Eggjahræra með kínóa og kóríanderpestói

Má ég kynna fyrir ykkur hinn fullkomna hádegismat.  Kannastu við það að vera heima og vanta eitthvað að borða NÚNA.  Þú áttir að vera löngu búin að fá þér eitthvað en nenntir því ekki og nú er þolinmæðin búin!   Ég er að minnsta kosti alltof dugleg að lenda í þessum aðstæðum ef ég er heima en þegar ég er í vinnunni fæ ég mér að borða á mínútunni 12 – að sjálfsögðu.

hádegismatur

Hér kemur hugmynd sem tekur ekki langan tíma að útbúa (sérstaklega ef þú átt til soðið kínóa inn í ísskáp).

Hráefni:

  • soðið kínóa
  • egg
  • kókosolía
  • góð ólífuolía
  • salt og pipar
  • steinselja
  • grænmeti af eigin vali

(magn fer eftir fjölda einstaklinga og magamáli)

Aðferð:

  1. Sjóðið kínóa samkvæmt leiðbeiningum eða takið það út úr ísskáp eða frysti.
  2. Hitið pönnu og bræðið kókosolíu.
  3. Steikið eggið á pönnunni, kryddið með salti, pipar og ferskri steinselju. Ég geri oftast hrærð egg eða “scramble egg” þannig að ég pjakka það svona aðeins í sundur.
  4. Bætið kínóa á pönnuna, ég blanda  því ekki alveg saman  heldur hef það á sitthvorum helmingnum á pönnunni á meðan ég er að elda en svo blandast það saman þegar það er sett á diskinn.
  5. Stráið fersku steinseljunni yfir.
  6. Setjið á disk og berið fram með fersku grænmeti.
  7. Gott pestó setur alveg punktinn yfir i-ið í þessum rétti sem og öðrum.  Í þetta skiptið var ég með dásamlega gott kóríander pestó.

Þetta er uppáhaldspestóið mitt þessa dagna.

Dásamlega gott kóríander pestó

  • 1 dl kóríander (ferskt)
  • 1/2 dl pekanhnetur
  • 1/2 tsk salt
  • 1/2 lime (safinn) – má vera minna
  • 1 dl kaldpressuð ólífuolía
  1. Allt sett í litla matvinnsluvél og blandað saman.
  2. Geymt í glerkrukku inni í ísskáp.

 

Verði ykkur að góðu 🙂

Hýðishrísgrjónagrautur

Hér kemur hollari útgafa af gamla góða grjónagrautnum. Hýðishrísgrjónagrautur með heimatilbúnni möndlumjólk og hnetukurli út á.  Góð, flókin kolvetni sem gefa okkur góða orku í langan tíma.

IMG_3578

Það er annaðhvort að sjóða hýðishrísgrjónin í 45 mín eða kippa út afgang af hýðishrísgrjónum sem til eru inni í ísskáp og hita upp.  Bæta við smá hreinni vanillu, rúsínum eða döðlum og mjólk.  Hrísmjólk eða möndlumjólk fyrir þá sem nota ekki venjulega mjólk.  Persónulega finnst mér alveg eðal að fá mér heimatilbúna möndlumjólk út á.

IMG_3574

Það er mjög gott að brytja slatta af allskonar hnetum, fræjum og kókos í skál og strá svo yfir grautinn.

IMG_3576

Kanill setur svo punktinn yfir i-ið.  Fyrir utan hvað kanill er góður þá eru margar ástæður fyrir því að spara hann ekki t.d. hefur hann krabbameinsvarnandi áhrif, góður fyrir blóðsykurinn, fyrir heilann, lækkar kólesteról og er bólgueyðandi.  Það er samt kanillinn sem er hollur en ekki sykurinn sem er blandað saman við. En góð hugmynd er að nota t.d. kókospálmasykur saman við kanilinn þar sem hann hefur minnst áhrif á blóðsykurinn.

Hver sagði svo að það væri eitthvað óhollt að fá sér grjónagraut 😉

Piparkökumúffur (Kryddbrauð)

Þessi uppskrift varð til í síðustu viku.  Hún gæti líka heitið “Glúteinlaust kryddbrauð úr grautarafgang”, en mér fannst það ekki alveg nógu rómó.  Þegar maður eldar hafragraut úr glúteinlausum höfrum/ eða almennt glúteinlausa morgungrauta sem kosta 1000 kr/ kg, þá tímir maður ekki að henda afganginum í ruslið.  Yfirleitt set ég hann inn í ísskáp og reyni að nota í bollur, pönnukökur eða annan bakstur en það tekst ekki alltaf.  En nú er ég búin að leysa málið, Kryddbrauð sem gengur undir nafninu piparkökumuffins er búið að gera allt vitlaust á heiminu í síðustu viku og búið að baka  það 3 sinnum.

