Hér er á ferðinni dásamleg haustsúpa. Hún er einföld og góð sérstaklega fljótleg ef þið eigið til kjúklingaafgang til að nota. Mér finnst gott að setja svolítið vel af kryddmaukinu og leyfa því aðeins að rífa í. Þannig verður þetta ágætis haust / flensu súpa. Hér að neðan er uppskrift af geggjuðu kryddmauki sem þið getið búið til sjálf.
Ég verð að viðurkenna að ég varð alveg hissa hvað kúrbítsnúðlurnar mældust vel fyrir hjá krökkunum (ég hef greinilega ekki nógu mikla trú á þeim 😉 ) Ég ætlaði upphaflega að setja venjulegar hrísgrjónanúðlur hjá þeim en kúrbítsnúðlur fyrir okkur fullorðna fólkið en þegar það kom í ljós að engar hrísgrjónanúðlur voru til ákvað ég bara að prófa þetta og það voru allir bara mjög sáttir. Svo eftir það nota ég bara kúrbítsnúðlur. Nú er uppskerutími fyrir kúrbít og þar af leiðandi er hann bæði ódýr og lítur vel út. Það er því um að gera að nota tækifærið og prófa sig áfram í kúrbítsnúðlugerðinni
Hráefni:
- 1 msk hitaþolin steikingarolía
- 1 msk curry paste eða heimatilbúið kryddmauk (uppskrift að neðan)
- 1 liter kjúklinga- eða grænmetissoð, heimatilbúið eða keypt, eða 1 liter vatn og 2 grænmetisteningar
- 4-500 gr eldað kjúklingakjöt eða meira grænmeti ef þið viljið hafa þetta fyrir grænmetissúpu
- 3 gulrætur
- 3 vorlaukar
- safi úr 1/2 lime
- 2 msk tamari sósa
- 1/2 kúrbítur (skerið hann hálfan eftir endilöngu)
- væn lúka af fersku kryddi til dæmis: steinselja, basilika og/eða kóríander
- salt og pipar
- Ég skreytti súpudiskana með fersku kóríander og blaðlauksspírum en endilega notið hugmyndaflugið 🙂
Aðferð:
- Eldið kjúklinginn ef þið eigið hann ekki til eldaðan, (það er tilvalið að gera þessa súpu úr afgöngum.) a) Ef þið eruð með bringur, skerið þær í litla bita og steikið smá kjúklingakryddi. b) Ef þið eruð með kjúklingalæri finnst mér best að krydda vel og steikja svo á báðum hliðum og setja svo í ofn í 20 mín (við 180°)
- Hitið olíu í potti og setjið kryddmaukið út í og leyfið því að hitna vel.
- Setjið kjúklingasoðið (eða vatnið og teningana) út í pottinn.
- Skerið gulrætur í langa strimla og bætið út í.
- Leyfið súpunni að malla í 10 mín.
- Setjið kjúklinginn saman við.
- Bætið við tamari sósu, limesafanum og smakkið til með salti og pipar.
- Skerið niður kúrbítinn í lengjur. Það er hægt að fá allskonar tæki til að búa til grænmetis “núðlur” en ég fékk minn skera í Dúka fyrir einu ári síðan og er mjög ánægð með hann. Hann er kannski ekki tillvalin í fjöldaframleiðslu en fínn í svona smotterí.
Hér kemur uppskrift af geggjuðu heimatilbúnu kryddmauki sem er sniðugt að búa til og frysta svo í litlum bitum.
- 2 hvítlauksgeirar
- Vænn biti af engifer
- 1 rauður ferskur chillipipar (ath. Gott að taka fræin úr ef þið viljið ekki hafa réttinn sterkan)
- 1,5 msk garam masala – eða önnur góð karrý kryddblanda
- 1,5 msk arabískar nætur – kryddblanda frá Pottagöldrum
- 1 msk túrmerik
- 1 msk cumin
- 1 tsk salt
- væn lúka af ferskum kóríander, helst stilkum (ef ykkur líkar ekki kóríander þá má líka setja steinselju í staðinn)
- 1/2 dl möndlur
- 1 sítróna – safinn
- 3-4 litlar döðlur
- Allt sett í litla matvinnsluvél og maukað.
- Maukinu skipt í litlar kúlur of fryst.
- Þetta kryddmauk einfaldar svo mikið eldamennsku frá grunni og á næstum vikum ætla ég að gefa ykkur fleiri uppskriftir þar sem þið getið nýtt ykkur þetta kryddmauk.
Gangi ykkur vel