Kjúklingasúpa með kúrbítsnúðlum

Hér er á ferðinni dásamleg haustsúpa.  Hún er einföld og góð sérstaklega fljótleg ef þið eigið til kjúklingaafgang til að nota.  Mér finnst gott að setja svolítið vel af kryddmaukinu og leyfa því aðeins að rífa í.  Þannig verður þetta ágætis haust / flensu súpa.  Hér að neðan er uppskrift af geggjuðu kryddmauki sem þið getið búið til sjálf.

Ég verð að viðurkenna að ég varð alveg hissa hvað kúrbítsnúðlurnar mældust vel fyrir hjá krökkunum (ég hef greinilega ekki nógu mikla trú á þeim 😉 )  Ég ætlaði upphaflega að setja venjulegar hrísgrjónanúðlur hjá þeim en kúrbítsnúðlur fyrir okkur fullorðna fólkið en þegar það kom í ljós að engar hrísgrjónanúðlur voru til ákvað ég bara að prófa þetta og það voru allir bara mjög sáttir.  Svo eftir það nota ég bara kúrbítsnúðlur.   Nú er uppskerutími fyrir kúrbít og þar af leiðandi er hann bæði ódýr og lítur vel út.  Það er því um að gera að nota tækifærið og prófa sig áfram í kúrbítsnúðlugerðinni

 

 

Hráefni:

  • 1 msk hitaþolin steikingarolía
  • 1 msk curry paste eða heimatilbúið kryddmauk (uppskrift að neðan)
  • 1 liter kjúklinga- eða grænmetissoð, heimatilbúið eða keypt, eða 1 liter vatn og 2 grænmetisteningar
  • 4-500 gr eldað kjúklingakjöt eða meira grænmeti ef þið viljið hafa þetta fyrir grænmetissúpu
  • 3 gulrætur
  • 3 vorlaukar
  • safi úr 1/2 lime
  • 2 msk tamari sósa
  • 1/2 kúrbítur (skerið hann hálfan eftir endilöngu)
  • væn lúka af fersku kryddi til dæmis: steinselja, basilika og/eða kóríander
  • salt og pipar
  • Ég skreytti súpudiskana með fersku kóríander og blaðlauksspírum en endilega notið hugmyndaflugið 🙂

Aðferð:

  1. Eldið kjúklinginn ef þið eigið hann ekki til eldaðan, (það er tilvalið að gera þessa súpu úr afgöngum.)   a) Ef þið eruð með bringur, skerið þær í litla bita og steikið smá kjúklingakryddi.   b) Ef þið eruð með kjúklingalæri finnst mér best að krydda vel og steikja svo á báðum hliðum og setja svo í ofn í 20 mín (við 180°)
  2. Hitið olíu í potti og setjið kryddmaukið út í og leyfið því að hitna vel.
  3. Setjið kjúklingasoðið (eða vatnið og teningana) út í pottinn.
  4. Skerið gulrætur í langa strimla og bætið út í.
  5. Leyfið súpunni að malla í  10 mín.
  6. Setjið kjúklinginn saman við.
  7. Bætið við tamari sósu, limesafanum og smakkið til með salti og pipar.
  8. Skerið niður kúrbítinn í lengjur.  Það er hægt að fá allskonar tæki til að búa til grænmetis “núðlur”  en ég fékk minn skera í Dúka fyrir einu ári síðan og er mjög ánægð með hann. Hann er kannski ekki tillvalin í fjöldaframleiðslu en fínn í svona smotterí.

Hér kemur uppskrift af geggjuðu heimatilbúnu kryddmauki sem er sniðugt að búa til og frysta svo í litlum bitum.  

  • 2 hvítlauksgeirar
  • Vænn biti af engifer
  • 1 rauður ferskur chillipipar (ath. Gott að taka fræin úr ef þið viljið ekki hafa réttinn sterkan)
  • 1,5 msk garam masala – eða önnur góð karrý kryddblanda
  • 1,5 msk arabískar nætur – kryddblanda frá Pottagöldrum
  • 1 msk túrmerik
  • 1 msk cumin
  • 1 tsk salt
  • væn lúka af ferskum kóríander, helst stilkum (ef ykkur líkar ekki kóríander þá má líka setja steinselju í staðinn)
  • 1/2 dl möndlur
  • 1 sítróna – safinn
  • 3-4 litlar döðlur
  1. Allt sett í litla matvinnsluvél og maukað.
  2. Maukinu skipt í litlar kúlur of fryst.
  3. Þetta kryddmauk einfaldar svo mikið eldamennsku frá grunni og á næstum vikum ætla ég að gefa ykkur fleiri uppskriftir þar sem þið getið nýtt ykkur þetta kryddmauk.

