Heimtilbúið flækjusprey (lúsasprey)

Það er eitt sem foreldrar grunnskólabarna geta treyst á og það er það að um leið og skólinn byrjar á haustinn byrja að koma reglulegir tölvupóstar frá kennurum og skólahjúkrunarfræðingi um að lús hafi fundist og mikilvægt sé að allir kembi.  Það er lítið annað hægt að gera en hlýða og kemba.  En það er talað um að lúsin hati Tea tree ilmolíu og hafa sumir tekið á það ráð að setja nokkra dropa af olíunni saman við sjampó sem fyrirbyggjandi aðferð.  Ég efast um að sé vísindalega sannað en flestir sem gera þetta fullyrða að það svínvirki.

Hér er ferðinni heimatilbúið hársprey sem gegnir hlutverki flækjuspreys þar sem hár dætranna flækist auðveldlega.  Þetta hársprey er samvinnuverkefni okkar mæðgnanna.   Stelpurnar byrjuðu sjálfar að blanda sér hársprey í sumar eftir að hafa horft á aðeins of mörg DIY myndbönd á Youtube en mér fannst hugmyndin strax frábær.   Eftir nokkrar tilraunir erum við komnar með uppskrift sem virkar vel.  Við bættum við Tea tree olíunni til að fyrirbyggja lúsasmit og Lavender olíunni svo spreyið lykti vel.   Vandinn við það að setja olíuna saman við sjampóið er kannski það  að litlu skvísurnar eru ekki að þvo sér um hárið á hverjum degi.  Það er töluvert meiri vörn í því að setja tea tree olíuna saman við hársprey sem er spreyjað yfir hárið á hverjum degi.

Hér kemur uppskriftin. 

  • 2,5 dl vatn
  • 3/4 dl hreint aloe vera sprey (ég notaði frá Forever)
  • Gott “skvís” af hárnæringu
  • 5 dropar Tea tree olía
  • 12 dropar Lavender olía (eða önnur olía sem lyktar vel)

 

Allt sett í brúsa og hann hristur vel.

Bláberjadraumur

Það er farið að kólna úti og ég sakna sumarsins en á móti kemur að það er alltaf ákveðin stemming yfir þessum tíma líka.  Til dæmis stemmingin að fara í berajamó.  Það eru nú samt alls ekki allir sem nenna því, en mér finnst það æði og þvílík berjaspretta í ár.  Ég týndi slatta um síðustu helgi og langar svo að reyna að komast aftur og ná meira áður en þau frjósa.  En börnin á bænum eru því miður búin að næla sér í einhverja kvefpest svo það er spurning hvort það takist.  En í tilefni dagsins er uppskrift af virkilega góðum berjadrykk sem sló í gegn hjá um síðustu helgi.

 

Bláberjadraumur

 

Uppskriftin er í tvö mjög stór glös eða 4 minni.

  • 2  dl bláber (best að hafa frosin svo drykkurinn sé kaldur, eða ný ber og vænan skammt af klökum)
  • 1 dl frosin ananas
  • 1 banani
  • 1 lítið avakadó
  • 5 dl vatn
  • 2 msk möndlusmjör
  • 5 litlar döðlur
  • 1 msk lime safi

Allt sett í blandara og blandað vel.

Hér eru svo nokkar myndir sem fönguðu stemminguna síðustu helgi 🙂

Til hvers að týna í fötu þegar maður getur bara týnt beint í munninn…

Berjamó

Ég splæsti einstöku sinnum í bláberjafötu á uppsprengdu verði í vetur en föturnar komu sér aldeilis vel við týnsluna núna.  Stóru flottu berin týni ég með höndunum og þau fóru í föturnar.  Þau fara út á chia grautin í vetur. Berin sem fara í drykkina í vetur fóru í íssbox og sultuberin í frystipoka.  Já já þetta er allt saman mjög skipulagt 😉

20160827_181756

Þar sem berin eru fleiri og minni finnst mér gott að nota týnu og tek sigtið með mér út í móa þannig að ég geti hreinsað þau á staðnum og sett í box.  Nenni ekki að eiga eftir að hreinsa öll berin þegar heim er komið.

