af öllu: cumin, timían, kóríander, turmerik, salt og pipar

Aðferð:

  1. Vatn sett í pott ásamt kraftinum og hitað að suðu.
  2. Grænmetið sett út í: fyrst gulrætur, svo stöngullinn af brokkólínu (smátt saxaður), því næst paprikurnar og púrran.
  3. Mér finnst koma mjög vel út að setja engiferið og hvítlaukinn í mini-matvinnsluvélina ásamt smá vatni og þá samlagast það alveg vatninu og verða engir sterkir engifer bitar fyrir litla fólkið.  En annars bara smásaxa og setja útí.
  4. Kryddað.
  5. Núðlurnar soðnar skv. leiðbeiningum, þeim er bætt út í alveg í lokin.
  6. Kjúklingurinn settur út í.
  7. Smakkið svo til, kannski þarf meira krydd, meira vatn, smá meira salt eða jafnvel pínu hrásykur til að fá meiri “dýpt” í bragðið.

engifer og hvítlaukurhvítlaukur og engifer

 

 

 

 

Verði ykkur að góðu 🙂

 

Kjúklinga-núðlusúpa

Með því að nota ferskt engifer, ferskan hvítlauk og túrmerik er þessi súpa algert ofur og tilvalin haustsúpa þegar kvefpestirnar eru komnar á kreik.  Túrmerik  hefur verið notuð til lækninga í margar aldir í bæði Kínveskri og Indveskri læknisfræði.  Það hefur áhrif á ótrúlega margt, m.a.  bólgueyðandi áhrif, krabbameinsvarnandi áhrif, talið lækka kólesterólið, hjálpa til við liðagigt og vefjagigt og draga úr hættu á barna-hvítblæði auk þess að vera Alzheimer-varnandi!  Engifer býr líka yfir bólguhamlandi áhrifum, er krabbameinsvarnandi og gríðarlega gott fyrir ónæmiskerfið. Hvítlaukurinn er náttúrulegt sýklalyf og því frábært að nota eins mikið af honum og við getum 🙂  Þessar jurtir hafa marga fleiri lækninga-eiginlega en ég tók bara nokkur dæmi.