Piparkökumuffins

Hráefni:

  • 3 dl mjöl (annaðhvort glúteinlaust eða bara spelt ef þær þurfa ekki að vera glúteinlausar)
  • 1,5 dl sykur (eða 2 dl af döðlumauki)
  • 2 msk sykurrófusýróp (fæst í heilsubúð) eða bara Agave, hlynsýróp eða hunang
  • 3 dl afgangur af hafragraut eða öðrum morgungraut
  • 1,5 dl haframjöl (glúteinlaust ef þær eiga að vera glúteinlausar)
  • 1,5 dl mjólk (hafra, möndlu, rís, lífræn eða bara kusu)
  • 1 tsk engifer
  • 1 tsk negull
  • 2 tsk kakó
  • 3 tsk vínsteinslyftiduft
  • 2 tsk kanill
  • 0,5 tsk salt

Öllu hrært saman og sett í muffins bökunarplötu. Bakað við 180°c í 25-30 mín (ég er komin niður á það að minn ofn bakar þær á nákvæmlega 28 mín)

Þessar múffur eru svo dásamlegar, tekur ekki meira en 5-10 mín að hræra saman, eru ódýrar og svo lyktin sem kemur í húsið, maður minn, hún er svo dásamleg að ég vildi að ég gæti tappað henni á flöskur.  Það er eiginlega sama lyktin og þegar maður bakar piparkökur nema þetta er svona “aðeins” fljótlegra.

Uppskriftin gefur 24 stk.

Verði ykkur að góðu 🙂

Pestó pasta með/eða án kjúklings

Þetta er einn af þessum þægilegu fljótlegu réttum sem er svo gott að grípa til í miðri viku.  Ég er oft með eitthvað fljótlegt og einfalt á mánudagskvöldum því þá daga nota ég gjarnan til að útbúa hitt og þetta fyrir vikuna.  T.d. gera múslí, möndlumjólk, baka bananabrauð, pestó eða hvað sem er á dagskrá þá vikuna.  Og þá er ágætt að þurfa ekki að standa á haus í eldamennsku líka.

pestópasta

Sjóðið pasta (ég nota Sollu spelt pasta)

Búið til pestó (gott að gera tvöfalda uppskrift, þá er hægt að nota nóg með pastanu og samt nægur afgangur eftir).  Þið getið auðvitað keypt pestó en það er svo ótrúlega auðvelt að gera það sjálfur og er svo miklu ódýrara, fyrir utan að maður getur kryddað algerlega eftir sínu höfði, þannig að ég mæli algerlega með því.

pestó

Blandið saman pestó og pasta, brytjið niður kjúkling (best ef það er til afgangur, þá er þetta svo dásamlega fljótlegt) og bætið saman við. Toppurinn er að eiga feska basiliku og setja vel af henni með.

Fetaostur passar dásamlega vel með þessu og fullt fullt fullt af fesku sallati

pestópasta

Svo er tilvalið að smella saman sallatinu og pastanu og taka með sér í vinnuna daginn eftir 🙂

pestópasta

Vinkona mín er snillingur og hún kenndi mér að klippa pastað með skærum fyrir litla munna.  Litli herramaðurinn á heimilinu er alveg að fíla það í tætlur 🙂  Helmingi fljótlegra heldur en að vera að skera með hníf og gaffli.

pestópasta

Verði ykkur að góðu 🙂

Jambalaya

Þetta er eitthvað svo flott orð: Jambalayja, hljómar einhvern megin betur en kássa eða jú sennilegast væri pottréttur besta orðið til að halda íslenskunni á lofti.  Jambalayja kemur frá karabísku eyjunum og er svipað eins og Paella á Spáni.  Grænmeti, hrísgrjón og oftast kjöt, kjúklingur eða rækjur sett saman í pott og soðið ásamt góðu kryddi.

Ég rakst á þessa girnilegu uppskrift um daginn á einu af mínu uppáhalds matarbloggi og mátti til með að prufa.  Ég verð að játa að ég hef aldrei á ævinni keypt grasker áður.  Ég veit ekki af hverju, sennilega af því að ég vandist því ekki í uppvextinum eða bara aldrei fundið þörf á því fyrr, en undanfarið hafa þau starað á mig í grænmetisdeildum verslana því nú er uppskerutími og þau eru til á flestum stöðum, fullþroskuð og stútfull af góðri næringu.  Graskerið sem ég er að tala um er reyndar ekki Pumpkin, þetta stóra appelsínugula heldur Butternut squash en hingað til hef ég ekki fundið neitt íslenskt orð yfir það, nema bara grasker.  Ef einhver veit væri ég til í að vita 🙂  Ég er orðin yfir mig ástfangin af þessu grænmeti og spyr bara sjálfa mig “AF HVERJU hef ég ekki eldað þetta fyrr”. En einhvern tímann er allt fyrst 🙂