20160827_181804

Ég gleymdi alveg að taka myndir af afrakstrinum, en ég setti pokana á vigtina þegar heim var komið og þetta voru í krignum 12 kg amk. (ég vigtaði 11 kg) en fattaði svo að nokkur box voru annarstaðar.

Eva Rós á kósýgallanum í berjamó, það er ekki alltaf sem veðrið er svona gott og svo dásamlegt að njóta þess út í ystu æsar.

20160827_180147

Gott að hlýja sér í mömmu lopapeysu þegar farið er að kólna.

berjamó

Svo falleg….

IMG_20160827_121717

Ég ætla að deila fleiri berja uppskriftum næstu daga….svo fylgist með!

Gangi ykkur vel að týna 🙂

Að skipta úr sukkgírnum yfir í vellíðunargírinn

Mér finnst alltaf jafn fyndið skilin sem verða í matarmenningu landans milli fyrsta og annars janúar.  Í margar vikur hefur ekkert verið í dagblöðunum, facebook og fleiri miðlum nema djúsí uppskriftir af allskonar kökum og tertum, steikum, sósum og sælgæti.  Ég sat í makindum mínum og kíkti í tölvuna að morgni annars janúar, það var myrkur úti ennþá, öll börnin heima í fríi ennþá og ég naut í rólegheitum kaffibolla dagsins og maulaði með ljúffenga Lindorkúlu en það eina sem tók á móti mér var bara detox, safakúr, heilsuátak ásamt ótal mörgum facebook statusum vina minna sem höfðu vaknað um miðjan nótt og drifið sig í ræktina.  Úff og ég sem sat þarna bara með kaffið mitt og lindorkúluna…. fannst ég ekki alveg vera að standa mig 🙂

Ég styð það frekar að lifa hollu líferni allt árið um kring, ekki bara fyrstu 3 vikurnar í janúar en óneytanlega verða freistingarnar fleiri þegar það koma svona frí, það er eiginlega sama sagan með jólafrí, páskafrí og sumarfrí.  Við leyfum okkur meira af hinu og þessu og margt smátt gerir jú eitt stórt.  Aðeins fleiri kaffibollar, aðeins fleiri súkkulaðimolar, konfektmolar hér og þar osv.fr. ég held að ég þurfi ekkert að telja þetta allt saman upp, ég held að þið vitið alveg hvað ég er að meina 😉  Hér áður fyrr “datt” ég algerlega í það, leyfði mér allt og stóð uppi eftir fríin 3-4 kg þyngri og það var svo erfitt að snúa við blaðinu, lystin var orðin svo góð og sykurpúkinn var alveg brjálaður innan í mér.  Núna er jafnvægið sem betur fer meira þó maður sé nú vissulega búin að leyfa sér ýmislegt undanfarnar vikur 🙂

IMG_3935

Ég tók saman 10 hluti sem mér finnst vera hjálplegastir þegar kemur að því að skipta yfir úr sukkgírnum yfir í vellíðunargírinn.  Það að skipta um gír ætti vissulega að vera til að líða betur en ekki bara til að refsa sér með svelti.

Volgt sítrónuvatn, netlute, soðið engifervatn eða annað gott te í morgunsárið – ég veit þið hafið heyrt þetta áður en þetta er virkilega góð leið til að hreinsa pípulagnirnar og koma kerfinu í gang 😉

Hörfræolía – á eftir sítrónuvatninu er allra meina bót, frábær smurning fyrir meltinguna fyrir daginn og góð næring fyrir húðina í kuldanum þessa dagana.