Gangi ykkur vel

Einföld og fljótleg mexíkósk kjúklingasúpa

Börnin á bænum elska kjúklingasúpu og þar af leiðandi verður hún oft fyrir valinu hér á bæ.  Það er frekar langt síðan ég hef sett súpu uppskrift inn á vefinn og því alveg komin tími til.  Flestum súpu uppskriftum hef ég þurft að breyta örlítið síðusta árið eftir að ég komst að því að ákveðnir hlutir fara mjög illa í meltinguna mína.  Já maður er alltaf að læra á sjálfan sig og uppgvöta eitthvað nýtt.  Ég vona þó að það komi að því fyrr en seinna að ég geti bætt þessum hlutum inn í fæðið aftur.   Við erum til dæmis að tala um lauk og  hvítlauk, já þannig að það útskýrir hversvegna ég hef þurft að breyta flestum uppskriftum því ég var með lauk í ÖLLU!   Ég sakna lauksins mjög mikið en það hefur þó eitthvað jákvætt komið út úr þessu þar sem börnunum finnst maturinn betri ef eitthvað er og ég er fljótari að elda 🙂

Fyrirmyndin af þessari súpu er súpan hennar Ebbu Guðnýjar, sjá r !  Ég smakkaði hana fyrst hjá mömmu og hún sló í gegn.  Hún hefur breyst hjá mér heilmikið í tímanna rás.  Hér að neðan er útgáfan eins og ég hef eldað hana með engum lauk.

 

 

Hráefni:

  • 600-800 ml vatn
  • 400 ml maukaðir tómatar eða passata
  • 2 gerlausir grænmetisteningar
  • 1/2 sæt kartafla (eða 2 litlar)
  • 3 gulrætur
  • 2 litlar nípur (eða eitthvað annað grænmeti sem ykkur þykir gott)
  • 1 rauð paprika
  • væn lúka steinselja
  • 1 msk kókospálmasykur (má sleppa en gott að fá örlitla sætu á móti tómötunum)
  • 2 kjúklingabringur kryddaðar vel með cumin, papriku, svörtum pipar og oregno.
  • salt og pipar eftir smekk

 

Aðferð:

  1. Hitið vatnið í potti.
  2. Skerið sætu kartöfluna í litla bita og setjið út í vatnið. Sjóðið í ca. 10-12 mín.
  3. Skerið kjúklingabringunar í bita og steikið á pönnu og kryddið vel.  (hér er líka frábært að eiga til afgang af kjúkling, en bætið þá smá kryddi við súpuna.)
  4. Skerið niður gulrætur og nípu í litla bita en ekki setja út í strax.
  5. Þegar sæta kartaflan er orðin nokkuð mjúk undir tönn farið þá með töfrasprota og maukið hana saman við vatnið.
  6. Bætið út í pottinn grænmetisteningum, maukuðum tómötum, kókospálmasykrinum og grænmetinu.  Leyfið súpunni að malla í um það bil 10 mín.
  7. Bætið kjúklingnum saman við ásamt papriku og steinselju.
  8. Kryddið með salt og pipar og berið fram með lífrænum nachosflögum.

 

Verði ykkur að góðu 🙂

 

 

Karrý kókos kjúklingasúpa

Í vor fékk ég þann heiður að vera matgæðingur Vikunnar.  Ég átti alltaf eftir að birta uppskriftinar hér inni en það var athugull lesandi blaðsins á tannlæknastofu, sem ætlaði sér að fara heim og finna uppskriftirnar á netinu sem benti mér á þetta.  Það er eins gott að það sé einhver að fylgjast með 😉

IMG_1837

Þessi uppskrift er einföld og barnvæn.  Góð hversdags og spari.  Börnin kalla hana “bestu súpu í heimi” sem eru ágætis meðmæli  🙂

Hráefni:

  • 1 msk kókosolía
  • 1 laukur
  • 3 gulrætur
  • 2-3 cm engifer
  • 1 rauð paprika
  • 1 dós eða flaska maukaðir tómatar
  • 1 msk madras karrý krydd frá Pottagöldrum eða önnur góð karrýblanda
  • 1 tsk túrmerik
  • 2 msk grænmetiskraftur (líka gott að nota kjúklingakraft)
  • 1 liter vatn
  • 2 dl kókosmjólk
  • salt og pipar
  • lúka af ferskri steinselju
  • safi úr 1/2 lime (má vera tæplega)
  • Grillaður kjúklingur eða 2-3 bringur, grillaðar eða steiktar á pönnu

Aðferð:

  1. Bræðið kókosolíuna í potti, setjið karrý, túrmerik og lauk út í og leyfið að malla í smá stund við mjög lágan hita.
  2. Britjið gulrætur og papriku niður og bætið út í.
  3. Bætið engifer út í. Best finnst mér að raspa hann út í  með fínu raspi.
  4. Bætið svo vatni, krafti og tómötum út í.
  5. Leyfið súpunni að malla við meðal hita í ca 10 mín eða þangað til grænmetið er orðið mjúkt. 
  6. Að lokum fer kókosmjólkin út í ásamt lime safanum og steinseljunni.
  7. Bætið kjúklingnum út í.
  8. Smakkið til og kryddið með salti og pipar.

IMG_0964

Það er góð hugmynd skipta kjúklingnum út fyrir fisk öðru hverju.

IMG_1837

Góða helgi 🙂

 

Sweet chili kjúklingasúpa úr íslensku grænmeti

Einföld og fljótleg súpa úr glænýju íslensku grænmeti, að sjálfsögðu er ekki verra að skera út í hana grillað lambakjöt.

