Börnin á bænum elska kjúklingasúpu og þar af leiðandi verður hún oft fyrir valinu hér á bæ. Það er frekar langt síðan ég hef sett súpu uppskrift inn á vefinn og því alveg komin tími til. Flestum súpu uppskriftum hef ég þurft að breyta örlítið síðusta árið eftir að ég komst að því að ákveðnir hlutir fara mjög illa í meltinguna mína. Já maður er alltaf að læra á sjálfan sig og uppgvöta eitthvað nýtt. Ég vona þó að það komi að því fyrr en seinna að ég geti bætt þessum hlutum inn í fæðið aftur. Við erum til dæmis að tala um lauk og hvítlauk, já þannig að það útskýrir hversvegna ég hef þurft að breyta flestum uppskriftum því ég var með lauk í ÖLLU! Ég sakna lauksins mjög mikið en það hefur þó eitthvað jákvætt komið út úr þessu þar sem börnunum finnst maturinn betri ef eitthvað er og ég er fljótari að elda 🙂
Fyrirmyndin af þessari súpu er súpan hennar Ebbu Guðnýjar, sjá Hér ! Ég smakkaði hana fyrst hjá mömmu og hún sló í gegn. Hún hefur breyst hjá mér heilmikið í tímanna rás. Hér að neðan er útgáfan eins og ég hef eldað hana með engum lauk.
Hráefni:
- 600-800 ml vatn
- 400 ml maukaðir tómatar eða passata
- 2 gerlausir grænmetisteningar
- 1/2 sæt kartafla (eða 2 litlar)
- 3 gulrætur
- 2 litlar nípur (eða eitthvað annað grænmeti sem ykkur þykir gott)
- 1 rauð paprika
- væn lúka steinselja
- 1 msk kókospálmasykur (má sleppa en gott að fá örlitla sætu á móti tómötunum)
- 2 kjúklingabringur kryddaðar vel með cumin, papriku, svörtum pipar og oregno.
- salt og pipar eftir smekk
Aðferð:
- Hitið vatnið í potti.
- Skerið sætu kartöfluna í litla bita og setjið út í vatnið. Sjóðið í ca. 10-12 mín.
- Skerið kjúklingabringunar í bita og steikið á pönnu og kryddið vel. (hér er líka frábært að eiga til afgang af kjúkling, en bætið þá smá kryddi við súpuna.)
- Skerið niður gulrætur og nípu í litla bita en ekki setja út í strax.
- Þegar sæta kartaflan er orðin nokkuð mjúk undir tönn farið þá með töfrasprota og maukið hana saman við vatnið.
- Bætið út í pottinn grænmetisteningum, maukuðum tómötum, kókospálmasykrinum og grænmetinu. Leyfið súpunni að malla í um það bil 10 mín.
- Bætið kjúklingnum saman við ásamt papriku og steinselju.
- Kryddið með salt og pipar og berið fram með lífrænum nachosflögum.
Verði ykkur að góðu 🙂
Svo góð súpa. Setti steinseljurót og kúrbít í.
Karen