Grænn sjeik – ekki endilega bara á morgnanna heldur bara hvenær sem ykkur hentar yfir daginn.  Græna kálið er hreinsandi, næringarríkt, hjálpar okkur að verða basískari og minnkar sætuþörfina.

Góðir gerlar –  finnast undir heitinu: Ashidophilus, Multidophilus, Probiotics ofl ég er bæði hrifin af frá Solary, Optibach, Progastro og líka frá Bio-cult.  Spurðu bara í næstu heilsubúð, það er til mikið úrval.  Þegar við höfum innbyrgt mikinn sykur eða verið á lélegu fæði eru miklar líkur á því að þarmaflóran sé komin úr jafnvægi, það getur síðan gert okkur þreytt, valdið mikilli sætuþörf osv.fr. (Ef flóran er komin úr jafnvægi skapar það góð skilyrði fyrir candida sveppinn til að vaxa, en mikil sætuþörf, þreyta, pirringur, kláði í leggöngum og slæmar sprungur á hælum eru t.d. einkenni  ásamt ca. 50 öðrum atriðum).

Hreyfing – um leið og við byrjum að hreyfa okkur er eins og allt kerfið fari í gang.  Okkur langar frekar í eitthvað hollt og sætuþörfin minnkar.  Þú þarft ekki endilega að kaupa þér kort heldur byrjaðu bara á því að fara út að labba – bara strax í dag 🙂

Vatn – same old, same old, passaðu þig á því að drekka nóg, ódýrt og áhrifaríkt heilsuráð sem er ekki hægt að minnast of oft á.  Ef þú heldur þér vel “vökvuðum” eru minni líkur á því að þú látir freistast af einhverju sætmeti.

Meira grænmeti – Gefðu grænmetinu meira vægi á disknum, fáðu þér salat í hádegismat, epli eða gulrætur í millimál og mandarínu ef þig langar í eitthvað voða gott.  Maður verður svo ægilega ferskur af því.  Fullt af trefjum, ensímum og góðum plöntunæringarefnum.

Sofðu nóg – það er svo mikið myrkur þessa dagana og passaðu þig á því að fá næga hvíld.  Um leið og við erum svefnlaus er hætta á því að allar áætlanir um heilsuátak út í veður og vind.  Helsta ástæðan fyrir því að leita í sætindi, kaffi og aðra skjótfengna orku er þreyta.  Ef það gengur illa að snúa sólarhringnum við og þú liggur andvaka fram á nætur mæli ég með Magnesium slökun, það getur hjálpað okkur að slaka á og ná betri svefn.  Þú getur líka farið í gott bað fyrir svefninn og sett í það nokkra dropa af Lavender ilmkjarnaolíu en fyrst og fremst minnkaðu kaffið ef þetta er að hrjá þig.

D- vítamín – Það er engin sól þessa dagana svo númer 1,2 og 3 ekki gleyma D-vítamíninu.  Ef þig vatnar D-vítamín getur það útskýrt þreytu og slen sem verður svo til þess að þú freistast í allskonar óhollustu í leit að “orku”.

Matseðill – Ef þú ætlar að þér að kveðja súkkulaðiskrímslið er besta leiðin að borða nógu mikið af hollum og góðum mat.  Hann þarf þá að vera til í kotinu.  Gerðu vikumatseðil, ákveddu hvað þú ætlar að bjóða upp á í morgunmat, kvöldmat og allt þar á milli, gerðu innkaupalista og haltu þig við hann í búðinni.

IMG_4760

Þetta er það sem hjálpar mér og vonandi getur þetta nýst fleirum.

