Jambalaya

Þetta er eitthvað svo flott orð: Jambalayja, hljómar einhvern megin betur en kássa eða jú sennilegast væri pottréttur besta orðið til að halda íslenskunni á lofti.  Jambalayja kemur frá karabísku eyjunum og er svipað eins og Paella á Spáni.  Grænmeti, hrísgrjón og oftast kjöt, kjúklingur eða rækjur sett saman í pott og soðið ásamt góðu kryddi.

Ég rakst á þessa girnilegu uppskrift um daginn á einu af mínu uppáhalds matarbloggi og mátti til með að prufa.  Ég verð að játa að ég hef aldrei á ævinni keypt grasker áður.  Ég veit ekki af hverju, sennilega af því að ég vandist því ekki í uppvextinum eða bara aldrei fundið þörf á því fyrr, en undanfarið hafa þau starað á mig í grænmetisdeildum verslana því nú er uppskerutími og þau eru til á flestum stöðum, fullþroskuð og stútfull af góðri næringu.  Graskerið sem ég er að tala um er reyndar ekki Pumpkin, þetta stóra appelsínugula heldur Butternut squash en hingað til hef ég ekki fundið neitt íslenskt orð yfir það, nema bara grasker.  Ef einhver veit væri ég til í að vita 🙂  Ég er orðin yfir mig ástfangin af þessu grænmeti og spyr bara sjálfa mig “AF HVERJU hef ég ekki eldað þetta fyrr”. En einhvern tímann er allt fyrst 🙂

Butternut squash

En aftur að uppskriftinni.  Þetta var svo gott að ég gerði þennan rétt 2x í sömu vikunni.  Bæði gott og ódýrt því eitt svona stykki kostar ca 200 kr og er alveg heilmikill matur.  Í seinna skiptið átti ég smá afgang af kjúkling og setti út í. Í bæði skiptin átti ég tilbúin hýðishrísgrjón í ísskápnum sem gerði alla matseld mun fljótlegri. (Það er nefnilega alveg málið að elda mikið í einu af hýðishrísgrjónum og eiga til fyrir skyndimatseld).  Ég breytti uppskriftinni aðeins og uppskriftin hér að neðan er eins og ég gerði hana.

Hráefni:

 • 1-2 msk kókosolía eða önnur olía
 • 1 Butternut Squash (hlakka mikið til hvort einhver viti íslenska nafnið á þessu yndislega grænmeti)
 • 1/2 laukur
 • 1/2 græn paprika
 • 1/2 rauð paprika
 • 1 stöngull sellerí
 • 2 hvítlauksrif
 • 3 tómatar
 • 1,5 bolli af soðnum hýðishrísgrjónum
 • 1-2 bollar grænmetissoð  (eða vatn og hreinn grænmetiskraftur)
 • 2 msk tómatpuré
 • 1 tsk papriku krydd
 • 1 tsk oregano
 • 1 tsk timían
 • 1/4 tsk cayenna pipar
 • salt og pipar
 • kjúklingur (eða afgangur af öðru kjöti)

Aðferð:

 1. Skerið niður allt grænmetið.
 2. Hitið olíu í potti og hitið lauk, sellerí og papriku þangað til það er orðið mjúkt.
 3. Bætið tómötum, hvítlauk og graskerinu í pottinn og mýkið.
 4. Setjið allt annað út í, nema hýðishrísgrjónin. Setjið lok á pottinn og látið malla við lágan hita í 20-25 mín.
 5. Bætið grjónunum og kjúklingnum (eða kjötinu) við í lokin og smakkið til hvort þurfi að krydda meira.

Jambalayja

Verði ykkur að góðu 🙂

Published by

One thought on “Jambalaya

Leave a Reply