Hér er á ferðinni dæmigerð núðlusúpa með tælensku yfirbragði nema ég nota íslenska grænmetið í staðinn fyrir núðlurnar.  Fyrir íhaldsama má auðvitað bara bæta núðlum út í áður en súpan er borin fram.  Hún er mjög fljótleg og getur verið komin á borðið 20 mín eftir að undirbúningur hefst ef kjuklingurinn er tilbúin en hún verður engu að síður enn betri ef hún fær að standa aðeins eftir að hún er tilbúin.

sweet chili kjúklingasúpa
Hráefni:
(Fyrir 4-5)
  • 1 tsk kókosolía
  • 3-4 gulrætur
  • 1/2 hvítkálshaus
  • 1/2 rauð paprika
  • Spergilkál 1/2 – 1 haus (eftir stærð og smekk)
  • 2 cm engifer eða ca 1 msk rifin engifer
  • 3 msk kjúklingakraftur
  • 1 msk fiskisósa
  • 1 msk sweet chili sósa
  • salt og pipar
  • Vatn, 1 liter
  • Kjúklingur, magn fer eftir smekk en ágætt að miða við ca. 2 bringur
Aðferð:
1. Ef þið eruð með bringur,  þá annaðhvort skerið í bita og steikið á pönnu og kryddið eftir smekk eða grillið þær heilar.  Þessi súpa er tilvalin fyrir afganga.
2. Hitið kókosolíu í potti og létt steikið gulrætur og papriku.
3. Rífið engiferið út í pottinn. (Ef þið rífið það með rifjárni losnið þið við “hárin”.
4. Bætið við vatni, kjúklingakrafti, fiskisósu og sweet chili sósu.  Reynið að velja sósu með litlu sykurmagni en hér má líka nota 1 msk af hlynsýrópi eða 1 msk af kókospálmasykri og krydda með smá chili kryddi.
5. Bætið hvítkálinu og spergilkálinu út í og leyfið súpunni að malla í 10 mín.
6. Bragðbætið með salti og pipar.
Það er gott að bera hana fram með smátt söxuðum vorlauk, fersku kóríander og jafnvel salthnetum eða kasjúhnetum.

Kjúklingavefja með mangósósu

Þægilegur, fljótlegur og sumarlegur kvöldmatur … tja eða bara hádegismatur 🙂

Þetta er ekki flókin uppskrift en við erum oft með eitthvað svona í matinn, sérstaklega um helgar.

Hráefni:

  • Tortillur:  keyptar eða bakaðar, ef ég næ ekki að baka sjálf kaupi ég yfirleitt spelt eða maístortillur frá Drangabakstri
  • Kjúklingur: steiktar bringur eða rifin niður heill kjúklingur
  • Grænmeti að eigin vali
  • Mangósósa

IMG_5878

kjúklingavefja

Hér koma svo 2 uppskriftir af mismunandi mangósósum:

Mangósósa I :

  • 2,5 dl grísk jógúrt (eða majones ef það er mjólkuróþol)
  • 2-4  msk mangó chutney
  • ca 0,5 – 1 tsk smátt brytjað engifer (fer eftir smekk hversu mikið þið setjið)

# Ef þið eruð með þykkri gerðina af grískri jógúrt þá mæli ég með því að setja 2-3 msk af ólífuolíu (grænni) 

Mangó-karrýsósa: 

  • 2,5 dl grísk jógúrt (eða majones)
  • 1 dl smátt saxað vel þroskað mangó
  • 3 tsk karrý eða góð karrýblanda (madras eða önnur góð)
  • 1 msk hlynsýróp

Kjúklingapasta í sinnepsósu

Hér kemur réttur sem börnin á heimilinu elska.  Mjög einfalt og þægilegt, hægt að gera 1-2 dögum áður og geyma tilbúið sem gerir þetta stórsniðugt í útilegurnar og ferðalögin í sumar.  Þetta er vinsælt í hádegismatinn um helgar hér á bæ.  Þetta minnir á kjúklingapasta sem er hægt að kaupa tilbúið í bökkum í bensínsjoppum en þetta er bara svo miklu miklu betra 🙂

IMG_4587

Hráefni:

  • 1/2 Kjúklingur (tilvalið að nota afgang)
  • ca 250 gr af ósoðnu Pasta (heilhveiti eða spelt)
  • Sinnepsósa (2 skammtar)  (heimagerð, uppskrift hér)
  • 1/2 – 1 Rauð paprika
  • rauðlaukur, vorlaukur eða púrrulaukur eftir smekk
  • Svo má að sjálfsögðu bæta hvaða grænmeti sem er við, eftir smekk.

Aðferð:

  1. Pastað soðið eftir leiðbeiningum og svo kælt.
  2. Sinnepsósan búin til.
  3. Allt brytjað niður og blandað saman í eina stóra skál.
  4. Mömmu-útgáfan er þannig að ca. helmingurinn af skálinni er grænt salat og ef þið eigið ferska basilíku í eldhúsglugganum er það virkilega gott með.

IMG_4582

Verði ykkur að góðu 🙂