Gangi ykkur vel að skipta um gír 🙂

Næringarrík sætindi og annað góðgæti – uppskriftarhefti

Undanfarnar vikur hafa verið mjög skemmtilegar.  Þegar við Steinunn ákváðum að hafa nokkur svona nammi námskeið ásamt sykur fyrirlestri grunaði okkur ekki hversu mikil vinna þetta yrði, en að sama skapi höfum við skemmt okkur alveg ótrúlega vel.  Ég hef lítið getað bloggað undanfarið en mikil vinna hefur farið í uppskriftarheftið sem við höfum gefið á námskeiðunum.  Vegna fjölda fyrirspurna hef ég ákveðið að selja heftið hér á síðunni fyrir þá sem komust ekki á námskeiðið en þyrstir í girnilegar og góðar uppskriftir í hollari kantinum.

IMG_6635

Hér koma smá upplýsingar um heftið:

Það inniheldur rúmlega 40 uppskriftir af sætindum, súkkulaði, konfekti, smákökum, tertum, ís ofl.   Uppskriftirnar eru bland af hráfæði og venjulegum bakstri.  Þær eru ekki allar sykurlausar en flestar uppskriftirnar eru sættar með döðlum, kókospálmasykri og stevíu.

Það er uþb. helmingurinn af þessum uppskritum þegar að finna á blogginu en helmingurinn eru nýjar uppskriftir sem hafa ekki ennþá birst hér á vefnum.

(Það eru aðeins myndir í efnisyfirlitinu en ekki við hliðina á hverri mynd)

IMG_6637 IMG_6636

IMG_6638

Verðið er 2300 kr og er heftið sent heim að dyrum.

Hafið þið áhuga á því að eignast heftið, hafið þið bara samband á heilsumamman@gmail.com eða sendið skilaboð á Facebook þar sem þið fáið millifærsluupplýsingar og gefið upp heimilisfang.

Hlakka til að heyra frá ykkur <3

5 atriði til að fá börn til að borða grænmetið sitt

Hér er pistill sem ég skrifaði fyrir Foreldrahandbókina í vetur en gleymdist alltaf að setja hingað inn,

Hvernig fáum við börnin til að borða meira af grænmeti því það er jú aðalmálið í góðu og næringarríku mataræði:

Framsetning : Það er hægt að gera grænmeti meira aðlaðandi með því að skera það í stangir og dýfa í einhverskonar dýfu eða hummus.  Það er líka hægt að nota kökumót og skera út blóm úr gúrkunum eða gulrótunum.  Það er líka alltaf jafn skemmtilegt að búa til karla og kerlingar á disknum með því að nota papriku fyrir munn, gúrku fyrir augu þó að það megi víst ekki leika sér að matnum, eða hvað ?

Nefna grænmetið flottum nöfnum: Það þarf ekki að vera flóknara.  Það var gerð könnun í skólum í Bandaríkjunum sem sýndi fram á það að það borgar sig að gefa grænmetinu nafn.  Já Magnús Scheving vissi hvað hann söng þegar hann markaðsetti „íþróttanammi“!

Könnunin var gerð af Cornell University’s Food and Brand Lab í 5 skólum.  Könnunin stóð yfir í 3 daga en einn daginn var grænmetið merkt sem “X-Ray Vision Carrots,” “Power Punch Broccoli,” “Tiny Tasty Tree Tops” and “Silly Dilly Green Beans“ en hina dagana var grænmetið aðeins merkt sem grænmeti dagsins.  Ég ætla að leyfa ykkur að nota hugmyndarflugið hvað væri hægt að kalla þessa hluti á íslensku en niðurstöðurnar voru áhugaverðar.  Þá daga sem grænmetið var merkt þessum skemmtilegu nöfnum var neyslan 66 % en var aðeins 32 % hina dagana!

