Kryddaðir hafraklattar

Mjúkir og kryddaðir hafraklattar.  Tilvaldir með tebollanum eða kaffibollanum.   Hversdags eða um helgina !

Það tekur stuttan tíma að baka þessa klatta en því miður eru þeir fljótir að klárast.  Það hefur enn ekki reynt mikið á geymsluþolið á þessum kökum á þessu heimili 😉

 

Þessi uppskrift gerir um 20-25 klatta

Hráefni. 

  • 4 dl haframjöl
  • 1,5 dl kókosmjöl
  • 1,5 dl fræ (sólblóma/ sesam)
  • 100 g smjör/ 1 dl olía
  • 2 egg
  • 1 dl kókospálmasykur (má minnka fyrir sykurminni útgáfu)
  • 1 tsk vanilludropar
  • 2 tsk kanill
  • 1/2 tsk negull
  • smá salt
  • 60 gr smátt saxað dökkt súkkulaði ( notum líka stundum hvítt súkkulaði með til hátíðarbrigða) og það má líka skipta súkkulaðinu út fyrir 1 dl af smátt söxuðum döðlum

 

Aðferð: 

  1. Hitið ofninn í  180°C
  2. Bræðið smjörið eða olíuna (ef þið notið kókosolíu)
  3. Pískið eggin vel og blandið smjörinu/olíunni saman við þau ásamt sykrinum.
  4. Bætið þurrefnunum saman við blönduna.
  5. Setjið deigið á bökunarpappír  (1 msk hver kaka)
  6. Bakið í  12-15 mín.

Þær mega vera örlítið mjúkar þegar þær koma út úr ofninum því þær harðna þegar þær kólna.  

 

Hamp chia grautur

Frábær morgunverður sem tekur enga stund að útbúa.  Þetta er uppáhaldið þessa dagana.  Það má líka setja meiri vökva, setja á flösku og taka með sér í nesti.  Ég gerði það í gær þegar ég hafi 0 mín fyrir hádegismat.   Ég fór á svakalega fræðandi og skemmtilega ráðstefnu um meltingarflóruna.  Algerir snillingar með fyrirlestra og hausin er enn að snúast í hringi og finna hugmyndir hvernig hægt er að bæta flóru fjölskyldunnar 😉

En aftur að grautnum,

Hamp chia grautur

Hráefni:

  • 2 msk chia fræ
  • 2 msk hampfræ
  • 2 dl vatn/möndlumjólk eða önnur mjólk/vökvi að eigin vali
  • 3 dropar stevía (eftir smekk)
  • kanill (líka eftir smekk)
  • Ávextir að eigin vali =  ég er á myndinni með mangó og perur
  • Gúmmilaði til að strá yfir að eigin vali =  ég er með mórber, goji ber og kakónibbur (blanda sem ég elska bæði út á grauta og í heimagert súkkulaði)

Aðferð:

  1. Setjið fræin í bleyti (nóg 10 mín en má vera yfir nótt)
  2. Bætið ávöxtum við og stráið gúmmilaði yfir

Verði ykkur að góðu 🙂