Butternut squash

En aftur að uppskriftinni.  Þetta var svo gott að ég gerði þennan rétt 2x í sömu vikunni.  Bæði gott og ódýrt því eitt svona stykki kostar ca 200 kr og er alveg heilmikill matur.  Í seinna skiptið átti ég smá afgang af kjúkling og setti út í. Í bæði skiptin átti ég tilbúin hýðishrísgrjón í ísskápnum sem gerði alla matseld mun fljótlegri. (Það er nefnilega alveg málið að elda mikið í einu af hýðishrísgrjónum og eiga til fyrir skyndimatseld).  Ég breytti uppskriftinni aðeins og uppskriftin hér að neðan er eins og ég gerði hana.

Hráefni:

  • 1-2 msk kókosolía eða önnur olía
  • 1 Butternut Squash (hlakka mikið til hvort einhver viti íslenska nafnið á þessu yndislega grænmeti)
  • 1/2 laukur
  • 1/2 græn paprika
  • 1/2 rauð paprika
  • 1 stöngull sellerí
  • 2 hvítlauksrif
  • 3 tómatar
  • 1,5 bolli af soðnum hýðishrísgrjónum
  • 1-2 bollar grænmetissoð  (eða vatn og hreinn grænmetiskraftur)
  • 2 msk tómatpuré
  • 1 tsk papriku krydd
  • 1 tsk oregano
  • 1 tsk timían
  • 1/4 tsk cayenna pipar
  • salt og pipar
  • kjúklingur (eða afgangur af öðru kjöti)

Aðferð:

  1. Skerið niður allt grænmetið.
  2. Hitið olíu í potti og hitið lauk, sellerí og papriku þangað til það er orðið mjúkt.
  3. Bætið tómötum, hvítlauk og graskerinu í pottinn og mýkið.
  4. Setjið allt annað út í, nema hýðishrísgrjónin. Setjið lok á pottinn og látið malla við lágan hita í 20-25 mín.
  5. Bætið grjónunum og kjúklingnum (eða kjötinu) við í lokin og smakkið til hvort þurfi að krydda meira.

Jambalayja

Verði ykkur að góðu 🙂

Kínóaréttur með sveppum og trönuberjum

Þetta er ótrúlega góður Kínóa réttur.  Er mjög einfalt og tekur ekki nema örfáar mínútur ef þið eigið þegar soðið Kínóa inni í ísskáp.  Þessi samsetning af lauk, sveppum og trönuberjum er alveg einstaklega góð og eins og það kalli fram það besta hjá hvoru öðru.  Þessi uppskrift var í námsbókunum mínum svo ég á ekkert í henni nema það að ég bý þetta mjög reglulega til.

Ég er tiltölulega nýfarin að elska Kínóa.  Hér áður fyrr keypti ég einstaka sinnum  Kínóa og notaði í staðinn fyrir hrísgrjón en eftir að ég komst almennilega upp á lag með það gersamlega ELSKA ég það:) Það er fljótlegt að elda það og það er hægt að nota það í næstum því um það bil hvað sem er.  Það er glúteinlaust, próteinríkt, inniheldur mörg næringarefni, trefjar og auðmeltanlegt, er hægt að biðja um eitthvað betra?

Ég er ekki ein um það að elska Kínóa því Matvæla og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) hefur opinberlega lýst því yfir að árið 2013 verði  viðurkennt sem “Alþjóðlegt ár Kínóa.” Það var nefnilega það. Áfram Kínóa 🙂

En aftur að réttinum.

Miðað við ca 3 – 4

  • 1-2 msk olía
  • Nokkrir sveppir
  • 1 laukur (má líka vera rauðlaukur)
  • 3 hvítlauksrif
  • 1 -2 msk grænmetiskraftur + smá vatn
  • Lúka af þurrkuðum trönuberjum
  • 4-5 dl af soðnu Kínóa (eða sjóðið skv.leiðbeiningum)

Aðferð:

  1. Setjið olíuna á pönnu og snöggsteikið sveppina, bætið lauk og hvítlauk út í.
  2. Bætið vatninu og grænmetiskraftinum á pönnuna og blandið vel saman.
  3. Setjið Kínóa út á pönnuna og blandið vel saman.
  4. Endið á því að setja trönuberin út í.

Gott með góðu sallati eða hverju sem er.  Í tilefni af því að ég átti bæði fallegt þroskað mangó og kóríander (ásamt rauðlauk og lime)  bjó ég til mangó-salsa sem við vinkonurnar boðuðum með þessum rétt og það var bara dásamlegt 🙂

kínóa

Kínóaréttur