Umbunarkerfi: Það virkar yfirleitt vel á börn.  Hér er ein hugmynd: takið blað og búið til nokkra dálka.  Efst er hægt að teikna mynd af grænmetinu, það er nauðsynlegt að hafa bæði myndir af grænmeti sem barninu finnst gott og svo nokkrar tegundir sem eru aðeins meiri áskorun.  Best er að hafa alla litina, borða allan regnbogann.  Hver biti gæti gefið 1 stjörnu. Það sem barninu þykir gott er hægt að skera í stærri bita en annað í minni bita.  Ákveðið hvað margar stjörnur þarf til að fá verðlaun.  Verðlaunin þurfa ekki að vera eitthvað dýrt, það gæti t.d. verið að barnið fái að velja hvað er í kvöldmatinn þegar það er búið að fylla blaðið, það þarf að bara að vera eitthvað sem heillar og getur verið mjög mismunandi eftir aldri. Verðlaunin geta líka verið það að fá flottan límmiða neðst í hverjum dálk þegar búið er að fylla dálkinn.  Það er hægt að útfæra þetta á svo ótrúlega margan hátt.  En það er talað um að það þurfi að smakka mat 12 x til að bragðlaukarnir venjist honum svo með því að barn fær stjörnu í hvert skipti sem það fær sér bita af einhverju sem það myndi annars ekki borða aukast alltaf líkurnar á því að á einhverju tímabili fari barninu að finnast þessi fæðutegund betri.

Fela grænmetið í matnum: Þetta getur verið mjög einfalt, það er hægt að taka allskonar grænmeti, mauka það og setja í súpur og pottrétti. Það er líka hægt að fela ýmislegt í hristingum og sjeikum. Til dæmis ef þið mynduð spyrja börnin mín myndu þau ekki segjast borða Avacado, þau myndu sennilega segja „ojjjj nei“ en þau borða Avacado í hverri viku, stundum 2-3x, þau vita bara ekki að það er avacadóið sem gerir seinniparts hristinginn svona skemmtilega mjúkan. Þau myndu líka segja þetta ef þau væru spurð um sellerí „ojjjjj sellerí“ en þau vita ekki að ég nota sellerí mjög mikið, bæði í súpur, pottrétti og meira að segja í hristinga.

Gott fordæmi: Jafnvel þó svo það sé ekki mikill áhugi fyrir grænmeti borgar sig að hafa það alltaf í boði og þá venst barnið á það að sjá það og hver veit nema einn daginn ákveði það að fá sér bita.  Það hefur líka áhrif hvernig fordæmi við sýnum.  Grettum við okkur yfir sumu grænmeti eða erum við dugleg að fá okkur stóran skammt á diskinn og njóta þess. Segjum við „mmmmm hvað þetta er góð paprika, eða „mmm hvað þetta er safaríkur tómatar“ .  Það er líka hægt að tala um ávinninginn af því að borða grænmetið, t.d. „það er svo gott fyrir kroppinn að fá grænmeti, það er svo mikið af vítamínum í því“, og „það gerir hárið okkar og neglurnar fallegar“ eða „það gefur okkur kraft og hjálpar okkur að hlaupa hraðar“.  Þetta virkar örugglega betur en „þú átt að borða grænmetið“ því börnum finnst gaman að vita af hverju.

Þess má geta að mörg þessara ráða virka líka á foreldra sem þurfa að vera duglegri að borða grænmetið sitt 😉

Gangi ykkur vel 🙂

Heimild: (http://foodpsychology.cornell.edu/outreach/whatname.html)

“Ostur” á ostalausa pizza

Einn af aðal höfuðverknum við það að vera með mjólkuróþol er pizzur!  Osturinn er yfirleitt frekar stór  hluti af þeirri máltíð.  En þessi hugmynd er alger snilld 🙂  Ég sá þessa hugmynd á mjólkurlausa spjallinu sem ég er í á Facebook og prufaði loksins um daginn.  Þetta kom ótrúlega vel út og mjólkuróþolsgemsinn minn er alveg í skýjunum með þessa nýju útfærslu

Egg í staðinn fyrir ost !

ostalaus pizza

Yfir eina 16 tommu pizzu þarf ca 1,5 egg, hrært vel saman, jafnvel kryddað aðeins og hellt yfir pizzuna þegar það eru ca. 5 mín eftir af bökunartímanum.

Alger snilld 🙂